1.11.2011 | 13:09
Auðvald og almenningur
Permit me to issue and control the money of a nation,
and I care not who makes its laws.
Mayer Amschel Rothschild [1744-1812]
Ummælin að ofan eru höfð eftir Mayer Amschel Rothschild, stofnanda bankaveldis Rothschild ættarinnar. Í Forbes Magazine 2005 er hann talinn einn af 20 áhrifamestu mönnum í viðskiptalífi heimsins frá upphafi og kallaður founding father of international finance". Afkomendur hans mynda nú auðugustu ætt heimsins. M. A. Rothschild vissi því hvað hann var að segja, þegar hann óskaði eftir því að fá að stjórna fjármálum þjóðar, þá væri honum nokk sama hver setti lögin. Vert er líka að hafa í huga áður lengra er haldið lestrinum, að nú - árið 2011 - eiga 10% fullorðinna 85% auðsins í heiminum. Þessi hópur er kallaður er auðvald, þótt fleiri smástirni snúist í því myrka sólkerfi.
Stóra blekkingin
Löggjafarþing og þjóðarleiðtogar vinna að því þessa dagana að bjarga viðskiptabönkum og fyrirtækum í löndum sínum og rétta af ríkissjóði til að forðast fjárhagshrun. Eina leiðin, sem talin er fær, er að prenta peninga og veita þeim, sem skulda mest, ný lán. Þetta er hins vegar blekkingin, þetta er stóra blekkingin. Gjaldmiðill, sem ekki er ávísun á önnur verðmæti en sjálfan sig, er ekki annað en verðlausir pappírspeningar sem kynda verðbólgueld, rýra eignir almennings og gera ekkert annað en auka vandann.
Austurríski hagfræðiskólinn
Austurríski hagfræðiskólinn, sem svo er nefndur, hefur um árabil varað við óhóflegri seðlaprentun sem í raun sé orsök efnahagsvandans ekki lausn hans. Í skjóli pappírspeninga er takmörkuðum auðlindum heims vinnu, hráefni og orku, sóað í stað þess að nýta auðlindir til arðbærra verkefna. Vegna seðlaprentunarinnar hafa efnahagsbólur orðið til, eins og heimurinn hefur horft upp á. Síðan springa bólurnar og í kjölfarið fylgir verðhrun, gjaldþrot og atvinnuleysi afleiðingar af fölskum hagvexti. Samkvæmt austurríska hagfræðiskólanum er önnur ástæðan sú, að seðlaprentun og lánum er miðstýrt í stað þess að láta lögmál markaðarins ráða.
Kunnasti fulltrúi Austurríska hagfræðiskólans er Ludwig von Mises. Hann aðhylltist klassíska frjálshyggju sem vill takmarka ríkisvald, treysta grundvallarlög hvers ríkis og láta lögmál markaðarins ráða innan laga réttarríkisins. Einn kunnasti núlifandi fylgismaður Austurríska hagfræðiskólans er hins vegar bandaríski hagfræðingurinn Peter Schiff sem um árabil hefur bent á ógnina af óheftri seðlaprentun. Hann sagði fyrir um hrun dot.com bólunnar og hrun fjármálamarkaða 2008. Fáir tóku mark á spádómum hans og reyndu að gera hann bæði tortryggilegan og hlægilegan. Peter Schiff spáir enn nýrri fjármálakreppu. Bjargráð hans eru einföld. Í fyrsta lagi verða einstaklingar og þjóðir að spara meira og eyða minna. Og í öðru lagi verður að hefta takamarkalausa seðlaprentun, því að gjaldmiðill verður að vera ávísun á raunveruleg verðmæti.
Peter Schiff hefur gengið gegn kenningum hagfræðinga sem prédika miðstýringu í fjármálum til að leysa efnahagsvanda, hagfræðinga eins og Alans Greenspan, Bens Beranke og Pauls Krugman, sem er einn upphafsmanna the new trade theory", og ekki síst hefur Peter Schiff gengið gegn kenningum Johns Maynard Keynes en hugmynd hans er að beita miðstýrðum aðgerðum í peningamálum og ríkisfjármálum til að vinna gegn neikvæðum áhrifum efnahagssamdráttar og kreppu og auka hagvöxt. Hafa kenningar Keynes haft feikileg áhrif og eru grundvöllur þess sem nefnt er Keynesísk hagfræði.
Hið alþjóðlega auðvald
Krafa hins alþjóðlega auðvalds um 10 til 25% arð af fjármagni vegur þó þyngst í endalausri fjárhagskreppu heimsins. Til þess að mæta þessum kröfum hins er framleiðsla flutt til fátækra landa þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við arðrán og vinnuþrælkun, bæði vegna þess að stjórnvöld í þessum löndum eiga fárra kosta völ og vegna þess að notaðar eru hótanir og mútur til þess að fylgja arðráninu eftir. Til þess að halda hringekju auðvaldsins gangandi er almenningi talin trú um að hamingjan sé fólgin í því að kaupa og eyða, enda samfélög Vesturlanda löngu orðin botnlaus neyslusamfélög. En með aukinni neyslu er auðvaldið að auka hagnað sinn og vald og með frekari seðlaprentun í skjóli kenninga um tæknilegar fjármálaaðgerðir í anda Keynes snýst hringekjan sífellt hraðar og hraðar. Enginn virðist geta stöðvað hana en margir vilja stökkva af vegna þess að sífellt fleiri Vesturlandabúar átta sig á því að hamingjan eykst ekki með auknum kaupmætti.
Mótmæli í þúsund borgum
Gleggst merki um að almenningur er farinn að sjá gegnum blekkingarvef auðvaldsins eru mótmæli víðs vegar um heim. Búsáhaldabyltingin á Íslandi er angi af þessu og mótmælin á Wall Street og í þúsund öðrum borgum undanfarið beinast gegn auðvaldinu, gegn misskiptingu auðsins og blekkingunni um hagvöxt og vístölur. Jafnvel uppreistir í Egyptalandi, Túnis og annars staðar í Afríku eru af sama toga. Ein kveikjan að þessum mótmælum eru upplýsingar sem berast á Netinu, óháð fjölmiðlum auðvaldsins, en Netið er orðin stærsta fræðslu- og upplýsingastofnun heims stærsti skóli í heimi.
Annars konar misrétti er fólgið í því, að á meðan stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar í ríku löndunum berjast fyrir auknum kaupmætti, sveltur fólk í fátæku löndunum, jafnvel í löndum þar sem auðvelt væri að brauðfæða alla, löndum sem búa yfir náttúruauðlindum s.s. vatnsorku, olíu, gulli og dýrum málmum. Eitt brýnasta verkefni samtímans er að koma á jöfnuði meðal einstaklinga og þjóða, breyta eignaskiptingu milli hins alþjóðlega auðvalds og almennings og gera fátækum þjóðum kleift að bjarga sér sjálfar.
Vald spillir
Alkunna er að allt vald spillir og algert vald spillir algerlega. Í skjóli auðvalds þrífst spilling og glæpir, eins og við höfum orðið vitni að hér á landi. Versta birtingarmynd spillingarinnar eru styrjaldarátök en að baki þeim býr ógnarvald vopnaframleiðenda, sem eru hluti af hinu alþjóðlega auðvaldi. Þetta ógnarvald skirrist einskis í purkunarlausri baráttu fyrir auknum arði af fjármagni og beitir mútum, áróðri og lygum til þess að ná fram ætlunarverki sínu að auka arð af fjármagni sínu. Annað brýnt verkefni samtímans er því að koma á friði í heiminum en grundvöllur friðar er jöfn skipting milli einstaklinga og þjóða.
Athugasemdir
Það er ánægjulegt að sjá þig mæla fyrir klassískri frjálshyggju, meistari.
Þorsteinn Siglaugsson, 1.11.2011 kl. 16:37
Já, Þorsteinn minn kær. Ég er enn að læra - neyddist til þess að kynna mér kenningar í peningamálum - þjóðhagfræði - þegar allt í kringum mig var töluð eintóm steypa og ég skildi ekkert. Átti ég góða frjálshyggjumenn að í því námi mínu. Þó á ég víst enn margt ólært.
En eftir stendur barnalærdómur minn: að fégirndin er upphaf alls ills og blekking leiðir til glötunar. Hvort tveggja einkennir hið alþjóðlega auðvald sem á ekkert skylt við frjálshyggju - því síður klassíska frjálshyggju. Við gamlir samvinnumenn (svo ég segi ekki gamlir framsóknarmenn - því það orð er skammaryrði í munni margra) aðhyllumst - eða a.m.k. aðhylltumst klassíska frjálshyggju sem vill takmarka ríkisvald, treysta grundvallarlög hvers ríkis og láta lögmál markaðarins ráða innan laga réttarríkisins, eins og Ludwig von Mises og Austurríski hagfræðiskólinn.
En heilbrigð skynsemi og umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra (hversu vitlausar sem þær kunna að vera) þarf að vera með í för. Hins vegar á að refsa þjófum og öðrum glæpamönnum. En Geir Haarde var ekki glæpamaður. Það voru aðrir sem frömdu glæpi íslensku útrásarinnar - sem var vísvitandi blekking glæframanna (les: glæpamanna) og fremur hringrás peninga en ekki útrás peninga.
En þakka þér fyrir að lesa grein mína - og sýna mér umburðarlyndi!
Tryggvi Gíslason, 1.11.2011 kl. 17:23
Kærar þakkir fyrir afskaplega vel orðaða lýsingu á samtímanum og firringunni sem er að keyra allt í þrot á heimsvísu.
Mises, Von Hayek, Schumpeter og margir aðrir þróuðu sínar hugmyndir af gefnu tilefni.
Tími er kominn til að fylgismenn klassísks frjálslyndis og frjálshyggju komi saman og segi það sem segja þarf.
Hvað Keynes áhrærir, þá hafa kenningar hans verið stórlega affluttar í meðförum annars og þriðja flokks stjórnmálamanna sem haf talið þær réttlæta allar þær "stuðningsaðgerðir" ríkisstofnana á vesturlöndum sem staðið hefur verið fyrir sl. 40 árin, jafnvel þegar engin þörf var á stimuli.
Kveðja og þakkir aftur.
GK
Guðmundur Kjartansson, 1.11.2011 kl. 22:05
Ég held að heilbrigð klassísk frjálshyggja sé það sem við eigum að horfa til nú. Það er mikilvægt að skynsamir menn sameinist um að mæla fyrir henni. Við þurfum að spyrja grundvallarspurninga um samfélagið, uppbyggingu þess og hlutverk stjórnvalda. Við þurfum að gera eins og forngrikkir, koma saman á bæjartorginu og ráða ráðum okkar, ákveða hver eru okkar sameiginlegu málefni og hvernig við viljum stjórna þeim, án þess að neitt sé fyrirfram gefið - fyrst er ekkert ríkisvald en svo búum við það til.
Þorsteinn Siglaugsson, 1.11.2011 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.