2.1.2012 | 20:37
Sameiningartákn
Ólafur Ragnar Grímsson er mikilhæfur stjórnmálamaður og verður talinn meðal svipmestu stjórnmálamanna lýðveldistímans. Hann getur brugðið sér mörg líki og látið með ólíkindalega og komið andstæðingum sínum á óvart, eins og slyngum stjórnmálamönnum er tamt. Flestir túlka óljós orð hans í áramótaávarpinu á nýársdag á þann veg, að hann muni ekki bjóða sig fram til forseta að nýju. Hins vegar má eins vel túlka þau á þann veg, að ef á hann verði skorað, muni hann svara kalli. Litlar líkur eru á því að á hanna verði skorað. Nú er nóg komið af Ólafi Ragnari sem forseta Íslands.
Orð hans í Kryddsíldinni á gamlársdag vöktu mér furðu komu mér á óvart, þegar hann talaði um þá kenningu manna að forsetaembættið væri sameiningartákn, enda vissi hann ekki til að neitt sambærilegt orð væri til í öðrum málum um þjóðhöfðingja, og væri þetta séríslenskt fyrirbæri og kenningin búin til af þeim sem vilja koma böndum á forsetann. Stundum hendir það mælska menn sem ástunda málskrúð eða lýðskrum og eru blindaðir af eigin ágæti að vita ekki hvað þeir segja af því að þeir þurfa ekki að hugsa áður en þeir tala.
Til er saga austan af fjörðum um mælskasta verkalýðsleiðtoga kalda stríðsins sem í miðri hvatningarræðu stansaði við og mæli: Hvurn andskotann er ég eiginlega að segja? Svo gekk hann úr ræðustól.
Aftur að kenningunni um þjóðhöfðingja sem sameiningartákn. Fjölmargir þjóðhöfðingjar hafa orðið þjóð sinni sameiningartákn bæði fyrr og síðar. Í síðari heimstyrjöldinni varð Hákon sjöundi Noregskonungur sameiningartákn norsku þjóðarinnar, raunar á sama hátt og Kristján tíundi Danakonungur, bróðir hans, afi Margrétar annarrar Danadrottningar. Þegar Hákon sjöundi var sjötugur, hinn 3. ágúst 1942, var hann landflótta í Lundúnum. Þúsundir Norðmanna og Englendinga tóku þátt í hyllingargöngu í Hyde Park og konungur talaði til 5000 Norðmanna í Albert Hall. Vakti þessi atburður athygli hins frjálsa heims og varð milljónum manna hvatning til þess að berjast gegn kúgunaröflunum. Heima í Noregi báru frjálsir Norðmenn blóm í hnappagatinu þennan dag til heiðurs konungi sínum.
Í Danmörku situr Margrét önnur Danadrottning á friðastól og er lýsandi sameiningartákn einnar fremstu menningarþjóðar í heimi. Á gamlársdag flutti hún fertugasta gamlársdagsávarp sitt. Danskir fjölmiðlar hafa síðan fjallað um drottningu sína sem sameiningartákn og skrifa m.a. um ræðuna: Talen favner alle, berører alle og inkluderer alle, så vi alle sammen føler os lidt mere danske, når dronningen har sagt Gud bevare Danmark, og vagterne foran Amalienborg genindtager skærmen.

Ef þetta eru ekki dæmi um sameiningartákn meðal annarra þjóða, veit ég ekki hvað sameiningartákn er.
Athugasemdir
Að vekja athygli á mismun milli glamurs og loðmælgi og svo hinsvegar staðreyndum er þakkar vert og hafðu þökk fyrir Tryggvi.
Hrólfur Þ Hraundal, 3.1.2012 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.