17.1.2012 | 11:16
Dönsk orð í daglegu tali
Dönsk orð og dönsk orðasambönd eru æði mörg í daglegu tali en prýða ekki íslenskt mál og bera hvorki vitni um vandað málfar né mikla málkennd. Einna verst er, hvernig klifað er á dönsku sögninni kíkja, kíkja á, kíkja inn, kíkja í blöðin - og danska orðasambandinu reikna með. Virðist af máli sumra starfsmanna RÚV eins og þeir þekki ekki sögnina líta, líta á, líta inn, líta í blöðin, skoða að ég tali ekki um að hyggja að eða íhuga ellegar orðasambönd eins og að gera ráð fyrir, ætla, búast við. Nei, kíkja og reikna með skal það heita.
Til gamans má hins vegar nefna þrjú orð, sem algeng eru í íslensku talmáli, öll komin úr dönsku og okkur málhreinsunarmönnum mun reynast erfitt að útrýma. Fyrst skal nefnt orðið ha sem á rætur að rekja til orðanna Hvad behager og á dönsku eru borin fram [va: be'ha] með þungri áherslu á síðasta atkvæðið. Ætla má að Íslendingar, sem heyrðu Dani segja: Hvad behager, hafi einkum heyrt ['ha] og þannig hafi þetta einkennilega spurnarorð ha orðið til.
Annað danskt orð í íslensku er merkingarlausa fyllingarorðið sko, komið af upphrópuninni sgu eða så gu sem er stytting á: Så hjelpe meg gud. Upphrópunin sgu er ekki talin fara vel í vandaðri dönsku en hefur þó nýlega verið tekið af skrá um dönsk bltótsyrði.
Bent skal á, að til er annað orð, ritað á sama hátt en af allt öðrum rótum, sem er boðháttur sagnarinnar að skoða, eins og þegar sagt er við lítið barn: Sko fuglana í merkingunni 'sjáðu fuglana'. Sögnin er notuð í biblíumáli og kemur fyrir víða í þjóðsögum. Auk þess er sögnin notuð í föstum orðasamböndum s.s.: Í upphafi skal endinn skoða, Skoða ofan í kjölinn og Skoða hug sinn. Jónas Hallgrímsson notar sögnina skoða í ævintýri sínu Fífill og hunangsfluga þar sem segir:
Fífillinn var nýsprottinn út. Hann hafði dreymt morgunroðann og vaknaði þegar sólin kom upp en aldrei séð kvöld og forsælu. Hann leit ekki í kringum sig en horfði brosandi í sólina og sólin kyssti hann þúsund sinnum eins og móðir kyssir nývaknað barn og hann roðnaði af gleði í sólarylnum og hlakkaði til að lifa og verða stór. Þá kom flugan út í holudyrnar og skoðaði til veðurs.
Þriðja danska orðið, sem notað er í daglegu máli, er fyllingarorðið jæja sem komið er af ja, ja í dönsku og Danir nota mikið og borið er fram /jæja/. Halldór Laxness hafði dálæti á þessu orði og lagði út af því á ýmsa vegu. Í Fegurð himinsins lætur hann t.a.m. hreppstjórann í Bervík segja við Ólaf Kárason: Segirðu jæa helvítis bjáninn þinn. Hver veit nema þú fáir að borga það orð fullu verði áður en lýkur.
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil.
Mætti ekki draga líka örlítið úr ofnotkun danska orðsins SKE í talmáli. Hvað er að ske? Hér eigum við nefnilega mörg orð sem eru fallegri: gerast, koma fyrir, atvikast. Eflaust fleira sem mætti nota í stað ske.
Frosti Sigurjónsson, 17.1.2012 kl. 22:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.