28.8.2012 | 15:34
Málið sem talað er á Akureyri
Akureyri hin fagra er 150 ára um þessar mundir. Til er sögn um að Akureyringar hafi áður og fyrrum talað dönsku á sunnudögum. Fyrir mörgum árum setti ég fram þá tilgátu, að ástæðan að baki sögninni væri sú, að dönsku kaupmennirnir á Akureyri héldu guðsþjónustur á heimilum sínum áður en kirkjan í Fjörunni var vígð 1863. Við þessar guðsþjónustur er vitað að lesið var úr dönsku biblíunni og sungnir danskir sálmar. Aðkomumenn, sem á hlýddu, hafi síðan sagt frá því, að Akureyringar töluðu dönsku á sunnudögum.
Akureyringar tala ekki lengur dönsku á sunnudögum né heldur aðra daga. En hvaða mál tala þeir á 150 ára afmæli kaupstaðarins? Þegar undarlega er spurt, verður erfitt um svör. Auðvitað tala flestir Akureyringar íslensku bæði á sunnudögum og aðra daga. Hins vegar er fólk frá 60 þjóðlöndum búsett á Akureyri, flestir frá Póllandi. Á Akureyri eru því töluð um 60 tungumál alla daga ársins.
Margir Akureyringar tala hins vegar norðlensku, sem svo er kölluð, þ.e.a.s. bera fram harðhljóðin /p, t, k/ í orðum eins og api, gata, taka, þegar í sunnlensku eru borin fram linhljóðin /b, d, g/ /abi/, /gada/ og /taga/. Auk þess nota sumir Akureyringar raddaðan framburð á undan þessum þremur harðhljóðum og segja /haMpa/ hampa, /meNNtun/ menntun og /eiNkunn/ einkunn. Þessi tvö framburðareinkenni eru talin lýsa helstu einkennum norðlensku, þótt tína mætti fleiri til.
Á árunum 1941 til 1943, kannaði dr. Björn Guðfinnsson prófessor, einn fremsti málfræðingur Íslendinga, framburð skólabarna víðs vegar um land, m.a. framburð 175 skólabarna á Akureyri. Aðeins 42 börn eða 24% höfðu raddaðan harðhljóðsframburð; 35 börn eða 20% höfðu óraddaðan framburð á undan /p, t, k/ og 98 eða 56% höfðu blandaðan framburð, þ.e. báru stundum fram raddað hljóð á undan harðhljóði og stundum ekki.
Björn Guðfinnsson kannaði einnig framburð 305 skólabarna í Eyjafjarðarsýslu með tilliti til þessa raddaða harðhljóðsframburðar. Af þeim höfðu 255 skólabörn eða tæp 74% raddaðan framburð, aðeins 8 eða 2.6% óraddaðan framburð og 72 börn eða 23.6% höfðu bandaðan framburð. Af 11 skólabörnum í Skriðuhreppi höfðu öll raddaðan framburð og af 37 börnum í Ólafsfirði höfðu 35 raddaðan framburð. Til fróðleiks má geta þess að á sama tíma höfðu einungis fjögur börn af 2200 í Reykjavík raddaðan harðhljóðsframburð eða 0.2%.
Framburður hefur breyst mikið á þessum 70 árum. Norðlenskan er á hröðu undanhaldi, eins og önnur málýskueinkenni, og óraddaður eða blandaður framburður er að vera einráður á Akureyri, eins og annars staðar á landinu. En Akureyringar tala enn íslensku og ekki dönsku ekki einu sinni á sunnudögum.