1.9.2012 | 11:47
Johann Friedrich Struense og drottning Dana
Johann Friedrich Struense olli straumhvörfum í Danmörku og við dönsku hirðina og skildi eftir sig djúp spor. Hann fæddist í Halle í Þýskalandi 1737, lauk þar læknanámi 1757, aðeins tvítugur að aldri, og varð árið eftir borgarlæknir í Altona, hinni gömlu hafnarborg Hamborgar. Struense var afsprengi upplýsingarinnar, vel menntaður guðleysingi, frjálslegur í skoðunum með sterka persónutöfra.
Árið 1768 varð Struense líflæknir Kristjáns konungs VII [f 1749-1808] og settist að í Kaupmannahöfn. Hlaut hann nafnbótina etatsráð. Vegna geðveilu hins unga konungs og með undirmálum tókst Struense að ná stjórnartaununum í sínar hendur. Árið 1770 útnefndi Kristján konungur hann maître des requêtes - formann ráðgjafarnefndar - og fékk Struense nánast einræðisvald í Danmörku, rak frá forsætisráðherra konungs, Johan Hartvig Ernst Bernstorff greifa [1712-1772], og hófst handa um að koma á margvíslegum umbótum, einfaldaði stjórnkerfi landsins og mælti fyrir um að embættismenn skyldu ráðnir eftir verðleikum en ekki ætt og ættartengslum, bannaði pyndingar og lýsti yfir fullu prentfrelsi haustið 1770.
Franski rithöfundurinn og heimspekingurinn Voltaire [1694-1778] sendi Danakonungi þá heillaóskir vegna þessara miklu framfara. Struense skerti völd aðalsins og vildi auka jafnræði og minnka óhóf og eyðslu við hirðina. Hann lét stöðva gagnslitlar framkvæmdir sem hann taldi vera, m.a. smíði Marmarakirkjunnar, og lét gera Kongens Have að lystigarði fyrir almenning þar sem haldnir voru tónleikar og skemmtanir fyrir sauðsvartan almúgann. Hann réð að hirðinni erlenda listamenn og tónskáld til þess að auka veg og virðingu lista og menningar í Danmörku.
Eitt höfuðmarkmið hans var að koma í veg fyrir peningasóun embættismanna og forréttindi og vildi bæta hag almennings, þar á meðal hag almennings í skattlandinu Íslandi. En Struense gerði sér heldur títt um hagi hinnar ungu drottningar Caroline Mathilde [1751-1775], sem var systir Georgs III Bretakonungs [1738-1820], en konungurinn sinnti drottningu lítið. Endaði ástarsamband þeirra með því að drottningin unga varð barnshafandi af völdum Struense og ól stúlkubarn 7. júlí 1771 sem skírt var Louise Augusta og var talin réttborin prinsessa af Danmörku.
Eins og að líkum lætur eignaðist Struense marga óvildarmenn. Með fulltingi móður Kristjáns VII, ekkjudrottningarinnar Juliane Marie [1729-1796], og Rantzau ríkisgreifa [1717-1789] tókst að koma Struense á óvart, þrátt fyrir miklar varúðarráðstafanir hans. Var hann gripinn í rúmi drottningarinnar ungu árla morguns 17. janúar 1772 eftir grímuball í höllinni kvöldið áður. Var hann hnepptur í fangelsi og drottning færð í dýblissu í Krónborgarkastala. Við réttarhöldin báru hirðmeyjar vitni um bólfarir drottningarinnar og Struense.
Struense var færður fyrir dóm. Varð niðurstaða dómsins sú að Kongens Ægteseng fremfor andre bør være ren og ubesmittet. Hjónaband Kristjáns VII og Caroline Mathilde var lýst ógilt og hún send til Þýskalands, þrátt fyrir hótanir bróður hennar Englandskonungs. Dó hún úr bólusótt þremur árum síðar, aðeins 25 ára að aldri. Struense og aðstoðarmaður, danski greifinn Enevold Brandt [1738-1772], voru dæmdir til dauða og hálshöggnir í Nørre Fælled, þar sem nú er Fælledparken, 28. apríl 1772. Voru lík þeirra hlutuð sundur og sett á hjól og steglu, fólki til skræk og advarsel.
Menn hafa ekki verið á eitt sáttir um Struense og ágæti umbóta þeirra er hann vildi koma á. Hins vegar sagði enska tímaritið Gentlemans Magazine að breytingar þær, sem Struense hefði beitt sér fyrir í Danmörku, ættu eftir að breyta allri álfunni. Sjö árum eftir dauða Struense hófst franska byltingin sem breytti öllu lífi og stjórnarháttum í Evrópu í það veru sem Struense hafði viljað og barist fyrir í anda upplýsingarinnar.
Úr KAUPMANNAHAFNARBÓKINNI Borginni við Sundið
Athugasemdir
Það stendur upp á Íslendinga að taka til hendi og kafa ofan í umbætur Sruenses vegna þess að eitt af því sem hann kom til leiðar var að skipuð var Landsnefndin sem átti að efna til framfara og umbóta á Íslandi.
Það er skömm okkar að mörgum kynslóðum var á síðustu öld leynt því að Struense, umbótamenn, sem voru í bandalagi með honum, og Landsnefndin hefðu verið til.
Þeirra var að engu getið í þeirri Íslandssögu sem okkur var kennd.
Struense og örlög hans yrði magnað viðfangsefni í bók eða kvikmynd.
Ómar Ragnarsson, 1.9.2012 kl. 15:59
Átjánda öldin er mesta hörmungaöld í sögu íslensku þjóðarinnar, Ómar, en tillögur Landsnefndarinnar komu fyrir lítið.
Myndina með Mads Mikkelsen - "En kongelig affære" - er vert að sjá, Hrafnhildur.
Tryggvi Gíslason, 3.9.2012 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.