23.9.2012 | 09:09
Frá vöggu til grafar
Ráðstefna Hollvinasamtaka líknardeilda um notendamiðað heilbrigðiskerfi vill knýja Alþingi til þess að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi sem mótað er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi.
Evrópudeild Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar WHO hefur mótað nýja stefnu í heilbrigðisþjónustu, nefnd er Health 2020. Ástæðan er krafa um aukin áhrif sjúklinga og aðstandenda þeirra á heilbrigðisþjónustu. Einnig má nefna hærri lífaldur, áhrif mengunar og umhverfis á heilsufar, breytingar á búsetu, efnahagslega mismunun og minna fjármagn til heilbrigðisþjónustu í kjölfar óreiðu í fjármálaheiminum. Þá hafa framfarir í tækni aukið kostnað við heilbrigðisþjónustu en jafnframt opnað nýjar leiðir til að samþætta ólíkar greinar og auka samstarf stofnana og spara fé á þann hátt. Með aukinni menntun hefur verið gerð krafa um gagnsæi í heilbrigðiskerfisinu og aukin áhrif almennings á mótun og rekstur heilbrigðisstofnana.
Í stefnu WHO er lögð áhersla á, að unnið verði að samræmdum aðgerðum og sameiginlegri stefnu með það að markmiði að styrkja heilbrigðisþjónustu landanna í þessum anda og blása lífi í starf heilbrigðisstofnana í samráði við almenning.
Í samræmi við stefnu WHO og tók áætlun um nýtt heilbrigðiskerfi gildi í Noregi í upphafi þessa ára í kjölfar laga norska Stórþingsins frá því í júní í fyrra. Áætlunin er nefnd Samhandlingsreformen samstarfsáætlun um endurbætur í heilbrigðiskerfinu. Með lögunum er almenn heilbrigðisþjónusta og umönnun aldraðra og deyjandi sameinuð undir eina stjórn og lögð áhersla á forvarnir í stað lagfæringa, lækningu strax en ekki þegar allt er komið í eindaga og mælt fyrir um aukið samstarf heilbrigðisstofnana. Þá er stefnt að því að færa heilbrigðisþjónustu nær fólkinu og auka samstarf sérhæfðra þjónustustofnana. Einnig eru fleiri verkefni fengin sveitarfélögum og áhrif sjúklinga og aðstandenda þeirra aukin: bedre for pasientene - sterkere brukermedvirkning, eins og það er orðað.
Í október efna Danir til ráðstefnu í Kaupmannahöfn í samræmi við þessa stefnu WHO. Þar verður fjallað um þátttöku notenda í heilbrigðiskerfinu undir heitinu Brugerinddragelse i sundhedsvæsenet sem felur í sér, að notendur verði kallaðir til áhrifa - eða notendamiðað heilbrigðiskerfi. Eitt meginþema ráðstefnunnar er þátttaka og stuðningur aðstandenda sjúklinga og bent á, að aðstoð og virk þátttaka sjúklinga og aðstandenda þeirra sé einn mikilsverðasti þáttur í lækningu og meðhöndlun sjúkra og aldraðra.
Hollvinasamtök líknardeilda standa fyrir ráðstefnu á Grand Hótel Reykjavík á morgun, 24. september, undir heitinu Frá vöggu til grafar. Með ráðstefnunni vilja samtökin knýja Alþingi til að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi, mótað er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi og aðstandendur þeirra.
Gerð er krafa um að Alþingi setji lög um heildarstefnu í heilbrigðismálum með tilliti til þarfa notenda á grundvelli samráðs við sjúka og aldraða og aðstandendur þeirra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.