Hlutverk forseta Íslands

Enn einu sinni er ástæða til þess að ræða hlutverk forseta Íslands í fortið, nútíð og framtíð, því að enn einu sinni hefur Ólafur Ragnar blandað sér á óviðeigandi hátt í stjórnmáladeilur samtímans.

Eins og oft áður hefur höfundur þessara orða hlustað á áramótaræður Margrétar Danadrottningar og Haralds Noregskonungs, en frá Noregi og Danmörku var Íslandi stjórnað í 656 ár – hálfa sjöundu öld og engum þjóðum erum við Íslendingar skyldari.

Megináhersla í orðum þessara tveggja þjóðhöfðingja um nýliðin áramót var lögð á það sem sameinaði þjóðirnar. Bæði Margrét Danadrottning og Haraldur Noregskonungur lögðu áherslu, hversu mikilsvert það væri að hefja sig yfir deilumál samtímans – og Haraldur Noregskonungur sagði:

Það - að þroska bestu eiginleika sína – er sérstaklega mikilsvert fyrir þá sem gegna forystuhlutverki í samfélaginu þannig að valdið sé notað til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Bæði innan stjórnmálanna og í atvinnulífi, rannsóknum, umhverfismálum og fjölmiðlum stöndum við andspænis miklum áskorunum.

Við þurfum á vitrum leiðtogum að halda sem hafa getu til þess að hugsa langt fram í tímann og geta ráðið við áskoranir. Það er erfitt að taka ákvarðanir sem bera árangur inni í framtíðinni og ekki er auðvelt að mæla. En það eru hyggindi sem við þurfum á að halda, leiðtogar sem starfa í þeirri trú að góðar ákvarðanir borgi sig þegar til lengdar lætur.

Ólafi Ragnari var ólíkt farið. Hann lagði áherslu á deilurnar í þjóðfélaginu:

Því er miður að nú um áramótin blasir við að umræðan um nýja stjórnarskrá er á ýmsan hátt komin í öngstræti. Í stað samstöðu um sáttmálann geisa djúpstæðar deilur og virtir fræðimenn við háskóla landsins hafa áréttað að margt sé óskýrt og flókið í tillögunum.

Daginn áður hafði Ólafur Ragnar lagt fram bókun á fundi ríkisráðs. Kom þar til deilna og orðaskipta í kjölfar bókunarinnar. Engar heimildir eru um að áður hafi komið til orðaskipta í ríkisráði í nær 70 ára sögu lýðveldisins.

Í áramótaávarpinu gerði Ólafur Ragnar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnskrá að sérstöku umræðuefni, einkum tillögur um að ríkisráð verði lagt niður. Taldi hann ríkisráð væri vettvangur fyrir „samráð þjóðhöfðingja og ríkisstjórnar”. Guðni Th. Jóhannesson segir, að ríkisráð hafi aldrei verið samráðsvettvangur, eins og Ólafur Ragnar vill vera láta.

Einnig má benda á, að ríkisráð er arfleifð frá konungsríkjunum Noregi og Danmörku og ef til vill óþarft með öllu. Þá hafa fræðimenn bent á, að Ólafur Ranar sé vanhæfur að ræða um nýja stjórnarskrá sem felur í sér leikreglur fyrir forseta og alþingismenn.  

En hvernig sem allt veltist, er eitt víst: Hlutverk forseta Íslands er að vera sameiningartákn og koma fram fyrir hönd íslensku þjóðarinnar allrar án undirmála. Það gerðu fyrri forsetar. Þeir voru hafnir yfir flokkadrætti sem vitrir, víðsýnir og umburðarlyndur þjóðhöfðingjar en lögðu sig ekki fram um að stuðla að sundrungu og átökum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæll Tryggvi.

Hver segir að forseti þjóðarinnar eigi að vera eitthvað svona "sameiningartákn" og hvað þýðir það hrófatildur eiginlega.

Ég held að mikill meirihluti landsmanna vilji fyrst og fremst hafa röggsaman forseta. Einmitt það sem Ólafur Ragnar hefur sýnt að hann er.

Ólafur er ekki gallalaus og hann hefur gert sín mistök en oftar en ekki hefur hann sýnt skarpskyggni sína og talað máli þjóðarinnar.

Það á að gusta svoldið um forseta embættið. Hann á ekki vera flokkspólitískur en hann getur samt verið fastur fyrir í stórum málum og á að veita löggjafarvaldinu og framkvæmdavaldinu hæfilegt aðhald og það hefur ÓRG gert vel undanfarið.

Um þetta hlutverk þyrftu þó að vera skýrari reglur og takmörk valdsins einnig. Einnig tel ég að forsetar eigi almennt ekki að sitja lengur en 8 til 12 ár.

Þrátt fyrir mikinn hatursáróður og greinilega andstöðu ríkisstjórnarflokkana þá náði Ólafur samt þeim stórmerka áfanga að verða kjörinn af þjóðinni í fimmta sinn nú í sumar. Það hefur engum öðrum tekist. Þetta tókst Ólafi nokkuð léttilega og halaut hreinan meirihluta greiddra atkvæða, þrátt fyrir 5 aðra mjög frambærilega frambjóðendur.

Gunnlaugur I., 5.1.2013 kl. 19:01

2 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Þjóðhöfðingi samtímans á að vera sameiningartákn, Gunnlaugur. ÞAÐ ER KRAFA SAMTÍMANS. Horfðu til Svíþjóðar og Spánar. Meirihluti landsmanna vill ekki ORG - og alls ekki "röggsaman forseta". Til þess höfum við misvitra stjórnmálamenn. Forsetinn á EKKI að veita löggjafarvaldinu eða framkvæmdavaldinu aðhald. Það eiga upplýstir og HUGSANDI kjósendur að gera! Og nefndu eitt dæmi um "skarpskyggni" ORG!

Tryggvi Gíslason, 5.1.2013 kl. 20:11

3 Smámynd: Gunnlaugur I.

Þú talar um sameiningartákn og nefnir svo sérstaklega kónga fólk á Spáni og Svíþjóð sem aldrei hefur verið kjörið í þau embætti eða til að vera sérstakir þjóðhöfðingjar, eða sameingartákn þjóða sinna.

Enginn kaus þetta fólk aldrei.

Þetta hyski situr bara í vellystingum við sínar hirðir ævilangt og börnin þeirra erfa svo krúnuna og almenningur þjóða þeira hefur ekkert um það að segja.

Þetta er hallærislegur arfur einveldistímans og þessi hégómi hefur engum stjórnarfarslegum skyldum að gegna þó svo að flest þeirra hafi á einhvern hátt tekið að sér að hlúa að ýmsum gógerðar og samfélagsmálum, eftir sínu höfði.

Þetta fók og öll þeirra hirð er allt að fullu og öllu á framfæri ríkisins og þjóðar sinnar frá vöggu til grafar.

Þú getur því alls ekki borið þessa arfakónga og fortíðardrauga einveldisins saman við þjóðkjörna forseta eins og Ólaf Ragnar eða aðra þjóðkjörna forseta í Evrópu eða annars staðar í heiminum.

Ólafur Ragnar hefur fimm sinnum þurft að sækja umboð sitt beint til þjóðarinnar í kosningum og fjórum sinnum þurft að heyja erfiða og stranga kosningabaráttu gegn öðrum frambjóðendum, en alltaf haft sigur. Hann er því ótvírætt þjóðkjörinn forseti Íslands.

Þjóðir eins og Ísland geta kosið af sér forseta og valið sér annan forseta, það gera ekki þessar fyrrgreindu þjóðir með sína arfakónga.

Sem dæmi þá sitja þeir kollegar Juan Carlos I kóngur á Spáni og í Karl Gústaf XVI kóngur í Svíþjóð og hafa báðir setið í kónga hlutverkum sínum vel yfir 30 ár. En áður voru þeir sitjandi erfðaprinsar og geymdir í bómull vellystinga og hóglífis.

Nú skekja alvarleg hneykslis og spillingarmál embætti þeirra beggja og þá sjálfa og hirðfíflin þeirra, en þrátt fyrir það hefur þjóðin engin ráð til þess að koma þeim frá völdum, annað en að senda þeim bænaskrár, eins og við gerðum þegar að íslenska þjóðin svalt heilu hungri og við vorum að öllu leyti undir einræði Dana konunga komin.

Það er því algerlega út úr kú að ætla sér að bera þetta kónga lið saman við þjóðkjörna forseta og að tala svo um einhver óskýr sameiningartákn.

Það er hægt að nefna ótal dæmi um víðsýni og skarpskyggni Ólafs Ragnars. Hann hefur marg oft varið þjóðar hagmuni okkar af alefli og með yfirveguðum rökum á erlendri grundu á örlagastundum þegar að aðrir gerðu sama og ekkert.

Það gerði hann af fullri einurð eftir að Bretar settu hryðjuverkalögin á Ísland og það gerði hann oftlega í átökunum um ICESAVE.

En ég held reyndar því miður að þýði lítið að segja þér þetta eða að fara nánar út í þessi atriði af því að sennilega ert þú einn af þeim sem hatast við forsetan okkar á öllum sviðum, alltaf og alls staðar.

Það hlýtur að vera þungur kross að bera.

Gunnlaugur I., 6.1.2013 kl. 12:48

4 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Tryggvi,ég get nú ekki séð þessi sameiningartákn í Svíþjóð og Spáni.Bæði þessi ríki búa við löngu úr sér gengið konungsdæmi,hvorugar þjóðirnar hafa eitthvað um það að segja hver þjóðhöfðinginn er og í Svíþjóð er gert grín að konunginum vegna hneikslismála,á Spáni eru vinsældir konungsins í algjöru lágmarki.Þessar konungsfjölskyldur sem ennþá eru við lýði í heiminum eru ekkert nema byrði á almenningi.Hlutverk forsetans er fyrst og fremst öryggisventill og það hefur sýnt sig í ICESAVE málinu að þetta hlutverk er bráðnauðsynlegt.Varðandi þetta stjórnarskrárfrumvarp er gagnrýni Ólafs Ragnars aðeins fyrirboði þess að hann ætlar ekki að skrifa upp á það heldur vísa því til þjóðarinnar sem er hið besta mál.Veit ekki annað en forsætisráðherrann (frúin) hafi ætlað það líka en hún hefur að sjálfsögðu ekki heimild til þess.Ef forsetinn á bara að vera einhver sameiningardúlla eða konungslíki er langbest að leggja þetta embætti niður.

Jósef Smári Ásmundsson, 6.1.2013 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband