9.1.2013 | 11:38
Að heilsast og kveðjast
Páll J. Árdal frá Helgastöðum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði, gagnfræðingur frá Möðruvöllum 1882 og skólastjóri Barnaskóla Akureyrar 1884 til 1901, var gott skáld og orti meðal annars hina alþekktu stöku:
Að hryggjast og gleðjast
hér um fáa daga,
að heilsast og kveðjast,
það er lífsins saga.
Stökuna nefndi hann Sögu lífsins. Saga lífsins er sannarlega að hryggjast og gleðjast, heilsast og kveðjast hér um fáa daga og er hugsunin svipuð og í hinu gamla íslenska orðtaki: "Enginn ræður sínum næturstað." Að sínu leyti er hugsunin um hverfulleik lífsins einnig hin sama og í þjóðvísunni Góða veislu gjöra skal þar sem segir:
Góða veislu gjöra skal,
þá geng ég í dans,
kveð ég um kóng Pípin
og Ólöfu dóttur hans.
Stígum fastar á fjöl.
Spörum ei vorn skó.
Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól.
Í kvæði sínu Einræðum Starkaðar segir Einar Benediktsson: Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það skiptir því máli í hverfulleika lífsins að hafa aðgát í nærveru sálar og þá einnig hvernig við heilsumst og kveðjumst, en með kveðjuorðum okkar eins og raunar öllum orðum okkar höfum við áhrif á annað fólk.
Sögð er saga af erlendum ferðamanni sem kom til Íslands um miðja 19du öld og hreifst að því, hvernig þessi fátækasta þjóð í Evrópu heilsaði og kvaddi með fallegum kveðjuorðum eins og: Komdu blessaður og sæll eða: Vertu sæl og blessuð og guð veri með þér en slík kveðjuorð eru afar mörg í íslensku.
Á auglýsingu Coca-Cola frá árinu 1943, fallegri vatnslitamynd af bandarískum hermanni og íslenskum fiskimanni sem brosa hvor til annars um leið og þeir lyfta flösku af töfradrykknum, stendur: Have a Coca-Cola = Come, be blessed and be happy or how to break the ice in Iceland, sem er eins konar þýðing á kveðjuorðunum: Komdu blessaður og sæll, enda undruðust bandarísku hermennirnir á Íslandi falleg kveðjuorð Íslendinga eins og ferðamaðurinn einni öld áður.
Stuðmenn sungu líka í lagi sínu Ofboðslega frægur: Hann sagði: Komdu sæll og blessaður á plötunni Hve glöð er vor æska frá árinu 1990 en bættu svo við: Ég hélt ég myndi fríka út.
Við íhaldsamir málræktarmenn erum líka að fríka út, þegar við verðum vitni að því dag hvern að meirihluti þjóðarinnar, jafnvel miðaldra fólk svo ég segi ekki gamalt fólk heilsast orðið með því að segja: Hæ og kveður með því að segja: OK, bæ.
Athugasemdir
Komdu sæll,
Hef oftar en ekki notað það að heilsa með orðunum " komdu margblessaður og sæll", en jafnoft notað "njóttu dagsins" þegar ég kveð.
Þessháttar kveðjur er eitthvað sem mér líkar betur en "hæ", "bæ", kveðjurnar.
Til að gera þá hef ég líka látið nægja "sæll" "sæl", þegar heilsast er, en það mun ágæt íslenska líka.
Með kærri kveðju
Kaldi
Ólafur Björn Ólafsson, 9.1.2013 kl. 14:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.