11.4.2013 | 15:37
There is no such thing as public mone
Ofanrituð orð eru einhver frægustu orð Járnfrúnarinnar, Margaret Thatcher, sem hún viðhafði á landsfund breska íhaldsflokksins í Blackpool árið 1983. Orðin hafa skoðanabræður hennar og skoðanasystur endurtekið í þrjátíu ár sem grundvallarsannleika um mannlegt samfélag. Ummælin eru sannarlega hnyttileg um leið og þau eru röng, eins og fleiri hnyttileg orð atvinnustjórnmálamanna á Íslandi sem annars staðar.
Til þess að geta komið öllu þessu í kring þarf opinbera sjóði - public money - sem myndaðir eru af sköttum af ýmsu tagi, innflutningsgjöldum og jafnvel af frjásum framlögum fólks, sem flest reiðir fé fram með glöðu geði vegna þess að það skilur samhengi hlutanna.
Mannlegt samfélag - ekki síst nútíma lýðræðisleg þjóðfélög - byggja á samstöðu þegnanna, samhjálp allra og tillitssemi þar sem leitast er við að allir séu jafnir fyrir lögunum og sama réttlæti gildi fyrir alla. Til þess þarf sameiginlegan vilja og sameiginlegan sjóð, opinbera sjóði sem allir greiða í eftir efnum og aðstæðum. Þeir sem eiga miklar eignir og afla mikils fjár, greiða meira en þeir sem eiga ekkert og geta ekki séð fyrir sér. Ástæður þess að fólk getur ekki séð sér farborða eru margar, oft æska eða elli, fötlun á líkama eða sál ellegar félagslegar aðstæður - jafnvel búseta. Við teljum ekki eftir okkur að sjá fyrir börnum okkar eða öldruðum foreldrum okkar, fötluðu barni eða gamalli frænku sem býr fyrir austan og getir ekki séð sér farborða.
Eitt grundvallaratriði í mannlegu samfélagi - nútíma lýðræðislegu menningarsamfélagi - er traust menntakerfi og öflugt heilbrigðiskerfi. Þetta er talið til mannréttinda, og þótt orðið mannréttindi sé sannarlega ofnotað, eru þetta grundvallarmannréttindi ásamt því að njóta friðar og félagslegs öryggis.
Einn af hinum mætustu mönnum, sem ég hef kynnst um dagana, er Thorolf Smith, fréttamaður og rithöfundur, flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum öll sín fullorðinsár. Meðan við unnum saman á gömlu Fréttastofu Ríkisútvarpsins nefndi hann oft hversu ánægður hann væri að geta borgað skattana sína, bæði vegna þess að hann gæti það af því að hann hefði vinnu, sem ekki væri sjálfsagt, og einnig vegna hins, að með því legði hann í sameiginlega sjóði sem hann, börnin hans og barnabörnin og allir aðrir nytu góðs af. Þá viðhafði hann gjarna orð þau, sem höfð eru eftir franska rithöfundinum Voltaire: Ég er ósammála því sem þú segir, en ég un verja allt til dauða rétt þinn til þess að segja það.
Þetta er að mínum dómi góð heimspeki, góð stjórnmálaleg afstaða. Thorolf Smith lifði það ekki að heyra orð Margaret Thatcher: There is no such thing as public money, enda held ég hann hefði verið þeim óssamála eins og undirritaður. En blessuð sé minning Járnfrúarinnar. Hún skildi eftir sig spor sem ekki samræmast skilningi á mannlegu samfélagi réttlætis og jöfnunar.
Athugasemdir
Ég hef alltaf skilið orð frúarinnar á þann veg að almannafé sé ekki hýt sem sjálfsagt sé að ganga í eftir því hvernig skoðanir stjórnmálamanna eða lýðshyggju hversdagsins séu á hverri stundu.
Fé þurfi að umgangast af ábyrgð og ennfremur að hafa þurfi í huga sú ábyrgð að fara með vald almúgans, því fé hans og atkvæði er vald sem hann færir fulltrúum sínum. Vald sem bera þarf af virðingu.
Guðjón E. Hreinberg, 12.4.2013 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.