Evópusambandið, forsetinn og lýðveldið

Við setningu Alþingis 6. júní sagði forsetinn, að eðlilegt hefði verið að Alþingi skyldi fyrir fjórum árum, þegar örlagaþrungin óvissa ríkti í efnahagslífi okkar og hins vestræna heims, sjá kosti í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, einkum vegna evrunnar sem virtist búa að styrk. Nú blasti annar veruleiki við. Enginn vissi hvernig sambandið kynni að þróast og evrusvæðið byggi við djúpa kreppu. Viðræðurnar hefðu gengið afar hægt og kjörtímabilinu lokið án þess hreyft væri við þáttum sem skiptu Íslendinga mestu. Síðan segir í ræðunni:

 

Þessi atburðarás, og reyndar líka viðræður mínar við fjölmarga evrópska áhrifamenn, hafa sannfært mig um að þrátt fyrir vinsamlegar yfirlýsingar sé í raun ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur. ... Því er í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram; mótaðilann virðist í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka þeim á næstu árum.

 

Þegar forsetinn segir mótaðilann virðast í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka samningaviðræðunum á næstu árum, hafa flestir skilið orð hans þannig, að Evrópusambandið vildi ekki „taka við Íslandi” - á næstu árum.

 

Í viðtali við RÚV 27. júní vegna Þýkalandsheimsóknar segist forsetinn aldrei hafa sagt „að Evrópusambandið vildi ekki taka við Íslandi” - og bætir við, að óábyrgt af Íslandi að fara í viðræður við Evrópusambandið í einhverjum leikaraskap.

„Ég sagði í þingsetningarræðunni að það væri margt sem að benti til þess að - og það væri mín ályktun eftir viðræður við marga og það hefur nú styrkst í þessari heimsókn - að af ýmsum ástæðum, sem að ég rakti í ræðu minni, að ekki væri unnt að ljúka viðræðum, nema að ljóst væri að verulegur stuðningur væri meðal Íslendinga fyrir aðild.”

 

Þessi skoðun kemur ekki fram í ræðunni heldur sú skoðun að í raun væri ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur.

 

Alvörusamband og lýðveldið Ísland

Nú er það ályktun forsetans „að ekki væri unnt að ljúka viðræðum, nema ljóst væri að verulegur stuðningur væri meðal Íslendinga fyrir aðild” - og forsetinn heldur áfram:

 

Því það er á vissan hátt óábyrgt af okkur sem þjóð að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið, svona í einhverjum leikaraskap, bara til þess að kanna nú, hvað við kannski fengjum út úr því. Slíkur leikaraskapur er bara ekki gjaldgengur í alvöru alþjóðlegum samskiptum, þó að það kannski passi á Íslandi í umræðunni þar. Við verðum að passa okkar orðspor sem þjóð og sem lýðveldi að þegar við sækjum um inngöngu í aðildarsamband eins og Evrópu þá meinum við það í alvöru.

 

Í þingsetningarræðunni var það „í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram”. Í viðtalinu við RÚV er það óábyrgt af okkur sem þjóð að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið svona í einhverjum leikaraskap bara til þess að kanna nú hvað við kannski fengjum út úr því. Ísland - þar sem leikaraskapur passar í umræðunni innan lands - getur ekki boðið alvörusambandi eins og Evrópusambandinu að kanna hvað fengist kannski út úr samningaviðræðunum. 

 

Eðli samninga

Þegar gengið er til samninga, er verið að kanna hvað fæst út úr samningum. Norðmenn gengu til samninga við EB 1972 og lögðu samninginn fyrir þjóðina sem var felldur vegna þess að kjósendur töldu sig engu bættari. Hið sama gerðist 1993.

 

Norðmenn fóru ekki í viðræður við „alvörusamband” í einhverjum leikaraskap heldur sem fullvalda þjóð til að kanna hvað fengist út úr samningum. Enginn talaði um, að það væri á vissan hátt óábyrgt af Norðmönnum að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið til þess að kanna hvað þeir fengju út úr samningunum, allra síst þjóðhöfðingi Norðmanna sem lét aldrei hafa neitt eftir sér um afstöðu sína, enda þjóðhöfðingi allra Norðmanna - hvort heldur þeir voru með eða á móti aðild. Auk þess vissi hann, að hann ræður ekki stefnu Norðmanna í stjórnmálum.

 

Forseti Íslands þarf að gera sér grein fyrir að hann ræður ekki stefnu Íslands í stjórnmálum, heldur kjörnir fulltrúar - stjórnmálamenn - og forsetinn er ekki stjórnmálamaður. Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er „forseti lýðveldisins ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum” og „ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum”. En forseti Íslands má ekki vera ábyrgðarlaus í tali, því að við verðum að passa okkar orðspor sem þjóð og ekki vera með neinn leikaraskap.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Tryggvi ef ég man rétt skoðuðu Norðmenn þann möguleika að ganga í ESB en gjörsamlega höfnuðu því tvívegis þegar þeir sáu hvað var í boði.Eftir það áfall sem ESB varð fyrir með þessari höfnun þá breyttu þeir þessu þannig að það land sem sækjir um í ESB í dag fer í aðlögun að regluverki ESB á meðan ferlið er í gangi og verður jafnóðum að innleiða reglur ESB og þegar því er lokið telst landið tilbúið að ganga í ESB,þetta þurftu Norðmenn ekkui að gera og gátu séð í byrjun hvað var í boði.Svo er þetta umtal um samningaviðræður orðnar hálf leiðinlegar því það er ekkert svoleiðis í boði nema kannski einhverjar tímabundnar undanþágur.Svo má ekki gleyma að við missum algjört forræði yfir landhelgi okkar utan 12 mílna en þar fer ESB með forræðið og því verður ekki breytt.....

Marteinn Unnar Heiðarsson, 5.7.2013 kl. 09:43

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þegar ríkisstjórn verður til með atkvæða þjófnaði eins og Steingrímur viðhafði og ríkisstjórn þessi gengur svo þvert á vilja landslýðs, þá er komin ofbeldis stjórn sem leggur allt afl sitt í sína drauma og hunsar væntingar fólksins sem borgar þessari sviknu ríkisstjórn laun.   

Þegar svo er komið þá er það forsetin sem á að leggja sig fram um að skynja væntingar og vilja fólksins í landinu, fólksins sem hann er fulltrúi fyrir og hann á að segja þær fram.  HAFIR ÞÚ AÐRA SKOÐUN TRYGVI GÍSLASSON , ÞÁ ER HÚN RÖNG.

Tek undir mál Marteins U.H. kl. 9.43.

Hrólfur Þ Hraundal, 5.7.2013 kl. 11:41

3 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Afsakið klaufaskapinn og lesblindunna, en það átti að vera TRYGGVI.

Hrólfur Þ Hraundal, 5.7.2013 kl. 11:45

4 Smámynd: Gunnlaugur I.

Tek undir með Marteini Unnari.

Einnig má benda á að þegar að forsetinn sagði að það væri - ekki ríkur vilji hjá ESB til þess að ljúka aðildarviðræðum eins og staðan væri - þá hafði forsetinn ýmislegt til síns máls.

Hann hefur skýrt það frekar og þá á hann við að á meðan andstaðan við ESB aðild er svona sterk á meðal landsmanna eins og komið hefur fram í öllum skoðanakönnunum samfleytt síðastliðinn 4 ár þá vill Sambandið ekki leggja í að samningar séu klárir og haldið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem ESB yrði augljóslega hafnað.

Það er ýmislegt sem rennir stoðum undir þetta svo sem það sem kom nýlega fram í fjölmiðlum hjá Sigurði Inga Jóhannssyni atvinnuvegaráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins, en hann sagði frá því þegar hann ásamt forseta okkar og fleiri þingmönnum heimsóttu Þýskaland en þar hittu íslensku þingmennirinir fyrir kollega sína í Evrópunefnd Þýska þingsins Bundestag.

Hjá þeim kom alveg skýrt fram og það sögðu þeir þýsku við íslensku þingmannanefndina, að það yrði enginn samningur gerður við Ísland og þar af leiðandi ekki nein þjóðaratkvæðageiðsla um samning við ESB fyrr en að allir stærstu stjórnmálaflokkar landsins hefðu það á stefnuskrá sinni að vilja ganga í Evrópusambandið.

Skýrara getur það varla verið.

Það er því alveg rétt sem forsetinn hefur haldið fram að það getur varla verið "RÍKUR VILJI TIL AÐ KLÁRA ÞESSAR AÐILDARVIÐRÆÐUR"

Alveg sama hvað opinberar málpípur ESB segja á tyllidögum eða hvað trausti rúinn Samfylkingin prédikar eða hvað íslenskir ESB sinnar rífa hár sitt í fjölmiðlum og á torgum.

Gunnlaugur I., 5.7.2013 kl. 23:03

5 Smámynd: Elle_

Forsetinn er ekki óábyrgur í tali.  Hann rökstuddi strax hvað hann ætti við þó Evrópusinnar hafi kannski allir misskilið hann eða viljandi mistúlkað orð hans.  Svona eins og þeir rugla saman kúgun (ICESAVE) eða alvöru skuld.  Og rugla saman samvinnu fullvalda ríkja og yfirtöku eins Brussel yfir fullvalda ríkjum.  Samt fór ekkert á milli mála hvað forsetinn ætti við.

Elle_, 6.7.2013 kl. 00:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband