12.11.2013 | 08:54
Yfirveguð stjórnmálaumræða
Yfirveguð umræða um stjórnmál - og önnur álitamál er fágæt á Íslandi. Sumir skýra frumstæða og öfgakennda umræðu með víkingseðli Íslendinga, á sama hátt og forseti Íslands skýrði útrásina forðum daga. Aðrir skýra íslenska umræðuhefð með einangrun landsins, menntunarleysi landsmanna og fámenni þjóðarinnar. Enn aðrir kenna því um, að lítil áhersla sé lögð á umræður og málefnaleg skoðanaskipti í skólum.
Vonir
Margir bundu vonir við, að þegar Þorsteinn Pálsson tók að skrifa fasta þætti um þjóðmál og stjórnmál í Fréttablaðið, yrðu skrif hans fræðandi og málefnaleg, bæði vegna menntunar hans og reynslu. Þorsteinn Pálsson er lögfræðingur að mennt, varð ritstjóri Vísis 1975, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands 1979, formaður Sjálfstæðisflokksins 1983-1991, sat á Alþingi 16 ár, var forsætisráðherra 1987-1988, sat sem ráðherra í tveimur ríkisstjórnum Davíðs Oddssonar - einkum til að tryggja sátt og einingu meðal flokksmanna, eins og skrifað stendur, og er sá maður sem lengst hefur farið með sjávarútvegsmál á Íslandi. Að lokum var Þorsteinn Pálsson sendiherra í Lundúnum og Kaupmannahöfn 1999-2005 og ritstjóri Fréttablaðsins 2006-2009.
Vonbrigði
Skrif þessa reynslumikla manns hafa hins vegar valdið vonbrigðum - og undrun. Þau eru óskipuleg og orðalag böngulegt. En ekki síst hefur það valdið undrun - og vonbrigðum, að hann hefur enn ekki getað hafið sig yfir dægurþras og átakastjórnmál, heldur skipar hann sér í flokk og dæmir andstæðinga sína óvægilega.
Þetta á við um pistil hans í Fréttablaðinu 2. nóvember s.l. sem fjallar um þjóðernispópúlisma í Evrópu. Pistillinn virðist skrifaður til þess að sverta andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu og eru okkur valin uppnefni til þess að gera afstöðu okkur tortryggilega. Hann talar um þjóðernislegar tilfinningar og pópúlisma og segir, að sumir þessir flokkar hafi jafnvel á sér yfirbragð fasisma. Þrennt einkenni þá flokka sem andvígir eru Evrópusambandinu: þjóðernishyggja og andstaða við Evrópusamvinnu, neikvæð afstaða til innflytjenda og yfirboð á afmörkuðum sviðum velferðar- og félagsmála.
Ekki liggur í augum uppi, við hvað Þorsteinn Pálsson á með því, að flokkarnir hafi á sér yfirboð á afmörkuðum sviðum velferðar- og félagsmála. Sennilegt er, að hann eigi við, að þessir flokkar þykist berjast fyrir umbótum í velferðar- og félagsmálum. Slík barátta ætti þó ekki að vekja undrun og tortryggni árið 2013, því að flestir stjórnmálaflokkar í norðanverðri Evrópu - að ekki sé talað um á Norðurlöndum - hafa barist fyrir jafnrétti á sviði velferðar- og félagssmála áratugum saman, m.a. Hægri flokkurinn í Noregi (Høyre partiet), Hægri flokkurinn í Svíþjóð (Moderata samlingspartiet) og Hægri flokkurinn í Danmörku (Det Konservative Folkeparti), sem eru systurflokkar Sjálfstæðisflokksins, flokks Þorsteins Pálssonar.
Undrun
Þá vekur það undrun okkar gamalla framsóknarmanna, að Þorsteinn Pálsson skuli kalla Fremskridspartiet, sem Glistrup stofnaði í TIVOLI 14. júní 1972, Framsóknarflokkinn í Danmörku - ekki Framfaraflokkurinn í Danmörku, eins og þeir gera sem gæta vilja hlutlægni og vilja láta taka sig alvarlega. Sama gildir um Fremskrittspartiet í Noregi, sem Carl. I. Hagen stjórnaði í aldarfjórðung og flestir er kalla Framfaraflokkinn í Noregi til þess að jafna honum ekki við Framsóknarflokkinn á Íslandi sem hefur ávallt verið og er hógvær miðflokkur, eins og Senterpartiet í Noregi sem þrívegis hefur átt forsætisráðherra. Fremskridspartiet í Danmörku og Fremskrittspartiet í Noregi voru hins vegar lengi hægri öfgaflokkar þar sem ríkti þjóðernisstefna, neikvæð afstaða til innflytjenda og andstaða við umbætur í velferðarmálum, þótt það hafi breyst. En tilgangur Þorsteins Pálssonar er hins vegar ekki að hafa það sem sannara reynist", heldur að kasta rýrð á skoðanir sem andstæðinga sinna.
Óboðleg skrif um álitamál
Þegar Þorsteinn Pálsson hefur undirbúið jarðveginn í þessum pistli sínum og líkt Framsóknarflokknum við hægri öfgaflokka, skrifar hann að ekki hafi bólað að nokkru marki á pólitískri þróun af þessum toga hér á landi fyrr en ný forysta tók við í Framsóknarflokknum fyrir rúmum fjórum árum. ... Framsókn er fyrsti og eini flokkur sinnar tegundar á evrópska efanhagssvæðinu til að veita ríkisstjórn og landi forystu.
Og Þorsteinn Pálsson, ritstjóri, ráðherra, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og sendiherra, klikkir út með því að segja: Þó að þessi pólitík hafi verið lengi á leiðinni til Íslands hefur hún náð hærra flugi hér en annars staðar. Með öðrum orðum: Hægri öfgaflokkurinn - Framsóknarflokkurinn - hefur gengið lengra en slíkir öfgaflokkar annars staðar sem einkennast af þjóðernishyggja og andstöðu við Evrópusamvinnu, neikvæðri afstöðu til innflytjenda og hafa á sér yfirboð á afmörkuðum sviðum velferðar- og félagsmála og sumir jafnvel á sér yfirbragð fasisma. Hvaða tilgangi þjóna skrif af þessu tagi og eru þau boðleg almenningi og sæmandi Þorsteini Pálssyni?
Athugasemdir
Takk fyrir ágætis umfjöllun og grein Þorsteins.
Wilhelm Emilsson, 13.11.2013 kl. 01:21
. . . „um grein Þorsteins" vildi ég sagt hafa.
Wilhelm Emilsson, 13.11.2013 kl. 02:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.