RÚV og Reykjavíkjurbréf MBL

Eins og stundum endra nær er einkennilegt að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins. Það er engu líkara en höfundur Reykjavíkurbréfsins í dag hafi ekki að fullu stjórn á hugsun og máli, enda augljóslega mikið niðri fyrir. Þó má skilja af skrifum hans að hann sé ekki ánægður með Ríkisútvarpið okkar.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins fullyrðir að ekki sé „um það deilt, svo nokkru nemi, að BBC hafi alla tíð haft verulega slagsíðu”.  BBC hafi engu að síður „gætt mun betur að sér í slíkum efnum en íslenska ríkisútvarpið, svo himin og haf eru á milli“. Síðan horfir höfundur heim og ræðir um

„hið fráleita fyrirkomulag sem komið var á til að tryggja rekstur ríkisútvarpsins undir stjórn hóps þess fólks sem lætur eins og hann eigi það og það eignarhald sé svo afgerandi að ekki þurfi að hlusta á neinar gagnrýnisraddir, þótt studdar séu margsönnuðum staðreyndum sem blasa við þorra fólks og enn síður beygja sig undir þær lagareglur sem um þessa stofnun gilda.“

Þetta segir höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, þótt meirihluti þjóðarinnar treysti - og hafi alla tíð treyst best Fréttastofu Ríkisútvarpsins allra fjölmiðla landsins fyrr og síðar.

Kommúnistinn á Fréttastofunniâ

Það er ekki nýtt af nálinni að Morgunblaðið ráðist að starfsmönnum Fréttastofu Ríkisúrvarpsins. Í miðu ofstæki kalda stríðsins, sem höfundur Reykjavíkurbréfsins virðist enn lifa og hrærast  í, skrifaði Morgunblaðið um rangan fréttaflutnings fréttamanns Fréttastofu Ríkisútvarpsins af mótmælafundi á Austurvelli. Sagði blaðið ekki fara milli mála að þarna væri augljóslega að verki einn af kommúnistunum á Fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Svo illa vildi til að fréttamaðurinn, sem fréttina skrifaði, var heiðursmaðurinn Thorolf Smith, flokksbundinn sjálfstæðismaður alla sína ævi, sem vitnaði gjarna í orð Voltaire gamla:

Ég er ósammála því sem þú segir en  mun verja allt til dauða rétt þinn til að segja það,“

Orð þessi hafa lengi verið notuð til þess að lýsa höfuðeinkennum tjáningarfrelsis í lýðræðisríkjum.

Nýr útvarpsstjóri

Margir binda miklar vonir við nýráðinn útvarpsstjóra. Magnús Geir Þórðarson hefur getið sér afar gott orð sem leikhússtjóri á Akureyri og leikhússtjóri Borgarleikhússins. Höfundur Reykjavíkurbréfsins reynir hins vegar að gera Magnús Geir Þórðarson tortryggilegan og læðir inn dulbúnum hótunum, enda einkenni valdsjúkra manna að vilja láta aðra dansa eftir sinni pípu. Það mun enda vera tilgangur höfundar Reykjavíkurbréfsins að hræða. En sá tími er liðinn að Morgunblaðið geti látið menn dansa eftir sinni pípu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Greinilegt virðist mér, Tryggvi, að þú hafir sett upp vitlaus gleraugu við lestur á þessu Reykjavíkurbréfi og ekki vandað þig við ritun pistilsins.

Það má sannarlega taka undir með þessu Reykjavíkurbréfi varðandi bæði BBC (sem ég þekki mætavel og hvernig það er undir ítrekuðum áhrifum frá Guardian-mönnum) og hrófatildrið Rúvið sem stendur ekki lengur undir sér, en er þó margfaldlega misnotað, einkum fréttastofan, og verður kannski fram í rauðan dauðann.

Og þú dæmir ekki núverandi Mbl.ritstjóra út frá einhverri staðreyndavillu einhvers blaðamanns þar um fréttaflutning af mótmælafundi á Austurvelli fyrir mörgum áratugum!

Svo er það alfarið rangt hjá þér, að Rv.bréfið geri útvarpsstjórann "Magnús Geir Þórðarson tortryggilegan og læði[r] inn dulbúnum hótunum," enda tilfærirðu engin orð bréfsins til stuðnings þeirri fullyrðingu þinni, heldur er einmitt tekið undir sjónarmið Magnúsar Geirs í Reykjavíkurbréfinu!

PS. Rangt er hjá þér, að í Rv.bréfinu standi "... svo himin og haf eru á milli" -- í blaðinu sjálfu stendur skýrum stöfum og réttilega: "... svo himinn og haf eru á milli".

Jón Valur Jensson, 24.3.2014 kl. 02:08

2 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Þegar ég las Reykjavíkurbréf gærdagsins, var ég ekki með bláu sólgleraugun þín, Jón Valur. Með því hins vegar að bera gleraugnalaust saman tvo kafla í Reykjavíkurbréfinu, blasir við að verið er að gera nýjan útvarpsstjóra tortryggilegan, kasta rýrð á starf Ríkisútvarpsins og læða inn dulbúnum hótunum.

Annars vegar eru það fullyrðingar höfundar Reykjavíkurbréfsins, að ekki sé „um það deilt [...] að BBC hafi alla tíð haft verulega slagsíðu” þótt BBC hafi „gætt mun betur að sér í slíkum efnum en íslenska ríkisútvarpið“.

Hins vegar orð höfundar bréfsins, að það skrítna við ummæli og aðgerðir nýs útvarpsstjóra sé „að ýmsum [hverjir sem þessir ýmsir kunna að vera] þótti rétt að beina sjónum sínum eingöngu að einum af 9 framkvæmdastjórum þessarar ósnertanlegur stofnunar, Óðni Jónssyni. Gengu þeir [þ.e. hinir ónefndu] fast að nýja útvarpsstjóranum, þó ekki eins hart og að þeim gamla, [...] enda sá tími ekki kominn“.

Í þessum orðum felst fyrsta lagi, að nýr útvarpsstjóri er gerður tortryggilegur af því að hann beindi sjónum sínum ekki að einum manni. Í öðru lagi er kastað rýrð á starf Ríkisútvarpsins, sem ekki hafi gætt að sér, og í þriðja lagi lætt inn dulbúnum hótunum: „enda sá tími ekki kominn“ - en sá tími mun koma!

Sama felst í orðum þínum, Jón Valur: kastað er rýrð á mikilsvert starf og hlutverk Ríkisútvarpsins og lætt inn dulbúnum hótunum, þegar þú segir: „hrófatildrið Rúvið [þetta heitir að uppnefna og í því felst lítilsvirðing] sem stendur ekki lengur undir sér, en er þó margfaldlega misnotað, einkum fréttastofan, og verður kannski fram í rauðan dauðann“: „fram í rauðan dauðann“ - sem er ekki langt að bíða.

Fróðlegt væri hins vegar að heyra frá ykkur „innmúruðum og innvígðum“ skýr dæmi um vinstri slagsíðu Ríkisútvarpsins og hvernig útvarpið er „margfaldlega misnotað”.

Tryggvi Gíslason, 24.3.2014 kl. 12:57

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Félag fréttamanna á fréttastofu ruvsins, er félag fólks sem er með pólitískar skoðanir fyrst og fremst á vinstri kantinum.Þetta fólk hefur ekki farið í felur með þessar skoðanir sínar, þegar komið ar að samskiptum á obinberum vettvangi.Fyrrverandi formaður stjórnar rúvsins er ein af þessum hópi.Þetta félag fréttamanna á fréttastofunni hefur haldið fréttastofunni í heljargreipum í áratugi, og vill þar öllu ráða,meira að segja hverjir eru ráðnir í stöðu fréttastjóra, eins og kom framfyrir nokkrum árum.Þetta hefur núnverandi útvarpsstjóri trúlæega gert sér grein fyrir og leggur því stöðu fréttastjóra niður.Það er ekkert nýtt í heimi fjölmiðla að fólk í einhverju landi treysti ríkisreknum fölmiðli.Það gerðist í Þýskalandi Hitlers og það gerðist í Sovét og það gerist í N-Kóreu og það gerist í Rússlandi í dag.Fréttastofa ruv rekur áróður alla daga fyrir hinum ýmsu málum sem vinstra-öfga-umhverfislið fréttastofunnar vill koma á framfæri.Ekki þarf nema að bera saman fréttir 365 miðla og fréttastofu ruv til að sjá muninn.,þótt vissulega sé ESB slagsíða á 365,en það hefur fulla heimild til þess þar sem ekki er um það að ræða að því sé haldið uppi með skattlagningu á almenning.Það sýnir best forherðingu fréttamanna á rúvinu að fréttastjórinn las sjálfur upp fréttina að hann hefði verið rekinn.Þvi verður aldrei trúað að að þessi maður verði ráðinn í framkvæmdastjóra stöðu fréttastofunnar.

Sigurgeir Jónsson, 24.3.2014 kl. 13:13

4 Smámynd: Jónatan Karlsson

Ég get sannarlega tekið undir þessa hárbeittu athugasemd Sigurgeirs.

Jónatan Karlsson, 24.3.2014 kl. 19:41

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessar gagnröksemdir þínar, Tryggvi, eru alveg máttlausar, en birta um leið, hve vitlaust þú hefur lesið textann í Reykjavíkurbréfi og gefið þér þar ýmislegt sem þar er EKKI að finna.

Jón Valur Jensson, 24.3.2014 kl. 20:42

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

En þér þætti fróðlegt að sjá "skýr dæmi um vinstri slagsíðu Ríkisútvarpsins og hvernig útvarpið er „margfaldlega misnotað”." -- Farðu þá inn á Facebókarsíðuna Eftirlit með hlutleysi RÚV, þar er verið að rekja ýmis dæmin og það nýleg. En margir hafa bent árum saman á hlutdrægni Rúvara, þar á meðal undirritaður í fjölda pistla.

Jón Valur Jensson, 24.3.2014 kl. 20:52

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það eru 620 meðlimir á Fb-síðunni Eftirlit með hlutleysi RÚV!.

Jón Valur Jensson, 24.3.2014 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband