Gamanleikari og stjórnmálamaður

Þegar gamanleikarinn Jón Gnarr bauð sig fram til borgarstjórnar og varð borgarstjóri Reykjavíkur fyrir fjórum árum, undraðist ég uppátækið og hneykslaðist yfir framferðinu og taldi að nú væru endalokin framundan.

Síðan hef ég orðið að endurskoða álit mitt, orð mín og ummæli. Með góðum samstarfsmönnum hefur hann unnið ágætt starf í höfuðborg allra landsmanna, friður hefur ríkt auk þess sem umræðan í borgarstjórn skemmtilegri en löngum og glaðværð ríkt.

En hvað veldur því að gamanleikarinn Jón Gnarr hefur staðið sig með svo miklum ágætum og öðlast virðingu og traust flestra? Það sem mestu veldur er einlægni hans og heiðarleiki og fágæt gamansemi sem hann beitir á sjálfan sig en ekki gegn öðrum. Eftir þessu hefur þjóðin beðið lengi og Þjóðfundurinn 2009 setti heiðaleika efst á óskalistann

Heiðarleiki og einlægni Jóns Gnarr kemur nú síðast fram í færslu hans á bloggsíðu sinni í dag þar sem hann segir:

„Nú langar mig til að mennta mig meira. Mig langar til að læra taugalíffræði, heimspeki og mannfræði til að geta skilið mannfólkið betur. Mig langar til að læra um loftslagsbreytingar svo við getum gert eitthvað í því. Hvernig get ég lagt mitt að mörkum? Ég vil læra um mannréttindi svo ég geti varið þau. Ég vil læra betri ensku svo ég geti talað þannig að fólk heyri til mín.“

Stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, ættu að læra af gamanleikaranum sem tók hlutverk sitt sem stjórnmálamaður alvarlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tek undir það sem þú segir. Kveðjuorð hans í borgarstjórn vor tær snilld og mun lifa ásamt fleiri athugasemdum hans í embætti löngu eftir að margir aðrir borgarstjórar eru gleymdir og grafnir.

Fyrir mig persónulega hefur ferill hans verið dýrmætur, því að báðir urðum við um áratuga skeið að búa það heimskulega böl að litið hefur verið niður á þá sem verða þekktir sem gamanleikarar eða höfundar skemmtiefnis eins og annars flokks fólk.

Ómar Ragnarsson, 5.6.2014 kl. 09:39

2 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Já, Ómar. Fordómar - að dæma fólk fyrirfram - eru ríkir í mannlegu eðli og stafa m.a. af ótta og öfund. Við dæmum fólk án þess að þekkja það og þeir sem eru áberandi - eins og þú og Jón Gnarr - verðið sérstaklega fyrir þessu, ekki síst af því að þið erum vingjarnlegir og glaðlegir.

Guttormur J. Guttormsson skáld orti fyrir 100 árum:

Gáfnamerki gott að þegja,

glotta að því sem aðrir segja,

hafa spekingssvip á sér.

Aldrei viðtals virða neina,

virðast hugsa margt en leyna

- því sem reyndar ekkert er.

Þakka þér fyrir mikilsvert starf þitt á sviði náttúruverndar og fyrir skemmtun þína, hnyttni og gamansemi í hálfa öld. Ég gleymi aldrei þegar ég sá þig fyrst syngja í gamla LÍDÓ árið 1959 - ég hlæ enn - og þættir þínir um Ísland, STIKLUR þínar, eru mikill fjársjóður, og ekki skemma nýir þættir ykkar feðgina.

Tryggvi Gíslason, 5.6.2014 kl. 10:47

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Gott innlegg. Ákvað að dæma hann ekki fyrirfram, en gefa honum tækifæri. Að hluta olli hann mér miklum vonbrigðum, þ.e. með rekstur Reykjavíkurborgar, en á öðrum sviðum kom hann með nýja vídd inn í þetta dæmi. T.d. að þurfa ekki að vera fullkominn, eða vita allt. Svör eins og ,, ég veit það bara ekki, ekki hugmynd um það" komu eins og ferskur vindur inn í stjórnmálin. Held að að Jón Gnarr hafi breytt stjórnmálunum á ákveðnum sviðum.

Sigurður Þorsteinsson, 5.6.2014 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband