Sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár

Sagt er að dýpsta speki mannlegrar hugsunar og mesta fágun máls komi fram í ljóðum. Ástæður þess eru margar. Í fyrsta lagi hafa ljóð fylgt skapandi hugsun mannsins frá örófi alda. Í öðru lagi hafa ljóð - og raunar annar kveðskapur - frá upphafi tengst föstu formi; af þeim sökum er orðum ekki eytt í óþarfa heldur hvert einstakt orð hugsað, vegið og metið. Í þriðja lagi eru skáld í ljóðum sínum að fást við hugsun, tilfinningar, upplifun - og dýpstu gátur lífsins, heimspeki eða spekimál, eins og það hefur verið nefnt. Skáld er því miklir orðasmiðir og upphafsmenn nýmæla í tungumáli, auk þess sem „skáld eru höfundar allrar rýni“, eins og hinn lærði Íslendingur, höfundur Fyrstu málfræðiritgerðar, segir um miðja 12tu öld.

Nú er verið að taka saman sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár. Sýnisbókin á að geyma úrval ljóða, heil kvæði eða einstakar vísur íslenskrar kveðskaparlistar, allt frá Hávamálum og Völuspá til Snorra Hjartarsonar, Hannesar Péturssonar og Gerðar Kristnýjar. Ljóðin og vísurnar í sýnisbókinni eiga að fela í sér lífsviðhorf eða lífsspeki, sem á erindi við hugsandi lesendur á hraðfara öld, ellegar áhrifamiklar náttúrumyndir og myndir úr mannlífinu sem hrífa eða vekja lesandann til umhugsunar. Ljóðin, vísurnar og kvæðin eru þannig valin að þurfa ekki að sérstakrar skýringar við. Mikill vandi er að velja í slíka sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár, eins og gefur að skilja, enda koma margir að vali á ljóðunum.

Óvíst er að margar þjóðir eigi jafn lifandi kveðskapararf og Íslendingar. Stafar það einkum af því að íslenskt mál hefur haldist lítið breytt í þúsund ár. Áhugasamur lesandi getur því lesið þúsund ára gamla texta fyrirhafnarlítið. Þá hefur kveðskapur verið þjóðaríþrótt Íslendinga frá upphafi búsetu í landinu og flestir Íslendingar hafa einhvern tíma reynt að yrkja kvæði eða gera stöku. Kveðskapur var einnig skemmtun Íslendinga á dimmum kvöldum, ekki síst rímurnar sem voru myndrænir framhaldsþættir þess tíma.

Elsta vísa í fyrirhugaðri sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár er ein af upphafsvísum Hávamála, en meginhluti spekimála kvæðisins er sennilega ortur á níundu og tíundu öld en mikið af hugsun kvæðisins er langt að kominn. Vísan er svohljóðandi:

 

Vits er þörf

þeim er víða ratar,

dælt er heima hvað.

Að augabragði verður

sá er ekkert kann

og með snotrum situr.

 

Þessi vísa á að vera auðskiljanleg áhugasömum og hugsandi lesendum. 

Ein yngsta vísa í sýnisbók íslenskra ljóða í þúsund ár er ljóðið Við vatnið eftir Gerði Kristnýju úr ljóðabók hennar Höggstað sem út kom árið 2007:

 

Hvítir fyrir hærum

skríða hamrarnir

út úr nóttinni

 

Grátt fyrir járnum

ryður frostið veginn

 

Skammlíf birta

skreytir himin

 

Gul fyrir genginni stund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Gerður Kristný er einstök,skilur mann eftir lengi fjarræna í friðsemd.En líklega er það rétt að fáar þjóðir eiga jafn lifandi kveðskapararf og íslendingar.Það eina útlenda birtist mér í enskum dægurlaga textum "So I have to say I love you in a song"

Helga Kristjánsdóttir, 12.2.2015 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband