28.4.2015 | 21:19
Gott veður og vont veður
Umræður um vorkomuna á Íslandi eftir harðan vetur endast okkur um sinn. Eðlilegt er að margur maðurinn sé orðinn leiður á veðurfarinu eftir versta vetur í áratug. En öll él birtir upp um síðir og íslenska vorið kemur - vorið sem Snorri Hjartarson lýsir í einu af mörgum hrífandi ljóðum sínum:
Þrátt fyrir nepju
og nýfallin snjó í hlíðum
kvakar lóan dátt
í dapurlegu holtinu.
Enn skal fagna
ungu vori og nýjum söng
í öllum þessum kulda,
fyrirheitinu
hvernig sem það rætist.
Fyrir aldarþriðjungi hitti ég sendiherra Norðmanna á Íslandi í höfuðborg hins bjarta norðurs - Akureyri - í logni, sólskini og 14 stiga hita. Þá sagði sendiherrann: Når det blir fjorten grader på Island, så blir det varmt.
Nokkrum árum síðar hitti ég konu frá sólskinslandinu Slóveníu, tengdamóður Vilhjálms Inga íþróttakennara við Menntaskólann á Akureyri. Hún hafði komið til landsins kuldasumarið 1979 að heimsækja dóttur sína og tengdason og fór eftir tvo daga og sagðist aldrei koma aftur til þessa voðalega lands. Þegar barnabörnin fóru að fæðast kom hún norður í blíðuveðri og sagði: Þegar veður er gott á Íslandi, þá verður það svo gott.
Hvergi hefur okkur Grétu orðið kaldara á ævinni en í fjögurra stiga hita í Kaupmannahöfn í janúar 1979, og vorum við þó klædd í síðar mokkakápur frá Iðunni með gæruskinnshúfur á höfði. Í febrúar 1988 vorum við svo í Helsinki í sömu mokkakápunum frá Iðunni með gæruskinnshúfur á höfði. Þá var þar 40 stiga frost en stilla. Gengum við um miðborgina okkur til ánægju í frostinu og var hlýtt.
Sumarið 1993 dvöldumst við í Kóngsins Kaupmannahöfn og bjuggum á Kagså Kollegiet i Herlev. Fyrstu vikurnar var dumbungsveður, eins og stundum á Sjálandi á sumrin. Danmarks Meteorologiske Institut sagði þá dag eftir dag: Det bliver fortsat køligt, atten, nitten grader.
Jón Árni Jónsson, latínukennari við Menntaskólann á Akureyri, sagði frá því að versta veður sem hann hefði lent í um ævina hafi verið þegar hann var í Pompei: Fjörutíu stiga hiti, glampandi sólskin og stillilogn.
Hvað veður er gott og hvaða veður er vont?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.