30.4.2015 | 09:41
Auðlærð er ill enska.
Áhrif erlendra tungumála á íslensku hafa verið mikil frá upphafi, að vísu mismikil eftir tímabilum. Með auknum kristnum áhrifum á 10du öld bast fjöldi nýrra orða í málið. Mörg komu úr fornensku, s.s. bjalla, guðspjall, hringja, kirkja, sál, sálmur - og orðið sunnudagur. Önnur orð bárust úr lágþýsku, s.s. altari, djöfull, kór, krans, paradís, prestur, synd, trú og vers, þótt upphafs orðanna sé að leita í latínu, heimsmáli þess tíma. Beint úr latínu munu hafa komið orð eins og bréf (breve scriptum: stutt skrif), klausa (clausula), persóna (persona) og punktur (punktum). Öll þessi orð hafa unnið sér þegnrétt í málinu.
Á danska tímanum - frá siðaskiptum til 1918 - voru áhrif dönsku mikil, enda svo komið um miðja 19du öld, að umræður í bæjarstjórn Reykjavíkur fóru fram á dönsku og í barnaskóla þeim, sem starfræktur var í Reykjavík 1830 til 1848, var að miklu leyti kennt á dönsku. Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti sá sig því tilneyddan til þess árið 1848 að láta festa upp svohljóðandi auglýsingu: Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi." Hann mælti einnig fyrir um, að næturvörðurinn skyldi hrópa á íslenskri tungu við hvert hús. Því var sagt: Auðlærð er ill danska. Á danska tímanum bárust í málið orð eins og altan, fortó, kamína, kakkalofn og maskína - sem horfin eru úr daglegu máli - og orðasambönd eins og reikna með, til að byrja með, koma inn á, koma til með að gera, vera í farvatninu - að ógleymdri sögninni kíkja, sem er að drekkja íslenskum sögnum um sömu athöfn.
Síðustu áratugi hefur íslenska einkum orðið fyrir áhrifum frá ensku. Þykir fínt að sletta ensku á svipaðan hátt og fólki á 19du öld þótti fínt að sletta dönsku. Nýlegt dæmi um ensk áhrif á íslensku eru sagnasamböndin stíga fram og stíga til hliðar, en þetta eru þýðingarlán úr ensku: to step forward og to step aside, og margir tala um consept þegar við sveitamenn að norðan látum okkur nægja að nota orðið hugmynd.
Á dögunum urðu umræður um nafngiftir á veitingastöðum á Íslandi. Ýmsir málverndarmenn báðu guð sér til hjálpar vegna þess að notuð væru erlend nöfn á veitingastaði. Alllengi hefur tíðkast að nefna hótel og veitingastaði á Íslandi erlendum nöfnum, s.s. Apotek rastaurant, Café Paris, Castello Pizzeria, Center Hotels, Domino's Pizza, Grand Hotel Reykjvík, Hotel Reykjavkí Centrum, Hilton Reykjavík Nordica, Icelandair Hotels, Kentucy Fried Chicken, Nauthóll bistro, Nings, Radison BLU, Saffran og The Capital Inn.
Þótt nokkrum fyrirtækjum í verslun, iðnaði og ferðaþjónustu séu gefin erlend nöfn, er það eitt og sér engin ógn við íslenska tungu. Hættan liggur annars staðar. Þegar fólk veit ekki lengur hvenær það slettir og vill frekar nota erlend orð en íslensk eða þekkir ekki íslensk orð um hluti og hugtök ellegar notar orðatiltæki ranglega, er hættan orðin meiri. Hins vegar talar flest fólk gott mál, skólar vinna gott verk og skáld og rithöfundar efla málvitund fólks, auk þess sem stjórnvöld skulu lögum samkvæmt tryggja að unnt verði að nota íslenska tungu á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. En Auðlærð er ill enska.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.