KAUPMANNAHAFNARBÓKIN - Borgin við Sundið

KAUPMANNAHAFNARBÓKIN Borgin við Sundið, sem út kom fyrir hálfum öðrum áratug og er löngu uppseld, kemur út í haust endurskoðuð. Einn kafli bókarinnar er KAUPMANNAHAFNARORÐABÓKIN.

Þar er sagt frá persónum, sem hafa sett svip sinn á borgina, og kennileitum, strætum, torgum og sögufrægum byggingum fyrr og nú. Ein af sögufrægum byggingum sem frá er sagt í bókinni er Bláturn, Blåtårn, sem var hluti af gömlu konungshöllinni á Hallarhólma þar sem áður var borg Absalons biskups og stóð Bláturn þar sem nú er líkneskið af Friðriki VII [1808-1863] framan við Kristjánsborgarhöll. Í turninum var fangelsi sem þeir menn gistu sem brotið höfðu gegn konungi. Turnsins er fyrst getið árið 1494 er Hans konungur I [1455-1513] lét varpa rentuskrifara sínum í Bláturn. Síðan áttu margir kunnir Danir eftir að gista Bláturn allt til þess hann var rifinn 1731.

Tignasti fangi sem gisti Bláturn var Leonore Christine [1621-1698], eftirlætisdóttir Kristjáns konungs IV [1577-1648] sem sat í Bláturni frá því í ágúst 1663 þar til í maí 1685, tæp 22 ár, vegna landráða eiginmanns síns Corfitz Ulfeldt [1606-1664], eins sérkennilegasta manns í sögu Danmerkur, sem gengið hafði í lið með erkifjendum Dana - Svíum. Sat hún í klefa á fjórðu hæð og var hann sex sinnum sjö skref - um 30 m2 að flatarmáli. Þar skrifaði Leonore Christine æviminningar sínar Jammersminde, sem talið er eitt merkasta ritverk á danska tungu á 17du öld. Verkið var þó ekki gefið út í Danmörku fyrr en 1869 og kom út í íslenskri þýðingu Björns Th. Björnssonar árið 1986 undir heitinu Harmaminning.

Vitað er um nokkra Íslendinga sem gistu Bláturn. Jón Ólafsson Indíafari [1593-1679] gisti turninn í tvígang en fékk ekki bústað á við þann sem Leonore Christine hafði. Lýsir hann seinni komu sinni þannig í ævisögu sinni:

Turnvaktarinn Níels með stórri nauðgan og grátandi tárum lét mig ofan síga í Bláturn í mjóum línustreng. Var svo til háttað þar niðri að þar var eitt fjalagólf eður sem einn mikill pallur, en umkring fordjúp ræsi, sem ofan liggja í vatnsgröf þá sem slotið umhverfis liggur. En þessi Bláturn er skaptur sem egg innan svo öllum mönnum þaðan er ómögulegt að komast, en þó þrír menn hafi þaðan sloppið, hvað skeð hafði fyrir djöfulsins meðöl. 

Annar Íslendingur gisti Bláturn einn vetur og sat þá uppi í turninum. Var það Guðmundur Andrésson [1615-1654], ættaður frá Bjargi í Miðfirði. Guðmundur hafði verið við nám í Hólaskóla en vikið úr skóla vegna kveðskapar síns. Hann varð þó djákni á Reynistað en misst hempuna vegna barneignarbrots. Samdi hann rit á latínu gegn Stóradómi, Discursus polemicus. Þar hélt hann því fram að fleirkvæni væri hvergi bannað í Biblíunni og væri guðs orð æðra lögum Danakonungs. Harkaleg ákvæði Stóridóms brytu því gegn Biblíunni. Sjálfur sagðist hann engan áhuga hafa á fleirkvæni. Hann hefði nóg með að gagnast einni konu. Henrik Bjælke, höfuðsmaður konungs, lét handtaka Guðmund á Kaldadal 1649 og flutti hann til Kaupmannahafnar. Var Guðmundur lokaður inni í Bláturni en vann sér það til frægðar um veturinn að hrapa niður úr turninum þegar hann var að skyggnast út um vindaugað eftir gangi stjarna og himintungla. Komst hann inn í konungshöllina, sem var áföst turninum, og heilsaði upp á kóngafólkið, sem brá í brún.  Var Guðmundi komið aftur fyrir á sínum stað. Um vorið var Guðmundur Andrésson sýknaður af öllum ákærum en var bannað að hverfa aftur til Íslands. Innritaðist hann um haustið í Kaupmannahafnarháskóla og lagði stund á fornfræði. Þýddi hann Völuspá og Hávamál á latínu fyrir kennara sinn Ole Worm [1588-1654] og samdi íslensk-latneska orðabók, Lexicon Islandicum, sem út kom að honum látnum 1683 og aftur árið 1990. Guðmundur lést úr pestinni árið 1654.

Af gömlum lýsingum, málverkum og teikningum er nokkurn veginn vitað hvernig Bláturn leit út sem hluti af gömlu konungshöllinni á Hallarhólmanum og gnæfði yfir inngangi hallarinnar. Um 1600 var turninn endurgerður og sett á hann sveigþak með turnspíru og bogagangi, karnap. Gamla konungshöllin og Bláturn voru rifin 1731 til að rýma fyrir annarri höll, Kristjánsborgarhöll hinni fyrstu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Eru margar viðbætur í nýju útgáfunni? Líklegast verður að segja frá því að "Mjóni" er orðinn að McDonalds. Sjá: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1731057/

FORNLEIFUR, 10.5.2015 kl. 06:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband