Íslenskir stjórnmálamenn og hugræn atferlismeðferð

Það er sorgleg reynsla fyrir mig, gamlan organista að norðan, að hlusta á EuroVision lögin, sem í mínum eyrum eru öll eins og minna að því leyti á orðræður íslenskra alþingismanna sem allir syngja sama lagið, að vísu í dúr þegar þeir eru í stjórn, en í moll þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, enda sagði gamall sjómaður að austan, að sami rassinn væri undir öllum íslenskum stjórnmálamönnum, þeir væru eins og slitin hljómplata, spiluðu A hliðina í stjórnarandstöðu og B hliðina í stjórn.

En að þessum dæmisögum slepptu, vekur það mér ekki síður undrun heldur ugg og kvíða, hvernig stjórnmál og stjórnmálaumræða er orðin Íslandi þar sem aldrei ætlar að vora. Ekki svo að skilja að úr háum söðli sé að detta, því að aumt var þetta - en aumara er það orðið. Margir hugsandi menn - karlar og konur - hafa spurt sig hvað veldur þessari heimsku og skammsýni, en enginn hefur fundið viðhlítandi svar. Einn talar um fámennið, aðrir um að þjóðin sé orðin svo rík á fáum árum, búi yfir svo miklum auæfum að hún hafi misst sjónar á því sem máli skiptir, og enn aðrir fara aftur á landnámsöld og víkingatímann, eins og aumingja gamli forsetinn gerði fyrir hrunið, og talar um víkingsinseðlið og gáfur fólksins sem ekki vildi una harðræði Harald konungs hárfagra og flutti með sér bókmenntarf sem engin þjóð önnur eigi.

Þetta er allt hugsanlegt - en ólíklegt. Hins vegar er í sálarfræði talað um afneitun þeirra sem gera sér ekki grein fyrir því, hvernig þeim líður, hvað skiptir máli í lífinu og yfirfæra neikvæð einkenni sín og afstöðu yfir á aðra og eiga erfitt með að viðurkenna mistök sín og finnst þeir vera betri en aðrir og hafa enga samúð og tilfinningar fyrir öðru fólki.

Í meðferðarsálarfræði - hugrænni atferlismeðferð - er reynt að fá þessa einstaklinga í afneitun til að verða hluti af heild, samfélagi, og þróa með sér virðingu, skilning, heiðarleika, traust og jafnvel kærleika til annarra. Ef til vill er eingin önnur leið í íslenskum stjórnmálum en senda allt heila liðið á Alþingi í hugræna atferlismeðferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband