25.10.2015 | 18:08
Fjögur orð
Flest tungumál nota AIDS eða HIV það sem á íslensku er nefnt alnæmi eða eyðni. Í færeysku er þó notað orðið eyðkvæmi ásamt orðinu AIDS. AIDS er skammstöfun á ensku orðunum Acquired Immune Deficiency Syndrome, sem þýða mætti 'áunnið heilkenni ónæmis'.
Flest tungumál nota orðið bibliotek um 'bókasafn', þótt í ensku muni oftast notað latneska orðið library af liber 'bók'. Orðið bókasafn er þýðing á gríska orðinu bibliotek sem myndað er úr biblos, 'bók', og théke, 'geymsla'. Orðið kemur fyrst fyrir í ævisögu Hannesar biskups Finnssonar [1739-1796] upplesin vid Hans Jardarfør ad Skálholti þann 23ia Augúst 1796, eins og stendur í útgáfunni frá1797. Hugsanlegt er að hinn lærði biskup hafi sjálfur þýtt orðið úr grísku.
Flest tungumál nota orðið autograf um það sem nefnt er eiginhandaráritun á íslensku. Orðið autograf er myndað af grísku orðunum αὐτÏς, autós, sem merkir 'sjálfur', og γράφ, graf, dregið af sögninni γράφειν, gráphein, 'skrifa'. Orðstofnarnir koma einnig fyrir í tökuorðum eins og átómat, 'sjálfsali', eða átómatískur, 'sjálfvirkur', graf, 'línurit', grafík, 'svartlist' og graffittí, 'veggjakrot'.
Flest tungumál nota telefon um það sem nefnt er sími á íslensku. Orðið telefon á sér langa sögu, þótt fyrirbærið ekki ýkja gamalt en vakti undrun þegar Alexander Graham Bell tókst að flytja mannsrödd um koparvír um 1870. Þegar framleiðsla tækisins hófst fáum árum síðar, var í ensku notað orðið telephone um þetta tækniundur. Orðið er myndað af grísku orðunum τá¿λε, tÄle, 'fjarlægur', og φωνή, phōnÄ, 'rödd' sem mætti þýða með orðinu firðtal. Eins og lesendur þekkja hefur firðtal breyst í tímans rás. Í stað talþráða hefur orðið til raunverulegt firðtal, þráðlausir símar sem nefndir eru farsímar eða gemsar, en gemsi er hljóðlíkingarorð eftir ensku skammstöfuninni GSM, Global System for Mobile Communications.
Í fornu máli kemur fyrir hvorugkynsorðið síma í merkingunni 'þráður' eða 'þráður úr gulli' og karlkynsorðið sími í samsetta orðinu varrsími, sem merkir 'kjölrák'. Þegar Íslendingum bárust frásagnir af fyrirbærinu telefon um 1870, var talað um telefón. Seinna komu fram tillögur eins og firðtal (1875), hljómþráður (1877), hljóðberi (1879), hljóðþráður (1888) og talþráður (1891). Í Ný danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Jónas Jónsson frá Hrafnagili frá árinu 1896 er að finna orðið sími í samsetningunum talsími og ritsími og sögnin talsíma. Árið eftir kemur orðið sími fyrir í tímaritinu Sunnanfara. Síðan hefur orðið verið einrátt í íslensku.
Og þá kemur rúsínan í pysluendanum. Í svahílí er notað orðið simu um 'telefon'. Svahílí er talað af 150 milljónum manna í Austur Afríku og er opinbert mál í Tansaníu, Kenía, Úganda, á Kómóróeyjum og í Kongó. Orðið simu í svahílí er komið af persneska orðinu sim, سÛÙ , sem merkir 'þráður'm - jafnvel 'silfurþráður', og er orðið sim, سÛÙ , notað í persnesku bæði um síma og farsíma. Persneska er indóevrópskt mál eins og íslenska og hafa liðlega 100 milljónir manna persnesku að móðurmáli: í Íran, Afganistan, Tatsekistan, Úsbekistan, Tyrklandi, Írak, Katar, Ísrael, Kúveit, Barein og Óman. Rót íslenska orðsins sími og persneska orðsins sim er hin sama, þ.e. *sêi-, og merkir 'binda', sbr. orðið seil, sem merkir 'band', og orðið sili: 'lykkja á bandi'. Til þess að reka smiðshöggið á furðusögu tungumálanna má geta þess að saga Persa hinna fornu heitir á Iran saga. Vegir tungumálanna eru því furðulegir, ekki órannsakanlegir eins og vegir guðs.
Athugasemdir
Sæll, Tryggvi, mikli málvöndunarmaður.
Ég myndaði nýyrðið "fjölnæmi", notaði það í kaflanum um læknisfræði, sem ég þýddi, í bók Þjóðsögu: Árið 1985. Stórviðburðir í myndum og máli ... Kaflinn (bls. 233-240) bar því heitið "Fjölnæmi (AIDS) ´85 - Frá almennu öryggisleysi til vísindalegs veruleika".
Og eins og ég gat um þar neðanmáls: "Fjölnæmi hefur einnig verið kallað ónæmistæring, (áunnin) ónæmisbæklun, alnæmi, eyðni og fleiri nöfnum á íslenzku, en hér verður notað heitið fjölnæmi."
Hugtakið myndaði ég með hliðsjón af því, að sjúkdómurinn felur í sér varnarleysi ónæmiskerfisins fyrir fjölda sjúkdóma, en ekki fyrir öllum sýkingum.
Jón Valur Jensson, 26.10.2015 kl. 15:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.