Íslensk örnefni

Sögu lands – og þjóðar má lesa úr örnefnum sem mörg lýsa staðháttum, landslagi eða viðhorfi til landsins. Til þess að benda dæmi má nefna örnefnið Mýrar sem lýsir staðháttum, örnefnið Hólar lýsir landslagi og Kaldakinn lýsir viðhorfi fólks að kalt sé í Kaldakinn þar sem kaldinn blæs.

Í mörgum örnefnum eru bundin dýranöfn. Nefna má Álftavatn, Galtafell, Geldingahol, Grísará, Hrafnagil, Kálfafell, Kríunes, Lómagnúpur og Sauðafell. Til eru tvö fjöll sem bera nafnið Hestfjall eða Hestur: Hestur eða Hestfjall í Borgarfirði og Hestfjall í Grímsnesi. Sennilegt er að tindar upp úr fjöllunum, sem minna á hestseyru, gefi fjöllunum nafn.  Örnefnið Fiskilækur kemur víða fyrir: í Melasveit bæði sem bæjarnafn og nafn á læk sem rennur í Hítará, í Norðurárdal, í Blöndudal, lækur sem rennur úr Friðmundarstaðavatni  í Gilsvatn, Fiskilækur í Kaupvangssveit í Eyjafirði, skammt innan við Kaupang, Fiskilækur skammt frá Helluvaði í Mývatnssveit, Fiskilækur í Hróarstungu sem rennur í Gljúfravatn, Fiskilækur í Eiðaþinghá sem rennur úr Eiðavatni í Vífilsstaðaflóa og Fiskilækur í Suðursveit norðan við Breiðabólstaðarlón. Auðvelt er að kynna sér örnefni á landinu, margbreytileika þeirra og legu í hinum mikla ÍSLANDSATLAS sem fyrst kom út 2005. Þá er auðvelt að leita að örnefnum á heimsíðu Landmælinga Íslands, www.lmi.is.

Einn þáttur í rannsóknum á örnefnum eru örnefnasagnir, sagnir sem eiga rætur að rekja til skilnings og túlkunar almenning á örnefnum.  Eitt af mörgum dæmum um örnefnasögn er frásaga í Landnámu af Faxa, suðureyskum manni, sem var með Flóka Vilgerðarsyni á skipi. Hafa menn viljað  tengja örnefnið Faxaflói við Faxa hinn suðureyska.  Í Noregi eru allmörg „faxa” örnefni sem öll eru skýrð á þann hátt að um sé að ræða eitthvað „skummande”, þ.e. hvítfext. Þeir sem búa við Faxaflóa þekkja að hann er oft hvítfyssandi eins í sunnan, suðaustan og suðvestan áttum.

Í Haukdæla þætti í Sturlungu er frásögn um Ketilbjörn hinn gamla er lenti skipi sínu Elliða í ósum þeirra áa sem síðan heita Elliðaár. Helga kona Ketilbjarnar var dóttir Þórðar skeggja landnámsmanns á Skeggjastöðum í Mosfellssveit og höfðu þau þar vetursetu fyrsta veturinn. Um vorið hélt Ketilbjörn í leiðangur austur yfir Mosfellsheiði og reisti skála þar sem síðan heitir Skálabrekka við Þingvallavatn. Þegar þeir voru þaðan skammt farnir, komu þeir að ísilagðri á, hjuggu á vök í ísinn en misstu öxi sína í ána og kölluðu hana af því Öxará.  

Öxarár eru tvær á landinu auk Öxarár við Þingvöll: í Bárðardal, skammt sunnar við Hriflu og rennur áin í Skjálfandafljót; í öðru lagi Öxará við Ódáðavötn í Suðurdal, inn af Skriðdal. Árheiti eru víða dregin af nöfnum húsdýra, s.s. Geitá, Kálfá, Kiðá, Lambá og Nautá.  Er sú skýring talin líkleg, að húsdýr verið rekin að ánum til beitar og árnar verið eins konar vörslugerði um beitarhólf.  Með þetta í huga taldi Þórhallur Vilmundarson prófessor að skýra mætti nafnið Öxará sem hnikun úr orðmynd­inni *Öxaá, sem í framburði varð Öxará og frá þessari framburðarmynd væri örnefnasögnin runnin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband