7.3.2018 | 23:59
Staða og framtíð íslenskrar tungu
Mikið er rætt um stöðu og framtíð íslenskrar tungu, fornlegustu tungu Evrópu sem hefur varðveitt tvennt sem flest önnur germönsk mál hafa tapað: fallakerfi og gagnsæja merkingu orða og orðstofna. Skoðanir eru hins vegar mjög skiptar um stöðu og framtíð íslenskunnar, sem margir telja er á fallanda fæti.
Á ráðstefnu í Hagaskóla í Reykjavík í síðustu viku um skort á íslensku lesefni fyrir ungt fólk var því haldið fram að íslenskan væri í mikilli hættu vegna þess að nemendur á grunnskólaaldri leita frekar að nýju lesefni á ensku en á íslensku og Hildur Knútsdóttir rithöfundur sagði á ráðstefnunni að ekki væri unnt að lifa af því að skrifa barnabækur á Íslandi.
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og alþingismaður sagði í þingræðu á dögunum, að rannsóknir heima og erlendis hefðu leitt í ljós að yndislestur, sem hann kallaði svo, gegndi lykilhlutverki í því að efla lesskilning. Við þurfum vitundarvakningu, við þurfum aukinn sýnileika og framboð bóka í daglegu lífi, við þurfum að gera barnabókahöfundum kleift að sinna skriftum með því að efla sjóði sem þeir geta leitað í. Stjórnvöld verða að líta á það sem forgangsmál að stórefla bókaútgáfu, ekki síst barnabókaútgáfu, þau þurfa að hætta skattlagningu á bækur og þau þurfa að fylla skólabókasöfnin af nýjum og ilmandi bókum, sagði Guðmundur Andri.
Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur, formaður Rithöfunda-sambands Íslands, lét svo um mælt í viðtali í RÚV, að meinið lægi djúpt, unglingar tali saman á ensku, sem ógni hugsun, og að Íslendingar væru ekki stoltir af tungumáli sínu.
Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku við Háskóla Ísland, ræddi um stöðu íslenskunnar í Kastljósi í síðustu viku. Taldi hann m.a. að vegna vinnuálags hefðu foreldrar lítinn tíma til að sinna börnum sínum og stytting vinnuvikunnar gæti orðið foreldrum til hjálpar við að tala við börn sín eins og fullorðið fólk og samræðan við matarborðið skipti þar miklu máli.
Þá eru tölvur og tölvuleikir oft nefndir sem ógn við íslenska tungu og valdi því að mörg börn og unglingar vilja helst tala saman á ensku. Þá er ógn talin standa af snjalltækjum þar sem samskiptamálið er enska og ekki nóg að gert til þess að mæta þeirri ógn.
Skiptar skoðanir eru því um stöðu og framtíð íslenskrar tungu. Enginn vafi leikur á að við þurfum að vera á varðbergi. Hins vegar ber að hafa í huga, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi tjáningartæki en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og listgreinar sem byggja á tjáningu málsins, svo sem kvikmyndagerð og útvarps- og sjónvarps-þættir, standa með miklum blóma. Fleiri vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarinn aldarfjórðung en nokkru sinni. Auglýsingar eru nú gerðar af meiri hugkvæmni en áður og gamanmál hafa breytt og lyft íslenskri fyndni.
Hins vegar verða Íslendingar að vera á varðbergi ekkert gerist af sjálfu sér. Þrennt skiptir mestu máli um varðveislu tungunnar: skáldin, heimilin og skólarnir, en heimilin og skólarnir eru tvær mikilvægustu stofnanir þjóðarinnar, og tvær mikilvægustu stéttir samfélagsins eru foreldrar og kennarar. Með hjálp foreldra, skólanna og skáldanna og á grundvelli sterkar þjóðtungu og áhuga almennings á tungunni mun íslenskan halda velli um ófyrirsjáanlega framtíð.
Athugasemdir
Vantar einn staf í fyrirsögninni. Þar stendur tung í stað tungu. Bagalegt í bloggi um íslenska tungu. :)
Jón Steinar Ragnarsson, 8.3.2018 kl. 11:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.