24.1.2009 | 09:37
Þjóðstjórn - nýtt lýðveldi
Eftir atburði síðustu daga er aðeins ein leið til í íslenskum stjórnmálum: að mynda þjóðstjórn sem allir flokkar á Alþingi eigi aðild að. Slík stjórn hefði víðtækt umboð og óskorað vald til þess að ráða fram úr hinum mikla vanda sem nú steðjar að. Stjórnin starfaði fram yfir kosningar 9. maí - eða þegar mynduð hefði verið ný ríkisstjórn.
Nú eiga allir starfandi stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar að sýna samstöðu, snúa bökum saman, gleyma um stund pólitískum ágreiningi og leggja grunn að nýju lýðveldi sem byggt verður á nýrri stjórnarskrá þar sem undirstaðan er skýr aðgreining löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds, jafnrétti á öllum sviðum og frjáls skoðanamyndun í skjóli frjálsra fjölmiðla.
Traust almennings á stjórnmálamönnum og grundvallarstofnunum ríkisins þarf að endurreisa. Íslenska þjóðin á í styrjöld. Við slíkar aðstæður þurfa allir að sameinast um að gera landið aftur lífvænlegt og friðvænlegt. Dagur reiði er liðinn, dagar samstarfs eiga að taka við. Þeir sem gerst hafa brotlegir fá sinn dóm - því réttlæti verður að ríkja í réttarfarsríki.
Athugasemdir
Vel mælt, skynsamleg tillaga.
Snorri Sturluson (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 22:46
Já það er allavega ljóst að án róttækra breytinga fer allt í sama horfið aftur. Svo þarf að fara að kjósa persónur á þing en ekki flokka. En gangi persónukosning ekki eftir... er lágmarkskrafa að flokkarnir rotti sig saman um stjórnarmyndanir fyrir kosningar svo atkvæði fólks hafi í raun einhverja vikt.
Þorsteinn Gunnarsson, 24.1.2009 kl. 23:13
Tryggvi!
Mæl þú manna heilastur!
Bjarni Karlsson (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 00:05
Heill og sæll,
margt er hér vel sagt og skorinort - hins vegar geri ég athugasemdir við þá greiningu að á skorti í aðgreiningu þrívaldsins - hér þarf að skýra mál sitt, ekki einungis að vísa í almenna óánægju og reiði, sem nú ríkir um okkar stjórnkerfi. Mér þykir sem menn fari offari í að greina þá meinbugi sem eru á þrískiptingu valdsins. Ég hef alla tíð litið svo á að til þess að takast á við "misbeitingu valds" sé einungis eitt til ráða: að minnka völd ráðamanna. Það hefst með tvennu; annars vegar að ráðamenn fari varlega með vald sitt og hins vegar að stjórnkerfið sé þannig uppbyggt að mönnum bjóðist fá tækifæri til þess að misnota það.
Til þess að ráðamenn fari varlega með vald sitt er einsýnt að þeir séu þess meðvitaðir að vald spillir. Sem gamall frjálshyggjumaður (af gamla skólanum) tel ég að valdseta verði að fela í sér vilja til þess að gefa frá sér vald - leita m.a. leiða til þess að dreifa því og í hvívetna fara varlega með þeta sama vald. Í annan stað þarf að efla ábyrgð, ekki einungis stjórnmálamanna, heldur einnig einstaklinga og fyrirtækja er varðar frelsi sömu aðila og samfélagslega ábyrgð. Menn skyldu hafa í huga að frelsi er lítilsvert án ábyrgðar. Það er sá lærdómur, sem hægri menn, og reyndar allir menn, mega m.a. draga af því gjörningaveðri sem ríður yfir þjóðina og heimsbyggðina alla.
En úr því að þú minnist á réttlæti er vert að hafa í huga að mögulega hefur Hæstiréttur Íslands, lokavörn réttarríkisins, brugðist, ef litið er til mála á borð við Baugsmálið. Það sætir nokkurri furðu að fræðasamfélagið hefur enn ekki reynt að gera upp það mál, í litlu eða stóru, enda má ljóst vera að prófessorar og doktorar innan þess samfélags, dreymir meira um að komast í hæstarétt en að greina þau mistök sem þetta æðsta dómsvald kann að hafa gert. Að auki skyldu menn hafa í huga að fjórða valdið hefur einnig brugðist á mörgum sviðum. Hvernig menn skilgreina "frjálsa fjölmiðla" hafa menn afar ólíkar hugmyndir um og ekki langt síðan hér fór allt á annan endann í þeim efnum.
Að þessu sögðu er ljóst, eins og þú bendir á, að breytinga er þörf. Hvort nú þurfi að búa til e.k. lýðveldi nr. 2, að franskri fyrirmynd e.t.v., er mér ekki ljóst en sú hugsun og sú viðleitni er þess verð að skoða. En slíkt tekur tíma og við blasir að takast á við afar brýn verkefni er varða efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og endurreisn til framtíðar. Ekki er víst að hin ólíku stjórnmálaöfl geti sameinast um þau verkefni sem bíða okkar, jafn ólíkt og menn sjá fyrir sér lausnir á því.
Góð kveðja til þín og fjölskyldunnar,
Ólafur Als, 25.1.2009 kl. 00:38
Takk fyrir góða grein
Gaman væri að sjá hér úrdrátt úr erindi þínu um Ríkisútvarpið og vanda þess við að framfylgja lögbundinni skyldu sinni.
Það kemur ekki á óvart að frjálshyggjumenn sjái ekkert athugavert við þrískiptingu valdsins, enda hefur mörgum af stefnumálum þeirra verið þröngvað upp á þjóðina af framkvæmdavaldi sem bregður sér í hlutverk löggjafarvalds. Ráðherrar semja lög á morgnana og skreppa svo niður á þing og "koma þeim í gegn" eftir hádegi.
Eyþór Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 02:41
Ég tel að Eyþór, og margir aðrir, átti sig engan veginn á inntaki frjálshyggjunnar. Væntanlega á hann við, í athugasemd sinni, að frjálshyggjumenn sjái ekki meinbugi á þrískiptingu valdsins, eins og það hefur birst okkur í gegnum árin. Ekki getur hann átt við að við sjáum athugavert að hafa valdið þrískipt.
Sú fróma ósk, um þrískiptingu valdsins, eigum við væntanlega flest flest sammerkt, sem á annað borð óskum þess að lifa og starfa í lýðræðislegu réttarríki. Þessu til viðbótar er vert að taka fram að með mér, og væntanlega flestum okkar, takast á sjónarmið sem hægt er að líkja við, annars vegar félagshyggju og hins vegar frjálshyggju.
Að þessu sögðu, tel ég að sérhverju yfirvaldi er í mun að koma sínum stefnumálum á framfæri og í lagabókstaf. Að finna að þeirri viðleitni er hægt að líkja við óánægju í besta falli, lýðskrum í versta falli - því þrátt fyrir allt stendur meirihluti alþingis að baki löggjöfinni á hverjum tíma. Ég kann að vera ósammála samþykktum alþingismanna, án þess að gefa mér að þeir séu auðsveipir og ósjálfstæðir fulltrúar framkvæmdavaldsins.
Ólafur Als, 25.1.2009 kl. 05:53
Ólafur Als, gamli nemandi. Þakka þér góðar kveðjur og gömul og góð kynni -þegar við vorum báðir ungir, þú tvítugur - ég fertugur.
En að efninu. Þrískipting ríkisvalds er grundvöllur réttarríkis. Um það hafa allir lýðræðissinnar verið sammála margar aldir, frjálshyggjumenn og aðrir kapítalistar ekki undanskildir. Hins vegar vil ég benda þér og öðrum á - enn einu sinni - að lýðræði er hugsun og ekki form, enda þótt móta verði lýðræðislegri hugsun form - eins og allri annarri hugsun. Ef við þekkjum ekki form - orð til þess að lýsa hugsun okkar, getum við ekki gert grein fyrir hugsun okkar - þá getum við ekki talað um það sem við husgum. Svo einfalt er það!
Kveðjur. Tryggvi Gíslason
Tryggvi Gíslason, 25.1.2009 kl. 22:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.