Ríkisútvarpið, hlutverk þess og skyldur

Eyþór Gunnarsson!  Þú biður um að fá að lesa nýlega grein mína um Ríkisútvarpið.  Hér kemur hún:

 

Ríkisútvarpið hefur að mínum dómi svipaða stöðu og Alþingi.  Á svipaðan hátt og Alþingi setur lög um samskipti og hegðan í þjóðfélaginu mótar ríkisútvarp reglur og viðmiðanir varðandi umfjöllun um menn og málefni með því að veita réttar upplýsingar um stjórnmál, atvinnulíf, listir, menningu og menntir, enda er allt þetta bundið í lögum Ríkisútvarpsins.  Því tel ég ríkisútvarp - útvarp og sjónvarp í eigu þjóðarinnar - álíka mikilsvert og Alþingi.  Það væri af þeim sökum álíka fjarstæðukennt í mínum huga að einkavæða Ríkisútvarpið og að einkavæða Alþingi.

Í upplýsingamengun samtímans er það mikilsvert að leiða fólk á heiðarlegan hátt gegnum frumskóg upplýsinga – að ég segi ekki frumskóg af auglýsingum og áróðri.   Á tímum kalda stríðsins, þegar dagblöð drógu upp svart hvíta mynd af umheiminum, var það Ríkisútvarpið – og ekki síst Fréttastofa Ríkisútvarpsins undir stjórn fréttastjóranna Jóns Magnússonar og Margrétar Indriðadóttur sem gaf með fréttum, fréttaaukum og fréttaskýringarþáttum glögga mynd af því sem var að gerast.  Fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins, séra Emil Björnsson, var alinn upp á Fréttastofu Ríkisiútvapsins, og fylgdi sömu stefnu enda voru – og eru skýr ákvæði í lögum Ríkisútvarpsins um meðferð upplýsinga þar sem m.a. segir:

að Ríkisútvarpið skuli veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða og halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana og gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn og túlkun.

Með þessum hætti verndar Ríkisútvarpið almenning og veitir réttar upplýsingar í þágu fólksins og leitast við að gefa rétta mynd af samtímanum og fortíðinni og hamla gegn upplýsingamengun og síðast en ekki síst á Ríkisúrvarp að styðja að frjálsri skoðanamyndun og lýðræðislegri umræða – sem er undirstaða lýðræðis.

Formælendur auðvaldsins – frjálshyggjunnar segja að með starfsemi á vegum ríkisins sé verið að stuðla að forræðishyggju.  Að mínum dómi vinna ríkisstofnanir í lýræðislandi í þágu allra, án tillit til stéttar og stöðu.  Ríkisútvarp vinnur gegn skrumi, áróðri og auglýsingamengun með því að veita hlutlægar og óhlutdrægar upplýsingar.  Slíkt er samfélagsleg umhyggja - ekki forræðishyggja.

Fimm atriði að auki styðja rekstur ríkisútvarps.  Í fyrsta lagi er ríkisútvarp - eða ætti að vera fjölmennasti skóli landsins, sem m.a. stendur vörð um íslenska tungu.   Í öðru lagi ætti ríkisútvarp að vera stærsta leikhús landsins - stærsti skemmtigarður landsins.  Í þriðja lagi er ríkisútvarp öflugt öryggistæki, eins og dæmin sanna.  Í fjórða lagi er ríkisútvarp sameiningartákn þjóðarinnar eins og tungan og íslensk náttúra.  Í fimmta lagi má geta þess að öll þau þjóðríki sem við erum skyldust og viljum - og eigum að bera okkur saman við, reka öflugt ríkisútvarp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Tryggvason

Velkominn á sviðið, pabbi.

Gísli Tryggvason, 25.1.2009 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband