18.3.2009 | 00:33
Veröldin er leiksvið, opið bréf til alþingismanna
Góðir alþingismenn.
Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland eru nauðsynleg til þess að efla lýðræði í landinu, vekja með fólki von um betra stjórnarfar og auka traust á Alþingi og stjórnmálaflokkum - og ekki síst til þess að stuðla að sátt í samfélaginu.Enginn stjórnmálaflokkur má eigna sér komandi stjórnlagaþing og enginn flokkur má leggjast gegn stjórnlagaþingi á vegum fólksins og fyrir fólkið, en það er til fólksins - almennings í landinu - sem þið, alþingismenn, sækið umboð ykkar.
Illt var að ekki skyldi reynt til þrautar að fá Sjálfstæðisflokkinn til þess að standa að frumvarpi um stjórnlagaþing, flokk sem hefur flesta fulltrúa á Alþingi og hefur verið stærsti stjórnmálaflokkur landsins frá stofnun lýðveldis.
Lýðræðisþjóð getur ekki verið án stjórnmálaflokka annað er blekking. Sjónarspil stjórnmálamanna fyrir opnum tjöldum er, hefur verið og verður hluti af þeim sjónleik sem fylgt hefur stjórnmálum alla tíð og við megum ekki vera án því að þetta sjónarspil hefur líka sitt gildi, enda er öll veröldin leiksvið og hver karl og kona aðeins leikarar sem fara og koma og breyta oft um gervi, eins og meistari Shakespeare segir.
Engu að síður skora ég á ykkur, alþingismenn, að finna leið til þess að allir flokkar á Alþingi standi að stjórnlagaþingi, kjörnu af fólkinu, fyrir fólkið. Sundrung, sýndarmennska og pólitískur rétttrúnaður hæfir ekki á Alþingi Íslendinga nú.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.