20.6.2009 | 13:01
Sjónleikur íslenskra stjórnmála
Grundvallarboðorð í lýðræðislegum stjórnmálum er að segja satt. Þetta á ekki síst við nú, þegar sannleikurinn ræður framtíð þjóðar sem leitast við rísa upp úr rústum sem fégráðugir óreiðumenn leiddu hana í.
Eftir hrunið í haust og búsáhaldabyltingu í vetur, sem reyndar var engin bylting, var efnt til Alþingiskosninga. Um helmingur þingmanna er nýr og nýir vendir sópa best. Síðan var mynduð stjórn sem vil kalla sig vinstri stjórn. Mun átt við að um sé að ræða djarfhuga, róttæka stjórn, sem ætlar að breyta öllu til betri vegar og endurbæta. Í stjórnarandstöðu sitja tveir elstu flokkar landsins sem hafa verið við völd, annar hvor eða báðir, frá því í fyrra stríði, nú undir forystu vígreifra en lítt reyndra manna.
Innantóm orð
Það sem hins vegar einkennir stjórnmálastarf endurreisnarinnar þegar líf þjóðarinnar liggur við er að nýju þingmennirnir segja naumast orð og gömlu brýnin naumast orð sem máli skiptir ef til vill af því þeir vita ekki betur eða geta ekki meira. Einn segir svart það sem annar segir hvítt, og það sem annar segir gott segir hinn vont. Áður töluðu sjálfstæðismenn af ábyrgð og töldu allt gott sem gamla stjórnin gerði. Nú segja sjálfstæðismenn það eitt gott, sem þeir voru byrjaðir að gera í fyrri stjórn. Vinstri grænir, sem áður voru harðir í andstöðu og á móti flestu, eru ljúfir sem lömb sem leidd eru til slátrunar. Það sem áður voru svik í augum þeirra eru nú glæsilegir sigrar.
Með öðrum orðum: íslenskir stjórnmálamenn hafa enn einu sinni skipt um hlutverk í leiksýningu stjórnmálanna. Þeir sem áður léku góðu kallana ríkisstjórnina leika nú vondu kallana stjórnarandstöðuna og þeir sem léku áður vondu kallana leika nú góðu kallana. Stjórnmál á Íslandi eru því eins og léleg leiksýning.
Binda þarf enda leiksýningu íslenskra stjórnmála. Meðan fólk berst fyrir lífi sínu og tvísýnt er um sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar og vargar sækja að úr öllum áttum, eiga stjórnmálamenn að fella grímurnar og sjá sóma sinn í að taka höndum saman, mynda þjóðstjórn og vinna í sameiningu aðkallandi verk, verkin sem við kjósendur kusu þá til.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.