3.7.2009 | 17:59
Réttur Íslendinga, svar til Sighvats Björgvinssonar
Kynlegt var að lesa grein Sighvats Björgvinssonar, gamals alþingismanns og ráðherra, í Fréttablaðinu í dag. Greinina nefnir hann Ábyrgð Íslendinga. Engan gæti grunað af orðfæri greinarinnar og röksemdafærslu höfundar, að þar færi gamall jafnaðarmaður, ráðherra gamla Alþýðuflokksins, flokks jafnaðarmanna. Í greininni segir:
Þetta er ekki spurning um auðmagn, vonda kapítalista. ... Þetta er spurning um hvernig íslenskur almenningur ætlar að koma fram við stéttarbræður sína annars vegar á Íslandi og hins vegar í öðrum löndum. Hvernig ósköp venjulegt fólk eins og ég og þú ætlar að koma fram viðósköp venjulegt fólks eins og þig og mig.
Þetta er vond latína úr munni gamals jafnaðarmanns fyrir utan rökleysurnar. Auðvitað er hrunið spurning um vonda kapítalista - ekki spurning um ábyrgð Íslendinga, allra síst venjulegs fólks. Auk þess var það ekki almenningur, alþýðan, sem lagði inn á reikninga íslenskra banka í útlöndum. Það voru smáborgarar sem ætluðu sér að verða auðugir. Fégræðgin, sem er upphaf alls ills, blindaði þá.
Þegar gamli ráðherrann spyr hvernig íslenskur almenningur ætlar að koma fram við stéttarbræður sína á Íslandi, felst í því augljós rökleysa, eins og víðar í greininni. Þá getur gamall alþingismaður og ráðherra ekki talið sig í hópi venjulegs fólks, þótt hann gjarna vildi. Hann er í hópi blindra - svo ég segi ekki spilltra stjórnmálamanna, sem heyra fortíðinni til, en reyna enn að láta á sér bera og kenna öðrum um og gangast helst ekki við eigin ábyrgð.
Sannarlega þurfum við Íslendingar að eiga góð samskipti við aðrar þjóðir, eins og við höfum reynt. Hins vegar hafa afvegaleiddir jafnaðarmenn í Bretlandi, flokksbræður gamla ráðherrans, sett Íslendinga á bekk með hryðjuverkamönnum - og á þann vönd kyssi ég ekki, þótt gamli ráðherrann geri það.
Íslendingar eiga margra kosta völ og geta selt dýrmætar vörur sínar til annarra en ójafnaðarmannanna í Evrópusambandinu og byggt upp traust lýðræðisþjóðfélag jafnaðarmanna og jafnréttis á öllum sviðum á grunni sögu okkar og menningar, mannauðs og náttúruauðlinda sem seint þrýtur. Þá getur gamli ráðherrann áfram keypt föt frá útlöndum.
Og að lokum þetta: Íslenska þjóðin hefur ekki glatað trausti nágranna sinna á Norðulöndum, eins og gamli ráðherrann segir. Þar eigum við enn vini og þá vináttu skulum við rækja, eins og gamall samstarfsráðherra Norðurlanda hlýtur að skilja.
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þessa fínu grein og annað gott sem ég hef lesið hér á þessari síðu.
Svavar Alfreð Jónsson, 4.7.2009 kl. 01:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.