4.7.2009 | 21:00
Orðvísi Davíðs
Eins og oft áður ratast Davíð Oddsyni satt orð á munn og hann kemur betur orðum að skoðunum sínum en flestir aðrir, þótt stundum sér kjaftur á keilunni þegar hún gapir.
Viðtal hans í MBL á morgun, sunnudag, á vonandi eftir að hrista upp í mönnum, ekki síst alþingismönnum. Í ljósi upplýsinga þeirra, sem koma fram koma í viðtalinu, verða íslenskt stjórnvöld, Alþingi og rikisstjórn, að endurskoða afstöðu sína frá grunni.
Tvennt í viðtalinu er merkilegast að mínum dómi. Í fyrsta lagi niðurstöður skýrslu nefndar OECD sem fjallaði um evrópsk tryggingamál og innstæðutryggingar og unnin var undir stjórn núverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet. Í skýrslunni segir að innstæðutrygginakerfið gildi ekki ef um algert bankahrun sé að ræða í viðkomandi landi.
Hitt atriðið, sem Davíð Oddsson bendir á af glöggskyggni sinni, er að varnarþing mála, sem tengjast Icesafe, er á Íslandi. Vilji einhver sækja mál á hendur Landsbankanum eða íslenska ríkinu skal málið rekið fyrir íslenskum dómstólum. Þarf frekar vitnanna við.
Athugasemdir
Gott hjá þér, Tryggvi, – og gaman að sjá mann í þínum þyngdaraflsflokki hér á Moggabloggi. Verðugt væri að fá eitthvað af þessum greinum þínum í blaðið sjálft. Þessi tvö atriði, sem þú bendir á, eru svo mikilvæg, að ég ætla að biðja þig leyfis til að vitna í þá málsliði þína (í væntanlegri blogggrein um sömu frétt) og vísa um leið í þennan pistil þinn.
En þessi orð þin: "Hins vegar skil ég ekki af hverju Davíð Oddson skrifaði svo undir viljayfirlýsingu af hálfu Seðlabanka Íslands 11. nóvember 2008 að virða allar skuldbindingar tryggingakerfisins. Sú aðgerð þarf augljóslega frekari skýringa við," má sumpart taka undir og í vissum (mis)skilningi ekki! Ég tel, að menn hafi leikið sér að eldinum með slíkri yfirlýsingu, sem gat afvegaleitt útlendinga. Hún skuldbatt hins vegar ekki íslenzka ríkið til að greiða Icesave-skuldir Landsbankans, enda hafði Seðlabanki íslands og seðlabankastjórarnir í þriðja veldi enga heimild til að leggja kvaðir á ríkissjóð Íslands. Þá heimild hafði og hefur einungis Alþingi, og þarf til lög og síðan staðfestingu forsetans. Ekkert slíkt er hér fyrir hendi.
Jón Valur Jensson, 4.7.2009 kl. 22:15
Þú mátt gjarna vitna í orð mín, Jón Valur. Með viðtalinu við Davið Oddsson opnast enn nýtt svið í þessum hildarleik, sem ég vil rekja til "vondra kapítalista" og kjarklítilla og vanhæfra stjórnmálamanna, og ef allt er satt, sem Davíð segir, eiga stórtíðindi eftir að gerast í íslenskum stjórnmálum.
Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 4.7.2009 kl. 22:42
Kærar þakkir, Tryggvi. Og um það, sem þú segir hér með svo þungvægum orðum, hygg ég að þú munir reynast sannspár.
Jón Valur Jensson, 4.7.2009 kl. 22:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.