8.7.2009 | 18:37
Skuldir óreiðumanna
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri iðnaðarins, skrifar í dag grein í Morgunblaðið, sem er skýr, skorinorð og vel skrifuð.
Erfitt er hins vegar fyrir óbreytta alþýðumenn eins og mig að átta mig á hinum æðri fjármálavísindum. Hins vegar skil ég vel orð Jóns Steindórs þegar hann segir að mikilvægasta verkefni Íslendinga sé að efla og treysta atvinnulífið hratt og örugglega svo það geti aflað þjóðarbúinu tekna til þess að standa undir skuldbindingum þjóðarinnar.
Jón Steindór bendir á að endurreisa verði traust alþjóðasamfélagsins á íslensku atvinnulífi. Slíkt sé forsenda þess, að íslensk fyrirtæki geti átt eðlileg viðskipti við umheiminn. Þess vegna eigi Alþingi ekki annan kost en samþykkja frumvarpið um Icesafe til þess að deilur við nágrannaríki dragist ekki á langinn. Íslenskt atvinnulíf geti ekki búið við óvissu og einangrun.
Þetta kann allt að vera satt og rétt. Hins vegar er ekki ljóst hverjar raunverulegar skuldbindingar Íslendinga eru, þ.e.a.s. ríkissjóðs eða almennings. Skuldbindingar Landsbankans vegna Icesafe eru ekki skuldbindingar ríkissjóðs eða almennings.
Það er síðan hlutverk sjálfstæðra atvinnufyrirtækja á Íslandi og samtaka þeirra, Samtaka atvinnulífsins, að endurreisa traust alþjóðasamfélagsins á atvinnulífi á Íslandi. Traust alþjóðasamfélagsins á öðrum þáttum íslensks samfélags hefur ekki beðið tjón, s.s. traust á háskóla- og rannsóknarsamfélaginu, listum og menningu lands og þjóðar, og enn eigum við marga vini í útlöndum.
Vilji erlend fyrirtæki sækja íslensk fyrirtæki til saka vegna skulda eða vanefnda, verður að láta reyna á það fyrir dómi. Varnarþing íslenskra fyrirtækja er á Íslandi, eins og gamall nemandi minn, Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari, hefur bent á og Davíð Oddsson og fleiri hafa tekið upp eftir honum. Svo einfalt er það.
Samþykki Alþingi núverandi Icesafe samning, er lagður skuldaklafi á almenning í landinu um ófyrirsjáanlega framtíð. Þá er verið að hengja bakara fyrir smið og íslenskir launþegar og látnir greiða "skuldir óreiðumanna". Það er ekki réttlæti heldur fullkomið ranglæti.
Samtök atvinnulífsins undir styrkri stjórn Jóns Steinars Valdimarssonar, gamals nemanda míns, verða að finna leið til þess að endurreisa íslenskt atvinnulíf og traust alþjóðasamfélagsins á því. Það erhlutverk þeirra.
Athugasemdir
Takk fyrir góðan pistil Tryggvi.
Sönn orð og rétt. Ætti að birtast á forsíðu Moggabloggsins. Forsenda vitrænnar umræðu er að eitthvað vitrænt sé birt þar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.7.2009 kl. 11:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.