Icesafe - samningur til bjargar Íslandi

Því er haldið fram að enginn samningur verði erfiðari Íslendingum en Icesafe samningurinn síðan Gamli sáttmáli var gerður 1262. Gamli sáttmáli er án efa örlagaríkasti samningur í þúsund ára sögu þjóðarinnar. Með honum glötuðu Íslendingar sjálfstæði sínu og urðu skattland erlendra ríkja hálfa sjöundu öld.

Með Icesafe samningnum er hins vegar verið að leita leiða til að endurreisa virðingu og efnahag íslensku þjóðarinnar og tryggja framtíð Íslendinga í samfélagi þjóðanna.

Það er því út í hött að bera saman þessa samninga og ber annaðhvort vitni um þekkingarleysi eða lýðskrum – nema hvort tveggja sé.

Rætur Gamli sáttmála

Orsakir þess að Gamli sáttmáli var gerður og þjóðveldið leið undir lok voru margar og flóknar. Meginorsökin var þó sú að skipulag þjóðveldisins var orðið úrelt og átti sér enga hliðstæðu í Evrópu og hafði raunar veri gallað frá upphafi. Ekkert sameiginlegt framkvæmdavald var fyrir hendi og þegar komið var fram á 13du öld logaði landið í illdeilum og skipaferðir til útlanda voru í hættu vegna þess að Íslendingar áttu sjálfir engin skip lengur.

Orsakir hruns íslensku bakanna sem leiddu til erfiðleika í íslensku atvinnulífi eru einnig margar og flóknar og naumast á færi nokkurs manns að greina þær enn. Meginástæður voru hins vegar þrjár: ágirnd, hroki og mannfyrirlitning en þetta þrennt var fyrrum talið til dauðasyndanna sjö. Íslendingar stóðu í október einangraðir og öllu trausti rúnir og lánalínur til útlanda voru lokaðar.

Tilgangur Icesafe samningsins

Icesafe samningurinn er gerður til þess að leysa þennan vanda og hann er gerður að bestu manna yfirsýn. Formaður íslensku samninganefndarinnar var Svavar Gestsson sendiherra, margreyndur stjórnmálamaður sem hafði með  sér trausta ráðgjafa, starfsfólk Seðlabanka og þriggja ráðuneyta auk íslenskra hagfræðinga og lögfræðinga með sérþekkingu og mikla yfirsýn.

Þegar stjórnmálamenn og fréttaskýrendur saka slíkt fólk um vanþekkingu og óheilindi, gera þeir hinir sömu lítið úr sjálfum sér og menntun þjóðarinnar og hitta sjálfa sig fyrir. Ef besta fólk þjóðarinnar er vankunnandi og því er ekki treystandi, hvernig er þá um hina verstu sem hafa hvorki reynslu né þekkingu. Slíkur málflutningur ber vitni um tortryggni eða vænisýki og vometakennd og leiðir þjóðina í ógöngur.

Málflutningurinn felur einnig í sér þá trú að Íslendingar geti ekki ráðið fram úr vandanum sjálfir heldur verði að leita til útlendinga með alla hluti, enda hefur sá málflutningur einnig heyrst af hálfu stjórnmálamanna og fréttaskýrenda.

Ábyrgð

Icesafe samningurinn er gerður á ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem hefur sér til fulltingis Indriða H. Þorlákssonar hagfræðing, fyrrverandi ríkisskattstjóra, margreyndan og traustan embættismann. Hvorugur þeirra átti nokkra aðild að svikum þeim sem liggja að baki hruninu, en hreinsa nú upp eftir óreiðumenn.

Engum vafa er undirorpið að báðir eru vanda sínum vaxnir. Steingrímur J. Sigfússon er einn reyndasti stjórnmálamaður landsins og hefur auk þess lagt pólitíska framtíð sína að veði til þess að vinna þetta endurreisnarstarf. Er honum betur treystandi en öðrum íslenskum stjórnmálamönnum til þess að leysa úr þessum vanda þjóðarinnar.

Tilgangur Icesafe

Megintilgangur Icesafe samningsins er að láta Íslendinga axla siðferðilega ábyrgð sem þeir bera sem þjóð, án þess almenningur – hver og einn einstaklingur – eigi hlut að máli og enga sök á hruninu. Icesafe samningurinn á einnig að rétta hlut útlendinga sem trúðu á fagurgala nýríkra auðmanna. Síðast en ekki síst er samningnum ætlað að endurvekja traust annarra þjóða á Íslandi og Íslendingum. Það er megurinn málsins.

Allar líkur benda til þess, að eftir sjö ár – þegar afborganir hefjast vegna samningsins – hvíli á ríkissjóði skuld sem nemur um 20% landsframleiðslu. Þessa skuld skal greiða á átta árum. Afborganir nema því tveimur til þremur prósentum af landsframleiðslu Íslendinga á ári að meðtöldum vöxtum. Undir þessu getur þjóðin risið - og undir þessu verður þjóðin að rísa, bæði til þess að sýna hvers hún er megnug og til þess að sýna hvað hún vill: góð samskipti við aðrar þjóðir.

Möguleikar Íslendinga í framtíðinni eru fjölmargir og afkoma þjóðarinnar trygg ef auðlindir og mannauður eru rétt nýtt og lýðskrum og rangar upplýsingar villa mönnum ekki sýn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband