Hvað sameinar eina þjóð

Atburðir undanfarna mánuði og misseri hafa vakið til umhugsunar um hvað sameini þessa sundruðu þjóð, hver séu gildi samfélagsins og styrkur íslenskrar menningar og hvort fámenn þjóð, sem eitt sinn var talin búa á mörkum hins byggilega heims, geti staðið auðvaldi heimsins snúning á tímum hnattvæðingar, sem svo er kölluð.

Einnig hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort starfshættir stjórnmálaflokka og fjölmiðla á Íslandi séu með svipuðum hætti og hjá frændþjóðum okkar, en í ljós hefur komið að siðferði í stjórnmálum og traustir fjölmiðlar skipta sköpum fyrir virkt lýðræði og farsælt stjórnarfar.

 

Land, þjóð og tunga

Þrennt sameinar þjóð og má kalla sameign hennar. Í fyrsta lagi landið sem hún byggir. Í öðru lagi sagan og í þriðja lagi tungan sem þjóðin hefur alið af sér. Engin þjóðernishyggja býr að baki þessum orðum heldur eiga orðin við allar þjóðir sem ala með sér vitund um að vera þjóð og vilja vera þjóð.  

Lengi gat Ísland aðeins brauðfætt um 50 þúsund manns vegna kulda og harðinda, lítillar verkmenningar og lélegs stjórnarfars. Á 18du öld, erfiðustu öld í sögu þjóðarinnar, fækkaði fólki stöðugt. Í upphafi aldar voru landsmenn um 50 þúsund, álíka margir og þeir höfðu verið um 1200. Í Stóru bólu 1706-1709 fækkaði fólki um þriðjung og voru Íslendingar þá aðeins 36 þúsund og hafa aldrei orðið færri í sögu þjóðarinnar og urðu ekki 50 þúsund aftur fyrr en 1825. Mannfjöldi í Danmörku og Noregi hafði þá þrefaldaðist frá því um 1200. Ísland var þá á mörkum hins byggilega heims.

Fólksfjölgun er nú meiri á Íslandi en í flestum löndum Evrópu. Veðurfar fer hlýnandi, verkkunnátta er sambærileg við nágrannalöndin og landgæði eru mikil: ósnortin víðerni, auðug fiskimið, orka í fallvötnum og jarðvarma, hreint vatn og hreint loft og stórbrotin og fjölbreytileg náttúra. Ræktun og uppgræðsla hefur tekið stakkaskiptum, skógrækt er orðin atvinnugrein og farið að rækta korn og grænmetisrækt á sér framtíð ef orka er nýtt til slíkrar framleiðslu og rétt er á málum haldið. Allt er þetta styrkur fyrir þjóðina.

 

Þúsund ár á einni öld

Styrkur íslensku þjóðarinnar felst í fleiru. Á einni öld hefur samfélagið breyst úr einagruðu bændasamfélagi í margskipt þjóðfélag í stöðugum tengslum við umheiminn. Menntun er sambærileg menntun nágrannaþjóðanna. Rannsóknir og vísindi hafa stóreflst. Sem dæmi má nefna að fyrir 50 árum höfðu fáir tugir Íslendinga lokið doktorsprófi. Nú skipta íslenskir doktorar þúsundum.

Heilsugæsla er ekki síðri en í nágrannalöndunum og barnadauði, sem í lok 19du aldar var hæstur á Íslandi af öllum löndum Evrópu, er nú lægstur í heiminum. Þetta sýnir framfarirnar í hnotskurn.

Fyrir rúmri öld var landið dönsk hjálenda. Borgmenning hafði ekki fest rætur og gamalt bændasamfélag var einrátt. Níu af hverjum tíu bjuggu í sveit og þjóðhátíðarárið 1874, þegar Íslendingar fengu danska stjórnarskrá, bjuggu rúmlega tvö þúsund manns í þorpinu Reykjavík af þeim 70 þúsund sem í landinu bjuggu.

Nú er Ísland sjálfstætt og fullvalda ríki með trausta innviði, gott heibrigðiskerfi, þjóðin er vel menntun og auðlindir landsins miklar. Af þeim sökum má segja að Ísland hafi ferðast þúsund ár á einni öld.

 

Tunga, menning og listir

Íslensk tunga er fornlegasta tungumál Evrópu – sem í raun er mikill styrkur því að hvert mannsbarn getur lesið bókmenntir þjóðarinnar í þúsund ár. Tungan hefur heldur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Nýyrðasmíð er öflug og fleiri nota íslensku í daglegu starfi og tómstundum en nokkru sinni. Ritað er um flest þekkingarsvið á íslensku. Leikritun, ljóðagerð og skáldsagnaritun standa með blóma og nýmæli hafa komið fram í auglýsingagerð og orðanotkun. Menning og listir blómstra, bæði leiklist, tónlist og myndlist – og staðarmenning vex um allt land og íslensk hönnun vekur athygli. Stjórnvöld og almenningur eru einhuga um málrækt og er síðasta dæmið íslensk málstefna, sem Alþingi samþykkti í mars í vetur, en markmið hennar er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Þetta er styrkur og dýrmæt sameign þjóðar.

 

Hrunið og hið alþjóðlega auðvald

Í lok 19du aldar var Ísland eitt fátækasta land í Evrópu. Hagtölur árið 2002 sýna hins vegar að landsframleiðsla á mann var þá 10% hærri en meðaltal í löndum Evrópusambandsins. En svo kom hrunið. Í ljós kom að velsældin byggðist á svikagróða og blekkinum, sýndarmennsku og gróðafíkn – en fégirndin upphaf alls ills.

Reynt er að grafast fyrir um orsakir hrunsins og stjórnvöld leita leiða til bjargar þjóð sem er skuldum vafin eins og skrattinn skömmunum. Reynt er að finna þá sem valdir eru að ósköpunum og gerðust brotlegir við lög – og er skömm þeirra mikil. Már Guðmundsson hagfræðingur segir í grein í vorhefti SKÍRNIS að erfitt sé að skilja flókna atburði meðan þeir gerast. Eigi það við um fjármálakreppuna sem tröllriðið hafi heimsbyggðinn, ekki síst vegna þess að áhrifin séu enn ekki komin fram og viðbrögð stjórnvalda í mótun. Í bók sinni um HRUNIÐ rekur Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur atburði vetrarins frá degi til dags. Það er ljót lesning og bregður upp skuggalegri mynd af fjármálum á Íslandi þar sem fákunnátta og óheilindi einkenna öll viðskipti. Eftir lesturinn má efast um að fámenn þjóð geti staðið alþjóðlegu auðvaldi snúning nema til komi meiri þekking, aukinn heiðarleiki, virkara lýðræði og traustari stjórn.

Óvarlegt er að blanda sér í umræður um efnahagsmál. Þó virðist krafa auðvaldsins um 20% arð af fé hljóti að leiða til ófarnaðar. Ekkert fyrirtæki getur skilað slíkum arði nema hagur starfsmanna sé fyrir borð borinn eins og í löndum þriðja heimsins þar sem enn er stundað arðrán, angi af gömlu nýlendustefnunni. Þetta arðrán og arðsemiskrafa er birtingarmynd fégræðgi – og meginorsök hrunsins.

 

Umræðuhefð og stjórnmálasiðferði

Hér að framan var að því vikið hvort starfshættir stjórnmálaflokka og fjölmiðla væru með sama hætti og í nágrannalöndunum, en rannsóknir hafa leitt í ljós að siðferði í stjórnmálum og staða og starfshættir fjölmiðla skipta sköpum fyrir málefnalega, lýðræðislega umræðu og frjálsa skoðanamyndun og farsælt stjórnarfar.

Samanburður á starfsháttum stjórnmálaflokka og umræðuhefð í Danmörku og Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar leiðir í ljós mun. Umræða er þar málefnalegri og ekki eins gildishlaðin og hér. Brigslmælgi og stóryrði, sem stjórnmálamenn á Íslandi temja sér, er óhugsandi í Danmörku og Noregi. Með slíkri hegðan græfu stjórnmálamenn á Norðurlöndum sér gröf. Hér á landi eru stóryrði iðulega talin merki um djörfung og festu og talin hafa skemmtanagildi.

Þessi umræðuhefð setur svip á störf Alþingis sem iðulega minnir meir á sjónleikahús en löggjafarsamkomu. Umræðuhefðin hefur aukið tortryggni milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og komið í veg fyrir eðlilegt samstarf – jafnvel á örlagastundu. Má fullyrða að ein ástæðan fyrir erfiðleikum íslensku þjóðarinnar nú eigi rætur að rekja til sundurlyndis íslenskra stjórnmálamanna og lélegs stjórnmála-siðferðis og frumstæðrar umræðuhefðar.

 

Fjölmiðlar

Íslenskir fjölmiðlar hafa oft verið þess vanmegnugir að brjóta til mergjar og skýra á yfirvegaðan hátt atburði liðandi stundar. Veldur margt, s.s. fámenni og eignarhald á fjölmiðlum. Sá fréttamiðill, sem ber af og nýtur mests trausts, er fréttastofa útvarps. Er vonandi að breytt skipulag og hagræðing breyti því ekki.

Nokkrir íslenskir fréttamenn og blaðamenn eru hins vegar því marki brenndir að vilja frekar vekja athygli – selja fréttir – en upplýsa mál á hlutlægan hátt. Þá hafa einstaka umræðuþættir í sjónvarpi einkennst af yfirheyrsluaðferðinni þar sem stjórnandi reynir að koma höggi á viðmælanda, gera hann tortryggilegan og fella yfir honum dóm. Í stað dómstóls götunnar – kjaftagangsins – er því kominn dómstóll fjölmiðla. Vegna þessa hafa iðulega ekki fengist svör við spurningum og almenningur situr eftir ringlaður með óbragð í munninum.

Í Danmörku og Noregi leita þáttastjórnendur svara á hlutlægan hátt og fella ekki dóma – heldur er hlustendum látið eftir að draga ályktanir.

 

Frumstæð umræðuhefð

Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar hér á landi eru margar. Borgmenning hefur ekki fest rætur með þeirri tillitssemi og persónulegu fjarlægð sem slíka menningu einkennir. Fámennið veldur því einnig að úrval fréttamanna er minna, allir þykjast þekkja alla og návígið nálgast iðulega dónaskap. Stéttskipting og agi hafa einnig verið með öðrum hætti en í flestum Evrópulöndum og enn eimir eftir af agaleysi bændasamfélagsins. Yfirveguð umræða er grundvallarþáttur í lýðræðislegri endurreisn og aukinni samfélagsmenningu á Íslandi. Þar gegna fjölmiðlar mikilsverðu hlutverki - ásamt skólunum.

 

Stjornlagaþing - samfélagssáttmáli

Íslensk þjóð hefur áður gengið gegnum erfiðleika og sigrast á þeim. Það mun hún einnig gera nú með dugnaði og samstöðu og á grundvelli dýrmætra sameigna sinna – lands, sögu og tungu – en einnig á grundvelli aukinnar menntunar og náttúruauðlinda.

Samhliða endurreisn efnahagslífs verður að fara pólitísk endurreisn: aukin mannvirðing, jafnrétti á öllum sviðum, meira gagnsæi, betri upplýsingar, bætt siðferði í stjórnmálum, aukinn heiðarleiki í viðskiptum og fjármálum - og bætt umræðuhefð.

Til að stuðla að þessu þarf að efna til sjálfstæðs stjórnlagaþings – stjórnlagaþings þjóðarinnar – sem kosið er til í almennum kosningum með landið sem eitt kjördæmi. Sjálfstætt stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá geta stuðlað að því að sameina sundraða þjóð, lægja öldur og vekja von – og auka traust á Alþingi, stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá gæti því orðið samfélags-sáttmáli í kjölfar mesta áfalls í sögu íslenska lýðveldisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband