Ein þjóð - ein tunga

Lengi hefur verið vitnað til orða Snorra Hjartarsonar: „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein”, orða Jónasar um „Ástkæra ylhýra málið” og orða Einars Benediktssonar: „Ég skildi að orð er á Íslandi til / um allt sem er hugsað á jörðu.” Þá er haft eftir Sigurði Nordal: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku“. Þessi ummæli lýsa viðhorfi margra.

Úlfar Bragason skrifar í Fréttabréfi Stofnunar Sigurðar Nordals 2, 2000:

Íslendingum er tamt að líta svo á að þjóðerni þeirra sé falið í tungumálinu og þeim bókmenntum sem á því hafa verið ritaðar. Íslensk málrækt hefur því oft snúist upp í málvernd, íhaldsemi og þröngsýni. Þegar verst gegnir þola menn ekki annað tungutak en sitt eigið og skiptir þá litlu hvort það er betra en annarra. Þetta viðhorf hefur síðan meðvitað eða ómeðvitað bitnað á útlendingum sem hafa viljað læra málið. Gengið er út frá því að þeim muni varla eða aldrei takast að ná valdi á því enda sé íslenskan svo erfitt mál. Að vísu verða menn að viðurkenna að dæmin sýna annað en einatt er litið á þau sem undantekningar. ...

Viðhorf Íslendinga til eigin tungu hefur valdið því að mikla einbeitni hefur þurft hjá erlendu fólki sem hefur viljað læra málið. Erfitt hefur reynst að finna kennsluefni við hæfi og framboð á kennslu hefur verið lítið. Þessi viðhorf landsmanna gera líka erlendu fólki erfitt fyrir að setjast að á Íslandi því það hættir seint að vera utangarðs í málsamfélaginu enda allt of lítið hjálpað til að nema málið. 

Undanfarnar vikur hefur Veðurstofa Íslands látið tvo útlendinga - sennilega nýbúa - lesa veðurfréttir annan veifið. Framtak Veðurstofunnar er sannarlega umhugsunarvert: að leyfa starfsmönnum, sem hafa lagt á sig það erfiði að ná tökum á þessu flókna máli, að lesa veðurfréttir. Ef til vill má líta á þetta frumlega framtak sem tilraun til að sýna nýbúum virðingu og vekja athygli á mikilvægi málsins í samfélaginu - þessu samfélagi á Íslandi sem er ekki lengur einsleitt og einangrað heldur hefur færst nær hringiðu umheimsins með flóknu tungumálakerfi sínu, átökum og tortryggni. 

Á hinum Norðurlöndum hefur það ekki gerst - að því best er vitað - að nýbúar hafi fengið að koma fram í útvarpi eða sjónvarpi með þessum hætti. Í Noregi eru tvö ríkismál og fjölmargar mállýskur og í norska ríkisútvarpinu NRK, bæði útvarpi og sjónvarpi, eru þessar mallýskur virtar. Í BBC má heyra margs konar ensku, eins og lesendur vita. En erlendir málhafar fá ekki inni við fréttalestur í NRK eða BBC né annars staðar sem vitað er til.

Framtak Veðurstofunnar er sannrelega umhugsunarvert og til fyrirmyndar. Þrátt fyrir það ber að rækta íslenska tungu sem þjóðtungu landsmanna hvaðan sem þeir eru upprunnir, enda er það samdóma álit nýbúa á Íslandi - eins og víðast hvar annars staðar - að til þess að geta tekið þátt í lífi og starfi samfélagsins verði þeir að læra þjóðtunguna.

VIKUDAGUR 11. ágúst 2016 


"Veistu af hvers konar völdum, menn vankast snemma af?”

Fróðlegt er að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í gær. Fyrirsögnin er: „Veistu af hvers konar völdum, menn vankast snemma af?” Fyrirsögnin endurómar upphafsorð þýðingar Steingríms Thorsteinssonar á ljóði Heinrichs Heine, Loreley:

Eg veit ekki af hvers konar völdum / svo viknandi dapur eg er.

Ef til vill hefði höfundur Reykjavíkurbréfs átt að nota orð skáldbróður síns ómenguð, því að þau virðast lýsa mun betur hug hans og efni bréfsins.

Fyrsti kafli bréfsins heitir „Þreytt fyrir tímann”. Þar segir:

Væntanlega er mest að marka það sem gerist í opnum, upplýstum og lýðræðislegum þjóðfélögum. Varla er nýjabrum lýðræðisins fokið út í veður og vind. Þetta er glænýtt fyrirkomulag. En þó virðist óneytanlega á því þreytueinkenni. Afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð. 

Rétt er að benda á orðin: „Afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.” Síðar segir höfundur:

Stór hluti jarðarbúa hefur ekki enn fengið að kynnast lýðræðinu, nema af afspurn. ... Mannréttindasáttmálar eru til og manréttindadómstólar, en því fer fjarri að heimurinn allur lúti þeim. Sumir gera það meira á orði en borði, en aðrir alls ekki og komast upp með það. En hvernig stendur á því, að einmitt þar sem lýðræðislegar leikreglur eru í heiðri hafðar, sé álitið á leiðtogunum sem almenningur hefur sjálfur valið svona lítið. 

Höfundur Reykjavíkurbréfsins svarar spurningunni þannig, að almenningi sé „löngu orðið ljóst að ekkert sé að marka” orð leiðtoganna.

Lýðræðislegir valdamenn hafa nokkur völd, þótt misjafnt sé eftir löndum. Í létt - lýðræðisríkjum, sem óþarft er að nefna, geta völd manna verið býsna mikil. Helsta ástæða þess er sú að jafnvægi vantar. Það skortir öfl sem veita valdhöfunum aðhald. Þar má nefna öfluga stjórnarandstöðu, frjálsa fjölmiðla, gagnsæja stjórnsýslu og á lokastogi dómstólana.

Þetta eru eftirtektarverð orð Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, en það blað hefur ekki talist til frjálsra fjölmiðla. Jafnvægi í stjórnmálum á Íslandi má lýsa með því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn nær 55 ár af 72 árum lýðveldistímans - eða nær 8 ár af hverjum 10 árum. Hefur enginn flokkur á Vesturlöndum átt viðlíka fylgi - og völdum að fagna og enginn annar flokkur hefur setið lengur í ríkisstjórn í lýðræðislandi. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum hefur lengst af verið um 40%, ef undan eru skildar 2009 þegar flokkurinn fékk 23.7% fylgi í kjölfar Hrunsins sem margir rekja til einkavæðingarstefnu flokksins undir stjórn Davíðs .

Einu fulltrúar fólksins í kerfinu

Áður en höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins víkur að lokum að hinu „ólýðræðislega sambandi í álfunni” - Evrópusambandinu - segir hann: „Enn sem fyrr eru þó stjórnmálamenn einu fulltrúar fólksins í kerfinu.” Þessi orð lýsa takmörkuðum skilningi á nútíma lýðræði og gamaldags og úreltri afstöðu. Að vísu er ekki ljóst við hvað höfundur á með orðinu „stjórnmálamenn”, en það virðist merkja fulltrúar á Alþingi, alþingismenn og ráðherrar. Í nútíma lýðræðisríki á almenningur fjölmarga fulltrúa. Í dag ber að nefna forseta Íslands, sem telur mikilsverðasta hlutverk sitt að hlusta á og þjóna almenningi, umboðsmann Alþingis, umboðsmenn barna, sveitarstjórnarmenn og kennara, svo nokkur dæmi séu tekin, auk þess sem stjórnarskrá lýðveldisins og lög veita almenningi tryggingu.

Lokaorð Reykjavíkurbréfs gærdagsins skjóta síðan skökku við, að enn sem fyrr séu stjórnmálamenn einu fulltrúar fólksins í kerfinu. Lokaorðin hljóða þannig í Drottins nafni: „Fyrst að stjórnmálamenn hafa sjálfviljugir svipt sig völdum að mestu, gerir þá nokkuð til þótt við kjósum t.d. Pírata, sem enginn veit fyrir hvað standa.” Þessi orð bera svip þess sem höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins fordæmdi í upphafi: að afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband