Ný nafnalög

Innanríkisráðuneytið hefur kynnt drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Með nýjum lögum er ætlunin að lög um mannanöfn nr. 45/1996 falli úr gildi. Í greinargerð ráðuneytisins með frumvarpinu segir að rétt sé talið að felldar séu úr gildi takmarkanir á nafngjöf og lögð áhersla á, að með því sé fullorðnum einstaklingum og foreldrum barna gefið frelsi til að velja nöfn sín og barna sinna. Mannanafnanefnd yrði lögð niður - enda óþörf, eins og segir í greinargerðinni.

Nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska stafrófsins. Eiginnöfn skulu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis. Sé eiginnafn af íslenskum uppruna skal það falla að íslensku beygingarkerfi, en það er ekki skilyrði ef um viðurkennt erlent nafn er að ræða. Uppfylli nöfn ekki þessi skilyrði þessarar ber Þjóðskrá Íslands að hafna skráningu.

 

Endurskoðun laga eðlileg

Ekki er óeðlilegt að lög um mannanöfn séu endurskoðuð vegna breyttra viðhorfa og breyttra aðstæðna í samfélaginu. Í greinargerð Innanríkisráðuneytisins segir að á undanförnum árum hafi umræða um mannanafnalöggjöfina verið áberandi í samfélaginu, meðal annars í tengslum við ákvarðanir Mannanafnanefndar. Hefur því sjónarmiði því „vaxið ásmegin”, eins og stendur í greinargerðinni, að réttur manna til að ráða sjálfir nöfnum sínum og barna sinna sé ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að takmarka þennan rétt. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2013 hafi verið byggt á því að réttur manns til nafns félli undir vernd 71. greinar stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Því til stuðnings vísaði héraðsdómur til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu sem fellt hefur réttinn til nafns undir ákvæði í Mannréttindasáttmála Evrópu, en hún sé efnislega samhljóða 71. gr. stjórnarskrárinnar. „Af því leiðir að réttur til nafns verði aðeins takmarkaður með sérstakri lagaheimild ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra annarra, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu,” eins og segir orðrétt í greinargerð Innanríkisráðuneytisins.

 

Íslensk nafngiftarhefð

Endurskoðun laga er eðlileg við breyttar aðstæður og réttur einstaklinga er afar mikilsverður. En til eru fyrirbæri sem heita hefð, venjur, menning og málrækt. Því ber í „nýjum lögum um þjóðskrá og almannaskráningu” að takmarka rétt til nafns með sérstöku ákvæði til þess að koma í veg fyrir, að þúsund ára gamlar nafngiftarvenjur Íslendinga njóti réttarverndar sem eru mikilsverður hluti af menningunni. Fela má Þjóðskrá Íslands að gæta gamallar nafngiftarhefðar, enda er unnt að leita álits Árnastofnunar eða Íslensku og menningarsviðs Háskóla Íslands um vafamál eða ágreiningsmál.

Að lokum má benda Innanríkisráðuneytinu á norsku nafnalögin frá 2006, Lov om personnavn, navneloven. Lögin eru vel skrifuð, sett fram á einfaldan hátt og skynsamlega haldið á málum. Réttindi einstaklinga - ekki síst barna - eru virt, en um leið er tekið tillit til hefðar og venju í samfélaginu.


Verður er verkamaðurinn launanna

Átök eru sífellt aukast í heiminum og verða ef til vill ekki umflúin við þá misskiptingu sem viðgengst þegar 5% eiga 95% auðsins og þeir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Birtingarmynd þessarar efnahagslegu misskiptingar og örbirgðar, sem fylgir í kjölfarið, blasa við hverjum sem vilja sjá alla daga sem guð gefur yfir. Þess vegna ber öllu hugsandi, ábyrgu og viti bornu fólki að vinna gegn aukinni misskiptingu, gegn auknu ranglæti og stuðla að samfélagi sem reist er á réttlæti, virðingu og jafnrétti.

Í okkar litla landi eru mörgum mislagðar hendur um þetta. Síðasta dæmið er úrskurður Kjararáð sem vakið hefur undrun og reiði þar sem notuð er „gamla góða” prósentureglan sem virðist vera réttlætið sem Kjararáð grípur til. Fyrir mörgum árum var reikningskennari fyrir norðan sem lagði þá spurningu fyrir nemendur sína í efsta bekk grunnskóla, hversu margir nemendur væru 30% af bekknum. Þegar í stað svaraði einn hvatvís og kunnáttulítill nemandi: “Kennari. Við erum bara 28 í bekknum.” Ætla mætti að þessi nemandi að norðan væri nú formaður Kjararáðs.

Fullskipað Kjararáð virðist ekki skilja það sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi þar sem sífellt er að aukast launamunur þeirra sem lægst hafa launi og t.a.m. hásettra embættismanna - að ekki sé talað um framkvæmdastjóra og formenn í einkafyrirtækjum. Ráðuneytisstjórar vinna gott verk og gegna mikilsverðu starfi, en með aukinni menntun og aukinni verkaskiptingu innan ráðuneytisins er álagi og ábyrgð af þeim létt. Sömu sögu er að segja um t.a.m. skólameistara. Fyrir 50 árum höfðu skólameistarar engan aðstoðarmann. Nú eru aðstoðarmenn skólameistara - og rektora við menntaskóla og framhaldsskóla margir og verkskipting mikil.

Í lögum nr. 47 14. júní 2006 er að finna starfsreglur sem Alþingi setti Kjararáði. Þar stendur, að „við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar ... og ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði”. Þetta er ekki gert í úrskurði Kjararáðs

Með því að nota reglu þá, sem Kjararáð notar - um sömu prósenttölu launahækkana allra - endar þetta með ósköpum eins og allir hugsandi menn sjá. Sem dæmi má taka að 25% launahækkun á 250 þúsund króna laun eru 62.500 krónur en sama prósentuhækkun á einnar milljón króna laun eru 250.000 krónur. Sé þessari reglu beitt fimm ár í röð, verða lægri launin orðið 610.352 krónur, en hærri launin - milljón króna launin - orðin 2.442.188 krónur og mismunurinn orðinn 1.831.836 krónur í stað 750.000 króna áður. Þetta gengur ekki. Vonandi setur nýtt Alþingi, sem margir binda vonir við, nýjar starfsreglur fyrir Kjararáð til að tryggja eðlilega launaþróun á vinnumarkaði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband