Samfélagssáttmáli og þjóðarsátt

Um áramót hvöttu formenn stjórnmálaflokka, forseti Íslands, biskup Íslands, prestar, forystumenn atvinnurekenda og launþega og flestir leiðarahöfundar dagblaða Íslendinga til þess að snúa bökum saman, slíðra sverðin og láta af bræðravígum og brigslmælgi og sameinast um endurreisn þjóðfélagsins eftir hrunið sem kalla má "móðuharðindi af manna völdum". 

Eftir viku kemur Alþingi Íslendinga saman eftir jólaleyfi. Þá er vonandi að andi sátta og samlyndis ríki og alþingismenn og alþingiskonur láti hvatningarorð góðra manna frá áramótunum lýsa sér veginn, ástundi yfirvegaða orðræðu, hugsi um almannaheill og leggi gott til mála.

Stóra spurningin er hins vegar sú, hvert íslenska þjóðin vill stefna, hvort kjósendur vilja breytingar, hvort almenningur vill breytingar á viðhorfi til lífsgæða - og menn spyrji sjálfra sig, að hverju þeir vilja stefna í lífinu.

Eitt af því sem gamall skólameistari að norðan spurði nemendur meira en aldarfjórðung var: Hver ert þú? Hvaðan ert þú? Hvert vilt þú stefna - og hvað viltu verða? Gamli skólameistarinn hefur sjálfur spurt sig þessara spurninga - og ekki haft illt  af. Því er sennilegt að ýmsir aðrir, alþýða manna, almenningur, kjósendur, alþingismenn og -konur og ráðamenn þessarar dugmiklu þjóðar hafi einnig gott af því að spyrja þessara fjögurra spurninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband