Ný hugsun - Nýtt Ísland

Margt bendir til þess að ný kynslóð sé að kveðja sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, bæði í gamla fjórflokkunum og nýjum flokkum eða framboðum, sem hafa hætt sér út á vígvöllinn, þar sem flestir verða sárir, allir ákaflega móðir og margur góður maður, karl eða kona, fer þaðan kalinn á hjarta, eins og Grímur Thomsen segir í kvæði sínu Á Glæsivöllum þar sem hann lýsir stjórnmálalífi á 19du öld. Kvæðið kallar hann Á Glæsivöllum. Þar er ekki allt sem sýnist, þrátt fyrir glæsileikann:

Hjá Goðmundi á Glæsivöllum gleði er í höll,

glymja hlátrasköll,

og trúðar og leikarar leika þar um völl,

en lítt er af setningi slegið.

 

Á Glæsivöllum aldrei

með ýtum er fátt,

allt er kátt og dátt,

en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,

í góðsemi vegur þar hver annan.

 

Náköld er Hemra,

því Niflheimi frá

nöpur sprettur á.

En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá,

kalinn á hjarta þaðan slapp ég.

 

Lýsing Gríms, bónda á Bessastöðum, getur vel átt við stjórnmálalíf á Íslandi undanfarna áratugi, eins og skrif Björns Bjarnasonar, Davíðs Oddssonar, Styrmis Gunnarssonar, Svavars Gestsonar - að ekki sé talað reiðilestra Sighvats Björgvinssonari - bera með sér. Allir virðast þeir að vísu hafa sloppið lifandi úr þessu ríki handan Hemru, fljótinu sem skilur á milli ríkis hinna lifandi og hinna dauðu, Niflheimi, en allir koma þeir aftur til mannheima með kalið hjarta.

Vonandi er að unga fólkið, sem nú kveður sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, getið sloppið við hjartakuldann. Mikilsverðast í því sambandi er að nýir stjórnmálamenn geti talað saman, bróðernið verði ekki flátt og gamanið ekki grátt, heldur tali fólk saman, hlusti á andstæðinginn eins og segir í Hávamálum: tala þarft eða þegja, eða eins og Rómverjar hinir fornu höfðu að orði á blómaskeiði sínu: Audiatur et altera pars - hlustið einnig á hinn aðilann. Ef stjórnmálamenn á Íslandi hlusta á hinn aðilann – og reyna að læra hver af öðrum- er von til þess að hilli undir nýtt Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mikið er ég sammála þér Tryggvi - ég skynja einmitt þessa nýju kynslóð og þá ekki sýst hina nýju hugsun sem er að verða meira og meira áberandi - þar er talað og hugsað með allt öðrum hætti - í lausnum til framtíðar - málin krufin og skoðuð í kjölinn - mistök skýrð og lagfært það sem aflaga fór - umhverfið virt og nýtt á nýjan hátt - ég er bjartsýn - ekkert annað í boði :)

Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.11.2012 kl. 18:24

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ef sú er staðreyndin, er það mér jafnmikið að skapi,sem ykkur. Það verður þá jafnramt að líta á ár rothöggsins/hrunsins,sem áfallastreitu-hegðun,þar sem stuðningsmenn annars hrunflokksins fengu allan óþverann,en hinn (sem koms til valda nú), hefur sýnt sig sem bandamann vogunnarsjóða og stórveldis-sambands ESB,auk taumlauss áróðurs gegn fyrrum samstarfsflokki. Það hefur leikið landsmenn grátt og gefið öðrum tilefni til að vantreysta öllum ráðamönnum,ekki síst þeim sem kenna sig við vinstrið.Nú ef landsfeðurnir sýna ekki gott fordæmi með orðheldni og sannleika,er trauðla hægt að ætlast til að venjulegir borgarar,sýni þolinmæði. Það má svo ætla að úr áfallinu dragi,sérstaklega þegar séð verður hversu frumhlaup þessara flokka er sýnilega gerrræðislegt,með sárri eyðileggingu eins og skoðanakannanir sanna. Það er því eðlilegt að kveði við annan tón,þegar vonin um áframhaldandi fullveldi lands okkar,er í sjónmáli,þrátt fyrir áframhaldandi tilraunir stjórnvalda til blekkinga.

Helga Kristjánsdóttir, 18.11.2012 kl. 03:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband