Ísland er land þitt

Ísland er land þitt

Landanámabók segir frá því að Flóki Vilgerðarson, víkingur mikill, fór af Rogalandi að leita Snælands. Sigldi hann frá Noregi þar sem mætast Hörðaland og Rogaland. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið og vestur um Reykjanes, fyrir Snæfellsnes og vestur yfir Breiðafjörð og tóku land þar sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. „Fjörðurinn allur var fullur af veiðiskap og gáðu þeir eigi fyrir veiðunum að fá heyjanna og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Var vor heldur kalt. Þá gekk Flóki norður á fjöll og sá fjörð einn fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland.”

Um sumarið sigldu Flóki til Noregs. Lastaði hann landið mjög, en einn af mönnum hans, Herjólfur, sagði kost og löst á landinu, og annar manna Flóka, Þórólfur, „kvað drjúpa smjör af hverju strái” og var því kallaður Þórólfur smjör”, segir í Landnámu.

Landnámabók hefur að geyma margvíslegan fróðleik, sögur, sagnir - og viðhorf. Fáir telja hins vegar lengur heimildagildi Landnámabókar mikið. En Landnámabók er mikilsverð heimild um örnefni, enda er frásögnin augljóslega víða byggð á örnefnum.

Nafngiftin Ísland vekur til umhugsunar, ekki síst í ljósi þess að samtíðarmenn höfunda Landnámabókar gerðu sér grein fyrir mikilvægi nafna og nafngifta, þar á meðal örnefna. Ari fróði segir frá því í Íslendingabók, sem er nokkru eldri en Landnámabók, að „land það, er kallað er Grænland, fannst og byggðist af Íslandi. Eiríkur hinn rauði hét maður breiðfirskur, er fór út héðan þangað og nam þar land, er síðan er kallaður Eiríksfjörður. Hann gaf landinu nafn og kallaði Grænland og kvað menn það mundu fýsa þangað farar, að landið ætti nafn gott.” Takið eftir: „að landið ætti nafn gott”.

Í Grænlendingasögu kemur fram sama viðhorf í nafngiftum. Þar segir frá því að Leifur heppni, sonur Eiríks rauða, fann lönd í vesturheimi. Hið fyrsta kallaði hann Helluland, en þar voru jöklar miklir hið efra og sem ein hella allt til jöklanna frá sjónum og þar óx ekki gras. Þeir fundu annað land, slétt og skógi vaxið og voru sandar víða hvítir og ósæbratt og kölluðu Markland, þ.e. „skógarland“. Enn komu þeir í land þar sem þeir höfðu vetursetu. Þar var meira jafndægri en á Grænlandi eða Íslandi, eins og stendur í Grænlendingasögu, þ.e.a.s minni munur á nóttu og degi. Í þessu landi fundu þeir vínvíð og vínber. Þegar voraði sigldi Leifur aftur til Grænlands. Gaf hann landinu nafn eftir landkostum - og kallaði Vínland.

Í upphafi kvæðis Margrétar Jónsdóttur „Ísland er land þitt“ - segir:

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir

Ísland í huga þér hvar sem þú ferð.

Ísland er landið, sem ungan þig dreymir,

Ísland í vonanna birtu þú sérð.

Ísland í sumarsins algræna skrúði,

Ísland með blikandi norðljósatraf,

Ísland er feðranna afrekum hlúði,

Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Ísland er kuldalegt nafn, gefið af manni sem lastaði landið mjög, eins og sumir menn gera enn í dag. Herjólfur sagði kost og löst á landinu, eins og eðlilegt er að gera, og „Ísland er land þitt“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Sæll Tryggvi!

Nema að það sé skilið eins og Gunnar Dal vildi skilja það:

>Hann vildi meina orðið IS-LAND þýddi í raun land "GUÐS"

af því að orðið IS þýðir "GUÐ" á sanskrýt en að orðið ICEland;

í merkingunni klaki hafi komið frá Bretum á 16.öld.

Einar Pálson fræðimaður vildi meina að landið væri skírt í höfuðið á Egypsku Gyðjuni ISIS;

sem var verndari eylanda.

-----------------------------------------------------------

(Þessi umræða á þó ekkert skild með öfgahópnum isis sem nú er í umræðunni tengt islam).

Jón Þórhallsson, 28.10.2014 kl. 12:19

2 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Finnst þér skýringar þeirra mætu manna, Gunnars Dal og Einars Pálssonar, ekki full langsóttar, Jón Þórhallsson? Menn voru svo vondir í sanskrít á landnáms- og söguöld.

Tryggvi Gíslason, 28.10.2014 kl. 20:47

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þetta eu bara kenningar sem eru til; hér er ekkert endanlega sannað.

Jón Þórhallsson, 28.10.2014 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband