Óskýr framburður og skemmtilegar fyrirsagnir

Áberandi er hversu margir, sem koma fram í útvarpi og sjónvarpi, eru óskýrmæltir. Af mörgu er að taka, en þetta á ekki síst við um þá sem rætt er við. Sker íþóttafólk sig nokkuð úr, enda er því oft mikið niðri fyrir eftir sigra sína og töp. En þulir og fréttamenn geta bætt framburð sinn - og raddbeitingu. Flestir þulir og fréttamenn Ríkisútvarpsins segja /nítíu/ níutíu, /fóbotli/ fótbolti, /hannbolti/ handbolti, /kauffélag/ kaupfélag/, /dassgrá/ dagskrá, /miðkudagur/ miðvikudagur, /fossdi/ forseti, /hljósstjóri/ hljómsveitarstjóri og jafnvel /kebblíngar/ Keflvíkingar. Sams konar breytingar - brottfall - hafa orðið í mörgum öðrum málum. Ef til vill er þetta ein af fjölmörgum breytingum á máli sem erfitt er að sporna gegn. Danir hafa t.a.m. ekki farið varhluta af breytingum á framburði - og orðaforða. Sem dæmi mætti taka framburð á orðinu Amager, eynni sem liggur við austurströnd Sjálands. Fyrrum sögðu Danir /'amager/. Nú er framburðurinn /'ama:/.

Um árabil vann ég á Fréttastofu Ríkisútvarpsins og hlustaði á fréttasendingar breska útvarpsins BBC og þýddi og endursagði fréttir sem álitið var að ættu erindi við íslenska hlustendur. Fréttaþulir BBC voru sérlega skýrmæltir og höfðu þægilega rödd og sem barst vel á öldum ljósvakans. Ríkisútvarpið gerði lengi kröfu um góða rödd og góða raddbeitingu og má nefna þuli og fréttamenn frá fyrri tíð sem höfðu skýran framburð og þægilega rödd eins og Þorsteinn Ö. Stephensen, Pétur Pétursson, Margrét Indriðadóttir, Jóhannes Arason, Jón Múli Árnason og Ragnheiður Ástu Pétursdóttir.

Frásagnir - ekki síst fyrirsagnir blaða - geta verið skemmtilegar og skrýtnar. Í MBL s.l. fimmtudag stóð: „Konur sólgnari í rafbíla en karlar.” Sagnasambandið að „vera sólginn í” er aðeins notað um fæðu, t.d. „vera sólginn í bláber”. Eðlilegra hefði því verið að segja : „Konur hafa meiri áhuga á rafbílum en karlar.” Eitt sinn var fyrirsögn í gamla DV um þvera síðu: „Stóð út á svölum og hrópaði nakin". Ef til vill hefði verið eðlilegra að hafa aðra orðaröð: „Stóð nakin út á svölum og hrópaði."

Málfjólur af þessu tagi eru því ekki nýjar af nálinni. Gamli, góði Dagur, blað okkar Akureyringa, skreytti sig stundum með skemmtilegum og skrýtnum fyrirsögnum s.s. „Skreið til Nígeríu” og „Látnir þvo bíla á nóttinni”, að ekki sé talað um fyrirsögnina: „Íhaldið býður fram klofið í Norðurlandi”. Ónefndur fréttamaður Ríkisútvarpsins vildi á sínum tíma segja frá flugslysi á Atlantshafi og orðaði það þannig: „Flugvél frá bandaríska flugfélaginu PanAm fórst norður af Azoreyjum í gær. Þess er vænst að allir hafi farist.” Þarna hefði verið betra að segja: „Flugvél frá bandaríska flugfélaginu PanAm fórst norður af Azoreyjum í gær. Óttast er að allir hafi farist,” því að sagnarsambandið „þess er vænst” er notað í jákvæðri merkinu um það sem menn vona. Þess ber svo að minnast, að allir eiga leiðrétting orða sinna, eins og orðtakið segir, og það er mannlegt að skjátlast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ágæt hérna hjá þér Tryggvi Gíslason,  takk fyrir.   

Hrólfur Þ Hraundal, 5.6.2016 kl. 07:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband