Skamma stund hönd höggi fegin

Ekki þýðir að deila við dómarann, en óviturlegur er úrskurður Hæstaréttar um að ógilda kosningar til stjórnlagaþings. Hér eru minni hagsmunir teknir fram yfir meiri hagsmuni og fyrstu almennu kosningar til stjórnlagaþings á Vesturlöndum úrskurðaðar ógildar vegna lítilvægra tæknigalla. Skamma stund verður hönd höggi fegin - en lengi mun skömm þessi uppi.
mbl.is Stjórnlagaþingskosning ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blekking og þekking

Sagt er að vísindin efli alla dáð, að mennt sé máttur - og að sannleikurinn muni gera yður frjálsa. Allt er þetta bæði satt og rétt. Stundum er mér hins vegar ekki ljóst, hvers konar vísindi eru á ferðinni, í hverju mennt er fólgin og hver sannleikurinn er í raun og veru.

Það vekur mér einnig furðu, hversu mikil blekking er viðhöfð í nafni vísinda, menntunar og sannleika í samfélögum vesturlanda og þá m.a. og á Íslandi. Hvern dag er hellt yfir okkur í fjölmiðlum steypu af hálfsannleika, röngum upplýsingum og kolhráum áróðri. Allt er þetta gert til að blekkja sauðsvartan almúgann í nafni þekkingar, víðsýni og menntunar.

Mörgum þykir svo mest koma til þeirra sem ósvífnastir, kjaftforastir og einsýnastir eru, svo sem Davíð Oddsson, Guðmundur Ólafsson, Hannes Hólmsteinn og Jónas Kristjánsson, auk þess sem spámenn á við Birgi Guðmundsson og Eirík Bergmann eru taldir opna augu okkar fyrir sannleikanum og sýna okkur inn í framtíðina. Má ég þá heldur biðja um Nostradamus.


Samfélagssáttmáli og þjóðarsátt

Um áramót hvöttu formenn stjórnmálaflokka, forseti Íslands, biskup Íslands, prestar, forystumenn atvinnurekenda og launþega og flestir leiðarahöfundar dagblaða Íslendinga til þess að snúa bökum saman, slíðra sverðin og láta af bræðravígum og brigslmælgi og sameinast um endurreisn þjóðfélagsins eftir hrunið sem kalla má "móðuharðindi af manna völdum". 

Eftir viku kemur Alþingi Íslendinga saman eftir jólaleyfi. Þá er vonandi að andi sátta og samlyndis ríki og alþingismenn og alþingiskonur láti hvatningarorð góðra manna frá áramótunum lýsa sér veginn, ástundi yfirvegaða orðræðu, hugsi um almannaheill og leggi gott til mála.

Stóra spurningin er hins vegar sú, hvert íslenska þjóðin vill stefna, hvort kjósendur vilja breytingar, hvort almenningur vill breytingar á viðhorfi til lífsgæða - og menn spyrji sjálfra sig, að hverju þeir vilja stefna í lífinu.

Eitt af því sem gamall skólameistari að norðan spurði nemendur meira en aldarfjórðung var: Hver ert þú? Hvaðan ert þú? Hvert vilt þú stefna - og hvað viltu verða? Gamli skólameistarinn hefur sjálfur spurt sig þessara spurninga - og ekki haft illt  af. Því er sennilegt að ýmsir aðrir, alþýða manna, almenningur, kjósendur, alþingismenn og -konur og ráðamenn þessarar dugmiklu þjóðar hafi einnig gott af því að spyrja þessara fjögurra spurninga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband