Skamma stund hönd höggi fegin

Ekki þýðir að deila við dómarann, en óviturlegur er úrskurður Hæstaréttar um að ógilda kosningar til stjórnlagaþings. Hér eru minni hagsmunir teknir fram yfir meiri hagsmuni og fyrstu almennu kosningar til stjórnlagaþings á Vesturlöndum úrskurðaðar ógildar vegna lítilvægra tæknigalla. Skamma stund verður hönd höggi fegin - en lengi mun skömm þessi uppi.
mbl.is Stjórnlagaþingskosning ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skúli Víkingsson

Hæstiréttur á að fara að lögum en ekki laga sig að heppilegustu hagsmunum. Miðað við fyrri úrskurði hans í svipuðum málum, var næsta víst að svona færi. T.d. má nefna ógildingu kosningar um sameiningu Stykkishólms og Helgafellssveitar. Þar dæmdust seðlar of þunnir og þess vegna ekki tryggt að kosning hefði verið leynileg.

Skúli Víkingsson, 25.1.2011 kl. 15:57

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

„Lítilvægra kosningagalla“, segirðu ... Það er nú dálítið viðurhlutamikið þegar stjórnvöld þykjast þess umkomin að breyta frá ákvæðum laga. Myndi nú telja meiri hagsmuni í því fólgna að fara eftir lögum en enga hagsmuni í því að að kvika frá þeim.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.1.2011 kl. 16:06

3 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Lög eru mannasetningar og geta verið ólög eins og hér. Hagsmunir þjóðarinnar eru æðri illvilja hlaupndi stráka sem nota sér tittlingaskít til að koma höggi á andstæðinga sína, eins og fram kom í ummælum eins kærenda rétt í þessu. En nú er skrattanum skemmt. Íslands óghæfu verður allt að vopni.

Tryggvi Gíslason, 25.1.2011 kl. 16:09

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, Tryggi. Þú mátt ekki líta framhjá dómsorði Hæstaréttar. Ógæfa þjóðarinnar verður aldrei meiri en þegar stjórnvöld fara ekki eftir þeim lögum sem gilda í landinu. Skiptir engu hversu göfugur tilgangurinn er.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.1.2011 kl. 16:15

5 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Þessi ódómur gerir ekki annað en ýta undir sundrungu með þjóðinni og andstæðingar ríkisstjórnarinnar kenna henni um - sem er einkennandi fyrir ómálefnalega umræðu. Og ég endurtek, Sigurður: Lög geta verið, hafa verið og eru iðulega ólög, mannasetningar, sem má og á að breyta.

Tryggvi Gíslason, 25.1.2011 kl. 16:22

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er skylda dómstóla að dæma eftir lögum. Hlutverk þeirra er ekki að setja lög eða breyta þeim. Lög eru vissulega mannasetningar en hvar værum við stödd ef dómstólar fylgdu þeim ekki? Dómur er nefnilega líka mannasetning.

Þorsteinn Siglaugsson, 25.1.2011 kl. 16:22

7 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Skylda dómara og dómstóla, ekki síst Hæstaréttar, er að vega og meta málsatvik, meta meiri hagsuni fyrir minni, og það eru fleiri en ég - ef mig skyldi kalla - sem munu ósáttur við þennan úrskurð, sem ekki er dómur, enda má túlka lög á margan hátt, eins og dæmin sanna. Ef til vill er einhver lýðræðishalli í landinu!

Tryggvi Gíslason, 25.1.2011 kl. 16:38

8 Smámynd: Valbjörn Steingrímsson

Voru þetta aðferðirnar í menntaskólanum Tryggvi.  Gefa einkunnir eftir geðþótta.  Ég spyr.  Segir ekki einhverstaðar, með lögum skal land byggja og er það ekki hornsteinn lýðræðisins blessuð lögin, hvað sem svo okkur finnst um þau.............. Íslenskt réttarkerfi er ekki ameriskt.

Valbjörn Steingrímsson, 25.1.2011 kl. 17:16

9 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Farðu nú ekki eins og hinir íhaldsmennirnir að tala um allt annað en hér er á dagskrá, Valbjörn.

Tryggvi Gíslason, 25.1.2011 kl. 17:39

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Tryggvi var ágætur skólameistari, það get ég vitnað um. En málið snýst auðvitað ekki um það. Það snýst um að lögum var ekki réttilega framfylgt við kosninguna. Stundum þurfa dómstólar að túlka lög, það er rétt. En hér voru engin álitamál á ferð sem túlka þurfti og ef einhvern tíma er nauðsynlegt að formreglum sé fylgt til fulls er það við kosningar.

Þorsteinn Siglaugsson, 25.1.2011 kl. 17:44

11 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Þakka þér fyrir að verja mig, Þorsteinn. Það er drengilega gert eins og þín var von og vísa. En eins og þú segir réttilega, snýst málið ekki um mig og að mínum dómi heldur ekki um ríkisstjórnina og aðgerðir hennar eða aðgeraleysi, eins og sjálfstæðismenn telja, heldur um lög frá Alþingi og eftirlit landskjörstjórnar með erfiðum kosningum.

En ljóst má þeim vera, sem les úrskurðinn, að rök Hæstaréttar eru veik. Enginn hefur orðið fyrir neinu tjóni, hér er um að ræða veikar líkur, minni hagsmuni fyrir meiri, því að Hæstiréttur hefur svipt almenning tækifæri til að hafa áhrif á að móta nýja stjórnarskrá fyrir Ísland.

Tryggvi Gíslason, 25.1.2011 kl. 17:58

12 Smámynd: Pétur Harðarson

Það er með ólíkindum að heyra menn segja að þetta sé lítið mál vegna ekki hafi verið á neinum brotið. Þetta sagði meðal annars fyrrverandi dómsmálaráðherra okkar áðan. Samkvæmt hans skilgreiningu ætti að leyfa ökumönnum að aka dragfullir þangað til þeir keyra á einhvern. Við gætum líka afnumið lög um hraðakstur þar sem maður er ekki að brjóta á neinum þegar maður keyrir á 120 km hraða.

Þeir stjórnarliðar og ráðherrar sem stigu upp í pontu á alþingi í dag ættu að skammast sín niður í hælsbætur. Þetta er algjörlega þeirra klúður og þótt íhaldið og einhverjir aðrir hafi verið á móti stjórnlagaþingi þá er ekki þeim að kenna að málið sé í þessum farvegi.

Ef forsætisráðherra væri alvara um auknar lýræðisumbætur í landinu þá ætti hún að sjálfsögðu að taka ábyrgð á þessu máli og stíga til hliðar. Hún er ekki eina hænan sem getur boðað til nýrra kosninga.

Pétur Harðarson, 25.1.2011 kl. 18:33

13 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Samlíkingar geta verið hættulegar, Pétur, og samlíking þín er fáránleg. Með sama hætti væri hgt að segja, að af því að hægt var að drepa mann, skuli dæma fyrir morð.

Tryggvi Gíslason, 25.1.2011 kl. 18:36

14 Smámynd: Tryggvi Gíslason

"Gengið of langt í formfestu," sagði Eiríkur Tómasson lagaprófessor um úrskurð Hæstaréttar. Leggið það á minnið, afturhaldsmenn.

Af hverju átti líka ekki hin merka tilraun með stjórnlagaþing almennings að njóta vafans?

Tryggvi Gíslason, 25.1.2011 kl. 18:44

15 Smámynd: Pétur Harðarson

Þú lest þessa samlíkingu nú ekki alveg rétt Tryggvi. Með því að stöðva ölvaðan mann er hægt að fyrirbyggja slys alveg eins og lög um kosningar eiga að tryggja réttláta kosningu. Þessar kosningar stóðust einfaldlega ekki lög og eru því ógildar. Því miður fáum við ekki velja hvað lögbrot okkur finnst vera "lítilvægir tæknigallar" enda værum við þá kominn á hálann ís, ekki rétt?

Pétur Harðarson, 25.1.2011 kl. 18:53

16 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Eigum við - almenningu - ekki að fá að "velja", þ.e. segja til um, hvað okkur finnst um mannleg samskipti og þær reglur, lög, sem um þau gilda? Það er undarlegt. Eiga lög einræðisríkja þá að móta skoðun og siðferði.

Það var ekkert að lögunum, það var ekkert að þessum kosningum, en dómur Hæstaréttar þjónar pólitískum öfgasjónarmiðum.

Tryggvi Gíslason, 25.1.2011 kl. 19:01

17 Smámynd: Pétur Harðarson

Hverjir voru helstu gallar ríkisstjórna Stjálfstæðisflokksins? Spilling, einræðisháttur, vinaráðningar og ábyrgðarleysi ráðherra svo eitthvað sé nefnt. Hvað vildum við fá með búsáhaldar"byltingunni"? Önnur andlit sem viðhalda sömu stjórnarháttum? Nei. Við viljum alþingi sem ber ábyrgð á eigin gjörðum. Það getur engin sagt að dómur hæstaréttar sé óréttlátur. Kosningin var gölluð og forsætisráðherra á að sjá sóma sinn í því að stíga til hliðar í staðinn fyrir að fara skotgrafarhernað sem þjónar engum tilgangi öðrum en að skvetta skítnum af sjálfum sér.

Pétur Harðarson, 25.1.2011 kl. 19:39

18 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Af hverju var kosningin kærð?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 25.1.2011 kl. 22:46

19 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að það sé mikilvægt að horft sé á þetta mál í réttu samhengi. Það er vitanlega rétt að hagsmunir kærendanna kunna að geta talist "minni" hagsmunir. En það eru ekki þeir sem málið snýst um. Það snýst einfaldlega um nauðsyn þess að almennar grundvallarreglur um kosningar séu virtar fortakslaust. Í lýðræðisríki grundvallast valdið á niðurstöðu kosninga. Því er það ávallt grundvallaratriði að um þær gildi skýrar, ófrávíkjanlegar reglur og að ekki ríki minnsti vafi um að þeim sé fylgt. Annars verða niðurstöður kosninganna vefengjanlegar og þá er voðinn vís. Þetta er grundvöllur úrskurðar Hæstaréttar og það er rangt og ósanngjarnt að saka dómarana um að þjóna öfgasjónarmiðum eða pólitískum hagsmunum.

Þorsteinn Siglaugsson, 25.1.2011 kl. 23:19

20 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Þegar dómstólar eru farnir að "ganga of langt í formfestu" og taka minni hagsmuni fram yfir meiri hagsmuni, eins og ég tel að felist í úrskurði Hæstaréttar, er hætta á ferðum.

Lýðræði er ekki bara form heldur miklu fremur afstaða eða hugsun, og þegar þú, Þorsteinn minn góður, talar um að valdið í lýðræðisríki grundvallist á niðurstöðu kosninga, gleymist þér hættan, sem felst í meirihlutalýðræði, þegar meirihlutinn fer að líta á vald sem markmið og virðir rétt minnihlutans til áhrifa að vettugi. Vald og valdbeiting meirihlutans á ekkert skylt við lýðræði.

Og ég endurtek: dómstólar eru ekki hafnir yfir gagnrýni, heldur ekki Hæstiréttur, og kominn tími til að efla málefnalega umræðu til þess að efla lýðræðislega hugsun. Sama skítkastið í stjórnmálum á Íslandi getur ekki og má ekki halda áfram.

Tryggvi Gíslason, 25.1.2011 kl. 23:54

21 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held, Tryggvi, að einhvers misskilnings gæti hér. Ég bendi einfaldlega á að leiðin til valda í lýðræðisríki er í gegnum kosningar og að því verður að gæta þess afar vel að framkvæmd þeirra sé hafin yfir vafa. Það hefur ekkert með meirihlutaræði eða rétt minnihluta að gera. En óttist menn meirihlutaræði er þá ekki enn ríkari ástæða til að treysta í sessi þrískiptingu valdsins og þar með sjálfstæði dómstólanna, einmitt til að hindra að meirihlutinn gangi á rétt hinna í krafti fjöldans?

Öllum er vitanlega frjálst að hafa skoðun á niðurstöðum dómstóla, en þá verða menn líka að meta þær niðurstöður í ljósi þess ramma sem dómstólum er settur.

Ég veit ekki betur en meirihluti þeirra fulltrúa sem kjörnir voru á stjórnlagaþingið hafi einmitt lagt ríka áherslu á skýra þrískiptingu ríkisvaldsins einmitt til að fyrirbyggja ofríki eins þáttar þess gagnvart öðrum. Það er skiljanlegt að margir séu sárir yfir niðurstöðu Hæstaréttar. En sé hún skoðuð er ljóst að fyrir henni eru sterk rök: Kosningin var ekki leynileg og fulltrúar frambjóðenda gátu ekki fylgst með talningunni. Þetta eru grundvallaratriði og allt of mikilvæg til að ýta megi þeim til hliðar bara af því að það hentar einhverjum meirihluta! 

Þorsteinn Siglaugsson, 26.1.2011 kl. 09:28

22 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Sammála þér, Þorsteinn, um mikilvægi þrískiptingar valdsins - í raun. En þrískipting má þá ekki aðeins verða í orði - eins og á Íslandi, þar sem einræði meirihlutans gengur svo langt, að hann ræður framkvæmdavaldi, löggjafarvaldi og dómsvaldi. Þessu þarf að breyta og til þess þarf hugarfarsbreytinu - breytta hugsun. En hvernig unnt er að breyta hugarfari, er vandséð. Sjálfur hef ég bundið vonir við skólana, en afturhaldsöflin í landinu kalla það foræðishyggju. En tími lýðræðis mun koma, og þegar Túnisbúar og Egyptar eru farnir að mótmæla meirihlutaeinræði í löndum sínum, er tími kominn til þess að Íslendingar geri það.

Skopmynd Halldórs í Fréttablaðinu í dag lýsir að mínum dómi vel niðurstöðu Hæstaréttar í gær: smásmygli og sparðatíningur. Rómverjar hinir fornu sögðu: "Summum jus, summa injuria" sem mætti þýða: "Mikil lögfræði veldur miklu ranglæti". Það er þetta sem Halldór Laxness notar í Íslandsklukkunni þegar hann lætur Jón Hreggviðsson segja: "Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti."

Tryggvi Gíslason, 26.1.2011 kl. 10:20

23 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Við erum þá sammála um eitthvað. Ég er þó ekki alveg sammála latínuþýðingu þinni. Summum jus, summa injuria þýðir ekki að mikil lögfræði valdi miklu ranglæti heldur að ef ávallt er beitt hörðustu refsingum án tillits til alvarleika brots leiðir það til óréttlætis. Ef öll manndráp eru til dæmis tekin sem ásetningsmorð falla margir rangir dómar.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.1.2011 kl. 11:27

24 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Það skiptir ef til vill ekki máli að vera sammála - heldur að geta talast við. En hvaðan hefur þú þessa þýðingu á latnesku orðunum?

Tryggvi Gíslason, 26.1.2011 kl. 11:37

25 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég man nú ekki hvaðan ég hef túlkunina, kannski frá Hegel. En jus þýðir lög og summa getur hvort sem er þýtt magn eða hámark. Í þessu tilfelli er það síðari merkingin sem á við. Það má líka túlka þetta þannig að sé lögum ávallt fylgt út í ystu æsar leiði það til óréttlætis. Þannig gæti orðtakið stutt þann málflutning þinn að dómstóllinn leggi of mikla áherslu á lagabókstafinn. Ég held þó að þessi varnaðarorð snúi fremur að ranglæti gagnvart einstaklingum.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.1.2011 kl. 11:58

26 Smámynd: Jón Valur Jensson

Allsendis ósammála þér, Tryggvi. Myndiru segja, að "lítilvægir tæknigallar" á borð við þessa – t.d. að kjörseðlar séu rekjanlegir til kjósanda – yrðu bara í lagi og allt í þessu fína, ef um væri að ræða kosningar um innlimun í Evrópusambandið? Vihorf þitt er fráleitt og litast kannski af því, að sonur þinn fekk kosningu – ólöglega!

En vertu bara feginn. Fyrir utan að hann verður líklega endurkjörinn, þá þarf að ná þér sjálfum líka inn á stjórnlagaþingið, rétt eins og öðrum fullveldissinnum, til að koma í veg fyrir það ömurlega ætlunarverk Össurar og annarra Samfylkingarmanna að nota stjórnlagaþingið til að afnema fullveldisvarnir stjórnarskrárinnar.

Jón Valur Jensson, 26.1.2011 kl. 13:17

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

Afsakaðu, íslenzkufræðingur, tvær flýtis-ásláttarvillur þarna (Myndiru – Vihorf)!

Jón Valur Jensson, 26.1.2011 kl. 13:21

28 Smámynd: Jón Valur Jensson

Raunar er Ð-ið slappt á tölvunni minni, dettur oft út! Þa er nú þa!

Jón Valur Jensson, 26.1.2011 kl. 13:23

29 Smámynd: Pétur Harðarson

Hversu gáfulegt er að ráðast í breytingar á stjórnarskrá meðan andrúmsloftið er svona í stjórnmálum? Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að ná þessu fram og Samfylkingin hinu. Og hversu trúverðugur er málstaður Jóhönnu þegar kemur að stjórnarskránni? Ásmundur Einar hefur lýst vinnubrögðum Jóhönnu við afgreiðslu ESB frumvarpsins þar sem hún braut greinilega lög gildandi stjórnarskrár með því að hafa áhrif á sannfæringu stjórnarþingmanna og ráðherra! Sama var augljóslega upp á teningnum þegar Icesave frumvarpið fór í gegn svo ekki sé minnst á ófyrgefanlega hegðun hennar og Steingríms í aðdraganda Icesave kosninganna. Jóhanna notar orð eins og "vopn þjóðarinnar" og "vilji þjóðarinnar" en hún hefur hagað sér eins og glæpamaður þegar kemur að stjórnarskrármálum og því á hún og hennar hyski ekki að koma nálægt breytingum á stjórnarskránni.

Pétur Harðarson, 26.1.2011 kl. 13:43

30 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Stafsetningin er ekki nærri eins vond og afstaða þín og ómálefnaleg skrif, Jón Valur, því að þótt mér renni blóðið til skyldunnar og Gísli, sonur minn, sé verðugur fulltrúi á stjórnlagaþingi, ræðst afstaða mín til þessa mikilsverða máls ekki af ættartengslum.

Hins vegar verð ég ekki ofan af því skekinn, að þeir "tæknilegu ágallar", sem huti Hæstaréttar taldi vera á kosningum til stjórnlagaþings, eru smávægilegir í samanburði við annað sem mikilsverðara er, s.s. að fá nýja, lýðræðislega stjórnarskrá og mikilvægi þess fyrir virkt lýðræði, að hinn almenni kjósandi fái að hafa áhrif á þennan hátt.

En ljóst er, að Sjálfstæðisflokkurinn er á móti auknu lýðræði, eins og aðrir íhaldsflokkar, og hefur unnið gegn þessu mikilsverða lýðræðismáli frá fyrstu tíð, og enn dansa limirnir eftir hrokknu höfði í Hádegismóum. Litli íhaldsflokkurinn, gamli bændaflokkurinn, fylgir svo á eftir stóra íhaldinu, eins og hann hefur lengi gert.

Tryggvi Gíslason, 26.1.2011 kl. 16:26

31 Smámynd: Pétur Harðarson

Það er til lítils að benda á galla annarra flokka til að breiða yfir getuleysi stjórnarflokkanna. Sakaskrá sitjandi stjórnar er orðin það löng að hún er farin að skyggja á aðdraganda bankahrunsins. Hvor er verri; sá sem lemur mann í götuna eða sá sem sparkar í hann liggjandi líkt og þessi stjórn hefur gert við þjóðina aftur og aftur. Nú eru 40% fyrirtækja á landsbyggðinni á leið í þrot og það virðist vera í lagi. Þetta eru sjálfsagt minni fyrirtæki sem eru svo óheppin að tengjast ekki stjórnarflokkunum svo þeim má fórna og fólkið getur flutt úr landi. Ríkisstjórninni er annað hvort sama eða hún hefur enga getu til að takast á við vandann. Hún vill frekar beita sér fyrir því að fá ný lög inn í stjórnarskránna svo Jóhanna geti traðkað á þeim. Ég skammast mín fyrir að hafa stutt sjálfstæðisflokkinn fyrir Hrun og þeir sem styðja þessa stjórn í blindni eiga eftir að skammast sín þegar fram í sækir.

Pétur Harðarson, 26.1.2011 kl. 16:43

32 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Ég er, Pétur, ekki að benda á galla "annarra flokka" heldur galla allra flokka (enda hef ég verið óflokksbundinn um áratuga skeið). Ég skil hins vegar reiði þína vegna Hrunsins, og sem gamall landsbyggðarmaður rennur mér til rifja skeytingarleysið um landsbyggðina. En ef einhver stjórnmálaflokkur og stjórnmálastefna er sek um Hrunið, er það Sjálfstæisflokkurinn og nýfrjálshyggjan. Ég hef því mikla samúð með núverandi ríkisstjórn, ekki síst Steingrími Sigfússyni, sem er að reyna að bjarga því sem bjarga verður, og þótt ríkisstjórninni séu mislagðar hendur um margt, er ábygðarleysi stjórnarandstöðunnar enn verra.

Stjórnmálahefð og stjórnmálaumræða á Íslandi er til skammar og skortur á lýðræðislegri hugsun og vilja til lýðræðislegra umbóta hrikalegur - og mestur í Sjálfstæðisflokknum. Er það furðulegt og mér með öllu óskiljanlegt, að sá flokkur skuli hafa haldið 35% fylgi (+/- 5%) í 80 ár. Ef til vill er meinið þar að finna.

Tryggvi Gíslason, 26.1.2011 kl. 17:16

33 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það ert þú, Tryggvi, sem sjálfur ert ótrúlega ómálefnalegur með þessari blogggrein þinni og árás á Hæstarétt, ég hefði varla trúað þessu á þig. Og hvaða nýja theoría er þetta, að Framsóknarenn eins og t.d. hún Vigdís Hauksdóttir, Sigmundur Davíð og Höskuldur Þórhallsson séu einhver gauð sem elti bara "íhaldið" (þú meinar ekki íhaldið, heldur ofurfrjálshyggjugengið í Valhöll). "Litli íhaldsflokkurinn, gamli bændaflokkurinn, fylgir svo á eftir stóra íhaldinu, eins og hann hefur lengi gert," segirðu, gersamlega án rökstuðnings og út í bláinn, eða tókstu ekki eftir því í gær, til dæmis, að Sigmundur Davíð flutti mál sitt á öðrum nótum en Sjálfstæðismenn?

Hvað þetta síðasta varðar, skaltu gæta þess, að einungis 54% völdu flokk í þessari könnun og að þar var ekki gefinn kostur á að kjósa t.d. Samtök fullveldissinna, Þjóðarflokkinn, Hægri græna né Kristin stjórnmálasamtök. Hálf þjóðin (í síðustu könnun sömu aðila valdi 51% flokk) er farin að HAFNA þessum valdaflokkum.

Æ, þín samúð með Steingrími!!! Það verða haldnar fagnaðarveizlur víða um land, þegar hann hverfur úr valdastóli.

Jón Valur Jensson, 26.1.2011 kl. 22:47

34 Smámynd: Jón Valur Jensson

Yrði ekki bót að því að skella orðinu "verður" inn í fyrirsögnina?

Skamma stund verður hönd höggi fegin.

Það á líka við um þína óprincíperuðu hörkugagnrýni á Hæstarétt.

Jón Valur Jensson, 26.1.2011 kl. 22:52

35 Smámynd: Pétur Harðarson

Nei ekki vorkennir maður Steingrími.  Maðurinn gerir lítið annað en að kveinka sér undan verkefnunum sem hann bauðst til að taka að sér.  Þess á milli reynir hann að klína ólögmætum skuldum á þjóðina, hækkar allar álögur á vinnandi fólk og fjölskyldur og svo hendir hann milljörðum í einkafyrirtæki án þess að spyrja kóng né prest.  Þessi ríkisstjórn eru eingöngu dugleg þegar kemur að einkaverkefnum Jóhönnu og Steingríms, þ.eþ að selja okkur inn í ESB og bjóðast til að borga Icesave á okurvöxtum.  Ég skora á þig að benda eitt atriði sem sannar að stjórnarandstaðan sé ábyrgðarlausari en þetta.  Stjórnarandstaðan er kannski duglítil en hún er ekki glæpsamleg.

Pétur Harðarson, 27.1.2011 kl. 13:44

36 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður Pétur! Þú ert hörkunáungi í hugmyndabaráttuna.

Jón Valur Jensson, 27.1.2011 kl. 15:49

37 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Orð ykkar félaga, Jón Valur og Pétur Harðarson, bera vitni um einsýni í stjórnmálum - svo ég segi ekki ofstæki í pólitík, sem er þó e.t.v réttari lýsing á skrifum ykkar. Ef þið tveir eruð hinir bestu úr hópi sjálfstæðismanna, hvernig eru hinir verstu?

Svo vil ég segja við þig, Jón Valur, að þú virðist hafa litla tilfinningu fyrir - og lítin skiling á íslensku máli (fyrir utan að þekkja ekkert til málfræði eða setningafræði, sem ef til vill má fyrirgefa þér), en orðin "Skamma stund, höggi fegin" merkja "Skamma stund VERÐUR hönd höggi fegin" - og er umsagnarlaus setning, sem svo er kölluð.

En skömm Hæstaréttar, dóms ykkar íhaldsmanna, verður ekki minni fyrir ofstæki ykkar félaga.

Tryggvi Gíslason, 27.1.2011 kl. 22:56

38 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sniðugt hjá þér, Tryggvi, að misnota svona þína fræðigrein.

Glæsileg annars þessi frammistaða þín í alhæfingum.

En ekki tekurðu nógu vel eftir eða lest mig lítt, flestir Moggabloggarar sem fylgjast með vita vel að ég er ekki í Sjálfstæðisflokknum.

En hvenær talaði ég um, að við Pétur Harðarson værum hinir beztu?

Þakka þér fróðleikinn um, að setningin væri umsagnarlaus – fróðleik fyrir einhverja aðra en mig. Mér varð einmitt hugsað, er ég sá þetta fyrst: Er hann farinn að setja málshætti upp í fyrirsagnaformi blaðanna? Svo þótti mér líklegra að þú hefðir bara gleymt sögninni.

Sjálfur verður þú að bera ábyrgð á lokaorðum þínum, en eitthvað hefur komið þér úr jafnvægi, þó ekki óvildarhugur í mínu sinni, hann er ekki þar.

Jón Valur Jensson, 28.1.2011 kl. 00:18

39 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Fyrirgefðu, Þorsteinn Siglaugson. Ég gleymdi að svara þér, gamli nemandi MA, nú fulltrúi þröngsýnna skoðana um þjóðfélagsleg réttindi almennings - og stöðu dómstóla.

Þú dregur í efa skilning minn á orðunum: "Summum jus, summa injuria" og vitnar í Hegel. Hegel var fyrirmynd Karls Marx um margt (sem naumast getur talist góð latína fyrir nýfrjálshyggjumenn, auk þess sem Hegel nefndi ekki orð um fresli og nauðung laganna).

Því vil ég, Þorsteinn, benda þér á þér á, að túlkun fræðimanna á orðum gömlu Rómverjanna um merkingu orðanna "Summum jus, summa injuria" er eins og ég nefndi áður: "den højeste ret (er ofte) den højeste uretfærdighed” eða: "The rigor of the law is the height of oppression" ellegar "Extreme right is extreme injury." Viljir þú fá frekari upplýsingar um ritgerðir fræðimanna um túlkun þessara gömlu vísdómaorða, skal ég veita þér þær.

Úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings 2011 er að mínum dómi dæmi um "Extreme right as extreme injury" þar sem minni hagsmunir eru teknir fram yfir meiri hagsmuni. Þessi úrskurður mun draga dilk á eftir sér - og ég endurtek fyrir þig og aðra íhaldsmenn: "Den højeste ret (er ofte) den højeste uretfærdighed” og "The rigor of the law is the height of oppression" ellegar: "Extreme right is extreme injury".

Fræðimenn þeir, sem þannig taka til orða, voru hins vegar ekki skipaðir úr fyrstu stétt Reykjavíkuríhaldsins af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

Tryggvi Gíslason, 28.1.2011 kl. 00:32

40 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Segðu mér, Jón Valur: Hvurnig misnota ég "fræðigrein" mína? Er það með því að benda þér á ruglið í sjálfum þér?

Ef þú ert EKKI flokksbundinn Sjálfstæðisflokksmaður, þá ert þú íhaldsmaður í skoðunum - svo ég segi ekki afturhaldsmaður, sem er litlu betra. Hefur þú aldrei verið flokksbundinn sjálfstæðismaður eða tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins - og hvað kaust þú við síðustu alþingiskosningar?

Hvurnig telur þú þig vera sjálfan: Réttsýnan? Hógværan? Jákvæðan? Velviljaðan? Umburðarlyndan Mann sem leggur gott til málanna? Svaraðu þessu af hreinskilni!

En satt segirðu: Ýmislegt hefur komið mér úr jafnvægi og ég er sorgmæddur, hrærður, undrandi og vonsvikinn yfir heimsku, dómgirni og öfgum í íslenskum stjórnmálum og þjóðmálaumræðu - og þar undaskil ég engan stjórnmálaflokk eða stjórnmálamann!

Tryggvi Gíslason, 28.1.2011 kl. 00:56

41 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég kaus ekki Sjálfstæðisflokkinn við síðustu alþingiskosningar, Tryggi, og ekki heldur þær næstsíðustu! Ertu þá ánægður?

Já, ég telst eflaust íhaldssamur í sumum viðhorfum, þótt ég telji mig yfirleitt miðjumann, trúan grundvallarreglum réttlætis, sannleika og mannúðar, en ég er líka verkalýðssinnaður, hef margsinnis sýnt það, nú síðast í fyrradag: Fiskvinnslufólk fer í verkfall – tími til kominn! Umfram allt er ég kristinn réttlætissinni og stuðningsmaður sjálfstæðis Íslands.

Þú verður bara að lifa við okkar margvíslega ágreining, Tryggvi minn.

Þó setti ég þig á LISTA þeirra manna, sem ég mælti með til stjórnlagaþings – en reyndar ekki þinn ágæta son (sem ég þekki þó), því að hann vill komast inn í Evrópuríkið.

En hvernig væri fyrir þig að skoða það, sem sannur sósíaldemókrati skrifaði í gær um stjórnlagaþingið hennar Jóhönnu og hans Steingríms? Þú þarft ekki að vera sammála, en þetta er umhugsunarefni fyrir þig og þín skoðanasystkini. Þannig ritaði KOLBRÚN BERGÞÓRSDÓTTIR í Morgunblaðið í gær:

"Óvinir stjórnlagaþings

Pistill

"Þjóðin kallaði eftir stjórnlagaþingi. Hún verður að fá sitt stjórnlagaþing. Það verður að svara ákalli þjóðarinnar,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hvað eftir annað eftir það álit Hæstaréttar að kosningar til stjórnlagaþings væru ógildar. Svo fór Jóhanna að tala um illu öflin sem vilja allt til vinna til að koma í veg fyrir stjórnlagaþingið – þetta lýðræðislega þing sem þjóðin bað um og hefur brennandi áhuga á. Og til að leggja áherslu á mál sitt setti hún ógnvekjandi tón í rödd sína og laðaði þannig fram mynd af skrímslinu ógurlega um leið og hún sagði vonda orðið: ÍHALDIÐ.

Ríkisstjórnin, jafn ósamheldin og hún nú er, hefur fundið sér óvin. Þegar fólk sem kann ekki vel hvað við annað neyðist til að vinna saman er notadrjúg aðferð að finna óvin og kenna honum um allt sem miður fer. Jóhanna er slyng við þetta og er farin að segja orðið „ÍHALDIГ í hvert sinn sem hún kemst í málefnalegt þrot. Ekki er ólíklegt að hún noti orðið líka ótæpilega til að minna Vinstri græna á tilvist hins viðurstyggilega auðvalds í Sjálfstæðisflokknum. Fátt veldur Vinstri grænum jafn mikilli ógleði og tilhugsun um stjórnmálaafl sem styður atvinnuuppbyggingu og einkavæðingu og lítur á fjármagn sem sérlega blessun. Ríkisstjórnarflokkarnir lafa saman vegna ákafrar löngunar til að halda í völd sín og andúðin á sameiginlegum óvini, Sjálfstæðisflokknum, heldur þessu brothætta ríkisstjórnarsamstarfi gangandi.

Eftir úrskurð Hæstaréttar síðastliðinn þriðjudag talaði forsætisráðherra fjálglega um ákall þjóðarinnar eftir stjórnlagaþingi. Enginn spurði forsætisráðherra hvaðan það ákall hefði komið. Kannski kom ákallið frá frambjóðendum til stjórnlagaþings en ekki frá þjóðinni sem sagði pass og sat heima á kjördag. Hvernig getur þessi æpandi fjarvera kjósenda hafa farið framhjá forsætisráðherra allan þann tíma sem liðinn er frá þessum mislukkuðu kosningum? En kannski lítur forsætisráðherra svo á að félagshyggjuöflin hafi farið á kjörstað meðan sjálfstæðismenn, andstæðingar lýðræðisins, sátu heima í fýlu. Ef það er raunin hafa sjálfstæðismenn fjölgað sér eins og kanínur á skömmum tíma og fylla nú landið. Eru rúmlega 60 prósent landsmanna.

Staðreyndin er auðvitað sú að fjölmargir telja stjórnlagaþing ekki brýnt og mörgum finnst beinlínis rangt að safna saman fólki af Reykjavíkursvæðinu með litla lagaþekkingu til að koma saman tillögum um nýja stjórnarskrá. Þess vegna mætti þjóðin ekki á kjörstað.

Sennilega verður ekki farið fram á það að ríkisstjórnin horfist í augu við raunveruleikann og viðurkenni að þjóðin hefur ekki áhuga á stjórnlagaþingi. Þjóðin hefur hins vegar áhuga á því að skuldastaða heimilanna verði leiðrétt. En í þeim málum snýr ríkisstjórnin sér undan. Þar segist hún hafa gert allt sem hún geti gert – svo til ekki neitt.

Tilvitnun lýkur.

Jón Valur Jensson, 28.1.2011 kl. 07:36

42 Smámynd: Pétur Harðarson

Tryggvi, ef það er pólitískt ofstæki að gagnrýna vinnubrögð ríkisstjórnarnarinnar þá hefur nú einfaldega vantað smá ofstæki hér á Íslandi siðustu 30 ár eða svo.  Ég fór nú yfir þessar færslur hjá mér og ég get ekki séð að ég hafi gert annað en að lýsa hlutunum eins og þeir eru en ekki eins og stjórnarsinnar vilja kannski sjá þá.

Svo hef ég aldrei verið flokksbundinn og ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn síðan Árni Johnsen svindlaði sig aftur inn á þing.  Þó að við Jón Valur róum kannski sama báti hér þá erum við langt frá því að vera skoðanabræður þegar kemur að öðrum málum og höfum átt okkar baráttur hvað það varðar.

En svo ég skilgreini mitt ofstæki þá er það einfalt. 

Ég vil að fiskiþorp sem hafa mannafla og vinnslur til að veiða og verka fisk fái að gera það.  Sjálfstæðisflokkurinn telst varla vinur minn í þeim efnum. 

Við tveir getum svo verið sammála um að hæstiréttur þarf að vera traustverðugur og dómararnir mega ekki vera jafn pólitískt tengdir og þeir eru nú. Þessu þarf að breyta hvort sem það er gert með stjórnarskrábreytingum eða öðrum leiðum.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn gerði mistök með því að lækka skatta á þenslutímum þá eru skattahækkanir þessarar stjórnar á krepputímum líka mistök ef farið er eftir sömu bók í gagnrýni og gjörðum.   Fjármálastefna þessarar stjórnar er svo léleg að hún getur ekki lengur kennt íhaldinu um stöðuna í þjóðfélaginu.  Það þarf að virkja fyrirtækin í landinu, ekki kæfa þau.

Þeir sem sitja á þingi þurfa að galopna sitt bókhald og það þarf að vera gegnsætt hvaða  hagsmunasamtökum þeir tengjast svo að ljóst sé hvort að hagsmunaárekstrar séu í störfum þeirra.  Í því sambandi má nefna að Björn Valur Gíslason var allt í einu settur sem fimmti maður í fjögurra manna nefnd sem fjalla á um fiskveiðistjórnunarkerfið.  Björn Valur er á launaskrá hjá útgerðarfélaginu Brim og það vekur því eðlilegar spurningar af hverju honum var troðið inni í þessa nefnd eftir á.

Ráðherrar sem leggja fram frumvörp sem valda þjóðinni skaða eiga að segja af sér.  Hvar væri Steingrímur J. ef forsetinn hefði ekki stöðvað Icesave frumvarp hans?  Finnst okkur vinnubrögð forsætisráðherra landsins við ESB frumvarpið í samræmi við það sem við viljum sjá á alþingi?  Var í lagi að sleppa undirskrift forsetans á því frumvarpi?  Var í lagi að brjóta gegn stjórnarskránni í því máli?

Ríkisstjórnin og leiðtogar hennar eiga hugsa meira um hag þjóðarinnar en álit skoðanabræðra hennar í Evrópu.  Frá því að Icesave deilan hófst hefur Steingrímur J. barist fyrir málstað Breta og Hollendinga.  Jóhanna er búin að bæta met Davíðs Oddssonar í hroka þegar kemur að því að tala til þjóðarinnar.  "Þjóðin getur ekki ætlast til þess að við gerum meira", sagði hún eftir að ríkisstjórnin tilkynnti sínar síðustu aðgerðir gagnvart heimilunum.  Þær aðgerðir snérust að mestu um að láta bankana afskrifa það sem þeir þurftu hvort sem er að afskrifa.

Í sambandi við þetta stjórnlagaþingsmál er kannski við hæfi að loka augunum, draga djúpt andann, rifja upp æðruleysisbænina og beina svo augum að því sem er virkilega abótavant í þessu þjóðfélagi.   Þar hlýtur dugleysi stjórnarinnar og alþingis alls að vera ofarlega lista.

Pétur Harðarson, 28.1.2011 kl. 11:17

43 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Þið eruð sannarlega skeleggir baráttumenn, Jón Valur og Pétur Harðarson, og gaman að kljást við ykkur, og eins og þú segir, Jón Valur: við verðum að lifa við það að vera ekki á sama máli (um allt), enda skiptir ekki mestu að vera sammála heldur að geta talast við - og mega talast við opinskátt og af einurð í þessu góða lýðræðislandi Íslandi. Tek ég undir með gamla Voltaire: "Ég er ósammála því sem þú segir, en ég mun verja allt til dauða rétt þinn til að segja það."

Hins vegar tel ég enn úrskurð Hæstaréttar rangan - og þar hófst orðræða okkar, góðir drengir.

Tryggvi Gíslason, 28.1.2011 kl. 11:57

44 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér drengileg orð og umræðuna, Tryggvi.

Já, sannarlega er Pétur baráttumaður, mér lízt vel á málflutning hans.

Jón Valur Jensson, 28.1.2011 kl. 15:04

45 Smámynd: Pétur Harðarson

Og þakka ykkur báðum fyrir skemmtilega umræðu.

Pétur Harðarson, 28.1.2011 kl. 15:17

46 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Tökum aðra glímu síðar, góðir drengir, sniðglímu á lofti, ef ekki vill betra til.

Tryggvi Gíslason, 28.1.2011 kl. 15:24

47 Smámynd: Pétur Harðarson

...og styðjum strákanna okkar í þeirra lokaglímu i dag.  Áfram Ísland!!!

Pétur Harðarson, 28.1.2011 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband