Mistök Hæstaréttar

Sjaldan hef ég hlustað á skýrari málflutning en málflutning Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, fyrrum formanns Landskjörstjórnar í Kastljósi í kvöld. Þá var fróðlegt að hlusta á Gunnar Eydal hæstaréttarlögmann í Speglinum, en Gunnar hefur áratuga reynslu af kosningum í Reykjavík.

Báðir bentu á mistúlkun réttarins á þremur meginatriðum úrskurðarins: merkingu kjörseðla, gerð kjörklefa og læsingu kjörkassa. Báðir tölu ábendingar Hæstaréttar ónógar til þess að ógilda kosningarnar. Bætast þessir tveir mætu menn í þann stóra hóp sem er ósáttur við úrskurðinn þar sem minni hagsmunir voru teknir fram yfir meiri hagsmuni.

Ýmsir halda því fram, að enginn megi efast um óskeikulleika Hæstaréttar eða láta í það skína, að Hæstarétti geti orðið á mistök í úrskurði sínum, enda rétturinn hafinn yfir alla gagnrýni. Þetta er ekki góðs viti. Enginn er óskeikull, heldur ekki Hæstiréttur. Sýnu verra er ef annarlegar ástæður liggja að baki úrskurðinum, eins og gefið hefur verið í skyn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Daníelsson

Það verður að segjast eins og er að málflutningur þeirra sem mislíkar niðurstaða Hæstaréttar bendir til þess að undir engum kringumstæðum skuli ógilda kosningar nema kosningasvik sannist. Er ekki bara óþarfi að vera að kjósa með þeim hætti sem hingað til hefur verið gert? Væri ekki bara nær að gera skoðanakönnun eins og Fréttablaðið gerir og láta hana gilda nema svik sannist?

Nei að sjálfsögðu ekki. Reglur eru settar til að tryggja framkvæmd kosninga og eftir þeim skal fara. Ef afsláttur er gefinn í hvert skipti sem kosið er endar þetta eins og lýst er að ofan, þ.e. sem skoðanakönnun.

Það er engin afsökun að benda á óvenjulegar aðstæður, fjölda frambjóðenda o.s.fr. Kjörklefar, kjörseðlar og umgjörð áttu að vera samkvæmt lögum um Alþingskosningar og ef ekki var hægt að fara eftir þeim þá átti að breyta lögunum um kosningarnar til stjórnlagaþings.

Framkvæmdavaldið og þeir sem bera ábyrgð á framkvæmd kosninganna eiga bara að skammast sín og hætta að lítilsvirða kosningaréttinn með þeim hætti sem gert er.

Góðar stundir

Kristinn Daníelsson, 1.2.2011 kl. 01:05

2 Smámynd: Þórólfur Sveinsson

Oftast er það svo að ekki geta geta allir haft sigur fyrir dómstólum. Til dæmis kvað Hæstiréttur upp dóm í svokölluðu ,,Öryrkjamáli'' árið 2000, þáverandi stjórnvöldum til lítillar skemmtunar. Fyrir ja, líklega níu árum voru kosningar til sveitarstjórnar í Borgarbyggð þar sem ég bý, dæmdar ógildar í Hæstarétti og nýjar kosningar þurftu að fara fram, sjálfstæðismönnum hér til lítillar ánægju.

 Við sem gáfum kost á okkur til setu á Stjórnlagaþingi töldum flest nauðsynlegt að skerpa á þrískiptinu valdsins. Nú er það furðulega að gerast að sumir frambjóðendur vilja fara þveröfuga leið, þ.e. vilja gera niðurstöðu Hæstaréttar pólitíska. Við eigum að virða niðurstöðu Hæstaréttar og horfast í augu við að niðurstöður þessara kosninga hafa ekkert gildi og veita engum umboð til starfs að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það verður að byrja á málinu frá grunni með nýjum lögum og síðan nýjum kosningum. Landsbyggðin fékk skelfilega útreið í þessum kosningum eins og við mátti búast, og vonandi dettur engum í hug að viðhafa óbundið persónukjör með landið allt sem eitt kjördæmi ef/þegar efnt verður til kosninga að nýju.

                             Þórólfur Sveinsson

Þórólfur Sveinsson, 1.2.2011 kl. 09:32

3 Smámynd: Tryggvi Gíslason

Eitt sinn var sagt: "Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja." Margir virðast einnig búnir að mynda sér skoðun áður en öll rök hafa komið fram í málinu. Ábendingar og rök fyrrverandi formanns Landskjörstjórnar, Ástráðs Haraldssonar, og Gunnars Eydalds, fyrrum skrifstofustjóra Reykjavíkurborgar, steypa úrskurði Hæstaréttar. Skrif ykkar, Kristinn og Þórólfur, bera þess líka vitni, að þið viljið ekki sjá og heyra það, sem er mergurinn málsins, að Hæstiréttur tók minni hagsmuni fram yfir meiri hagsmuni.

Ég - ef mig skyldi kalla - bauð ég mig fram til stjórnlagaþings til þess að koma á virku lýðræði í landinu, ekki endalausum formreglum sem lögfræðingar einir þykjast skilja og þykjast mega túlka og þykjast einir geta túlkað. Þetta er skrifræði hinna nýju skriftlærðu - svo ég segi ekki farísea, bersyndugra og tollheimtumanna. En eins og ég hef bent á um árabil, er lýðræði hugsun - ekki aðeins form. Lýðræðislega hugsun skortir meðal margra málsmetandi manna og ekki síst þeirra, sem hafa haft tögl og hagldir undanfarin 20 ár, enda einræði meirihlutans og foringjaræði einkennt íslensk stjórnmál allt þetta tímabil.

Afstaða Davíðs Oddsonar í MBL kemur ekki á óvart. Einræðishneigð hans er öllum ljós - nema honum sjálfum og Hannesi Hólmsteini. Hins vegar kom mér á óvart, hvernig Þorsteinn Pálsson skrifaði um þetta viðkvæma mál í Fréttablaðinu á laugardag, þar sem hann segir: "viðbrögðin verri en ógildingin" og "feli í sér að dómsmálaráðherra hafi sniðgengið lagaákvæði um leynilegar kosningar". Lengi batt ég vonir við, að Þorsteinn Pálsson sem margreyndur blaðamaður, ritstjóri, alþingismaður, ráðherra, sendiherra og formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins gæti - sem dálkahöfundur á efri árum - hafið sig yfir lágkúru íslenskrar stjórnmálaumræðu. En hann er fallinn í sama forarpyttinn.

Ef vil vill var tíminn fyrir stjórnlagaþing nú ekki vel valinn. Verkefni stjórnvalda eru ærin, þótt þjóðinni sé ekki einnig sundrað með þessum hætti. Af þeim sökum kemur til greina að fresta frekari umræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar, ef það gæti orðið til þess að þjóðin - og þá ekki síst stjórnmálamenn sameinuðust um aðgerðir til þess að bjarga fjölskyldunum í landinu sem eru hornsteinn samfélagsins.

Hins vegar má Sjálfstæðisflokkurinn í öllu sínu veldi ekki til þess hugsa að leggja stjórnarskrármálið í hendur almennings - hvað sem veldur. Klifað er á, að það sé hlutverk Alþingis að setja stjórnarskrá. Alþingi hefur hins vegar í tvo mannsaldra ekki megnað að setja landinu nýja stjórnarskrá - og nú er Alþingi sjálfu sér sundurþykkt og nánast óstarfshæft vegna sundurlyndis. Alþingi getur ekki sett lýðveldinu Íslandi nýja stjórnarskrá nú - né heldur meðan syndurlyndisfjandinn ræður þar ríkjum.

En þó svo Alþingi væri þess megnugt - sem ekki er - gleymist mörgum, og þá m.a. núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, að Alþingi hlýtur vald sitt frá þjóðinni - og hjá þjóðinni á valdið að vera - líka valdið til þess að setja lýðveldinu Íslandi nýja lýðræðislega stjórnarskrá.

Tryggvi Gíslason, 1.2.2011 kl. 15:38

4 Smámynd: Kristinn Daníelsson

Skilningur okkar Tryggvi á því hvað er mergurinn málsins er ólíkur. Það skelfir mig að sjá að í þínum augum skuli kosningarétturinn og framkvæmd kosninga vera minni hagsmunir heldur en málefnið sem sem kosið er um. Kosningarétturinn er hornsteinn virks lýðræðis og það er mergurinn málsins. Hvernig er hægt að hafa virkt lýðræði ef framkvæmd kosninga er aukaatriði?

Dapurlegt er að sjá að ekki skuli vera hægt að eiga skoðanaskipti á bloggi án þess að einhverjum ókvæðum sé hreytt í Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn. Pistilhöfundi ætti að vera ljóst að annar hornsteinn lýðræðisins eru opin skoðanaskipti og hreinskiptin umræða.

Hverjir eru fyrir ofan lágkúru íslenskrar stjórnmálaumræðu Tryggvi?

Kristinn Daníelsson, 1.2.2011 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband