11.7.2013 | 23:10
Fumlaus handtaka - eða ofbeldi
Undarlegt - svo ég segi ekki ógnvekjandi - er að heyra ummæli lögreglumanns um fumlausa handtöku, þegar lögreglumaður réðst á ósjálfsbjarga konu í Reykjavík á dögunum, og vitnar til þess, að lögregla á Norðurlöndum sé heimsþekkt fyrir að vera umburðarlynda lögregla í heiminum. Það kann rétt að vera- en þetta atvik sýndi ekki umburðarlyndi.
Enginn - með óbrjálaða dómgreind - fer í grafgötur um, að við handtöku konunnar var beitt ofbeldi og allt ofbeldi - hvar sem er og hvernig sem er - skal vera ólíðandi í lýðfrjálsu landi. Lögreglan er ekki aðeins til þess að handtaka óeirðafólk og skakka ójafnan leik, heldur til þess að hjálpa þeim sem hjálpar er þurfi og leiðbeina þeim sem þurfa leiðbeininga við.
Konan ósjálfbjarga þurfti á leiðbeiningum, aðstoð og hjálp að halda - ekki ofbeldi og misþyrmingu - og það er skýlaus krafa borgara í lýðfrjálsu landi, að fólk sé öruggt um að fá hjálp frá lögreglu - eins og oftast er sem betur fer. En þegar lögreglumenn verja augljóst ofbeldi, er illt í efni. Borgarar í lýðfrjálsu landi verða að fá að vita, við hverju þeir mega búast af lögreglunni, laganna vörðum - laganna vörðum - laganna vörðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2013 | 23:13
Litir í örnefnum
Tungumálið geymir á vissan hátt sögu þjóða og viðhorf fólks til lífsins og tilverunnar. Má jafnvel segja að í tungumálinu felist eins konar heimspeki þjóðanna - heimspeki almennings. Örnefni geyma einnig upplifun fólks af umhverfi sínu og tilfinningu fyrir landinu og náttúru þess, eins og t.a.m. örnefnin Fagranes, Hreggnasi, Kaldbakur og Jökulfirðir bera með sér.
Flest íslensk örnefni eru náttúrunöfn, þ.e.a.s. eru mótuð af svip landsins og landsháttum. Norðmenn kalla slík örnefni naturnavn eða terrengnavn og hafa þeir lengið rannsakað slík örnefni. Á stundum er einnig í örnefnum tekin líking af líkama manns eða dýrs, s.s. þegar í örnefnum koma fyrir orð eins og bringa - eða bringur, botn, fótur, haus, háls, kinn, tunga - eða tungur og öxl.
Algengt er að litarorð komi fyrir í íslenskum örnefnum. Sem dæmi má nefna: Blábjörg, sem eru á tveimur stöðum á Austurlandi, Bláfeldur á sunnanverðu Snæfellsnesi, Bláfell og Bláfjöll, sem eru víða um land, Blágnípa, Bláhnjúkur og hið merkilega örnefni Blámannshattur við Eyjafjörð, Bláskógaheiði vestan Skjaldbreiðar, Bláskriða og Bleiksmýrardalur inn af Fnjóskadal, sem nær inn undir Kiðagil á Sprengisandi og mun vera einn lengsti dalur á Íslandi, Grænaborg, Grænafell, Grænahlíð, Grænalón, Grænanes, Grænavatn og Grænihnjúkur og Gullbrekka að ógleymdum sjálfum Gullfossi. Þá eru til mörg Hvítanes og Hvítár eru um sunnan- og vestanvert landið en ekki fyrir austan eða norðan. Þá er Hvítserkur á þremur stöðum á landinu, þótt Hvítserkur við botn Húnafjarðar sé þeirra kunnastur. Enn má nefna Rauðaberg, Rauðafell, Rauðháls, Rauðhóla, Rauðalæk, Rauðamel, Rauðanúp, Rauðasand, Rauðaskriðu, Rauðavatn og Rauðavík. Þá koma fyrir örnefni eins og Svartafell eða Svartafjall, Svartagil, Svartakvísl og margar Svartár, Svartfell, Svartifoss og Svarthamar.
Fróðlegt er að því að velta fyrir sér merkingu og líkingamáli í örnefnum á Íslandi þegar farið er um landið, hvort heldur er á sumri eða vetri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.7.2013 | 00:09
Óli ólíkindatól.
![]() |
Segir forsetann skorta hugrekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2013 | 07:52
Evópusambandið, forsetinn og lýðveldið
Við setningu Alþingis 6. júní sagði forsetinn, að eðlilegt hefði verið að Alþingi skyldi fyrir fjórum árum, þegar örlagaþrungin óvissa ríkti í efnahagslífi okkar og hins vestræna heims, sjá kosti í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, einkum vegna evrunnar sem virtist búa að styrk. Nú blasti annar veruleiki við. Enginn vissi hvernig sambandið kynni að þróast og evrusvæðið byggi við djúpa kreppu. Viðræðurnar hefðu gengið afar hægt og kjörtímabilinu lokið án þess hreyft væri við þáttum sem skiptu Íslendinga mestu. Síðan segir í ræðunni:
Þessi atburðarás, og reyndar líka viðræður mínar við fjölmarga evrópska áhrifamenn, hafa sannfært mig um að þrátt fyrir vinsamlegar yfirlýsingar sé í raun ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur. ... Því er í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram; mótaðilann virðist í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka þeim á næstu árum.
Þegar forsetinn segir mótaðilann virðast í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka samningaviðræðunum á næstu árum, hafa flestir skilið orð hans þannig, að Evrópusambandið vildi ekki taka við Íslandi - á næstu árum.
Í viðtali við RÚV 27. júní vegna Þýkalandsheimsóknar segist forsetinn aldrei hafa sagt að Evrópusambandið vildi ekki taka við Íslandi - og bætir við, að óábyrgt sé af Íslandi að fara í viðræður við Evrópusambandið í einhverjum leikaraskap.
Ég sagði í þingsetningarræðunni að það væri margt sem að benti til þess að - og það væri mín ályktun eftir viðræður við marga og það hefur nú styrkst í þessari heimsókn - að af ýmsum ástæðum, sem að ég rakti í ræðu minni, að ekki væri unnt að ljúka viðræðum, nema að ljóst væri að verulegur stuðningur væri meðal Íslendinga fyrir aðild.
Þessi skoðun kemur ekki fram í ræðunni heldur sú skoðun að í raun væri ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur.
Alvörusamband og lýðveldið Ísland
Nú er það ályktun forsetans að ekki væri unnt að ljúka viðræðum, nema ljóst væri að verulegur stuðningur væri meðal Íslendinga fyrir aðild - og forsetinn heldur áfram:
Því það er á vissan hátt óábyrgt af okkur sem þjóð að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið, svona í einhverjum leikaraskap, bara til þess að kanna nú, hvað við kannski fengjum út úr því. Slíkur leikaraskapur er bara ekki gjaldgengur í alvöru alþjóðlegum samskiptum, þó að það kannski passi á Íslandi í umræðunni þar. Við verðum að passa okkar orðspor sem þjóð og sem lýðveldi að þegar við sækjum um inngöngu í aðildarsamband eins og Evrópu þá meinum við það í alvöru.
Í þingsetningarræðunni var það í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram. Í viðtalinu við RÚV er það óábyrgt af okkur sem þjóð að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið svona í einhverjum leikaraskap bara til þess að kanna nú hvað við kannski fengjum út úr því. Ísland - þar sem leikaraskapur passar í umræðunni innan lands - getur ekki boðið alvörusambandi eins og Evrópusambandinu að kanna hvað fengist kannski út úr samningaviðræðunum.
Eðli samninga
Þegar gengið er til samninga, er verið að kanna hvað fæst út úr samningum. Norðmenn gengu til samninga við EB 1972 og lögðu samninginn fyrir þjóðina sem var felldur vegna þess að kjósendur töldu sig engu bættari. Hið sama gerðist 1993.
Norðmenn fóru ekki í viðræður við alvörusamband í einhverjum leikaraskap heldur sem fullvalda þjóð til að kanna hvað fengist út úr samningum. Enginn talaði um, að það væri á vissan hátt óábyrgt af Norðmönnum að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið til þess að kanna hvað þeir fengju út úr samningunum, allra síst þjóðhöfðingi Norðmanna sem lét aldrei hafa neitt eftir sér um afstöðu sína, enda þjóðhöfðingi allra Norðmanna - hvort heldur þeir voru með eða á móti aðild. Auk þess vissi hann, að hann ræður ekki stefnu Norðmanna í stjórnmálum.
Forseti Íslands þarf að gera sér grein fyrir að hann ræður ekki stefnu Íslands í stjórnmálum, heldur kjörnir fulltrúar - stjórnmálamenn - og forsetinn er ekki stjórnmálamaður. Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er forseti lýðveldisins ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. En forseti Íslands má ekki vera ábyrgðarlaus í tali, því að við verðum að passa okkar orðspor sem þjóð og ekki vera með neinn leikaraskap.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)