Litir í örnefnum

Tungumálið geymir á vissan hátt sögu þjóða og viðhorf fólks til lífsins og tilverunnar. Má jafnvel segja að í tungumálinu felist eins konar heimspeki þjóðanna - heimspeki almennings. Örnefni geyma einnig upplifun fólks af umhverfi sínu og tilfinningu fyrir landinu og náttúru þess, eins og t.a.m. örnefnin Fagranes, Hreggnasi, Kaldbakur og Jökulfirðir bera með sér.

Flest íslensk örnefni eru náttúrunöfn, þ.e.a.s. eru mótuð af svip landsins og landsháttum. Norðmenn kalla slík örnefni naturnavn eða terrengnavn og hafa þeir lengið rannsakað slík örnefni. Á stundum er einnig í örnefnum tekin líking af líkama manns eða dýrs, s.s. þegar í örnefnum koma fyrir orð eins og bringa - eða bringur, botn, fótur, haus, háls, kinn, tunga - eða tungur og öxl.

Algengt er að litarorð komi fyrir í íslenskum örnefnum. Sem dæmi má nefna: Blábjörg, sem eru á tveimur stöðum á Austurlandi, Bláfeldur á sunnanverðu Snæfellsnesi, Bláfell og Bláfjöll, sem eru víða um land, Blágnípa, Bláhnjúkur og hið merkilega örnefni Blámannshattur við Eyjafjörð, Bláskógaheiði vestan Skjaldbreiðar, Bláskriða og Bleiksmýrardalur inn af Fnjóskadal, sem nær inn undir Kiðagil á Sprengisandi og mun vera einn lengsti dalur á Íslandi, Grænaborg, Grænafell, Grænahlíð, Grænalón, Grænanes, Grænavatn og Grænihnjúkur og Gullbrekka að ógleymdum sjálfum Gullfossi. Þá eru til mörg Hvítanes og Hvítár eru um sunnan- og vestanvert landið en ekki fyrir austan eða norðan. Þá er Hvítserkur á þremur stöðum á landinu, þótt Hvítserkur við botn Húnafjarðar sé þeirra kunnastur. Enn má nefna Rauðaberg, Rauðafell, Rauðháls, Rauðhóla, Rauðalæk, Rauðamel, Rauðanúp, Rauðasand, Rauðaskriðu, Rauðavatn og Rauðavík. Þá koma fyrir örnefni eins og Svartafell eða Svartafjall, Svartagil, Svartakvísl og margar Svartár, Svartfell, Svartifoss og Svarthamar.

Fróðlegt er að því að velta fyrir sér merkingu og líkingamáli í örnefnum á Íslandi þegar farið er um landið, hvort heldur er á sumri eða vetri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sómakennd kemur einnig fram í þessum líkamspartaörnefnum. Beruð brjóst og bellir koma ekki oft fyrir, svo mér sé kunnugt um, og ekki er ég viss um að botninn í Borgarfirði sé skírskotun í fallegan bossa af Mýrarkyni. Botn i tómri tunnu gæti alveg eins verið efnið í myndmálið.

Heyrt hef ég um Tittling, sem var nafn á koti. Ábúandi þar, Jón á Tittlingi breyttu nafninu í Uppsali. Jón var greinilega sómakær maður. Hvað ætli honum hefði þótt um  á vesalinga sem í Danmörku búa á svæðinu milli Lem og Tarm? Danir voru alltaf fyrir neðan beltisstað.

Er ekki til Ballará í Klofningi, eða er það búnaðarskólabrandari? "Böllur" í Ballará er víst skírskotun til kúlulaga kennileitis, fjalls, í nágrenninu sem heitir Böllur. Ballará á því ekkert skylt við lim eins og þann sem Limafjörður dregur nafn sitt af í Danmörku eða Rutherford á Skotlandi, og er heldur ekki skyld Balle í Ballerup, þar sem allt er flatt. Grunar mann þess vegna að Baldur hafi átt heima þar í fyrndinni. Böllurinn í Ballará á meira skylt við orðið ball á ensku og bollu á síðari tíma íslensku.

Nú hætti ég þessu blaðri.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 11.7.2013 kl. 00:45

2 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Flott samantekt.

Gráfell og Hvítafell eru einnig til. Ekkert fjall ber nafnið Gulafell eða Gulafjall en þar er merkilegt því líparítfjöll eru algeng hér á landi. Við eigum ekki neitt "Yellowstone" nafn hér á landi. Nema Gullbrekka og Gullfoss tækli það.

Stefni að því að ganga á þessi litafjöll. Þegar er Grænafell og Rauðafell komið í litasafnið.

Rauðir litir í örnefnum oftast skýrðir með lit berggrunns eða jarðefna. Hins vegar tengist blár litur í örnefni oftast fjarlægð og skýrist af áhrifum andrúmsloftsins á ljós. Grænn litur tengist yfirleitt gróðri. Járn kemur fyrir í ýmsum steindum og veldur oftast rauðum, gulum, brúnum og svörtum litum.

http://www.ni.is/frettir/nr/786

Sigurpáll Ingibergsson, 11.7.2013 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband