1.9.2012 | 11:47
Johann Friedrich Struense og drottning Dana
Johann Friedrich Struense olli straumhvörfum í Danmörku og við dönsku hirðina og skildi eftir sig djúp spor. Hann fæddist í Halle í Þýskalandi 1737, lauk þar læknanámi 1757, aðeins tvítugur að aldri, og varð árið eftir borgarlæknir í Altona, hinni gömlu hafnarborg Hamborgar. Struense var afsprengi upplýsingarinnar, vel menntaður guðleysingi, frjálslegur í skoðunum með sterka persónutöfra.
Árið 1768 varð Struense líflæknir Kristjáns konungs VII [f 1749-1808] og settist að í Kaupmannahöfn. Hlaut hann nafnbótina etatsráð. Vegna geðveilu hins unga konungs og með undirmálum tókst Struense að ná stjórnartaununum í sínar hendur. Árið 1770 útnefndi Kristján konungur hann maître des requêtes - formann ráðgjafarnefndar - og fékk Struense nánast einræðisvald í Danmörku, rak frá forsætisráðherra konungs, Johan Hartvig Ernst Bernstorff greifa [1712-1772], og hófst handa um að koma á margvíslegum umbótum, einfaldaði stjórnkerfi landsins og mælti fyrir um að embættismenn skyldu ráðnir eftir verðleikum en ekki ætt og ættartengslum, bannaði pyndingar og lýsti yfir fullu prentfrelsi haustið 1770.
Franski rithöfundurinn og heimspekingurinn Voltaire [1694-1778] sendi Danakonungi þá heillaóskir vegna þessara miklu framfara. Struense skerti völd aðalsins og vildi auka jafnræði og minnka óhóf og eyðslu við hirðina. Hann lét stöðva gagnslitlar framkvæmdir sem hann taldi vera, m.a. smíði Marmarakirkjunnar, og lét gera Kongens Have að lystigarði fyrir almenning þar sem haldnir voru tónleikar og skemmtanir fyrir sauðsvartan almúgann. Hann réð að hirðinni erlenda listamenn og tónskáld til þess að auka veg og virðingu lista og menningar í Danmörku.
Eitt höfuðmarkmið hans var að koma í veg fyrir peningasóun embættismanna og forréttindi og vildi bæta hag almennings, þar á meðal hag almennings í skattlandinu Íslandi. En Struense gerði sér heldur títt um hagi hinnar ungu drottningar Caroline Mathilde [1751-1775], sem var systir Georgs III Bretakonungs [1738-1820], en konungurinn sinnti drottningu lítið. Endaði ástarsamband þeirra með því að drottningin unga varð barnshafandi af völdum Struense og ól stúlkubarn 7. júlí 1771 sem skírt var Louise Augusta og var talin réttborin prinsessa af Danmörku.
Eins og að líkum lætur eignaðist Struense marga óvildarmenn. Með fulltingi móður Kristjáns VII, ekkjudrottningarinnar Juliane Marie [1729-1796], og Rantzau ríkisgreifa [1717-1789] tókst að koma Struense á óvart, þrátt fyrir miklar varúðarráðstafanir hans. Var hann gripinn í rúmi drottningarinnar ungu árla morguns 17. janúar 1772 eftir grímuball í höllinni kvöldið áður. Var hann hnepptur í fangelsi og drottning færð í dýblissu í Krónborgarkastala. Við réttarhöldin báru hirðmeyjar vitni um bólfarir drottningarinnar og Struense.
Struense var færður fyrir dóm. Varð niðurstaða dómsins sú að Kongens Ægteseng fremfor andre bør være ren og ubesmittet. Hjónaband Kristjáns VII og Caroline Mathilde var lýst ógilt og hún send til Þýskalands, þrátt fyrir hótanir bróður hennar Englandskonungs. Dó hún úr bólusótt þremur árum síðar, aðeins 25 ára að aldri. Struense og aðstoðarmaður, danski greifinn Enevold Brandt [1738-1772], voru dæmdir til dauða og hálshöggnir í Nørre Fælled, þar sem nú er Fælledparken, 28. apríl 1772. Voru lík þeirra hlutuð sundur og sett á hjól og steglu, fólki til skræk og advarsel.
Menn hafa ekki verið á eitt sáttir um Struense og ágæti umbóta þeirra er hann vildi koma á. Hins vegar sagði enska tímaritið Gentlemans Magazine að breytingar þær, sem Struense hefði beitt sér fyrir í Danmörku, ættu eftir að breyta allri álfunni. Sjö árum eftir dauða Struense hófst franska byltingin sem breytti öllu lífi og stjórnarháttum í Evrópu í það veru sem Struense hafði viljað og barist fyrir í anda upplýsingarinnar.
Úr KAUPMANNAHAFNARBÓKINNI Borginni við Sundið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.8.2012 | 15:34
Málið sem talað er á Akureyri
Akureyri hin fagra er 150 ára um þessar mundir. Til er sögn um að Akureyringar hafi áður og fyrrum talað dönsku á sunnudögum. Fyrir mörgum árum setti ég fram þá tilgátu, að ástæðan að baki sögninni væri sú, að dönsku kaupmennirnir á Akureyri héldu guðsþjónustur á heimilum sínum áður en kirkjan í Fjörunni var vígð 1863. Við þessar guðsþjónustur er vitað að lesið var úr dönsku biblíunni og sungnir danskir sálmar. Aðkomumenn, sem á hlýddu, hafi síðan sagt frá því, að Akureyringar töluðu dönsku á sunnudögum.
Akureyringar tala ekki lengur dönsku á sunnudögum né heldur aðra daga. En hvaða mál tala þeir á 150 ára afmæli kaupstaðarins? Þegar undarlega er spurt, verður erfitt um svör. Auðvitað tala flestir Akureyringar íslensku bæði á sunnudögum og aðra daga. Hins vegar er fólk frá 60 þjóðlöndum búsett á Akureyri, flestir frá Póllandi. Á Akureyri eru því töluð um 60 tungumál alla daga ársins.
Margir Akureyringar tala hins vegar norðlensku, sem svo er kölluð, þ.e.a.s. bera fram harðhljóðin /p, t, k/ í orðum eins og api, gata, taka, þegar í sunnlensku eru borin fram linhljóðin /b, d, g/ /abi/, /gada/ og /taga/. Auk þess nota sumir Akureyringar raddaðan framburð á undan þessum þremur harðhljóðum og segja /haMpa/ hampa, /meNNtun/ menntun og /eiNkunn/ einkunn. Þessi tvö framburðareinkenni eru talin lýsa helstu einkennum norðlensku, þótt tína mætti fleiri til.
Á árunum 1941 til 1943, kannaði dr. Björn Guðfinnsson prófessor, einn fremsti málfræðingur Íslendinga, framburð skólabarna víðs vegar um land, m.a. framburð 175 skólabarna á Akureyri. Aðeins 42 börn eða 24% höfðu raddaðan harðhljóðsframburð; 35 börn eða 20% höfðu óraddaðan framburð á undan /p, t, k/ og 98 eða 56% höfðu blandaðan framburð, þ.e. báru stundum fram raddað hljóð á undan harðhljóði og stundum ekki.
Björn Guðfinnsson kannaði einnig framburð 305 skólabarna í Eyjafjarðarsýslu með tilliti til þessa raddaða harðhljóðsframburðar. Af þeim höfðu 255 skólabörn eða tæp 74% raddaðan framburð, aðeins 8 eða 2.6% óraddaðan framburð og 72 börn eða 23.6% höfðu bandaðan framburð. Af 11 skólabörnum í Skriðuhreppi höfðu öll raddaðan framburð og af 37 börnum í Ólafsfirði höfðu 35 raddaðan framburð. Til fróðleiks má geta þess að á sama tíma höfðu einungis fjögur börn af 2200 í Reykjavík raddaðan harðhljóðsframburð eða 0.2%.
Framburður hefur breyst mikið á þessum 70 árum. Norðlenskan er á hröðu undanhaldi, eins og önnur málýskueinkenni, og óraddaður eða blandaður framburður er að vera einráður á Akureyri, eins og annars staðar á landinu. En Akureyringar tala enn íslensku og ekki dönsku ekki einu sinni á sunnudögum.
22.8.2012 | 13:03
Með lögum skal land byggja
Undarlegt var að heyra Pétur Blöndal, fulltrúa á löggjafarþingi landsins, halda því fram í gær, að lög kæmu ekki í veg fyrir okulánastarfsemi í landinu, heldur ætti að kenna fólki fjármálalæsi til þess að geta forðast svikalán smálánastofnana. Ekki sagði alþingismaðurinn hver ætti að kenna fjármálalæsi og því síður hvað fælist í orðinu.
Með því að leyfa sér að draga ályktanir af þessari undarlegu skoðun alþingismannsins - sem auðvitað ætti ekki að gera - þyrfti ekki að setja nein lög í landinu, heldur aðeins að kenna fólki guðsótta og góða siði, sem að sjálfsögðu er rétt að gera: fyrst á heimilunum og í fjölskyldunni, síðan á leikskólum og í grunnskólum og áfram í framhaldsskólum, eins og raunar gert er og gert hefur verið lengi og verður gert áfram, en hefur ekki dugað til.
En frjálshyggja Péturs Blöndals og annarra hans nóta hefur löngu riðið sér að fullu. Flestir hafa gert sér það ljóst, en meðan enn eru menn sem halda, að markaðurinn geti bjargað öllu að ekki sé talað um "frjálsa samkeppni" - sem í raun er ekki til - verður að setja lög, enda er það upphaf þinghalds og þjóðarsáttar í landinu að með lögum skal land byggja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2012 | 12:53
Með lögum skal land byggja
Undarlegt var að heyra Pétur Blöndal, fulltrúa á löggjafarþingi landsins, halda því fram í gær, að lög kæmu ekki í veg fyrir okulánastarfsemi í landinu, heldur ætti að kenna fólki fjármálalæsi til þess að geta forðast svikalán smálánastofnana. Ekki sagði alþingismaðurinn hver ætti að kenna fjármálalæsi og því síður hvað fælist í orðinu.
Með því að leyfa sér að draga ályktanir af þessari undarlegu skoðun alþingismannsins - sem auðvitað ætti ekki að gera - þyrfti ekki að setja nein lög í landinu, heldur aðeins að kenna fólki guðsótta og góða siði, sem að sjálfsögðu er rétt að gera: fyrst á heimilunum og í fjölskyldunni, síðan á leikskólum og í grunnskólum og áfram í framhaldsskólum, eins og raunar gert er og gert hefur verið lengi og verður gert áfram, en hefur ekki dugað til.
En frjálshyggja Péturs Blöndals og annarra hans nóta hefur löngu riðið sér að fullu. Flestir hafa gert sér það ljóst, en meðan enn eru menn sem halda, að markaðurinn geti bjargað öllu að ekki sé talað um "frjálsa samkeppni" - sem í raun er ekki til - verður að setja lög, enda er það upphaf þinghalds og þjóðarsáttar í landinu að með lögum skal land byggja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2012 | 10:07
Ekki er öll vitleysan eins

Seðlabankastjóri sagði frá því á ársfundi Seðlabankans í mars, að bankinn undirbyggi útgáfu nýs peningaseðils. Ákvæðisverð seðilsins yrði tíu þúsund krónur. Mun þá átt við verðgildi hans. Ástæðan er verðlagsþróun og aukið seðlamagn í umferð eða með öðrum orðum veðbólga og sukk samfélagsins. Útlit seðilsins verður svipað og fyrri seðla, en myndefni tengt Jónasi Hallgrímssyni. Skartar seðillinn einnig lóunni, að því er seðlabankastjóri sagði.
Fróðlegt væri að vita hver fengið hefur þessa furðulegu hugmynd að skreyta seðilinn myndefni tengt Jónasi Hallgrímssyni. Hvers á Jónas Hallgrímsson að gjalda? Hann var einn fyrsti menntaði náttúrufræðingur Íslendinga og fyrsta íslenska nútímaskáld þjóðarinnar, listaskáldið góða og ástmögur þjóðarinnar? Líf hans og starf tengdist ekki peningum heldur öðrum verðmætum, eins og þeir vita sem eitthvað vita um Jónas.
Hvernig heilvita mönnum kemur til hugar að tengja myndefni á stærsta peningaseðli lýðveldisins Jónasi Hallgrímssyni og lóunni, er óskiljanlegt. Jónas Hallgrímsson var fátækur vísindamaður og skáld og hafi ef einhver fugl verið fuglinn hans var það þrösturinn: Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.
Fyrir hönd Jónasar Hallgrímssonar er hér með krafist lögbanns á útgáfu tíu þúsund króna peningaseðils Seðlabankans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2012 | 09:34
Málrækt og fyrsti málfræðingurinn
Málrækt eins og gagnsætt orðið ber með sér felur í sér meðvitaða viðleitni að rækta mál sitt, vanda málfar sitt, tala og rita gott mál mál sem fellur að reglum tungunnar og hefur inntak og merkingu. Skiptar skoðanir eru um gildi málræktar. Sumir skella skollaeyrum við ábendingum okkar íhaldssamra málræktarmanna og kunnur danskur málfræðingur sagði fyrir aldarþriðjungi, að allt mál, sem skildist, væri rétt mál.
Ef til vill er sannleikskorn í þessari fullyrðingu. Hinu verður ekki móti mælt, að málrækt Íslendinga frá upphafi veldur því að íslensk tunga lifði af og að við getum lesið þúsund ára texta: Völuspá, Hávamál, vísur og kvæði Egils og Íslendingasögur, Eglu, Njálu, Hrafnkötlu, Gísla sögu og Laxdælu svo dæmi séu tekin, en af miklu er að taka þegar íslenskar miðaldabókmenntir eru annars vegar, að ekki sé talað um bókmenntir seinni alda: Hallgrím, Jónas, Einar Benediktsson, Þórberg, Halldór Laxnes, Stein og Snorra Hjartarson, en í þessu birtist samhengi íslenskra bókmennta vegna samhengis íslenskrar tungu.
Fyrsta málfræðiritgerðin, sem svo er nefnd, var rituð um miðja 12tu öld. Ritgerðin fjallar um íslenska hljóðfræði, stafsetningu og framburð og vandað málfar og heila hugsun, en í ritgerðinni stendur: Málróf er gefið mörgum en spekin fám, orð sem sannast í stjórnmálaumræðu á Íslandi undanfarin ár. Óþekktur höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar hefur verið lærður á evrópska vísu, kunnað grísku, latínu og hebresku, og þekkt það sem ritað hafði verið á Íslandi og í öðrum löndum fróðleik er þar innan lands hefur gerst eða þann annan er minnisamlegastur þykir, þó að annars staðar hafi heldur gerst eða lög setja menn á bækur hver þjóð á sína tungu, eins og hann segir.
Í lok ritgerðarinnar segir: Nú um þann mann, er rita vill eða nema [það sem] að voru máli [hefur verið] ritið, annað tveggja helgar þýðingar eða lög eður ættvísi eða svo hveregi er maður vill skynsamlega nytsemi á bók nema eður kenna, enda sé hann svo lítillátur í fróðleiksástinni, að hann vilji nema litla skynsemi heldur en öngva, þá er á meðal verður hinnar meiri, þá lesi hann þetta kapítúlum vandlega og bæti, sem í mörgum stöðum mun þurfa, og meti viðleitni mína en várkenni ókænsku, hafi stafróf þetta, er hér er áður ritað, uns hann fær það, er honum líkar betur.
Hugsanlegt er að þú, lesandi góður, skiljir ekki það sem þarna er skrifað við fyrsta lestur. En með orðum sínum er höfundur að hvetja alla til að nota stafsetningu ritgerðarinnar, þá sem á annað borð vilja rita að voru máli, nema eður kenna skynsamlega nytsemi á bók, enda sé hann [sem nema vill eða kenna] svo lítillátur í fróðleiksástinni, að hann vilji nema litla skynsemi heldur en öngva.
Höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar er með öðrum orðum að brýna fyrir fólki málrækt. Hann er því ekki alleinasta fyrsti íslenski málfræðingurinn heldur fyrsti íslenski málræktarmaðurinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2012 | 10:31
Notendamiðað heilbrigðiskerfi - aldraðir og sjúkir utangarðs.
Ekki ætti að þurfa að benda á mikilvægi heilbrigðisþjónustu frá vöggu til grafar. Hins vegar hafa yfirvöld Alþingi, ríkisstjórn og yfirstjórn stærstu sjúkrastofnana landsins látið undir höfuð leggjast að móta heildarstefnu í heilbrigðismálum við breyttar aðstæður: breytingar á búsetu, breytta atvinnuhætti, breytt mataræði og andspænis þeirri dýru en dýrmætu staðreynd að fólk lifir lengur. Nýir sjúkdómar hafa komið fram vegna breyttra samskipta, breyttra viðhorfa og breyttra lifnaðarhátta.
Mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum er því knýjandi nauðsyn þar sem tillit er tekið til breytta þarfa undir kjörorðinu notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi.
Hollvinasamtök líkardeilda hafa því ákveðið að halda ráðstefnu í Reykjavík í september um mótun heildarstefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Meginumræðuefni á ráðstefnunni er notendamiðað heilbrigðis- og velferðarkerfi. Með því er átt við kerfi sem mótað er í samráði við sjúka og aldraðra og aðstandendur þeirra svo og fulltrúa starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar en ekki eingöngu mótað af forstöðumönnum spítala og starfsfólki Heilbrigðis- og velferðarráðuneytisins. Gerð er krafa um að Alþingi móti þegar í stað heildarstefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar með tilliti til þarfa notenda og á grundvelli samráðs við sjúka og aldraðra og aðstandendur þeirra svo og fulltrúa starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar.
Fyrirmynd notendamiðaðrar heilbrigðisþjónustu er áætlun Norðmanna sem nefnd er Samhandlingsreformen og er byggð á lögum Stórþingsins frá því í fyrra. Er áætlunin í samræmi við nýja stefnu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. Þessi skipan heilbrigðisþjónustu í Noregi tók gildi í upphafi árs og er ætlað að taka tillit til þarfa sjúklinga á öllum stigum og með aðkomu fulltrúa almennings þar í landi.
Til ráðstefnunnar verður boðið fulltrúum samtaka aðstandenda sjúkra og aldraðra, frjálsum samtökum um almannavarnir og heilbrigðis og velferðarmál, stéttarfélögum lækna og hjúkrunarfólks, fulltrúum sjúkrastofnana, heilsugæslustöðva og sveitarfélaga svo og alþingismönnum og ráðherrum.
Sjá Morgunblaðið 12. júlí 2012
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2012 | 23:24
Þreytt þjóð, þreyttur forseti
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
28.6.2012 | 08:40
Þóra Arnórsdóttir forseti
Þrennt er það sem forseti Íslands á að sinna. Í fyrsta lagi á hann að vera sameiningartákn ekki stjórnmálaafl og koma fram fyrir hönd allrar þjóðarinnar ekki hagsmunahópa sem mest eru áberandi hverju sinni.
Í öðru lagi á forseti að koma fram undir merki menningar og mannúðar, hafinn yfir pólitískar væringar án undirmála, blekkinga og ósanninda, vinna að sátt og samlyndi allra sem í landinu búa, af hvaða þjóðerni og hvaða uppruna sem er, líta til heimsins alls en ekki síður inn á við, gagnrýninn á sjálfan sig og þjóðina og vinna gegn misrétti, hroka og ofmetnaði.
Í þriðja lagi á forseti Íslands að sinna stjórnarathöfnun sem stjórnarskráin felur honum beint í anda þingbundins lýðræðis.
Þóra Arnórsdóttir kemur sem ferskur andblær inn í svækju átakastjórnmála, óbundin, heiðarleg og óháð, talar frá hjartanu en vefur sig ekki orðskrúði og gömlum slagorðum áróðursmanna. Hún getur sigrast á spillingu og flokkadráttum sem geysað hafa í landinu undanfarin 16 ár og orðið sameiningartákn, boðberi mannúðar og menningar og tryggt þingbundna lýðræðisstjórn í landinu.
Þóra Arnórsdóttir forseti.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2012
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.6.2012 | 10:39
Fremstur meðal jafningja - og stjórnmálaflokkur eins manns
Árið 1968 var Kristján Eldjárn kjörinn forseti með 65% greiddra atkvæða, þótt á móti honum færi einn af mikilhæfustu stjórnmálamönnum aldarinnar, hógvær lærdómsmaður, Gunnar Thoroddsen, sem hlaut aðeins tæp 35%, enda þótt að baki honum stæði Sjálfstæðisflokkurinn heill og óskiptur auk margra valdamanna þjóðarinnar. Stuðningsmenn Kristjáns Eldjárn völdu honum einkunnarorðin fremstur meðal jafningja.
En hvers vegna kaus íslenska þjóðin til forseta hógværan og lítillátan fræðimann, sem einkum var kunnur almenningi af útvarps- og sjónvarpsþáttum um forna menningu þjóðarinnar, en höfnuðu margreyndum stjórnmálamanni á þeim miklu umbrota- og átakatímum sem ríktu í landinu og raunar heiminum öllum? Átök þessara ára voru mikil og mikil óvissa ríkjandi. Kalda stríðið var í algleymingi og heiftúðug átök innan NATO vegna valdaráns herforingjanna í Grikklandi. Eftir "vorið í Praha" gerði Varsjárbandalagið innrás í Tékkóslóvakíu í ágúst 1968 og heimurinn rambaði á barmi styrjaldar.
Gengi íslensku krónunnar var þetta ár lækkað um 35.3% vegna lélegra aflabragða og lækkandi fiskverðs. Hatrammar deilur urðu á Alþingi og ASÍ mótmælti harðlega, eindregið og einhuga þeirri stórfelldu ásás á launakjör alþýðu. Aðsúgur var gerður að forsætisráðherra á götum úti og þúsundir Íslendinga fluttust af landi brott vegna atvinnuleysis. Hafís var fyrir Norðurlandi og Austfjörðum og ísbrú milli Íslands og Grænlands. Árið 1968 þegar Kristján Eldjárn var kjörinn forseti var því ekki síður umbrota- og óvissutími en nú á því herrans ári 2012.
Engum Íslendingi datt hins vegar í hug árið 1968 að forseti Íslands ætti að bjarga atvinnuvegum og efnahag þjóðarinnar eða heimsfriðnum allra síst forsetanum sjálfum. Slíkt stórlæti var Kristjáni Eldjárn fjarlægt. Frá því hann talaði fyrst til þjóðarinnar við embættistöku sína 1. ágúst 1968 þar til að hann ávarpaði Alþingi við þinglausnir 25. maí 1980, lagði hann áherslu á það sem sameinaði þjóðina og hann talaði til allrar þjóðarinnar ekki einkum til afreksmanna á sviði viðskipta og atvinnulífs og hann lagði áherslu á það sem sameinaði þjóðina og gerði Íslendinga að þjóð. Enginn efaðist heldur um heiðarleika og einlægni Kristjáns Eldjárns sem forseta.
Nú tala skillitlir menn um, að Ólafur Ragnar Grímsson verði að standa vaktina áfram sem forseti og sjá til þess að Ísland og jafnvel heimurinn allur bjargist komist klakklaust út úr þeim vanda óvissutímanum sem að steðjar. Sjálfur fer Ólafur Ragnar Grímsson fremstur í þeim flokki og þykist ekki gera sér grein fyrir, að það eru aðrir sem eiga að standa þá vakt í þingræðis- og lýðræðislandi: löggjafarþing, ríkisstjórn og dómstólar. Aldrei minnist Ólafur Ragnar Grímsson í kosningabaráttu sinni á land, þjóð og tungu, sögu þjóðarinnar eða það sem sameinar hana heldur miklar fyrir sér og öðrum óvissuna og hættuna, sem að steðjar. Slíkt hentar betur í þeim hræðsluáróði sem hann notar í málrófi sínu og virðist falla mörgum vel.
Sannarlega eru blikur á lofti eins og verið hafa í þúsund ára sögu þjóðarinnar. En það er ekki hræðslan sem bjargar Íslendingum né öðrum þjóðum, heldur samstaða og sameiginlegur arfur, réttlæti og heiðarleiki, heiðarlegur forseti sem þekkir takmörk sín, stendur sína plikt sem forseti, ekki sem stjórnmálamaður stjórnmálaflokkur eins manns.
Greinin birtist í FRÉTTABLAÐINU 21. júní 2012
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)