Tvær þjóðir

Er það rétt, að á Íslandi búi tvær þjóðir, önnur sem fer að lögum, virðir rétt, vill heiðarleika í samskiptum, hlustar á rök og semur sig að sameiginlegum reglum og menningu – og hin sem fer ekki að lögum, virðir engar reglur, skeytir ekki um álit almennings, virðir ekki dóma, setur sér eigin lög, fer sínu fram - hvað sem landslög og dómar segja - og virðir rétt annarra að vettugi?

Forseti framtíðarinnar

Til þess að sigrast á gamla forsetanum - tíma spillingar, lyga og sundrungar - þurfa allir, sem vilja á Íslandi nýja hugsun, nýjan tíma samstöðu - og málefnalegs ágreinings og samræðu - að sameinast um Þóru Arnórsdóttur, sem ein getur sigrað ÓRG.

Af þeim sökum þarf að fara þess á leit við hina frambjóðendurna, að þeir dragi framboð sitt kurteislega til baka, svo að eftir standi annars vegar gamli tíminn, fortíðin: Ólafur Ragnar Grímsson - og nýi tíminn, framtíðin - Þóra Arnórsdóttir.

Það sem allir frambjóðendur aðrir en ÓRG vilja, er nýr tími, ný hugsun, ný framtíð, nýr forseti, sannleikur og heiðarleiki. Ekki gömlu lygina enn ein fjögur árin í viðbót.


Það hef ég aldrei sagt, Sigurjón!

Erhard Jakobsen [1917-202] var mesti refur í dönskum stjórnmálum seinni hluta síðustu aldar - ólíkindatól - og vakti athygli í ungliðahreyfingu sósíaldemókrata, mælskur og metnaðargjarn, og sat á þingi fyrir þann flokk, en stofnaði síðan Centrum Demokraterne 1973 sat á þingi fyrir þá til 1996.

Erhard Jakobsen var svo mælskur að hann vissi ekki alltaf hvað hann hafði sagt og lét hafa ýmislegt eftir sér og skipti oft um skoðun. Eftirfarandi setning var eignað honum: "Det har jeg aldrig sagt - og hvis ikke jeg har sagt det før, er jeg villig til at gentage det ... “

Hegðan Erhards Jakobsens minnir á hegðan stjórnmálamanns sem sagði: “… jafnframt set ég fram þann fyrirvara skýrt í yfirlýsingunni, að þegar óvissunni verður eytt, vonandi fljótlega á næstu misserum, innan örfárra ára, að þá muni þjóðin sýna því skilning, ef ég tel það rétt ... að ég hverfi þá til annarra starfa áður en kjörtímabilinu er lokið, og forsetakosningar fari þá fram fyrr en ella.”

Þegar Sigurjón Egilsson sagði við stjórnmálamanninn í viðtali á Sprengisandi: “Þú sagðir það sjálfur,” svaraði stjórnmálamaðurinn: “Ég hef aldrei sagt það, Sigurjón” – eða með orðum Erhards Jakobsens: “Det har jeg aldrig sagt - og hvis ikke jeg har sagt det før, er jeg villig til at gentage det ... “


Stjórnmálaflokkurinnn ORG

Ólafur Ragnar Grímsson hefur í aðdraganda forsetakosninganna komið fram sem stjórnmálaflokkur eins manns. Í krafti embættis forseta Íslands ætlar hann að leiða villuráfandi sauði fram hjá ógnum sem bíða þjóðarinnar – “tryggja að hlutirnir fari ekki hér úr skorðum”, eins og hann sagði í viðtali við Sigurjón Egilsson á Bylgjunni, þar sem hann talaði um sjálfan sig í fleirtölu eins og einvaldskonungar fyrri tíðar gerðu: “Vi alene vide.”

Forseti Íslands

• er sameiningartákn – ekki stjórnmálaflokkur,

• kemur fram fyrir hönd Íslendinga undir merki menningar og mannúðar,

• er hógvær fulltrúi nýrrar hugsunar og nýrra tíma,

• er hafinn yfir flokkadrætti og væringar án undirmála,

• tengist ekki pólitískum flokkadráttum fyrri tíðar,

• stuðlar að sátt allra af hógværð, vitur og íhugull,

• lítur inn á við, gagnrýninn á sjálfan sig og þjóð sína.


Biskupssetur eða byggðasafn

TILBURKIRKJA I SKALHOLTI

Tollheimtuskáli einveldisins 

Þrír staðir á Íslandi eru helgastir: Þingvöllur, Skálholt og Hólar. Allt í einu er risið í Skálholti tilgátuhúsÞorláksbúð, sem var tollheimtuskáli danska einveldisins þegar svo hart var gengið fram í skattheimtu að Biskupstungur voru nefndar Sultartungur.

Tollheimtuskáli danska einveldisins skyggir á stílhreina kirkju Harðar Bjarnasonar húsameistara sem vígð var 1956 og reist á grunni kirkjunnar „er að réttu kallast andleg móðir allra annarra vígðra húsa á Íslandi,“ eins og segir í Hungurvöku, sögu fyrstu biskupanna í Skálholti. Tollheimtuskálinn fordjarfar ásýnd staðarins og minnir á fátækt og umkomuleysi þjóðarinnar.

Nú vilja aðilar í ferðaþjónustu taka höndum saman um „uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu” í Skálholti með því að endurreisa þar miðaldadómkirkjun og reka sem „sjálfbært menningar- og sýningarhús” og hefur verkefnið verið kynnt kirkjuráði. Af myndinni hér að dæma kemur „miðaldadómkirkjan” til að yfirskyggja staðinn.

Er stefnt að því að gera einn helgasta stað Íslands að byggðasafni?


Einelti drepur

Einelti – hvort sem er í skólum, á vinnustöðum eða annars staðar í þjóðfélaginu veldur ómældum skaða og skilur eftir sig djúp spor – og drepur. Þótt aðkallandi verkefni bíði, bæði á sviði jafnréttis, atvinnumála, efnahagslífs, heilsugæslu og menntunar er þetta verkefni sem þolir enga bið. Auk þess er unnt að ná árangi á skömmum tíma með litlum tilkostnaði.

Fyrst ber að beina athyglinni að einelti í skólum. Það verkefni þolir enga bið. Þegar skólar hefjast í haust ber menntamálaráðuneyti og sveitarfélögum að hafa mótað einfaldar starfsreglur sem öllum skólum ber að fara eftir. Reglurnar eru raunar til og viljinn víðast hvar fyrir hendi – en það þarf að taka höndum saman, sýna viljann í verki. Ekki síst þarf að gera nemendur sjálfa virka í forvarnarstarfinu. Slíkt hefur sýnt sig að bera bestan árangur.

Að loknu næsta skólaári ber skólastjórum að senda menntamálaráðuneytinu örstutta skýrslu þar sem fulltrúar kennara og nemenda eru hafðir með í ráðum og undirrita skýrsluna. Ef einelti hefur ekki verið upprætt á þremur árum í skóla, skal skólastjórinn víkja úr starfi. Þetta umbótastarf þolir enga bið. Fjölmargar rannsóknir liggja fyrir um orsakir eineltis, enda liggja ástæðurnar fyrir.

Meginástæðan er vanlíðan gerandans og vanmáttug heimili. Næst á eftir vanlíðan gerandans er meginástæðan ofbeldi í umhverfi okkar sem kemur fram í styrjaldarrekstri og kúgun auk þess sem ofbeldisleikir og ofbeldismyndir vega þungt. Við það verður erfiðara að ráða. En gerendunum ofbeldis og vanmáttugum heimilum ber að hjálpa og sýna þeim skilning. Burt með einelti í skólum.

MBL 04.05.2012 


Skotsilfur Egils

Fjórir viðmælendur í Silfri Egils í dag komu fram sem fulltrúar slúðurbera af götunni og höfðu lítið að segja af viti um stjórnmálin og þjómálin annað en órökstuddar persónulegar skoðanir sínar. Þar örlaði ekki á yfirvegaðri greiningu á mönnum og málefnum. Mikill hluti umræðunnar fór svo í að tala um fátæklega umræðuhefð á Íslandi og þjóðernishroka Íslendinga. Féll umræða fjórmenninganna algerlega inn í þá mynd sem þeir drógu sjálfir upp. Sannaðist á fjórmenningunum að auðveldara er að kenna heilræðin en halda þau.

Ný sýnisbók íslenskra bókmennta

Íslensk tunga hefur iðulega átt undir högg að sækja, eins og flest tungumál smáþjóða. Engu að síður hefur málið lifað þúsund ár og aldrei staðið sterkar sem þjóðtunga en nú. Þessi staðhæfing er reist á þeirri staðreynd að ritað er um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni: heimspeki, mannfræði, læknisfræði, stjarnfræði, stjórnmál, efnafræði og stærðfræði. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og önnur orðlist stendur með blóma, vandaðar bækur um fjölbreytt efni eru gefnar út hvert ár og bóklestur er að aukast. Fleiri njóta kennslu í íslensku og bókmenntum en áður og rannsóknir eru gerðar á máli og málnotkun, nýyrðasmíð er öflug – og fleiri nota nú talað mál og ritað en nokkru sinni.

En hvað veldur að íslensk tunga lifði af og stendur sterkar en nokkru sinni? Að sjálfsögðu er fjölmargt sem veldur. Hér verður aðeins vikið að þremur þáttum. Í fyrsta lagi virðast Íslendingar í upphafi hafa haft fágætan áhuga á máli og bókmenntum og gerðu hvort tveggja í senn að frumsemja verk á íslensku og varðveita erlend rit, þannig að bókmenntir Íslendinga frá miðöldum eiga sér enga hliðstæðu í Evrópu. Má nefna Eddukvæði, dróttkvæði, veraldlega sagnaritun, s.s. Íslendingabók Ara og Landnámu, verk Snorra, s.s. Eddu og Heimskringlu, kristin trúfræðirit, píslarsögur og biskupasögur, og ekki síst Íslendingasögur, sem hafa algera sérstöðu í bókmenntum Evrópu. Einnig mætti nefna Sturlungu, lykilverk íslenskra miðaldabókmennta, og fræðirit um guðfræði, heimspeki og málfræði.

Í öðru lagi má nefna þá stefnu lútersku siðbótarkirkjunnar á Íslandi í upphafi að þýða Biblíuna á íslensku, fyrst Nýja testamenti Odds, prentað var í Hróarskeldu 1540, og síðan Guðbrandsbiblíu, prentuð á Hólum 1584. Einnig var gefin út Sálmabók 1589 að ógleymdum Passíusálmun Hallgríms sem fyrst komu út á Hólum 1666 og hafa nú verið prentaðir nær níutíu sinnum og hafa skerpt ljóðaskilning og kveðskaparhefð.

Í þriðja lagi hefur almennur kveðskapur stuðlað að því að varðveita málið, en talið er að flestir Íslendingar hafi einhvern tíma á ævinni ort smákvæði eða gert vísu. Vésteinn Ólason prófessor, fyrrum forstöðumaður Árnastofnunar, segir í Íslenskri bókmenntasögu MM I 1992:19: „Saga bókmenntanna er svo samofin öllu lífi þjóðarinnar að hún hlýtur öðrum þræði að verða þjóðarsaga.” Þetta eru orð að sönnu. Í formála að Íslenskri lestrarbók 1924:XI benti Sigurður Nordal á „hið órofna samhengi í tungu vorri og bókmenntum frá upphafi Íslands byggðar til vorra daga”.

Mikilvert er að varðveita þetta órofna samhengi og auka skólanemendum og öðrum skilning á samhenginu með því að gefa út nýja sýnisbók íslenskra bókmennta frá Eddukvæðum, Agli og Snorra til Þórarins Eldjárns, Jóns Kalmanns og Gerðar Kristnýjar.


Þóru Arnórsdóttur fyrir forseta

Flestir eru sammála um að meginhlutverk forseta Íslands sé koma fram fyrir hönd þjóðarinnar allrar án undirmála og flokkadrátta og að vera sameiningartákn. Hlutverk forseta Íslands er ekki að vera leiðtogi afmarkaðs hóps eða sérstakra samtaka eða viðhorfa. Slíkt er hlutskipti stjórnmálamanna – að takast á um hagsmuni og völd í samfélaginu.

Forseti Íslands á að vera hafinn yfir pólitíska flokkadrætti, hann á að leitast við af fremsta megni að vera forseti allra Íslendinga – vinna að samhug fólks og samheldni og berjast gegn sundrungu, fjölmenntaður, vitur og hógvær, víðsýnn og umburðarlyndur.

Þóra Arnórsdóttir hefur allt til brunns að bera til þess að gegna starfi forseta: hún er vel menntuð, vel máli farin, laus við pólitíska flokkadrætti, hún er ung – og ekki síst er hún móðir.

Konur hafa ávallt gegnt mikilsverðu hlutverki í íslensku þjóðfélagi, þær hafa um aldir annast uppeldi, uppfræðslu og menntun á heimilunum, þær sáu um velferð hjúa sinna og þær réðu öllu innan stokks, eins og sagt var um mikilhæfar konur á fyrri tíð. Nú hafa konur haslað sér völl utan heimilis í samræmi við aukna menntun sína og nýjan tíðaranda, en þær gegna áfram hinu mikilsverða hlutverki móður og húsfreyju.

Það boðar nýja tíma að fá á Bessastaði konu sem er ung móðir, víðsýn og vel menntuð. Með því yrðu ný gildi ráðandi, mjúk gildi: mannúð, umburðarlyndi, tillitsemi, sátt og eindrægni.


Skítlegt eðli og æðruleysisbænin

Gamall bekkjarbróðir lenti í slysi fyrir nokkrum árum – raunar eins og íslenska þjóðin. Hann lamaðist fyrir neðan háls og er bundinn hjólastól. Það sem bjargaði honum við þetta áfall að eigin sögn, var æðruleysibænin: „Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig það, sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því, sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli.”

Stundum finnst mér eins og eina hjálp okkar í þessu kalda landi sé æðruleysisbæn. Íslenskir stjórnmálamenn eru lamaðir fyrir ofan háls og geta því ekki hugsað heila hugsun og lamaðir fyrir neðan háls og geta því ekki farið um landið og áttað sig á aðstæðum og litið á samfélagið sem eina heild.

Sagt er að mannskepnan sjái það sem hún vill sjá, heyri það sem hún vill heyra og skilji það sem hún vill skilja. Þetta er endurómur af orðum mannsins frá Nasaret þegar lærisveinar hans spurðu, hvers vegna hann talaði til manna í dæmisögum og hann sagði: Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Sumir sjá svo aðeins hið skítlega í eðli.

En sem betur fer sjá ýmsir hið góða, og þótt alþingismenn séu margir ekki þingtækir og flestir stjórnmálamenn duglausir, er margt gott að gerast í þessu fámenna þjóðfélagi á hjara veraldar. Gott starf er unnið í skólum landsins, allt frá leikskólum til háskóla og listamenn sýna hæfileika á fjölmörgum sviðum: leikarar, dansarar, söngvarar, hljómlistarmenn, málarar, myndlistamenn, rithöfundar, skáld - og hönnuðir.

Ef til vill væri hins vegar rétt að auka við æðruleysisbænina og hafa hana þannig: Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig það, sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því, sem ég get breytt, og vit til að greina þar á milli – og sýn að koma auga á það sem gott er gert


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband