Nýr forseti nýs Íslands

Fólk veltir fyrir sér öðrum og betri valkosti á Bessastaði – eins og eðlilegt er. Að mínum dómi á forseti Íslands fyrst og síðast að vera sameiningartákn þjóðarinnar og koma fram fyrir hönd hennar allrar án undirmála, hafinn yfir flokkadrætti og væringar.



Forseti Íslands á að stuðla að sátt og samlyndi meðal allra Íslendinga af hreinskilni og hógværð, vitur maður og íhugull og sannmenntaður. Nýr forseti Íslands á að búa yfir þekkingu á sögu og menningu Íslendinga og annarra þjóða, víðsýnn og umburðarlyndur.



Nýr forseti nýs Íslands má ekki að tengjast pólitískum flokkadráttum fyrri tíðar og svikum og ránum fjárglæframanna. Hann á að líta inn á við en ekki að telja þjóðinni trú um að upphefð hennar komi að utan né heldur að hún geti frelsað heiminn undir leiðsögn hans. 



Þennan nýja forseta nýrrar hugsunar nýs Íslands – karl eða konu – skulum við finna í sameiningu.


Auðvaldsskipulagið er ótækt

Viðskipta- og fjármálakerfi heimsins er ótækt skipulag. Í skjóli pappírspeninga er takmörkuðum auðlindum sóað í stað þess að nýta þær til hagsbóta fyrir alla jarðarbúa. Lögmál markaðarins – sem svo eru kölluð – eru látin ráða í skjóli frjálsrar samkeppni. En lögmál markaðarins er ekkert annað en blind gróðahyggja og frjáls samkeppni ekki til – eða með öðrum orðum: Þetta skipulag er ótækt.

Í stað núverandi skipulags eiga samtök almennings og frjálsra einstaklinga, s.s. samvinnufyrirtæki og almenningshlutafélög, að annast atvinnu- og framleiðslu allra landa með takmörkuðum afskiptum framkvæmdavaldsins í skjóli laga í lýðræðislegu stjórnarfari þar sem raunverulegt vald er höndum í almennings – í beinum kosningum.

Það sem vegur þyngst í fátækt heimsins er krafa hins alþjóðlega auðvalds um arð af fjármagni. Þessum arði er ekki hægt að ná nema með arðráni og kúgun. Til þess að ná þessum arði hefur auðvaldið flutt framleiðslu sína til fátækra landa þar sem enn eru ekki gerðar athugasemdir við vinnuþrælkun og arðrán verkafólks, vegna þess að stjórnvöld í þessum löndum eiga fárra kosta völ og vegna þess að notaðar eru hótanir og mútur til þess að fylgja arðráninu eftir.

Til þess að halda dansi auðvaldsins gangandi er almenningi talin trú um, að hamingjan sé fólgin í því að kaupa – kaupa og eyða, enda eru ríki Vesturlanda orðin botnlaus neyslusamfélög. Enginn virðist geta stöðvað þennan dauðadans – en margir vilja leita leiða en sumir vilja stökkva af vagninum af því að sífellt fleiri átta sig á því að hamingjan eykst ekki með auknum kaupmætti.

Í samræmi við kenningu auðhyggjunnar berjast stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar ríku landanna fyrir auknum kaupmætti meðan fólk í fátækum löndum sveltur, jafnvel í löndum þar sem unnt er að brauðfæða alla, löndum sem búa yfir náttúruauðlindum s.s. ræktunarkostum, vatnsorku, olíu og dýrum málmum.

Brýnt er að koma á jöfnuði meðal einstaklinga og þjóða, breyta eignaskiptingu milli hins alþjóðlega auðvalds og almennings og gera fátækum þjóðum kleift að bjarga sér sjálfar.


Forseti - sameiningartákn eða stjórnmálamaður?

Í nýársræðu tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson að hann ætlaði að láta af starfi forseta Íslands, sagðist eftir að hafa íhugað vandlega ólík sjónarmið varðandi framboðið, að niðurstaðan kynni að hljóma sem þversögn "en er engu að síður sú, að aðstæður þjóðarinnar séu þess eðlis, að ég geti fremur orðið að liði, ef val á verkefnum verður eingöngu háð mínum eigin vilja, óbundið af þeim skorðum sem embætti forsetans setur jafnan orðum og athöfnum". Síðan segir orðrétt í ræðunni:

"Þegar skyldur þjóðhöfðingjans hvíla ei lengur á mínum herðum fæ ég meira frelsi til að sinna hugsjónum og málefnum, sem hafa lengi verið mér kær, get á annan veg tekið þátt í að efla framfarir og hagsæld, vísindi, rannsóknir og atvinnulíf. Þá munu opnast nýjar leiðir til að styðja baráttuna gegn loftslagsbreytingum og kynningu á hreinni orku, þróa samvinnu á Norðurslóðum og tengsl okkar við forysturíki í öðrum álfum, auka tækifæri unga fólksins og lýðræði í landinu.

Ákvörðun mín felur því ekki í sér kveðjustund heldur upphaf að annarri vegferð, nýrri þjónustu við hugsjónir sem hafa löngum verið mér leiðarljós; frjálsari til athafna en áður og ríkari af reynslunni sem forsetaembættið færir hverjum þeim sem þjóðin kýs. ...

Ég færi ykkur, kæru landsmenn, einlægar þakkir fyrir traustið sem þið hafið lengi sýnt mér, Dorrit og Guðrúnu Katrínu; óska hverjum og einum, ykkur öllum farsældar í framtíðinni."

Ekkert fer hér milli mála. Engu að síður hefur hópur manna skorað á Ólaf Ragnar að sitja enn eitt kjörtímabilið. Fremstur fer Guðni Ágústsson, gamall flokksbróðir, til að tryggja hagsmuni Íslands í umræðunni um aðild Íslands að Evrópusambandinu auk þess sem hópurinn telur engan núlifandi Íslending geta gegnt embætti forseta Íslands annan en Ólaf Ragnar.

Hlutverk forseta Íslands er ekki að vera leiðtogi einhvers afmarkaðs hóps manna eða samtaka. Hlutverk forseta Íslands er að vera sameiningartákn þjóðarinnar, koma fram fyrir hönd hennar allrar án flokkadrátta. Það gerðu forsetar landsins á undan Ólafi Ragnari. Hlutverk misviturra stjórnmálamanna er að berjast fyrir hagsmunum einstakra hópa og tryggja pólitísk völd.

Forseti Íslands á að vera hafinn yfir pólitíska flokkadrætti, hann á að vera vitur maður og menntaður, víðsýnn og umburðarlyndur – og hann á að leitast við af fremsta megni að vera forseti allra Íslendinga – ekki að stuðla að sundrungu þjóðarinnar. Ef skoðun Guðna Ágústssonar og félaga hans reynist rétt, að einungis einn Íslendingur geti gegnt embætti forseta, er best að ganga aftur Noregskonungi á hönd með Nýja sáttmála - og sjá hvað setur næstu 600 sumur.


J'accuse - ég ákæri

Hlutur gamals fólks í allsnægtarþjóðfélagi eftirhrunsáranna er ógnvekjandi. Það sýndi áhrifamikill þáttur KASTLJÓSS RÚV í kvöld. Gamalt fólk getur ekki skilið stöðu sína og réttindi – hvað að þeim snýr, skilur ekki lífeyrissjóðsgreiðslur eða breytingar á greiðslum tryggingarkerfisins. Næst því að bjarga skuldsettum heimilum ungs fólks er mest aðkallandi að tryggja réttindi gamla fólksins. Til þess þurfum við nýtt afl í stjórnmálum – samfylkingu umbótaafla í anda lýðræðis og jafnréttis.

Bóklestur, málrækt og mállýskur

Mikil áhersla hefur lengi verið lögð á málvöndun og málrækt á Íslandi. Að einhverju leyti má rekja það til Fjölnismanna og þá einkum til Jónasar Hallgrímssonar, en með málvöndun og ljóðum sínum braut hann blað í málvísi og ljóðagerð, enda nefndur fyrsta nútímaskáld Íslendinga.

Málvöndun ásamt hvatningu um lestur góðra bóka hefur borið árangur og er undirstaða að íslenskri málrækt, enda hefur sennilega aldrei verið talað og ritað betra mál af jafn mörgum á Íslandi og nú.

En þótt málvöndun og márækt sé öflug, nær málræktarstarf ekki til allra. Farið er að bera meira á misjöfnu máli fólks eftir menntun, stöðu og stétt. Er sennilegt, að þessi mismunur eigi eftir að vaxa og stéttamállýskur að aukast svo og munur á máli ungs fólks annars vegar og máli fullorðinna hins vegar – en mállýskur eftir landshlutum munu hverfa.

Ungt fólk notar enskar slettur og ensk tökuorð meira en áður. Þetta er ekki óeðlilegt vegna sterkrar stöðu enskrar tungu í heiminum, bæði sem alþjóðamáls – eða réttara sagt sem alþjóðamálið – svo og vegna þess að enska er mál afþreyingariðnaðarins og mál tísku- og sýndarheimsins sem er grundvöllur að lífi, tómstundum og ánægju margs ungs fólks.


Norsk örnefni á Íslandi

Fjölmörg örnefni á Íslandi eru norsk að uppruna, enda töluðu landnámsmenn norsku, en gamla málið, sem talað var í Noregi á landnámsöld, kalla Norðmenn enn gammel norsk. Að lokum varð þetta gamla mál svo að íslensku, sem nú er elsta mál í Evrópu.

Dæmi um örnefni á Íslandi, sem einnig eru til í Noregi, eru örnefnin Glóðafeykir, Herðubreið og Hegranes. Margir hafa vafalaust talið, að örnefnið Glóðafeykirfjallið sem feykir, varpar glóðum - sé aðeins við austanverðan Skagafjörð. Í Noregi eru tvö fjöll sem bera nafnið Gloføken, annað á Heiðmörk, vestan vatnsins Femund, hitt á eynni Bremanger þar sem fyrrum bjó Berðlu-Kári, fóstbróðir Kveld-Úlfs, afa Egils .

Herðubreið á Mývatnsöræfum var valin þjóðarfjall Íslendinga á alþjóðaári fjallsins árið 2002. Herðubreiðar eru raunar tvær á Íslandi, fjalladrottningin á Mývatnsöræfum og Herðubreið við Eldgjá, sunnan Ófærufoss í Skuggafjallagjá. Fjallið Herdabreida stendur við norðanverðan Harðangursfjörð á Hörðalandi, þaðan sem flestir landnámsmenn komu. Nokkur líkindi með fjöllunum tveimur, þótt fjalladrottningin sé tignarlegri og herðabreiðari en fjallið við Harðangursfjörð.

Annað skagfirskt örnefni er Hegranes sem væntanlega er líkingarnafn. Fuglsheitið hegri kemur fyrir í Hávamálum og er þar notað um 'gleymskufuglinn' óminnishegran, sem býr í áfengu öli og fær menn til að gleyma: Óminnishegri heitir, / sá er yfir öldrum þrumir,/ hann stelur geði guma./ Þess fugls fjöðrum / eg fjötraður var eg / í garði Gunnlaðar.

Hegrenes er nes norðan Sandvíkur, Sandviken, í Bergen, Björgvin, sem varð höfuðborg Íslands þegar Íslendingar gengu Hákoni gamla á hönd árið 1262. Yst við sunnanverðan Førdefjorden í Firðafylki er annað Hegrenes, gegnt bænum Kvellestad, Kvöldstöðum, en í Firðafylki hefur varðveist sögn um að Kveld-Úlfur, faðir Skalla-Gríms, hefði búið á Kvellestad og af þeim sökum hlotið viðurnefnið Kveld-Úlfur.


Alþingismenn ekki þingtækir

Talað er um að mál sé þingtækt. Þá er átt við að unnt sé að ræða málið á Alþingi, sem stundum er kölluð elsta elsta löggjafarþing í heimi. Hins vegar sýnist mér margir alþingismenn séu ekki þingtækir, þeas ekki færir um að ræða málefnalega og af yfirvegun mikilverð mál.


Styrmir Gunnarsson og ójöfnuðu okkar tíma

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri og blaðamaður MBL nær fjóra áratugi, segir í Sunnudags Mogganum 22. janúar 2012, að ójöfnuður sé mesti þjóðfélagsvandi okkar tíma. Þetta eru orð að sönnu. Hins vegar er ójöfnuður ekki nýtt fyrirbæri og því síður þjóðfélagsvandi "okkar tíma". Jafnaðarmenn hafa frá dögum sonar trésmiðsins í Nasaret barist gegn ójöfnuði.

En ég skil ekki, hvers vegna Styrmir Gunnarsson, glöggskyggn og mætur maður, kom ekki auga á ójöfnuðinn meðan hann þjónaði Reykjavíkuríhaldinu tvo mannsaldra. Reykjavíkuríhaldið hefur frá upphafi kynnt undir ójöfnuð í samfélaginu – og gerir enn. Hins vegar verða forréttindi íhaldsins og eignastéttarinar – hvar í flokki sem kann að finnast – að láta undan síga fyrir jafnréttiskröfu sem, fer nú eins og logi um akur um allar álfur. Þá er hins vegar gott að eiga gamla afturbata íhaldsmenn eins og Styrmi Gunnarsson að.


Dönsk orð í daglegu tali

Dönsk orð og dönsk orðasambönd eru æði mörg í daglegu tali en prýða ekki íslenskt mál og bera hvorki vitni um vandað málfar né mikla málkennd. Einna verst er, hvernig klifað er á dönsku sögninni kíkja, kíkja á, kíkja inn, kíkja í blöðin - og danska orðasambandinu reikna með. Virðist af máli sumra starfsmanna RÚV eins og þeir þekki ekki sögnina líta, líta á, líta inn, líta í blöðin, skoða að ég tali ekki um að hyggja að eða íhuga ellegar orðasambönd eins og að gera ráð fyrir, ætla, búast við. Nei, kíkja og reikna með skal það heita.

Til gamans má hins vegar nefna þrjú orð, sem algeng eru í íslensku talmáli, öll komin úr dönsku – og okkur málhreinsunarmönnum mun reynast erfitt að útrýma. Fyrst skal nefnt orðið ha sem á rætur að rekja til orðanna „Hvad behager” og á dönsku eru borin fram [va: be'ha] með þungri áherslu á síðasta atkvæðið. Ætla má að Íslendingar, sem heyrðu Dani segja: „Hvad behager”, hafi einkum heyrt ['ha] – og þannig hafi þetta einkennilega spurnarorð ha orðið til.

Annað danskt orð í íslensku er merkingarlausa fyllingarorðið sko, komið af upphrópuninni sgu eða så gu sem er stytting á: „Så hjelpe meg gud”. Upphrópunin sgu er ekki talin fara vel í vandaðri dönsku en hefur þó nýlega verið tekið af skrá um dönsk bltótsyrði.

Bent skal á, að til er annað orð, ritað á sama hátt en af allt öðrum rótum, sem er boðháttur sagnarinnar að skoða, eins og þegar sagt er við lítið barn: „Sko fuglana” í merkingunni 'sjáðu fuglana'. Sögnin er notuð í biblíumáli og kemur fyrir víða í þjóðsögum. Auk þess er sögnin notuð í föstum orðasamböndum s.s.: Í upphafi skal endinn skoða, Skoða ofan í kjölinn og Skoða hug sinn. Jónas Hallgrímsson notar sögnina skoða í ævintýri sínu Fífill og hunangsfluga þar sem segir:

Fífillinn var nýsprottinn út. Hann hafði dreymt morgunroðann og vaknaði þegar sólin kom upp en aldrei séð kvöld og forsælu. Hann leit ekki í kringum sig en horfði brosandi í sólina og sólin kyssti hann þúsund sinnum eins og móðir kyssir nývaknað barn – og hann roðnaði af gleði í sólarylnum og hlakkaði til að lifa og verða stór. Þá kom flugan út í holudyrnar og skoðaði til veðurs.

Þriðja danska orðið, sem notað er í daglegu máli, er fyllingarorðið jæja sem komið er af „ja, ja” í dönsku og Danir nota mikið og borið er fram /jæja/. Halldór Laxness hafði dálæti á þessu orði og lagði út af því á ýmsa vegu. Í Fegurð himinsins lætur hann t.a.m. hreppstjórann í Bervík segja við Ólaf Kárason: „Segirðu jæa helvítis bjáninn þinn. Hver veit nema þú fáir að borga það orð fullu verði áður en lýkur.”


Heimsljós - jólasýning Þjóðleikhússins

Enginn íslenskur rithöfundur á síðustu öld stenst samjöfnuð við Halldór Laxness. Þekking hans og innsæi, dirfska, orðvísi og víð veraldarsýn tekur öðru fram. Hann var skáld minnar kynslóðar, en virðist síður höfða til ungu kynslóðarinnar, a.m.k. ekki þess hluta hennar sem alinn er upp við sýndarveruleika bandarískra kvikmynda.

Ef til vill væri ástæða til þess að kynna ungu kynslóðinni enn frekar heim Halldórs Laxness til þess auka henni gagnrýni og opna henni víðari sýn. Ein leiðin til þess er að flytja verk hans á leiksviði eins og Þjóðleikhúsið hefur gert áratugum saman, síðast með eftirminnilegri uppfærslu á Íslandsklukkunni, sérstæðri sýningu á Gerplu og nú með áhrifamikilli sýningu á sögu Ólafs Kárasonar.

Ekki er vandalaust að koma mikilfenglegum fjórleik Halldórs Laxness um skáldið Ólaf Kárason til skila í einni leiksýningu. Þetta mikla verk fjallar um lífið og ástina, um manninn og guð, um kúgun, svik og ánauð og um vonina, fegurðina og kærleikann og hinn breyska og vanmáttuga einstakling og baráttu hans fyrir réttlæti og góðvild.

Aðalpersónan, Ólafur Kárason, skáldið sem ber heiminn á herðum sér, hefur sterka skírskotun til Krists, ljóss heimsins, mannssonarins sem ber allar syndir heimsins og á móður en engan föður – nema föðurinn á himnum.

Kjartani Ragnarssyni hefur ásamt leikurum og öðru hæfu starfsfólki sínu tekist að gera sýningu þar sem orðlist Halldórs Laxness nýtur sín og kjarni fjórleiksins kemur fram, vanmáttug barátta mannsins fyrir réttlæti og jöfnuði, þráin eftir ást og leitin að guði.

Með þessari sýningu hefur Kjartan Ragnarsson enn einu sinni sýnt listræna hæfni sína og sýning hans ber vitni um að við eigum góða leikara og Þjóðleikhúsið hefur enn einu sinni gegnt því meginhlutverki sínu sem musteri íslenskrar tungu að sinna íslenskum skáldskap og íslenskum leikverkum.

Vonandi verður þessi sýning til þess að opna augu ungu kynslóðarinnar fyrir mikilfengleik íslenskra bókmennta – og þá ekki sýst mikilverðu hlutverki Halldórs Laxness sem rithöfundar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband