12.1.2012 | 09:09
Gleðimaður og gleðikona
Talað er um að karlmenn séu gleðimenn og kona gleðikona. Eins og lesendur vita, endurspeglar tungumálið afstöðu samfélagsins til manna og málefna og breytist eftir því sem samfélagið málsamfélagið breytist.
Afstaða samfélagsins kemur m.a. fyrir í orðum sem notuð eru um konur annars vegar og karlmenn hins vegar. Talað er um að karlmaður sé gleðimaður. Er þá átt vi glaðsinna karlmann sem vekur aðdáun og heillar með sögum og hnyttiyrðum, og það er eftirsóknarvert að vera gleðimaður.
Þegar talað er um gleðikonu er annað uppi á teningnum. Hún er ekki mikils virt og kölluð lauslát, lausgirt og nefnd hóra eða skækja, dræsa, dækja, flyðra, gæra, mella, portkona, púta, vændiskona og lítils virt. Karlmaður, sem kemur víða við, nýtur kvenhylli - er kvennamaður.
En hvernig er orðið gleðikona hugsað? Naumast er mikil gleði í því fólgin að vera gleðikona, enda þótt hún kunni að geta notið kynlífs. Hún stundar þessa iðju ekki til þess að auka sér gleði; því síður eykur þetta henni hamingju eða virðingu, þótt sögur fari af einstaka auðugri og jafnvel virtum gleðikonum úti í hinum stóra heimi. Starf gleðikonunnar er neyðarbrauð. Að baki býr ofbeldi, mansal, þrældómur og kynlífsþrælkun. Hugsunin að baki orðinu gleðikona er kona sem veitir manninum gleði. Í þessu orði, sem og mörgum öðrum orðum málsins, kemur því fram afstaða samfélagsins oft afstaða karlmanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.1.2012 | 09:36
Skömm Ríkisútvarpsins
Áramótaskaup Ríkisútvarpsins var eins og við var að búast grátt gaman, þar sem á einstaka stað var slegið á létta strengi, en einkum níðst á fólki og óþverrabrandarar hafðir í fyrirúmi. Hefur öllu skammotað aftur síðan Stefán Jónsson, Flosi og Jón Múli skemmtu með léttri gamansemi sinni.
Af öllu aumu í Áramótaskaupi Ríkisúvarpsins frá upphafi voru þessi orð þó verst: Við [Norðmenn] tökum þó ekki ábyrgð á innfæddum sinnissjúkum karlmönnum á miðjum aldri sem skjóta þig og/eða sprengja húsið þitt með áburðarsprengjum.
Nú veit ég, að Páll Magnússon útvarpsstjóri biðst ekki afsökunar á þessum orðum. Hann biðst ekki afsökunar á neinum afglöpun sínum né starfsmanna sinna. Hins vegar vil ég fyrir hans hönd og sem gamall starfsmaður Ríkisútvarpsins og fyrsti fréttamaður þess í Noregi biðja frændur okkar og vini Norðmenn afsökunar á þessum orðum. Þetta áttu þeir ekki skilið eftir mestu hörmungar sem yfir norsku þjóðina hafa dunið á friðartímum.
Hafi Ríkisútvarpið skömm fyrir.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2012 | 20:37
Sameiningartákn
Ólafur Ragnar Grímsson er mikilhæfur stjórnmálamaður og verður talinn meðal svipmestu stjórnmálamanna lýðveldistímans. Hann getur brugðið sér mörg líki og látið með ólíkindalega og komið andstæðingum sínum á óvart, eins og slyngum stjórnmálamönnum er tamt. Flestir túlka óljós orð hans í áramótaávarpinu á nýársdag á þann veg, að hann muni ekki bjóða sig fram til forseta að nýju. Hins vegar má eins vel túlka þau á þann veg, að ef á hann verði skorað, muni hann svara kalli. Litlar líkur eru á því að á hanna verði skorað. Nú er nóg komið af Ólafi Ragnari sem forseta Íslands.
Orð hans í Kryddsíldinni á gamlársdag vöktu mér furðu komu mér á óvart, þegar hann talaði um þá kenningu manna að forsetaembættið væri sameiningartákn, enda vissi hann ekki til að neitt sambærilegt orð væri til í öðrum málum um þjóðhöfðingja, og væri þetta séríslenskt fyrirbæri og kenningin búin til af þeim sem vilja koma böndum á forsetann. Stundum hendir það mælska menn sem ástunda málskrúð eða lýðskrum og eru blindaðir af eigin ágæti að vita ekki hvað þeir segja af því að þeir þurfa ekki að hugsa áður en þeir tala.
Til er saga austan af fjörðum um mælskasta verkalýðsleiðtoga kalda stríðsins sem í miðri hvatningarræðu stansaði við og mæli: Hvurn andskotann er ég eiginlega að segja? Svo gekk hann úr ræðustól.
Aftur að kenningunni um þjóðhöfðingja sem sameiningartákn. Fjölmargir þjóðhöfðingjar hafa orðið þjóð sinni sameiningartákn bæði fyrr og síðar. Í síðari heimstyrjöldinni varð Hákon sjöundi Noregskonungur sameiningartákn norsku þjóðarinnar, raunar á sama hátt og Kristján tíundi Danakonungur, bróðir hans, afi Margrétar annarrar Danadrottningar. Þegar Hákon sjöundi var sjötugur, hinn 3. ágúst 1942, var hann landflótta í Lundúnum. Þúsundir Norðmanna og Englendinga tóku þátt í hyllingargöngu í Hyde Park og konungur talaði til 5000 Norðmanna í Albert Hall. Vakti þessi atburður athygli hins frjálsa heims og varð milljónum manna hvatning til þess að berjast gegn kúgunaröflunum. Heima í Noregi báru frjálsir Norðmenn blóm í hnappagatinu þennan dag til heiðurs konungi sínum.
Í Danmörku situr Margrét önnur Danadrottning á friðastól og er lýsandi sameiningartákn einnar fremstu menningarþjóðar í heimi. Á gamlársdag flutti hún fertugasta gamlársdagsávarp sitt. Danskir fjölmiðlar hafa síðan fjallað um drottningu sína sem sameiningartákn og skrifa m.a. um ræðuna: Talen favner alle, berører alle og inkluderer alle, så vi alle sammen føler os lidt mere danske, når dronningen har sagt Gud bevare Danmark, og vagterne foran Amalienborg genindtager skærmen.

Ef þetta eru ekki dæmi um sameiningartákn meðal annarra þjóða, veit ég ekki hvað sameiningartákn er.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.12.2011 | 10:11
Hengja bakara fyrir smið
Sífellt er verið að hengja bakara fyrir smið til þess að fullnægja réttlæti, friðþægja, breiða yfir misgerðir og til þess að blekkja. Málshöfðun fyrir Landsdómi yfir Geir H. Haarde er sögð til þess að fullnægja réttlæti. Í reynd er verið að breiða yfir misgerðir og blekkja.
Landsdómur er auk þess tímaskekkja. Það sýna upphafsákvæði laga um Landsdóm þar sem segir: Landsdómur fer með og dæmir mál þau, er Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra. Með þessu er Alþingi að setja rétt yfir sjálfu sér auk þess sem Alþingi ber sjálft ábyrgð á ráðherrum.
Lítill meirihluti Alþingis samþykkti að draga Geir H. Haarde fyrir Landsdóm vegna hirðuleysis og vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins en felldi hins vegar með litlum atkvæðamun að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra, Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. Sé Geir H. Haarde sekur eru fleiri sekir.
Í raun er íslenska þjóðin sek. Hrunið varð ekki hið ytra heldur hið innra og aðdragandinn á sér langa sögu og djúpar rætur. Til þess að bæta það sem aflaga hefur farið, þurfum við að horfast í augu við þetta og breyta afstöðu okkar sjá ekki aðeins flísina í auga bróður okkar heldur bjálkann í okkar eigin auga. Fyrsta skrefið er að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde.
Greinin birtist í MBL 20 12 2011
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.12.2011 | 08:16
AIDS, bókasafn, sími og svahílí
Flest tungumál heimsins nema íslenska nota enska skammstöfunarorðið AIDS um alnæmi eða eyðni og grísku orðin autograf um 'eiginhandaráritun', telefon um 'síma' og bibliotek um 'bókasafn', þótt í ensku sé oftast notað latneska orðið library. Nýyrðasmíð Íslendinga hefur líka vakið undrun þeirra sem til þekkja. Fyrir aldarfjórðungi átti ég tal við sænskan málfræðing sem sagði, að meðan Svíar deildu um það, hvort rita ætti AIDS með stórum stöfum eða litlum, væru Íslendingar að velja um átta mismunandi nýyrð um það sem á ensku var kallað Acquired Immune Deficiency Syndrome, sem mætti kalla 'áunnið ónæmi'.
Orðið bókasafn er þýðingarlán, sem svo er kallað, þ.e. þýðing á gríska orðinu bibliotek sem myndað er úr biblos, 'bók', og théke, 'geymsla' eða 'safn'. Til gamans má geta þess, að orðið bókasafn kemur fyrst fyrir í ævisögu Hannesar biskups Finnssonar upplesin vid Hans Jardarfør ad Skálholti þann 23ia Augúst 1796, eins og stendur í útgáfunni frá Leirárgörðum 1797. Er hugsanlegt að hinn lærði biskup hafi sjálfur þýtt orðið úr grísku.
Orðið autograf er myndað af grísku orðunum αὐτός, autós, sem merkir 'sjálfur', og γράφ, graf, og skylt grísku sögninni γράφειν, gráphein, 'skrifa'. Þessa orðstofna þekkja lesendur í tökuorðum eins og átómat, 'sjálfsali', eða átómatískur, 'sjálfvirkur', graf, 'línurit', grafík, 'svartlist', og graffittí, 'veggjakrot'.
Orðið sími á sér hins vegar langa sögu. Tæknifyrirbærið vakti undrun þegar Skotanum Alexander Graham Bell tókst að flytja mannsrödd um koparvír um 1870. Þegar framleiðsla tækisins hófst fáum árum síðar, var á ensku farið að nota orðið telephone um þetta tækniundur. Orðið er myndað af grísku orðunum τῆλε, tēle, 'fjarlægur', og φωνή, phōnē, 'rödd' og mætti þýða það sem orðinu firðtal. Eins og lesendur þekkja hefur firðtal breyst í tímans rás. Í stað talþráða hefur orðið til raunverulegt firðtal, þráðlausir snjallsímar, farsímar eða gemsar, en orðið gemsi er hljóðlíkingarorð skammstöfunarinnar GSM, Global System for Mobile Communications.
Í fornu máli íslensku kemur fyrir hvorugkynsorðið síma í merkingunni 'þráður', eða jafnvel 'þráður úr gulli', og karlkynsorðið sími í samsetta orðinu varrsími, sem merkir 'kjölrák' eða 'kjalsog'. Í nýnorsku, sem er sérlega fallegt mál og náskylt íslensku, er til orðið sime, 'reipi' eða 'taug'. Þegar Íslendingum bárust síðan frásagnir um fyrirbærið telefon eða telephone undir lok nítjándu aldar, var fyrst notað orðið telefónn. Síðan komu fram tillögur eins og firðtal (1875), hljómþráður (1877), hljóðberi (1879), hljóðþráður (1888) og talþráður(1891). Í Ný danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili frá árinu 1896 er að finna orðið sími í samsetningunum talsími og ritsími og sögnin að talsíma. Árið eftir kemur orðið sími fyrir í tímaritinu Sunnanfara. Síðan hefur orðið verið nær einrátt í íslensku.
Og þá kemur rúsínan í pysluendanum. Í tungumáli því sem heitir svahílí eða kisvahílí er notað orðið simu um 'telefon'. Svahílí er bantúmál með öllu óskylt íslensku. Svahílí er talað af um 150 milljónum manna í Austur Afríku og er opinbert mál í Tansaníu, Kenía, Úganda, á Kómóróeyjum og í Kongó. En sagt er að orðið simu í svahílí sé komið af persneska orðinu sim, سیم, sem merkir 'þráður', jafnvel 'silfurþráður', og er orðið sim, سیم, notað í persnesku um síma og farsíma. Persneska er indóevrópskt mál eins og íslenska og hafa um 110 milljónir manna í Íran, Afganistan, Tatsekistan, Úsbekistan, Tyrklandi, Írak, Katar, Ísrael, Kúveit, Barein og Óman persnesku að móðurmáli. Rótin í íslenska orðinu sími og persneska orðinu sim, سیم, er hin sama, þ.e. *sêi-, og merkir 'binda', sbr. orðið seil, sem merkir 'band', og orðið sili, sem merkir 'lykkja á bandi'.
Á öldunum fyrir Kristsburð var Persía stórveldi, kallað Persaveldi, eins og áhugasamir lesendur þekkja. Persar lögðu undir sig lönd og álfur, m.a. Egyptaland, og bárust áhrif frá þeim víða. Er m.a. talið að persneska hafi haft áhrif á mörg tungumál, m.a. arabísku og önnur semitísk mál. Hugsanlegt er því að persneska orðið sim, سیم, hafi borist í tungumál sunnan Egyptalands, bæði svahílí og kisvahílí, fyrir tvö þúsund árum. Síðan hafa málvísir menn á þessum slóðum notað orðin sim og simu um telefon, enda var sími Bells í upphafi þráður, koparþráður. Hugsunin var hin sama og hjá málvísum Íslendingum í lok 19du aldar þegar þeir tóku upp orðið síma, 'gullþráður', um þetta tækniundur.
Undirritaður hefur ekki þekkingu til að rekja þessa sögu lengra. En ljóst er, að ekki aðeins vegir guðs og ástarinnar eru órannsakanlegir, heldur einnig vegir menningararáhrifa og tungumála heimsins. Til að reka smiðshöggið á furðuverk tungumálanna og undarlegan skyldleika þeirra má geta þessað 'saga Persa' heitir á persnesku IRAN SAGA. Vegir tungumálanna eru því sannarlega furðulegir, þótt e.t.v. séu þeir ekki með öllu órannsakanlegir.
Bloggar | Breytt 21.12.2011 kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2011 | 13:57
Ljóðið - fullkomnasta form tungumálsins
Tungumálið er félagslegt tjáningartæki. Það felur í sér, að með tungumálinu tjáum við hugsanir okkar, tilfinningar og fyrirætlanir við breytilegar aðstæður, af því að þjóðfélagið breytist og við breytumst tímarnir breytast og mennirnir með. Tungumálið er því stöðugt að breytast. Af þeim sökum er sagt, að tungumálið sé lifandi, félagslegt tjáningartæki.
Tungumálið á sér einnig mörg form eða málsnið. Eitt fullkomnasta form málsins er ljóðið, enda elsta tjáningarform mannsins og fullkomnast af því að það krefst ögunar í hugsun og máli og með því er unnt að tjá djúpar hugsanir, duldar tilfinningar og sterka upplifun.
Hæka, haiku, er ævafornt japanskt ljóðform, örfá orð, þrungin tilfinningu. Limran, limerick, er ljóðform kennt við héraðið Limerick á Írlandi, fimm línur með endarími, sem fela í sér fjarstæðukennda gamansemi sem vekur til umhugsunar. Ferskeytlan er ljóðform, sem fylgt hefur Íslendingum frá upphafi. Andrés Björnsson eldri lýsir þessu þannig:
Ferskeytlan er Frónbúans
fyrsta barnaglingur
en verður seinna í höndum hans
hvöss sem byssustingur.
Ferskeytlan og lausavísur undir öðrum bragarháttum hafa agað íslenskt mál og hugsun í þúsund ár. Er vafamál að aðrar þjóðir eigi aðra eins auðlegð, annan eins menningararf og lífsspeki og felst í lausavísum og ljóðum Íslendinga. Til þess að aga mál sitt, tala og rita gott mál, er því holt að lesa það sem best hefur verið ort á íslenska tungu.
Íslenskt mál - og skýr hugsun er mikilsverðasta verkefni í skólum landsins. Þarf að brýna fyrir nemendum að lesa það sem best hefur verið skrifað á íslenska tungu. Af nógu er að taka. Hvert mannsbarn getur lesið Hávamál og Völuspá sér að gagni. Íslendingasögur eru óþrjótandi uppspretta svo og Sturlunga að ógleymdum sögum Halldórs Laxness og Jóns Kalmanns Stefánssonar, ljóðum Snorra Hjartarsonar og Gerðar Kristnýjar og annarra fremstu skálda okkar og rithöfunda sem reynir á þanþol hugsunarinnar og veitir þá nautn að reyna að skilja.
Sem dæmi um áhrifamikið ljóð í einfaldleika sínum má nefna ljóð Jóhanns Sigurjónssonar sem hann hefnir Jónas Hallgrímsson:
Dregnar eru litmjúkar
dauðarósir
á hrungjörn lauf
í haustskógi.
Svo voru þínir dagar
sjúkir en fagrir,
þú óskabarn
ógæfunnar.
Í þessu litla ljóði birtast litríkar náttúrumyndir, áhrifamikil persónulýsing, djúp hugsun og sterk tilfinning og ögun í máli, enda hefur verið sagt, að það sem ekki er unnt að tala um verði að segja í ljóði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2011 | 07:53
Hvað gerir Íslendinga að Íslendingum
Í fyrradag var fullveldisdagur Íslendinga, en eins og lesendur vita, varð Ísland frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku 1. desember 1918. Sumir halda því að vísu fram, að Ísland hafi ekki fengið fullt sjálfstæði fyrr en með stofnun lýðveldis 17. júní 1944. Hafa þeir e.t.v. eitthvað til síns máls, því að fullveldi felur í sér, að þjóðin eða kjörnir fulltrúar hennar fer með æðstu stjórn ríkisins, þ.e.a.s. löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald á ákveðnu landssvæði sem tengt er ákveðnum hópi fólks, þjóðinni.
Eftir áratuga umræðu um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu og Evrópusambandinu vita hins vegar fáir, við hvað átt er með sjálfstæði þjóðar. Fyrir hálfri öld sagði Gylfi Þ. Gíslason, að til þess að tryggja fullveldi sitt yrðu Íslendingar að láta af sjálfstæði sínu. Fæstir skyldu þessi orð þá, og fáir gera það enn. En ljóst er, að sumir mætir menn álíta, að til þess að tryggja fjármál og afkomu þjóðarinnar, öryggi hennar og viðskipti í framtíðinni verði Íslendingar að gerast aðilar að Evrópusambandinu og láta af hendi þætti, sem áður töldust til fullveldis, s.s. hluta af löggjafarvaldi, hluta af dómsvaldi og ákveðin yfirráð yfir landi og jafnvel ráðstöfun á auðlindum.
En það var ekki ætlunin í þætti um íslenskt mál á fullveldisdaginn 2011 að tala um sjálfstæði og fullveldi né heldur um aðild að Evrópusambandinu, þótt full ástæða væri til, heldur að svara spurningunni: Hvað gerir Íslendinga að Íslendingum? Þessari spurningu er ekki auðvelt að svara frekar en öðrum spurningum sem skipta máli. Þjóðerni er háð ýmsu, s.s. uppeldi, stöðu, viðhorfum og fæðingarstað.
En til þess að flækja málið ekki frekar með málalengingum, tel ég einfalda svarið við spurningunni, að það sem gerir okkur að Íslendingum er tungumálið. Í þessu felst ekki þjóðernishroki, þ.e.a.s. lítilsvirðing fyrir öðrum þjóðum eða fólki af öðru bergi brotið þvert á móti. Aðrar þjóðir eiga sitt tungumál, mikilfenglegt tjáningartæki, sem gerir það fólk að því sem það er. Tungumálið og hugsunin, sem þar býr að baki, er dýrmætasta eign sérhvers einstaklings og sérhverrar þjóðar ásamt landinu og sögu þjóðarinnar, en í sögu þjóðar varðveitist hugsun hennar og minning. Því ber okkur að hafa móðurmál okkar í heiðri, virða landið og sögu þjóðarinnar ekki aðeins á fullveldisdaginn heldur alla daga. Með því höldum við virðingu okkar sem einstaklingar og þjóð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.11.2011 | 18:57
Hörgarnir í Hörgárdal
Margir telja Hörgárdal draga nafn af heiðnum blótstöðum, hörgum, þótt engar heimildir séu um slíka blótstaði í Hörgárdal né annars staðar á Íslandi. Á landnámsöld var heiðinn átrúnaður á undanhaldi og kristni farin að festa rætur á Íslandi. Einnig af þeim sökum er ósennilegt að Hörgárdalur dragi nafn af heiðnum blótstöðum, enda hafa þeir naumast sett þann svip á dalinn að hann dragi nafn sitt þar af.
Orðið hörgur er í norsku notað um kollótt fjöll með brattar hlíðar - fjellnut, særlig med flat topp og bratte sider". Örnefnafræðingar í Noregi telja líka öll hörga-örnefni þar í landi eigi rætur að rekja til þessa orðs. Hörga-örnefni eru mörg í Noregi. T.a.m. eru milli Harðangursfjarðar og Sognsævar mörg fjöll sem bera sanfnið hörgur horg, s.s. Veskrehorg, Grönahorg, Svartahorgi og Lönahorgi, skammt norður af Voss, og þar norður af er Horgadalen Hörgadalur. Raunar eru Hörgadalir fjórir á Hörðalandi, þaðan sem flestir landnámsmanna komu.
Þegar siglt er inn Eyjafjörð og Hörgárdalur opnast á stjórnborða, blasa við fjöllin vestan Hörgárdals: nyrst Þrastarhólshnjúkur, síðan Staðarhnjúkur og Fálkahaus sem mynda burstir í kollóttum og bröttum fjöllunum ofan Möðruvalla. Innar eru Lönguhlíðarfjall, Högg og Slembimúli, Grjótárhnjúkur og Háafjal. Öll þessi fjöll minna á hörgana á Hörðalandi.
Sennilegt er því, að fjöllin vestan Hörgárdals séu hörgarnir, sem gáfu dalnum nafn í upphafi og hafi minnt norsku landnámsmennina á hörgana heima í Noregi. Dalurinn hefur upphaflega heitið *Hörga-dalur, eins og dalirnir á Hörðalandi, eftir fjöllunum sem enn setja svip á dalinn og greina hann frá öðrum dölum við Eyjafjörð. Síðar hefur fólk tekið að kalla dalinn Hörg-ár-dal eftir *Hörg-a-á, á sama hátt og einstaka maður er farinn að tala um *Fnjósárdal eftir Fnjóská í stað þess að kalla dalinn Fjóskadal, eins og hann hefur heitið frá upphafi, nefndur eftir fnjóskunum, þurrum og feysknum trjástofnum sem enn setja svip á Fnjóskadal. Hörgarnir í Hörgárdal standa því enn og hafa staðið í tíu þúsund ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.11.2011 | 14:42
Völd Sjálfstæðisflokksins
Hvað veldur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki aðeins verið öflugasti stjórnarmálaflokkur á Íslandi frá því Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust 1929 og stefnuskrá hins nýja flokks birtist í Morgunblaðinu og Vísi undir fyrirsögninni Ísland fyrir Íslendinga, heldur hefur enginn stjórnmálaflokkur á Vesturlöndum haft sama kjörfylgi og völd og Sjálfstæðisflokkurinn í samanlagðri Kristni.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum hefur lengst af verið um 40%, ef undan eru skildar kosningarnar 1987, þegar Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar fékk 10.9% atkvæða, og kosningarnar 2009, þegar flokkurinn fékk 23.7% fylgi í kjölfar Hrunsins sem margir rekja til einkavæðingarstefnu flokksins undir stjórn Davíðs Oddsonar á einkavæðingartímabilinu á árunum 1995 til 2004.
Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið í ríkisstjórn 50 ár á 67 árum lýðveldistímans eða 8 af hverjum tíu árum eða með öðrum orðum 80% lýðveldistímans. Enginn flokkur á Vesturlöndum hefur því átt viðlíka fylgi og völdum að fagna og enginn annar flokkur hefur setið lengur í ríkisstjórn í lýðræðislandi.
Hvað veldur
Vafalítið eru fjölmargar skýringar á þessu fylgi og völdum áhrifum Sjálfstæðisflokksins og fleiri en hér er unnt að rekja. En fyrst ber að nefna nafn flokksins: Sjálfstæðisflokkur. Íslendingar hafa viljað og vilja vera sjálfstæðir menn, sjálfstæðismenn. Þetta viðhorf virðist okkur í blóð borið sem fátækri og hrakinni smáþjóð á hjara veraldar en fram á síðustu öld voru Íslendingar fátækasta þjóð í Evrópu, en efaðist aldrei um eigið ágæti vegna elstu tungu Evrópu og einstakra bókmennta allt frá miðöldum til Bókamessunnar í Frankfurt í október. Nafnið eitt vegur því þungt.
Í öðru lagi hefur skipulag Sjálfstæðisflokksins verið betra en hjá öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum allt frá því á fjórða áratugnum þegar sjálfstæðirmenn kynntust skipulagi stjórnmálaflokka í Þýskalandi,, eins og landsfundurinn 2011 bar vitni um. Flokkurinn hefur einn allra flokka stöðugt haldið uppi stjórnmálaskólum víðs vegar um land og komið sér fyrir í flestum launþegasamtökum, frjálsum samtökum almennings og landssamtökum á sviði íþrótta- og ræktunarmála. Skipulag og flokksagi hafa því skipti miklu.
Í þriðja lagi hafa miklir hæfileikamenn lengst af veitt flokknum forystu. Má nefna Jón Þorláksson, Ólaf Thors og Davíð Oddsson allir svipmiklir foringjar, orðvísir ræðumenn sem kunnu að tala til fólksins, fá fólk á sitt band og móta skýra stefnu með einföldum slagorðum.
Í fjórða lagi hefur vagga flokksins, höfuðstöðvar og meginfylgi verið í Reykjavík, höfuðborg lýðveldisins, þar sem völd og auður hafa grafið um sig alla tíð, lengst af í höndum nokkurra ríkra og voldugra ætta embættis- og athafnamanna. Hefur margur ungur maðurinn, karl og kona, séð sér hag í að ganga til fylgis við flokkinn til þess að hefjast til frægðar og frama í embættis- og dómskerfi landsins svo og í viðskiptalífinu og verkin sýna merkin.
Í fimmta lagi hefur flokkurinn breyst í takt við tímann þróast frá því að vera íhaldssamur flokkur embættismanna, heildsala og stórbænda til þess að sinna félagslegum kröfum um jafnrétti. Hefur flokkurinn færst inn á miðjuna og öðrum þræði orðið sósíaldemókratískur flokkur. En flokkurinn hefur hins vegar aldrei gleymt því að gæði landsins væru til afnota fyrir landsmenn eina og vinna að þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum, eins og segir í stefnuskrá flokksins, flokks allra stétta, sem er eitt snjallasta slagorð flokksins í átta áratuga sögu hans.
Framtíðin
Úrslit síðustu alþingiskosninganna kunna að boða breytta tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn, voldugasta stjórnmálaflokks á Vesturlöndum í 70 ár. Til þess benda atkvæðatölur 2009, en auk þess kann fleira að koma til. Ungt fólk víða um lönd hefur mótmælt misskiptingu auðs og valda lýst andúð á völdum auðvaldsins og víðtækum áhrifum peningamanna og krefst jafnréttis, tryggrar atvinnu og félagslegs öryggis. Afstaða Sjálfstæðisflokksins til þessara mála ræður því miklu um áhrif og völd flokksins í framtíðinni.
Þá fer umræða um þjóðmál og stjórnmál fram á ólíkan hátt en áður og á öðrum vettvangi. Bæði þau dagblöð, sem nú koma út á Íslandi Morgunblaðið og Fréttablaðið eru í höndum aðila sem, styðja stefnu Sjálfstæðisflokksins, þótt nokkuð beri á milli og tónninn sé ólíkur. Ungt fólk les nú síður prentmiðla og heldur netmiðla af ýmsu tagi upplýsingar berast fólki á Netinu, óháð prentuðum flokksfjölmiðlum, enda er Netið orðið stærsta fræðslu- og upplýsingastofnun heims stærsti skóli í heimi. Stjórnmálaumræða framtíðarinnar mun því fara fram þar ekki innan um minningargreinar Morgunblaðsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2011 | 14:08
Myndin af Jónasi

Í dag er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar, fyrsta nútímaskálds Íslendinga, skáldsins sem fann fegurð íslenskrar náttúru. Talið hefur verið, að engin mynd hefði verið gerð af honum í lifanda lífi. Mynd, sem oftast er notuð, er koparstunga sem birtist með Ljóðmælum hans sem út komu í Kaupmannahöfn 1883. Koparstunga þessi er gerð eftir teikningu Sigurðar málara frá 1860, en Sigurður málari gerði teikningu sína eftir vangamynd sem Helgi Sigurðsson, þá læknastúdent í Kaupmannahöfn, síðar prestur á Melum í Melasveit, dró upp af Jónasi á líkbörunum á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn í maí 1845. Leiðin frá vangamynd Helga frá árinu 1845 til teikningar Sigurðar málara frá árinu 1860 og koparstungunnar 1883 er því löng og þess naumast að vænta, að koparstungan líkist Jónasi, enda sögðu frændur hans í Eyjafirði koparstunguna lítið minna á Jónas og voru þeir á móti myndinni.
Í Listasafni Íslands eru varðveittar þrjár aðrar teikningar eftir séra Helga af Jónasi. Hefur verið talið að myndirnar hafi hann allar gert af Jónasi látnum. Ein myndanna sker sig mjög úr: hálfvangamynd af mjúkhærðum manni, lítt skeggjuðum, dökkbrýndum, ennið allmikið, réttnefjaður og heldur digurnefjaður, granstæðið vítt, vangarnir breiðir, kinnbeinin ekki eins há og tíðast er á Íslandi, munnurinn fallegur, varirnar mátulega þykkvar, stóreygður og móeygður, svo notuð séu orð Konráðs Gíslasonar úr lýsingu hans í minningargrein um Jónas í Fjölni 1847.

Líkur benda til að þessi mynd, hálfvangamyndin, sé gerð af Jónasi í lifanda lífi og hafi Helgi Sigurðsson notað teiknivél sem nefnd er camera lucida og er eins konar myndvarpi og minnir á myndvarpa sem notaðir voru í skólum á árum áður. Myndin er ólík hinum þremur teikningum Helga á allan hátt:hlutföll eðlileg og persónueinkenni skýr. Eins og áður er að vikið, kom Helgi Sigurðsson á Friðriksspítala við Breiðgötu í Kaupmannahöfn þessa vordaga 1845, þegar Jónas lá fyrir dauðanum, en Helgi var þá við læknanám og hafði áður numið teikningu í Listaskólanum, Det kongelige kunstakademi. Niðurstaðan er því sú, að til er mynd af listaskáldinu góða gerð af honum í lifanda lífi.
Af þeim sökum á að nota þessa mynd sem myndina af Jónasi, en ekki flata koparstungu frá 1883 sem er ber engin persónueinkenni han. Hálfvangamyndin er eins konar ljósmynd af Jónasi - hún er myndin af Jónasi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)