15.11.2011 | 07:03
"Stíga til hliðar" - málfátækt og klisjur
Lengi hafa tískuorð og orðasambönd skotið upp kollinum og sett svip á daglega umræðu. Dæmi um tískuorðasamband, sem nú er klifað á, er orðtakið að stíga til hliðar sem komið er úr ensku - to step aside. Enginn heyrist lengur tala um að draga sig í hlé, segja af sér, láta af störfum, hætta störfum eða einfaldlega hætta. Nei, biskup á að stíga til hliðar, formaður Sjálfstæðisflokksins á að stíga til hliðar og Levi Strauss varð að stíga til hliðar.
Fyrir fjórum áratugum skaut upp tískuorðinu purkunarlaust sem blaðamenn, gagnrýnendur og stjórnmálamenn notuðu purkunarlaust. Elsta dæmi orðsins er frá árinu 1918. Síðan kemur það ekki fyrir í rituðu máli fyrr en um 1980. Þá mátti lesa setningar eins og: Sesselja er purkunarlaust ódáðakvendi og kaupandi hagnýtir sér purkunarlaust fákænsku seljenda eða kófdrukkið par lá úti á miðju túni og athafnaði sig purkunarlaust, purkunarlaus bandarískur áróður hefur fyllt sálir manna níði.
Vegna ofnotkunar vissi að lokum enginn hvað orðið purkunarlaust merkti, það varð af þeim sökum ónothæft eins og annað sem er ofnotað. Mikilsvert er fyrir þá sem vilja tala eða skrifa gott mál að nota fjölbreytt orðaval.
Einhæft orðalag bendir til þess sem kallað er málfátækt en málfátækt getur stafað af ýmsu. Eðlilegt er að börn og ungt fólk búi við málfátækt, einnig þeir sem lesa lítið svo og nýbúar. Er sjálfsagt taka tillit til slíkra aðstæðna. Hins vegar er illt að ekki sé sagt óhæfilegt að blaðamenn og fréttamenn og aðrir, sem hafa atvinnu af því að nota íslenskt mál, búi við slíka málfátækt að geta aðeins gripið til orðasambandsins að stíga til hliðar þegar unnt er að nota mörg önnur um sama efni.
Framburður setur einnig mark sitt á mál fólks. Nú breiðist út fyrirbæri sem nefnt er brottfall úr áherslulausu atkvæði. Gamalt dæmi um brottfall úr áherslulausu atkvæði er þegar Davíð Oddsson talaði um fosstráðherra og um fossda Íslands og átti við fjandvin sinn Ólaf Ragnar. Enn eldra dæmi um brottfall úr áherslulausu atkvæði eru orð Bjarna Felixsonar íþróttafréttamanns: Aknesingar og Kebblíngar keppa á laurdag. Nýtt dæmi er framburðurinn tuttu í stað tuttugu, eins og heyra má úr munni margra ágætra fréttamanna RÚV.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2011 | 21:28
Danshneykslið "Dans, dans, dans"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.11.2011 | 13:09
Auðvald og almenningur
Permit me to issue and control the money of a nation,
and I care not who makes its laws.
Mayer Amschel Rothschild [1744-1812]
Ummælin að ofan eru höfð eftir Mayer Amschel Rothschild, stofnanda bankaveldis Rothschild ættarinnar. Í Forbes Magazine 2005 er hann talinn einn af 20 áhrifamestu mönnum í viðskiptalífi heimsins frá upphafi og kallaður founding father of international finance". Afkomendur hans mynda nú auðugustu ætt heimsins. M. A. Rothschild vissi því hvað hann var að segja, þegar hann óskaði eftir því að fá að stjórna fjármálum þjóðar, þá væri honum nokk sama hver setti lögin. Vert er líka að hafa í huga áður lengra er haldið lestrinum, að nú - árið 2011 - eiga 10% fullorðinna 85% auðsins í heiminum. Þessi hópur er kallaður er auðvald, þótt fleiri smástirni snúist í því myrka sólkerfi.
Stóra blekkingin
Löggjafarþing og þjóðarleiðtogar vinna að því þessa dagana að bjarga viðskiptabönkum og fyrirtækum í löndum sínum og rétta af ríkissjóði til að forðast fjárhagshrun. Eina leiðin, sem talin er fær, er að prenta peninga og veita þeim, sem skulda mest, ný lán. Þetta er hins vegar blekkingin, þetta er stóra blekkingin. Gjaldmiðill, sem ekki er ávísun á önnur verðmæti en sjálfan sig, er ekki annað en verðlausir pappírspeningar sem kynda verðbólgueld, rýra eignir almennings og gera ekkert annað en auka vandann.
Austurríski hagfræðiskólinn
Austurríski hagfræðiskólinn, sem svo er nefndur, hefur um árabil varað við óhóflegri seðlaprentun sem í raun sé orsök efnahagsvandans ekki lausn hans. Í skjóli pappírspeninga er takmörkuðum auðlindum heims vinnu, hráefni og orku, sóað í stað þess að nýta auðlindir til arðbærra verkefna. Vegna seðlaprentunarinnar hafa efnahagsbólur orðið til, eins og heimurinn hefur horft upp á. Síðan springa bólurnar og í kjölfarið fylgir verðhrun, gjaldþrot og atvinnuleysi afleiðingar af fölskum hagvexti. Samkvæmt austurríska hagfræðiskólanum er önnur ástæðan sú, að seðlaprentun og lánum er miðstýrt í stað þess að láta lögmál markaðarins ráða.
Kunnasti fulltrúi Austurríska hagfræðiskólans er Ludwig von Mises. Hann aðhylltist klassíska frjálshyggju sem vill takmarka ríkisvald, treysta grundvallarlög hvers ríkis og láta lögmál markaðarins ráða innan laga réttarríkisins. Einn kunnasti núlifandi fylgismaður Austurríska hagfræðiskólans er hins vegar bandaríski hagfræðingurinn Peter Schiff sem um árabil hefur bent á ógnina af óheftri seðlaprentun. Hann sagði fyrir um hrun dot.com bólunnar og hrun fjármálamarkaða 2008. Fáir tóku mark á spádómum hans og reyndu að gera hann bæði tortryggilegan og hlægilegan. Peter Schiff spáir enn nýrri fjármálakreppu. Bjargráð hans eru einföld. Í fyrsta lagi verða einstaklingar og þjóðir að spara meira og eyða minna. Og í öðru lagi verður að hefta takamarkalausa seðlaprentun, því að gjaldmiðill verður að vera ávísun á raunveruleg verðmæti.
Peter Schiff hefur gengið gegn kenningum hagfræðinga sem prédika miðstýringu í fjármálum til að leysa efnahagsvanda, hagfræðinga eins og Alans Greenspan, Bens Beranke og Pauls Krugman, sem er einn upphafsmanna the new trade theory", og ekki síst hefur Peter Schiff gengið gegn kenningum Johns Maynard Keynes en hugmynd hans er að beita miðstýrðum aðgerðum í peningamálum og ríkisfjármálum til að vinna gegn neikvæðum áhrifum efnahagssamdráttar og kreppu og auka hagvöxt. Hafa kenningar Keynes haft feikileg áhrif og eru grundvöllur þess sem nefnt er Keynesísk hagfræði.
Hið alþjóðlega auðvald
Krafa hins alþjóðlega auðvalds um 10 til 25% arð af fjármagni vegur þó þyngst í endalausri fjárhagskreppu heimsins. Til þess að mæta þessum kröfum hins er framleiðsla flutt til fátækra landa þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við arðrán og vinnuþrælkun, bæði vegna þess að stjórnvöld í þessum löndum eiga fárra kosta völ og vegna þess að notaðar eru hótanir og mútur til þess að fylgja arðráninu eftir. Til þess að halda hringekju auðvaldsins gangandi er almenningi talin trú um að hamingjan sé fólgin í því að kaupa og eyða, enda samfélög Vesturlanda löngu orðin botnlaus neyslusamfélög. En með aukinni neyslu er auðvaldið að auka hagnað sinn og vald og með frekari seðlaprentun í skjóli kenninga um tæknilegar fjármálaaðgerðir í anda Keynes snýst hringekjan sífellt hraðar og hraðar. Enginn virðist geta stöðvað hana en margir vilja stökkva af vegna þess að sífellt fleiri Vesturlandabúar átta sig á því að hamingjan eykst ekki með auknum kaupmætti.
Mótmæli í þúsund borgum
Gleggst merki um að almenningur er farinn að sjá gegnum blekkingarvef auðvaldsins eru mótmæli víðs vegar um heim. Búsáhaldabyltingin á Íslandi er angi af þessu og mótmælin á Wall Street og í þúsund öðrum borgum undanfarið beinast gegn auðvaldinu, gegn misskiptingu auðsins og blekkingunni um hagvöxt og vístölur. Jafnvel uppreistir í Egyptalandi, Túnis og annars staðar í Afríku eru af sama toga. Ein kveikjan að þessum mótmælum eru upplýsingar sem berast á Netinu, óháð fjölmiðlum auðvaldsins, en Netið er orðin stærsta fræðslu- og upplýsingastofnun heims stærsti skóli í heimi.
Annars konar misrétti er fólgið í því, að á meðan stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar í ríku löndunum berjast fyrir auknum kaupmætti, sveltur fólk í fátæku löndunum, jafnvel í löndum þar sem auðvelt væri að brauðfæða alla, löndum sem búa yfir náttúruauðlindum s.s. vatnsorku, olíu, gulli og dýrum málmum. Eitt brýnasta verkefni samtímans er að koma á jöfnuði meðal einstaklinga og þjóða, breyta eignaskiptingu milli hins alþjóðlega auðvalds og almennings og gera fátækum þjóðum kleift að bjarga sér sjálfar.
Vald spillir
Alkunna er að allt vald spillir og algert vald spillir algerlega. Í skjóli auðvalds þrífst spilling og glæpir, eins og við höfum orðið vitni að hér á landi. Versta birtingarmynd spillingarinnar eru styrjaldarátök en að baki þeim býr ógnarvald vopnaframleiðenda, sem eru hluti af hinu alþjóðlega auðvaldi. Þetta ógnarvald skirrist einskis í purkunarlausri baráttu fyrir auknum arði af fjármagni og beitir mútum, áróðri og lygum til þess að ná fram ætlunarverki sínu að auka arð af fjármagni sínu. Annað brýnt verkefni samtímans er því að koma á friði í heiminum en grundvöllur friðar er jöfn skipting milli einstaklinga og þjóða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.10.2011 | 13:57
Opið bréf til fjáfrmálaráðherra
Kæri Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Sem fyrrum skólameistari þinn skora ég á þig að hætta við að leggja niður líknardeildina við Landskotsspítala. Sparnaður upp á 50 milljónir íslenskra króna réttlætir það ekki. Síðustu stundir okkar í þessu jarðlífi eru mörgum þungbærar. Mikilsvert er að létta fólki þessar stundir.
Allir hugsandi menn skilja hins vegar nauðsyn þess að draga úr útgjöldum hins opinbera. Það verður að gera með umhugsun og fyrirhyggju og má ekki rasa um ráð fram. Draga má úr útgjöldum án þess að skera niður - með því að endurskipuleggja og breyta.
Með því að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna má til að mynda spara milljarða, með því að endurskipuleggja skólakerfi landsins má spara milljarðatugi og með því að einfalda skipan sveitarfélaga má spara enn milljarða á milljarða ofan svo dæmi séu tekin.
En ekki líknardeild Landskots fyrir 50 skitnar milljónir. Flýttu þér hægt, Steingrímur flas er ekki til fagnaðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.10.2011 | 20:50
Efnahagur RÚV
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2011 | 09:10
Stjórnmál og listir
Stundum hefur mér orðið það á að bera saman stjórnmál og listir, einkum stjórnmál og tónlist. Það er unun að horfa á agaða hljóðfæraleikara sem hvergi slá feilnótu undir voldugri stjórn hljómsveitarstjóra. Að baki býr verk tónskálds, agaðs snillings, þótt hljómar geti stundum orðið stríðir, en við hrífumst af og dáumst að.
Þessu er ólíkt farið um stjórnmál, list hins mögulega. Flestir leika falskt og fáir kunna á hljóðfærið. Margir góðir menn, karlar og konur, forðast stjórnmál og fyrirlíta. En stjórnmál eru nauðsynleg ekki síður en tónlist. Stjórnmál snúast ekki um aga en hagsmunabaráttu og baráttu fyrir því að tryggja jöfnuð og réttlæti fyrir alla. Hið síðara gleymist hins vegar æði oft.
Sven Auken, fyrrum formaður danskra sósíalista, sagði eitt sinn, að jafnaðarmanni liði ekki vel fyrr en öllum liði vel. Þetta er kristilegt viðhorf sem fleiri ættu að tileinka sér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2011 | 10:42
Hrun íslenskra stjórnmála
Meirihluti þjóðarinnar telur traust, heiðarleika, virðingu og jöfnuð skipta mestu í mannlegu samfélagi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum falls bankanna segir hins vegar, að tortryggni og samstarfs- erfiðleikar hafi sett mark á samskipti stjórnmálamanna árin fyrir fallið og fólk með vafasama fjármálafortíð hafi haft sterka hvata til að komast yfir bankastofnanir og nýta sér þær í eigin þágu, eins og segir í skýrslunni.
Þrjú ár eru liðin frá hruni bankanna. Íslenskt stjórnmálakerfi hrundi um leið og bankarnir eða var það ef til vill þá þegar hrunið? Það varð því ekki aðeins kreppa í fjármálum þjóðarinnar heldur einnig kreppa í stjórnmálum Íslendinga. Það væri nú sök sér, en ofan á þetta bætist að ekkert hefur breyst. Tortryggni og samstarfserfiðleikar setja enn mark sitt á samskipti stjórnmálamanna og fólk með vafasama fjármálafortíð er enn að reyna að komast yfir fjármálastofnanir til þess að nýta sér þær í eigin þágu.
Ýmsir hafa trúað á visku mannanna. Það gerði Steinar bóndi undan Steinahlíðum í Paradísarheimt. Runólfur prestur svaraði bónda hins vegar, að ekki miklaðist honum, hve langt viska manna hefði náð að leiða þá - enda væri hún ekki stór. Að hinu dáist ég, hve lángt fáviska þeirra og jafnvel sérdeilis heimska þeirra, að ég nú segi ekki fullkomin blinda þeirra hefur náð að lyfta þeim. Ber ég mig að fylgja fávisku manna að öðru jöfnu, því hún hefur leitt þá leingra en viskan.
Við gamlir bændur og barnakennarar að austan höldum hins vegar áfram að trúa á visku manna og trúum því að þannig hafi átt að skilja háð Halldórs Laxness. Ástæða bankahrunsins var hvorki viska né heimska heldur siðleysi, ósvífni og græðgi. Til þess að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig og til þess að bæta ástand íslenskra stjórnmála og þjóðmála þarf að auka kennslu í siðfræði og heimspeki efla siðvit þjóðarinnar.
Þar verða tvær mikilsverðustu stofnanir samfélagsins að koma til: heimilin og skólinn. Til þess að auka traust, heiðarleika, virðingu og jöfnuð þurfa feður og mæður, kennarar, skólastjórar og aðrir uppalendur að leggjast á eitt sýna vilja sinn í verki eins og Alma Jenný Guðmundsdóttir móðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2011 | 22:56
Leiðinlegar veðurfréttir
Veðurfréttir hafa lengi verið leiðinlegar í útvarpinu, einkum vegna þess hversu veðrið á Íslandi er leiðinlegt. Nú bætist við þetta leiðindaveður leiðinlegir veðurfræðingar - einkum í sjónvarpi RÚV. Þar er fallegasti veðurfræðingurinn leiðinlegastur, þótt hún sé búin eins og á ball, og talar barnamál við okkur heldra fólkið, um að landið okkar og að hjá okkur á landinu okkar megi reikna með og gera ráð fyrir að reikna með að veðrið á landinu okkar verði leiðinlegt.
Sjónvarpsáhorfendur vita, að um er að ræða spá - spá um veður, veðurspá. Því er óþarfi að segja tíu sinnum, að reiknað sé með að veðrið verði leiðinlegt. Veðurstofa Íslands þarf að senda veðurfræðinga sína til Danmerkur. Þar eru ekki aðeins fallegri veðurfræðingar heldur miklu betra veður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2011 | 22:15
Skítlegt eðli íslenskra stjórnmála
Eins og áhugasamir lesendur vita, er kosið til þings í Danmörku í dag. Fyrir tveimur dögum voru sveitarstjórnarkosningar í Noregi og á mánudag kom Alþingi Íslendinga, elsta löggjafarþing Evrópu, saman til þess að ræða aðkallandi umbætur.
Fróðlegt er að bera saman yfirvegaða umræðu í þessum tveimur menningarlöndum, Danmörku og Noregi, og strákslega umræðu á Íslandi þar sem núverandi forseti talaði sem alþingismaður 1993 um skítlegt eðli þáverandi forsætisráðherra en var í gær kallaður forsetaræfill úr sama ræðustól.
Dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár megum við - sauðsvartur almúginn - hlusta á alþingismenn kýta um einskisverða hluti og þess á milli kasta skít í andstæðingana. Hefðum við götustrákar á Akureyri um 1950 mátt vera hreyknir af þessu orðbragði.
Orðræða íslenskra stjórnmála er ólík því sem gerist í Danmörku og Noregi. Þar er að sjálfsögðu tekist á og menn eru sannarlega ekki sammála, en nota ekki orðbragð götustráka en ræða um ágreiningsmál af hlutlægni og virðingu fyrir andstæðingunum.
Einnig hefði verið fróðlegt að fylgjast með skýringarþáttum í danska og norska sjónvarpinu. Þar búa stjórnendur yfir þekkingu, spyrja skynsamlegra spurninga og eru vel undir verk sitt búnir og lenda aldrei í karpi við viðmælendur sína eða ásaka þá um ósannindi, eins og tíðast í íslensku sjónvarpi.
Það hefur vakið athygli mína, að gamlir stjórnmálamenn, sem skrifa um stjórnmál í blöð, eru enn fastir í dómgirni og bundnir af ósiðum íslenskrar stjórnmálaumræðu. Styrmir, Ragnar Arnalds, Þorsteinn Pálsson, Eiður, Svavar Gestsson og Jón Baldvin hefðu getað lagt heilbrigðri umræðu lið og upplýst okkur sauðsvartan almúgann með yfirvegaðri umræðu og byggt á þekkingu og áratuga langri reynslu.
Ætla hefði mátt, að fullþroska menn, sem gegnt hafa stöfum alþingismanna, ráðherra, formanna stjórnmálaflokka, blaðamanna og verið ritstjórar og sendiherrar hefðu getað lagt lið upplýstri umræðu og stuðlað að heilbrigði skoðanamyndun.
Því miður. Þeir eru enn við sama heygarðshornið og slá sjálfa sig til riddara eða reyna að slá pólitískar keilur með hálfsannleika og dómgirni. Þetta er skítlegt eðli íslenskra stjórnmála.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2011 | 18:40
Harpa, fegursta tónlistarhús heims

Harpa, heimili Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitarinnar, er eitt fegursta tónlistarhús heims og fegurst nýrra tónlistar- og óperuhúsa í Evrópu. Eina tónlistarhús heimsins, sem mér þykir fegurra, er óperan í Sidney frá 1957 eftir Utzon. En það verður að sýna Hörpu virðingu og gæta þess að það fái notið sín. Hún nýtur sín ekki frá Lækjartorgi, eins og myndin sýnir, þar sem auglýsingaskilti skyggja á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)