Sjónleikur íslenskra stjórnmála

Grundvallarboðorð í lýðræðislegum stjórnmálum er að segja satt. Þetta á ekki síst við nú, þegar sannleikurinn ræður framtíð þjóðar sem leitast við rísa upp úr rústum sem fégráðugir óreiðumenn leiddu hana í.

Eftir hrunið í haust og búsáhaldabyltingu í vetur, sem reyndar var engin bylting, var efnt til Alþingiskosninga. Um helmingur þingmanna er nýr – og nýir vendir sópa best. Síðan var mynduð stjórn sem vil kalla sig vinstri stjórn. Mun átt við að um sé að ræða djarfhuga, róttæka stjórn, sem ætlar að breyta öllu til betri vegar og endurbæta. Í stjórnarandstöðu sitja tveir elstu flokkar landsins sem hafa verið við völd, annar hvor eða báðir, frá því í fyrra stríði, nú undir forystu vígreifra en lítt reyndra manna.

 

Innantóm orð 

Það sem hins vegar einkennir stjórnmálastarf endurreisnarinnar – þegar líf þjóðarinnar  liggur við – er að nýju þingmennirnir segja naumast orð og gömlu brýnin naumast orð sem máli skiptir – ef til vill af því þeir vita ekki betur eða geta ekki meira. Einn segir svart það sem annar segir hvítt, og það sem annar segir gott segir hinn vont. Áður töluðu sjálfstæðismenn af ábyrgð og töldu allt gott sem gamla stjórnin gerði. Nú segja sjálfstæðismenn það eitt gott, sem þeir voru byrjaðir að gera í fyrri stjórn. Vinstri grænir, sem áður voru harðir í andstöðu og á móti flestu, eru ljúfir sem lömb sem leidd eru til slátrunar. Það sem áður voru svik í augum þeirra eru nú glæsilegir sigrar.

Með öðrum orðum: íslenskir stjórnmálamenn hafa enn einu sinni skipt um hlutverk í leiksýningu stjórnmálanna. Þeir sem áður léku góðu kallana – ríkisstjórnina – leika nú vondu kallana – stjórnarandstöðuna – og þeir sem léku áður vondu kallana leika nú góðu kallana. Stjórnmál á Íslandi eru því eins og léleg leiksýning.

Binda þarf enda leiksýningu íslenskra stjórnmála. Meðan fólk berst fyrir lífi sínu og tvísýnt er um sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar og vargar sækja að úr öllum áttum, eiga stjórnmálamenn að fella grímurnar og sjá sóma sinn í að taka höndum saman, mynda þjóðstjórn og vinna í sameiningu aðkallandi verk, verkin sem við – kjósendur – kusu þá til.


Fjármálahrun - nýr samfélagssáttmáli

 

Land, þjóð og tunga

Atburðir undanfarna mánuði hafa vakið til umhugsunar um, hvað sameini þessa sundruðu þjóð, hver séu gildi samfélagsins og styrkur íslenskrar menningar og hvort fámenn þjóð, sem eitt sinn var talin búa á mörkum hins byggilega heims, geti staðið auðvaldi heimsins snúning á tímum hnattvæðingar, sem svo er kölluð.

Einnig hafa ýmsir velt því fyrir sér, hvort starfshættir stjórnmálaflokka og fjölmiðla á Íslandi séu með svipuðum hætti og hjá frændþjóðum okkar, en í ljós hefur komið, að siðferði í stjórnmálum og traustir fjölmiðlar skipta sköpum fyrir virkt lýðræði og farsælt stjórnarfar.

Þrennt sameinar þjóð og má kalla sameign hennar. Í fyrsta lagi landið sem hún byggir. Í öðru lagi sagan og í þriðja lagi tungan sem þjóðin hefur alið af sér. Engin þjóðernishyggja býr að baki þessum orðum heldur eiga orðin við allar þjóðir sem ala með sér vitund um að vera þjóð.

 

Landið, sagan og þjóðin

Lengi gat Ísland aðeins brauðfætt um 50 þúsund manns vegna harðinda, lítillar verkmenningar og lélegs stjórnarfars. Á 18. öld, erfiðustu öld í sögu þjóðarinnar, fækkaði fólki stöðugt. Í upphafi aldar voru landsmenn um 50 þúsund, álíka margir og þeir höfðu verið um 1200. Í Stóru bólu 1706-1709 fækkaði fólki um þriðjung og voru Íslendingar þá aðeins 36 þúsund og hafa aldrei orðið færri í sögu þjóðarinnar og urðu ekki 50 þúsund aftur fyrr en 1825. Mannfjöldi í Danmörku og Noregi hafði þá þrefaldaðist frá því um 1200. Ísland var þá á mörkum hins byggilega heims.

Fólksfjölgun er nú meiri á Íslandi en í flestum löndum Evrópu. Veðurfar hefur batnað, verkkunnátta er sambærileg við nágrannalöndin og landgæði mikil: ósnortin víðerni, auðug fiskimið, orka í fallvötnum og jarðvarma, hreint vatn og hreint loft og stórbrotin og fjölbreytileg náttúra. Ræktun og uppgræðsla hefur tekið stakkaskiptum, skógrækt er orðin atvinnugrein og farið að rækta korn og grænmetisrækt á sér framtíð ef rétt er á haldið. Allt er þetta styrkur fyrir þjóðina.

 

Þúsund ár á einni öld

Styrkur þjóðarinnar felst í fleiru. Á einni öld hefur samfélagið breyst úr einagruðu bændasamfélagi í margskipt þjóðfélag í stöðugum tengslum við umheiminn. Menntun er sambærileg menntun nágrannaþjóðanna. Rannsóknir og vísindi hafa stóreflst. Um 1950 höfðu fáir tugir Íslendinga lokið doktorsprófi. Nú skipta íslenskir doktorar þúsundum. Heilsugæsla er ekki síðri en í nágrannalöndunum og barnadauði, sem í lok 19. aldar var hæstur á Íslandi allra Evrópulanda, er nú lægstur í heiminum. Þetta sýnir framfarirnar í hnotskurn. Fyrir rúmri öld var landið dönsk hjálenda. Borgmenning hafði ekki fest rætur og gamalt bændasamfélag var einrátt. Níu af hverjum tíu bjuggu í sveit og þjóðhátíðarárið 1874, þegar Íslendingar fengu danska stjórnarskrá, bjuggu rúmlega tvö þúsund manns í Reykjavík af þeim 70 þúsund sem í landinu bjuggu.

Nú er Ísland sjálfstætt og fullvalda ríki með trausta innviði, öflugt heibrigðiskerfi, þjóðin er vel menntun og auðlindir landsins eru miklar. Má því segja að Ísland hafi ferðast þúsund ár á einni öld.

 

Tunga, menning og listir

Íslensk tunga er fornlegasta tungumál Evrópu – sem er mikill styrkur – því að hvert mannsbarn getur lesið bókmenntir þjóðarinnar í þúsund ár. Tungan hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Nýyrðasmíð er öflug og fleiri nota íslensku í daglegu starfi og tómstundum en nokkru sinni. Ritað er um flest þekkingarsvið á íslensku. Leikritun, ljóðagerð og skáldsagnaritun standa með blóma og nýmæli hafa komið fram í auglýsingagerð og orðanotkun. Menning og listir blómstra, bæði leiklist, tónlist og myndlist – og staðarmenning vex um allt land - og íslensk hönnun vekur athygli. Stjórnvöld og almenningur eru einhuga um málrækt og er síðasta dæmið íslensk málstefna, sem Alþingi samþykkti í mars, en markmið hennar er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Þetta er styrkur og dýrmæt sameign þjóðar.

 

Hrunið og hið alþjóðlega auðvald

Í lok 19. aldar var Ísland eitt fátækasta land í Evrópu. Hagtölur árið 2002 sýna hins vegar að landsframleiðsla á mann var þá 10% hærri en meðaltal í löndum Evrópusambandsins. En svo kom hrunið. Í ljós kom að velsældin byggðist á svikagróða og blekkinum, sýndarmennsku og gróðafíkn – en fégirndin upphaf alls ills. Reynt er að grafast fyrir um orsakir hrunsins og stjórnvöld leita leiða til bjargar þjóð sem er skuldum vafin eins og skrattinn skömmunum.

Reynt er að finna þá sem valdir eru að ósköpunum og gerðust brotlegir við lög – og er skömm þeirra mikil. Már Guðmundsson hagfræðingur segir í tímaritsgrein að erfitt sé að skilja flókna atburði meðan þeir gerast. Eigi það við um fjármálakreppuna sem tröllriðið hafi heimsbyggðinn, ekki síst vegna þess að áhrifin séu enn ekki komin fram og viðbrögð stjórnvalda í mótun. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skrifaði bók um hrunið og rekur þar atburði frá degi til dags. Það er ljót lesning og bregður upp skuggalegri mynd af fjármálum á Íslandi - og annars staðar, þar sem fákunnátta og óheilindi einkenna öll viðskipti. Eftir lesturinn má efast um að fámenn þjóð geti staðið alþjóðlegu auðvaldi snúning nema til komi meiri þekking, aukinn heiðarleiki, virkara lýðræði og traustari stjórn.

Óvarlegt er að blanda sér í umræður um efnahagsmál. Þó virðist krafa auðvaldsins um 20% arð af fé hljóti að leiða til ófarnaðar. Ekkert fyrirtæki getur skilað slíkum arði nema hagur starfsmanna sé fyrir borð borinn eins og í löndum þriðja heimsins þar sem enn er stundað arðrán, angi af gömlu nýlendustefnunni. Þetta arðrán er undirrót arðsemiskröfu sem gengur út yfir allan þjófabálk og er birtingarmynd fégræðgi – sem er meginorsök hrunsins.

 

Umræðuhefð og stjórnmálasiðferði

Í upphafi var að því vikið hvort starfshættir stjórnmálaflokka og fjölmiðla væru með sama hætti og í nágrannalöndunum, en rannsóknir hafa leitt í ljós að siðferði í stjórnmálum og staða og starfshættir fjölmiðla skipta sköpum fyrir málefnalega, lýðræðislega umræðu og frjálsa skoðanamyndun – og farsælt stjórnarfar.

Samanburður á starfsháttum stjórnmálamanna og umræðuhefð í Danmörku og Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar leiðir í ljós mikinn mun. Umræða er þar málefnalegri og ekki eins gildishlaðin og hér. Brigslmælgi og stóryrði, sem stjórnmálamenn hér temja sér, er þar óhugsandi. Með slíkri hegðan græfu stjórnmálamenn á Norðurlöndum sína eigin gröf. Hér á landi eru stóryrði hins vegar talin merki um djörfung og festu og talin hafa skemmtanagildi.

Þessi umræðuhefð fáránleikans setur svip á störf Alþingis sem iðulega minnir meir á sjónleikahús en löggjafarsamkomu. Umræðuhefðin hefur aukið tortryggni milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og komið í veg fyrir eðlilegt samstarf – jafnvel á örlagastundu. Má fullyrða að ein ástæðan fyrir erfiðleikum íslensku þjóðarinnar nú eigi rætur að rekja til sundurlyndis íslenskra stjórnmálamanna og lélegs stjórnmálasiðferðis og frumstæðrar umræðuhefðar.

 

Íslenskir fjölmiðlar

Íslenskir fjölmiðlar hafa oft verið þess vanmegnugir að brjóta til mergjar og skýra á yfirvegaðan hátt atburði liðandi stundar. Veldur margt, s.s. fámenni og eignarhald á fjölmiðlum. Sá fréttamiðill, sem ber af og nýtur mests trausts, er fréttastofa útvarps og er vonandi að breytt skipulag og hagræðing breyti því ekki.

Nokkrir fréttamenn og blaðamenn eru hins vegar því marki brenndir að vilja frekar vekja athygli – selja fréttir – en upplýsa mál á hlutlægan hátt. Þá hafa einstaka umræðuþættir í sjónvarpi einkennst af yfirheyrsluaðferðinni þar sem stjórnandi reynir að koma höggi á viðmælanda, gera hann tortryggilegan og fella yfir honum dóm. Í stað dómstóls götunnar – kjaftagangsins – er því kominn dómstóll fjölmiðla. Vegna þessa hafa iðulega ekki fengist svör við spurningum og almenningur situr eftir ringlaður með óbragð í munninum.

Í Danmörku og Noregi leita þáttastjórnendur svara á hlutlægan hátt og fella ekki dóma – heldur er hlustendum látið eftir að draga ályktanir.

 

Frumstæð umræðuhefð

Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar hér á landi eru margar. Borgmenning hefur ekki fest hér rætur með þeirri tillitssemi og persónulegu fjarlægð sem slíka menningu einkennir. Fámennið veldur því einnig að úrval fréttamanna er minna, allir þykjast þekkja alla og návígið nálgast iðulega dónaskap. Stéttskipting og agi hafa einnig verið með öðrum hætti en í flestum Evrópulöndum og enn eimir eftir af agaleysi bændasamfélagsins. Yfirveguð umræða er hins vegar grundvallarþáttur í lýðræðislegri endurreisn og aukinni samfélagsmenningu á Íslandi. Þar gegna fjölmiðlar mikilsverðu hlutverki - ásamt skólum landsins.

 

Samfélagssáttmáli - sjálfstætt stjórnlagaþing

Íslensk þjóð hefur áður gengið gegnum erfiðleika og sigrast á þeim. Það mun hún einnig gera nú með dugnaði og samstöðu og á grundvelli dýrmætra sameigna sinna – lands, sögu og tungu – en einnig á grundvelli aukinnar menntunar og náttúruauðlinda. 

En samhliða endurreisn efnahagslífs verður að fara pólitísk endurreisn: aukin mannvirðing, jafnrétti á öllum sviðum, meira gagnsæi, betri upplýsingar, bætt siðferði í stjórnmálum, aukinn heiðarleiki í viðskiptum og fjármálum - og bætt umræðuhefð.

Til að stuðla að þessari endurreisn þarf að efna til sjálfstæðs stjórnlagaþings – stjórnlagaþings þjóðarinnar – sem kosið er til í almennum kosningum með landið sem eitt kjördæmi. Sjálfstætt stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá geta stuðlað að því að sameina sundraða þjóð, lægja öldur og vekja von – og auka traust á Alþingi, stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum.

Ný stjórnarskrá, sem almenningur - ekki atvinnustjórnmálamenn - setur, gæti því orðið samfélagssáttmáli í kjölfar mesta áfalls í sögu íslenska lýðveldisins.


Virðing og skömm Alþingis

Undanfarna daga hef ég horft á umræður á Alþingi.  Slíkar umræður og hegðan alþingismanna eru ekki til að auka veg elstu stofnunar þjóðarinnar sem nýtur nú lítillar og sífellt minni virðingar.   

Ef slík hegðan sæist í skólastofu væri nemendum vikið úr tíma, jafnvel fyrir fullt og fast. Með þessari hegðan sýna alþingismenn þjóðinni lítilsvirðingu.  Þetta er skömm Alþingis.


Veröldin er leiksvið, opið bréf til alþingismanna

Góðir alþingismenn.

Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland eru nauðsynleg til þess að efla lýðræði í landinu, vekja með fólki von um betra stjórnarfar og auka traust á Alþingi og stjórnmálaflokkum - og ekki síst til þess að stuðla að sátt í samfélaginu.Enginn stjórnmálaflokkur má eigna sér komandi stjórnlagaþing og enginn flokkur má leggjast gegn stjórnlagaþingi á vegum fólksins og fyrir fólkið, en það er til fólksins - almennings í landinu - sem þið, alþingismenn, sækið umboð ykkar. 

Illt var að ekki skyldi reynt til þrautar að fá Sjálfstæðisflokkinn til þess að standa að frumvarpi um stjórnlagaþing, flokk sem hefur flesta fulltrúa á Alþingi og hefur verið stærsti stjórnmálaflokkur landsins frá stofnun lýðveldis.

Lýðræðisþjóð getur ekki verið án stjórnmálaflokka – annað er blekking. Sjónarspil stjórnmálamanna fyrir opnum tjöldum er, hefur verið og verður hluti af þeim sjónleik sem fylgt hefur stjórnmálum alla tíð og við megum ekki vera án – því að þetta sjónarspil hefur líka sitt gildi, enda er öll veröldin leiksvið og hver karl og kona aðeins leikarar sem fara og koma og breyta oft um gervi, eins og meistari Shakespeare segir.

Engu að síður skora ég á ykkur, alþingismenn, að finna leið til þess að allir flokkar á Alþingi standi að stjórnlagaþingi, kjörnu af fólkinu, fyrir fólkið. Sundrung, sýndarmennska og pólitískur rétttrúnaður hæfir ekki á Alþingi Íslendinga nú.


Gildi stjórnlagaþings

Ýmsir spyrja hvaða gildi stjórnlagaþing hafi, hvers vegnaþörf sé á því nú og hvort menn hafi ekki annað þarfara að gera á þessumviðsjárverðu tímum en halda slíkt þing. Að sjálfsögðu þarf að gera sér grein fyrir hver árangur yrði afstjórnlagaþingi nú, þegar þjóðin er í upplausn og óvissa ríkir í fjármálum ogatvinnumálum, tugþúsundir heimila eru á barmi gjaldþrots.

Sundrung íþjóðfélaginu

Sundrung í þjóðfélaginu, tortryggni, reiði og vonleysi ogfrumstæð umræða á Alþingi, í blöðum og fjölmiðlum gæti torveldað að árangur af slíkustjórnlagaþingi.  Sundurlyndi stjórnmálaflokkanna, sem oft jaðrar viðfyrirlitningu svo ég segi ekki hatur, gæti einnig tafið endurbætur ástjórnkerfi landsins auk þess sem stjórnmálaflokkarnir eru sjálfum sérsundurþykkir og sumir jafnvel lamaðir af innbyrðis átökum.

Samfélagssáttmáli

Gildi stjórnlagaþings nú felst í því að sameina þjóðina,lægja öldur, vekja von og auka traust á Alþingi, stjórnmálaflokkum ogstjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá gæti orðið samfélagssáttmáli, ef rétt er að málum staðið.

Eftir efnahags- og atvinnuhrun síðustu mánaða, sem á sérenga hliðstæðu í 65 ára sögu lýðveldisins, hefur komið í ljós spilling og siðleysií efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar svo og í stjórnmálum landsins, spillingsem á sér enga hliðstæðu með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum.

Vegna þessarar spillingar hefur orðið viðhorfsbreyting íþjóðfélaginu. Gamla Ísland er ekki til, Ísland er ekki sama Ísland og það varfyrir 6. október 2008, þegar neyðarlögin voru sett og eftir að saklaust fólkhefur orðið fyrir tjóni, sem það átti enga sök á en verður að bera byrðarnaraf. Svikamylla í viðskiptalífi, blekking, þekkingarleysi, ágirnd og aurasafnnýríkra auðmanna hefur breytt sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar og ímynd hennarút á við.

Nýtt lýðveldi

Önnur ástæða fyrir stjórnlagaþingi nú, er að Alþingi,löggjafarvaldið, og ríkisstjórn, framkvæmdavaldið, eiga ekki að setja sérstarfsreglur frekar en dómstólarnir, dómsvaldið. Nú - í upphafi 21. aldar – ereðlilegt að sérstakt stjórnlagaþing setji löggjafarvaldi og framkvæmdavaldinýja stjórnarskrá sem almenningur fær að greiða atkvæði um.

Lýðræði er hugsun

Til þess að árangur náist af starfi stjórnlagaþings og afnýrri stjórnarskrá í nýju lýðveldi þurfa allir að gera sér ljóst að lýðræði erekki aðeins form heldur einnig – og ef til vill einkum hugsun, lífsafstaða.

Undirstaða lýðræðislegrar hugsunar er fordómalaus þekking,réttar upplýsingar, frjálsir fjölmiðlar, heiðarlegir, hlutlægir og menntaðirblaða- og fréttamenn, frjálsir fjölmiðlar, málefnaleg, hlutlæg umræða - og aðlokum byggist lýðræðisleg afstaða á því að virða mannréttindi og jafnrétti allsstaðar og á öllum sviðum.

Úrelt stjórnarskrá

Núverandi stjórnarskrá er gömul og úrelt og um hana er ekkisamstaða.  Af þeim sökum þurfa Íslendingarnýja stjórnarskrá og nýtt lýðveldi – nýtt Ísland.  Ekki er lengur unnt að notast við danska stjórnarskrá frá1849, sem Kristján konungur IX, afi Evrópu, staðfesti sem stjórnarskrá fyrirÍsland 5. janúar 1874.

Á þetta hafa margir bent. Nú síðast hefur Björg Thorarensenprófessor látið hafa eftir sér aðstjórnlagaþing sé vænlegasta leiðin út úr þeirri stöðnun sem hefur verið íþróun íslensku stjórnarskrárinnar, á stjórnlagaþingi sé hægt að ná sátt umgrunnreglur þjóðfélagsins. Núverandi stjórnarskrá sé bæði óskýr og ógagnsæ ogþar skorti skýrar verklagsreglur milli framkvæmdavalds og þings og ákvæði umáhrif alþjóðasamfélagsins á íslenskt samfélag af því að utanríkismál séu miklustærri þáttur nú en þegar stjórnarskráin var samþykkt 1944.  Skýrara er naumast unnt að orða þetta.

Traust stjórnlagaþing

Eiríkur Tómasson prófessor telur einnig brýnt að kosið verðisérstakt stjórnlagaþing, óháð Alþingi og þar með óháð stjórnmálaflokkunum. Núsé “lag til þess að breyta til og ýta hinni aldagömlu og úr sér gengnustjórnskipan okkar Íslendinga til hliðar”.

Eiríkur Tómasson vill hins vegar að kosið verði tilstjórnlagaþings jafnhliða alþingiskonsingum 25. apríl n.k. og telur annarshættu á að með pólitískri samtryggingu flokkanna myndi enn einu sinni takastað koma í veg fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar” af því aðfólk sé svo fljótt að gleyma”. Með því aðkjósa til stjórnlagaþings um leið og kosið er til Alþingis verði flokkarnir ofuppteknir við að tryggja völd sín og áhrif á Alþingi til þess að þeir hefðutíma aflögðu til að sinna kosningum til stjórnlagaþings, segir EiríkurTómasson

Hastverk er lastverk

Í þessum orðum Eiríks Tómassonar felast einmitt rökin fyrirþví að efna til kosninga til stjórnlagaþings á öðrum tíma en til Alþingis. Ífyrsta lagi á ekki að lauma kosningum til stjórnlagaþings inn í kosningar tilAlþingis.  Stjórnmálaflokkarnir eigaað fá tækifæri til þess að taka heiðarlega þátt í undirbúningi stjórnlagaþingsins.Með því að láta annað í ljós er verið að sýna þeim lítilsvirðingu.

Kosningar til stjórnlagaþings á að gera veglegar – gera þærað þjóðhátíð, kjósa 17. júní 2009 á 65. ára afmælis lýðveldisins og kallaþingið saman á fullveldisdaginn 1. desember 2009.

Þyngst vegur þó, að ógerningur er að undirbúa kosningar tilstjórnlagaþings fram til 25. apríl. Núverandi bráðabirgðastjórn er að slökkvaelda, bjarga því sem bjargað verður. Þing og þjóð hafa ekki þrótt til þess aðsinna öðru fram yfir alþingiskosningar - og hastverker lastverk

Pólitískt sjálfsmorð

Enginn stjórnmálaflokkur dirfist að koma í veg fyrir aðkosið verði til stjórnlagaþings nú eftir það sem á undan er gengið.  Slíkt væri pólitískt sjálfsmorð – og almenningurgleymir ekki atburðum síðustu mánaða meðan reykinn leggur enn af rústum gamlasamfélagsins.  Margt á auk þesseftir að koma í ljós fram að kosningum 25. apríl n.k. - sumt ógeðfellt - enallt mun það ýta undir kröfu almennings um stjórnlagaþing, nýja stjórnarskrá ognýtt lýðveldi, nýtt Ísland.

 


Ríkisútvarpið, hlutverk þess og skyldur

Eyþór Gunnarsson!  Þú biður um að fá að lesa nýlega grein mína um Ríkisútvarpið.  Hér kemur hún:

 

Ríkisútvarpið hefur að mínum dómi svipaða stöðu og Alþingi.  Á svipaðan hátt og Alþingi setur lög um samskipti og hegðan í þjóðfélaginu mótar ríkisútvarp reglur og viðmiðanir varðandi umfjöllun um menn og málefni með því að veita réttar upplýsingar um stjórnmál, atvinnulíf, listir, menningu og menntir, enda er allt þetta bundið í lögum Ríkisútvarpsins.  Því tel ég ríkisútvarp - útvarp og sjónvarp í eigu þjóðarinnar - álíka mikilsvert og Alþingi.  Það væri af þeim sökum álíka fjarstæðukennt í mínum huga að einkavæða Ríkisútvarpið og að einkavæða Alþingi.

Í upplýsingamengun samtímans er það mikilsvert að leiða fólk á heiðarlegan hátt gegnum frumskóg upplýsinga – að ég segi ekki frumskóg af auglýsingum og áróðri.   Á tímum kalda stríðsins, þegar dagblöð drógu upp svart hvíta mynd af umheiminum, var það Ríkisútvarpið – og ekki síst Fréttastofa Ríkisútvarpsins undir stjórn fréttastjóranna Jóns Magnússonar og Margrétar Indriðadóttur sem gaf með fréttum, fréttaaukum og fréttaskýringarþáttum glögga mynd af því sem var að gerast.  Fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins, séra Emil Björnsson, var alinn upp á Fréttastofu Ríkisiútvapsins, og fylgdi sömu stefnu enda voru – og eru skýr ákvæði í lögum Ríkisútvarpsins um meðferð upplýsinga þar sem m.a. segir:

að Ríkisútvarpið skuli veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða og halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana og gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn og túlkun.

Með þessum hætti verndar Ríkisútvarpið almenning og veitir réttar upplýsingar í þágu fólksins og leitast við að gefa rétta mynd af samtímanum og fortíðinni og hamla gegn upplýsingamengun og síðast en ekki síst á Ríkisúrvarp að styðja að frjálsri skoðanamyndun og lýðræðislegri umræða – sem er undirstaða lýðræðis.

Formælendur auðvaldsins – frjálshyggjunnar segja að með starfsemi á vegum ríkisins sé verið að stuðla að forræðishyggju.  Að mínum dómi vinna ríkisstofnanir í lýræðislandi í þágu allra, án tillit til stéttar og stöðu.  Ríkisútvarp vinnur gegn skrumi, áróðri og auglýsingamengun með því að veita hlutlægar og óhlutdrægar upplýsingar.  Slíkt er samfélagsleg umhyggja - ekki forræðishyggja.

Fimm atriði að auki styðja rekstur ríkisútvarps.  Í fyrsta lagi er ríkisútvarp - eða ætti að vera fjölmennasti skóli landsins, sem m.a. stendur vörð um íslenska tungu.   Í öðru lagi ætti ríkisútvarp að vera stærsta leikhús landsins - stærsti skemmtigarður landsins.  Í þriðja lagi er ríkisútvarp öflugt öryggistæki, eins og dæmin sanna.  Í fjórða lagi er ríkisútvarp sameiningartákn þjóðarinnar eins og tungan og íslensk náttúra.  Í fimmta lagi má geta þess að öll þau þjóðríki sem við erum skyldust og viljum - og eigum að bera okkur saman við, reka öflugt ríkisútvarp.


Þjóðstjórn - nýtt lýðveldi

Eftir atburði síðustu daga er aðeins ein leið til í íslenskum stjórnmálum: að mynda þjóðstjórn sem allir flokkar á Alþingi eigi aðild að. Slík stjórn hefði víðtækt umboð og óskorað vald til þess að ráða fram úr hinum mikla vanda sem nú steðjar að. Stjórnin starfaði fram yfir kosningar 9. maí - eða þegar mynduð hefði verið ný ríkisstjórn.

Nú eiga allir starfandi stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar að sýna samstöðu, snúa bökum saman, gleyma um stund pólitískum ágreiningi og leggja grunn að nýju lýðveldi sem byggt verður á nýrri stjórnarskrá þar sem undirstaðan er skýr aðgreining löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds, jafnrétti á öllum sviðum og frjáls skoðanamyndun í skjóli frjálsra fjölmiðla.

Traust almennings á stjórnmálamönnum og grundvallarstofnunum ríkisins þarf að endurreisa.  Íslenska þjóðin á í styrjöld. Við slíkar aðstæður þurfa allir að sameinast um að gera landið aftur lífvænlegt og friðvænlegt.  Dagur reiði er liðinn, dagar samstarfs eiga að taka við. Þeir sem gerst hafa brotlegir fá sinn dóm - því réttlæti verður að ríkja í réttarfarsríki.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband