Tímarnir breytast og tungumálin með

„Tímarnir breytast og mennirnir með,” segir gamall málsháttur. Hér í þessum þætti færi betur á því að segja að tungumálin breytist og mennirnir með - eða ef til vill öllu heldur: tímarnir breytast og tungumálin með.

Undanfarið hafa orðið umræður í fjölmiðlum um uppruna og stöðu íslenskrar tungu. Uppruni málsins er ljós. Íslenska er upphaflega tungumál norskra landnámsmanna og fram um 1300 var lítill sem enginn munur á máli því, sem talað var á Íslandi, og því sem talað var í Noregi, enda benda heimildir til að íbúar þessara landa hafi notað málið í samskiptum sín á milli, jafnvel fram um 1600.

Í formála Heimskringlu kallar Snorri Sturluson málið, sem talað var á Norðurlöndum, danska tungu. Síðar á miðöldum var það nefnt norræna. Nú kalla Norðmenn gamla málið sitt gammel norsk á bókmáli eða gamal norsk á nýnorsku, sem er hitt opinbera málið í Noregi. Íslendingar kalla mál Norðmanna fornnorsku og á enskri tungu er þetta mál kallað Old Norse, svo kært barn hefur mörg nöfn. Uppruninn er því ljós svo og þróun málanna gegnum tíðina.

Nokkur ágreiningur og óvissa ríkir hins vegar um stöðu íslenskrar tungu og framtíð hennar. Í þessum þáttum hefur því verið haldið fram að íslenskt tunga hafi aldrei staðið sterkar en nú, enda þótt íslenska hafi breyst í tímans rás, því að tímarnir breytast og tungumálin með. Aðrir telja að tungan sé í hættu vegna nýrrar samskiptatækni þar sem allt fer fram á ensku.

Síðast liðinn vetur lagði ég könnun fyrir nemendur í nokkrum grunnskólum og nokkrum framhaldsskólum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Þar var m.a. spurt um afstöðu nemenda til málræktar og málverndar. Svör nemendanna benda til þess að munur sé á afstöðunni eftir skólum og mikill munur á afstöðu grunnskólanemenda annars vegar og nemenda í framhaldsskólunum hins vegar til málræktar og málverndar. Nemendur viðast öðlast aukinn skilning og fá meiri áhuga á stöðu tungumálsins og mikilvægi málræktar eftir því sem þeir verða eldri, sem af ýmsum ástæðum verður að teljast eðlilegt. Auk þess kom fram mikill munur á skilningi og afstöðu nemenda eftir áhugamálum, sem um var spurt í könnuninni.

Á grundvelli þessarar könnunar svo og viðræðum við ungt fólk virðist mega ráða að skil séu á afstöðu "tölvukynslóðarinnar" og fyrri kynslóða til tungumálsins, enda ekki óeðlilegt að börn og unglingar, sem nota ensku daglega í tölvuleikjum og í samskiptum sínum, hafi aðra afstöðu til íslenskrar málræktar - að ekki sé tala um afstöðu til íslenskrar málverndar. 

Ástæða væri því til að kanna betur afstöðu mismunandi aldurshópa til tungumálsins - og þá ekki síst til málræktar og málverndar. Ef vel ætti að vera þyrfti að kanna þetta hjá börnum og unglingum og hjá nemendum á öllum skólastigum svo og í aldurshópum miðaldra og eldra fólks, því að enda þótt íslensk tunga standi enn traustum fótum kann það að breytast með breyttum samfélagsháttum, breyttri þekkingu og breyttri menntun þar sem gætir síaukinna áhrifa frá ensku, ekki síst í nýrri samskiptatækni sem mun gera sig gildandi á öllum sviðum þjóðfélagsins.

 

Vikudagur 5. nóvember 2015

Íslenskt mál 201. þáttur


Fjögur orð

Flest tungumál nota AIDS eða HIV það sem á íslensku er nefnt alnæmi eða eyðni. Í færeysku er þó notað orðið eyðkvæmi ásamt orðinu AIDS. AIDS er skammstöfun á ensku orðunum Acquired Immune Deficiency Syndrome, sem þýða mætti 'áunnið heilkenni ónæmis'.

Flest tungumál nota orðið bibliotek um 'bókasafn', þótt í ensku muni oftast notað latneska orðið library af liber 'bók'. Orðið bókasafn er þýðing á gríska orðinu bibliotek sem myndað er úr biblos, 'bók', og théke, 'geymsla'. Orðið kemur fyrst fyrir í ævisögu Hannesar biskups Finnssonar [1739-1796] „upplesin vid Hans Jardarfør ad Skálholti þann 23ia Augúst 1796”, eins og stendur í útgáfunni frá1797. Hugsanlegt er að hinn lærði biskup hafi sjálfur þýtt orðið úr grísku.

Flest tungumál nota orðið autograf um það sem nefnt er eiginhandaráritun á íslensku. Orðið autograf er myndað af grísku orðunum αὐτÏŒς, autós, sem merkir 'sjálfur', og γράφ, graf, dregið af sögninni γράφειν, gráphein, 'skrifa'. Orðstofnarnir koma einnig fyrir í tökuorðum eins og átómat, 'sjálfsali', eða átómatískur, 'sjálfvirkur', graf, 'línurit', grafík, 'svartlist' og graffittí, 'veggjakrot'.

Flest tungumál nota telefon um það sem nefnt er sími á íslensku. Orðið telefon á sér langa sögu, þótt fyrirbærið ekki ýkja gamalt en vakti undrun þegar Alexander Graham Bell tókst að flytja mannsrödd um koparvír um 1870. Þegar framleiðsla tækisins hófst fáum árum síðar, var í ensku notað orðið telephone um þetta tækniundur. Orðið er myndað af grísku orðunum τῆλε, tÄ“le, 'fjarlægur', og φωνή, phōnÄ“, 'rödd' sem mætti þýða með orðinu firðtal. Eins og lesendur þekkja hefur firðtal breyst í tímans rás. Í stað talþráða hefur orðið til raunverulegt firðtal, þráðlausir símar sem nefndir eru farsímar eða gemsar, en gemsi er hljóðlíkingarorð eftir ensku skammstöfuninni GSM, Global System for Mobile Communications.

Í fornu máli kemur fyrir hvorugkynsorðið síma í merkingunni 'þráður' eða 'þráður úr gulli' og karlkynsorðið sími í samsetta orðinu varrsími, sem merkir 'kjölrák'. Þegar Íslendingum bárust frásagnir af fyrirbærinu telefon um 1870, var talað um telefón. Seinna komu fram tillögur eins og firðtal (1875), hljómþráður (1877), hljóðberi (1879), hljóðþráður (1888) og talþráður (1891). Í Ný danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Jónas Jónsson frá Hrafnagili frá árinu 1896 er að finna orðið sími í samsetningunum talsími og ritsími og sögnin talsíma. Árið eftir kemur orðið sími fyrir í tímaritinu Sunnanfara. Síðan hefur orðið verið einrátt í íslensku.

Og þá kemur rúsínan í pysluendanum. Í svahílí er notað orðið simu um 'telefon'. Svahílí er talað af 150 milljónum manna í Austur Afríku og er opinbert mál í Tansaníu, Kenía, Úganda, á Kómóróeyjum og í Kongó. Orðið simu í svahílí er komið af persneska orðinu sim, سیم, sem merkir 'þráður'm - jafnvel 'silfurþráður', og er orðið sim, سیم, notað í persnesku bæði um síma og farsíma. Persneska er indóevrópskt mál eins og íslenska og hafa liðlega 100 milljónir manna persnesku að móðurmáli: í Íran, Afganistan, Tatsekistan, Úsbekistan, Tyrklandi, Írak, Katar, Ísrael, Kúveit, Barein og Óman. Rót íslenska orðsins sími og persneska orðsins sim er hin sama, þ.e. *sêi-, og merkir 'binda', sbr. orðið seil, sem merkir 'band', og orðið sili: 'lykkja á bandi'. Til þess að reka smiðshöggið á furðusögu tungumálanna má geta þess að saga Persa hinna fornu heitir á Iran saga. Vegir tungumálanna eru því furðulegir, ekki órannsakanlegir eins og vegir guðs.


Konur og aðrir sólbaðsstofunuddarar

Gamall og góður nemandi minn úr Menntaskólanum í Reykjavík fyrir hartnær hálfri öld, Jón Steinar Gunnlausson, lögmaður og fyrrum dómari við Hæstarétt Íslands, skrifar grein í Morgunblaðið 28. f.m. um, hvernig nú skuli skipa í Hæstarétt. Telur Jón Steinar marga álíta „að þar ættu helst að sitja dómarar sem talist gætu einhvers konar „þverskurður” af fólkinu í landinu! Í öllu talinu felst einhvers konar grundvallarmisskilningur á starfsemi dómstóla.”

Réttarfar í landinu er of mikilsverður þáttur nútímalýðræðis, þar sem gilda skal jafnrétti og jafnræði á öllum sviðum, til þess að lögfræðingar, lögmenn og hæstaréttardómarar fjalli einir um það mál. Af þeim sökum leyfi ég mér sem gamall kennari að leggja orð í belg.

Andstætt því sem Jón Steinar álítur grundvallarmisskilning - að krefjast þess að í Hæstarétti sitji „dómarar sem talist gætu einhvers konar „þverskurður” af fólkinu í landinu”, tel ég að einmitt þannig ætti það að vera, þ.e.a.s. að í Hæstarétti sitji karlar og konur, afkomendur iðnaðarmanna, verkamanna og sjómanna - og sólbaðstofunuddara, en ekki aðeins nemendur Menntaskólans í Reykjavík úr fyrstu stétt, aldir upp í Vesturbænum eða Hlíðunum.

Jón Steinar segir, að dómstólar eigi að leysa úr réttarágreiningi milli manna og beri að dæma einungis eftir lögum - nema hvað, enda sé það í reynd forsenda fyrir starfi dómstóla „að hin lagalega rétta niðurstaða sé aðeins ein”. Þar fór hins vegar í verra, Jón Steinar, vegna þess sem þú bendir réttilega á, að oft þarf „á mikilli hæfni að halda því leitin er stundum ekki einföld og menn kann að greina á um niðurstöður hennar”. Þetta er mergurinn málsins: „Allt orkar tvímælis þá gert er”, eins og haft er eftir lögvitringnum Njáli á Bergþórshvoli. Auk þess sjá augu betur en auga. Auk þess þarf að taka tillit til ólíkra viðhorfa þegar leyst er úr ágreiningi manna. Og þótt ekki væri nema af þeim sökum eiga í Hæstarétti að sitja dómarar sem talist gætu einhvers konar þverskurður af fólkinu í landinu.

Jón Steinar segir að í „hópi þeirra sem kallast mega [takið eftir orðalaginu: kallast mega] lögfræðingar er margur misjafn sauðurinn. Við viljum ekki að aðrir en þeir hæfustu fái í hendur völd til að kveða upp dóma í málefnum fólksins í landinu. ... Í því efni skiptir kynferði dómara engu máli.”

Öllum mun ljóst vera, að í „hópi þeirra sem kallast mega lögfræðingar er margur misjafn sauðurinn” og af þeim sökum „viljum við” að þeir hæfustu fái í hendur það mikilsverða þjónustuhlutverk - ekki völd - til að kveða upp dóma í málefnum fólksins í landinu. En í því efni skiptir kynferði dómara máli. Konur og karlar hafa nefnilega ólík viðhorf vegna kynferðis síns.

Krafa nútíma lýðræðis á Vesturlöndum er að konur komi alls staðar að málum þar sem velferð okkar og örlög eru ráðin. Og meðan sjónarmið á borð við skoðanir Jóns Steinars eru enn við lýði að bera saman “lækna, iðnaðarmenn, verkamenn, veitingamenn og sólbaðstofunuddara” annars vegar og konur hins vegar, er eina leiðin að alls staðar þar sem velferð okkar og örlög eru ráðin sé viðhafður kynjakvóti - og þá meðal annars og ekki síst í Hæstarétti Íslendinga. Nóg er til af hæfum konum í hópi þeirra sem kallast mega lögfræðingar.

 


Vi alene vide

Ofangreind orð - Vér einir vitum - er að finna í yfirlýsingar Friðriks sjötta Danakonungs [1768-1839] sem dagsett er 26. febrúar 1835, en yfirlýsingin var svar konungs við áskorun 600 manna um að hefta ekki prentfrelsi í Danmörku. Í yfirlýsingu konungs segir:

Ligesom Vor landsfaderlige Opmærksomhed stedse har været henvendt paa at bidrage Alt, hvad det stod i Vor kongelige Magt, til at virke for Statens og Folkets Vel, saaledes kan heller Ingen uden Vi alene være i Stand til at bedømme, hvad der er til Begges sande Gavn og Bedste.

Í íslenskri þýðingu hljóðar þetta þannig - í nafni forseta Íslands: 

Eins og landföðurleg umhyggja vor hefur ávallt beinst að því að leggja allt það af mörkum sem í konunglegu valdi voru stendur til að vinna að velferð ríkisins og þjóðarinnar, þannig getur enginn nema vér einir færir um að dæma hvað er gagnlegast og best báðum til handa   

Orð Friðriks konungs sjötta eru talin bera vitni um yfirlæti hins einvalda konunga gagnvart þegnum sínum, en konungur sat á valdastól meira en hálfa öld. 

Þessi orð Friðriks konungs sjötta komu í huga mér þegar ég hlustaði á ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands í nær tvo áratugi við setningu Alþingis.

Enda þótt haldinn hafi verið þúsund manna þjóðfundur og Alþingi hafi skipað stjórnlagaráð - eftir að Hæstiréttur ógilti kosningar til stjórnlagaþings á röngum forsendum og af annarlegum ástæðum - og meiri hluti þjóðarinnar hafi samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að setja nýja stjórnarskrá í samræmi við breytta heimsmynd, nýja hugsun og nýjar hugmyndir um lýðræði og þjóð segir Ólafur Ragnar Grímsson fimmti í ræðu sinni:

Um þessar mundir er hins vegar boðað í nafni nefndar, sem ræðir stjórnarskrána, að hið nýja þing þurfi á næstu vikum að breyta þessum hornsteini íslenskrar stjórnskipunar; tíminn sé naumur því nýta þurfi vegna sparsemi og hagræðis forsetakosningar á næsta vori.

Og Ólafur Ragnar Grímsson - forseti í upphafi 21. aldar - klikkir út með því að segja: 

Því ítreka ég nú hin sömu varnaðarorð og við þingsetningu fyrir fjórum árum: að Alþingi tryggi að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu; annars gætu forsetakosningar orðið efni í óvissuferð.

... að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins. Vi alene vide. 

Þjóðin veit og skilur með aukinni menntun, yfirsýn yfir sögu þjóðarinnar undir dönskum einvaldskonungum sex aldir og ekki síst vegna skilnings þjóðarinnar hvað lýðræði merkir.

Lýðræði er ekki Alþingi - og ekki forseti sem heldur at han alene vide.

 


Gulur, rauður, grænn og blár

Hver er sá veggur víður og hár

veglegum settur röndum:

gulur, rauður, grænn og blár

gerður af meistarans höndum

 

Flestir þekkja þessa gátu, þennan húsgang, en höfundur er ókunnur.  Í gamalli rímu er vegg keisarahallarinnar í Miklagarði lýst þannig:

 

Veggurinn bæði víður og hár,

vænum settur röndum,

grænn og dökkur, rauður og grár

og gjörr af meistara höndum.

 

Sennilegt er að gátan sé gerð eftir vísu rímunnar. Ráðningin er ekki veggur keisarahallarinnar í Miklagarði heldur regnboginn, eins og lesendur þekkja. Litir regnbogans eru að vísu gulur, rauður, grænn og blár - yst rauði liturinn, svo gulur, þá grænn og innst blái liturinn, eins og í listaverki Rúríar REGNBOGINN sem stendur við flugstöðina í Keflavík.

Mörgum reynist erfitt að nefna liti réttu nafni, enda eru litirnir orðnir fleiri en litirnir í regnboganum. Í maí 2011 skrifaði frönskumælandi Kanadabúi, Étienne Poisson, ritgerð við Háskóla Íslands undir leiðsögn Jóns Axels Harðarsonar prófessors um litarorðaforða í íslensku. Segist hún hafa ákveðið að „skrifa um liti vegna þess að þrátt fyrir góða kunnáttu í íslensku finnst mér ég oft ekki vera sammála Íslendingum þegar kemur að því að lýsa litum. Maður spyr sig stundum hvort aðrir sjái lit á sama hátt. Þetta stafar af einkar huglægu eðli lita, enda torskilgreinanlegt fyrirbæri. Öll tungumál eru fær um að lýsa litum, en tungumál eru með mismörg og nákvæm orð um þá. Ólíkt hlutlægum hlutum eins og trjám eða steinum eru litir ekki eins takmarkaðir – menn eru stundum ósammála um það hvað einn eða annan lit ætti að kalla. Til dæmis eru ljósir hestar oft sagðir vera gráir á íslensku, en hvítir á frönsku.” Og hún spyr:  

„Hvernig þróast litarorðaforði? Eru algildar reglur um það? Hvernig flokkast litarorð? Eru öll tungumál með orð yfir sömu litina? Hvaða áhrif hefur móðurmál manns á orðaval þegar kemur að því að lýsa lit? Hvað eru grundvallarlitarorð og hvers vegna eru ekki öll litarorð grundvallarlitarorð? Hvað hefur íslenska mörg litarorð? Hvaðan koma þau? Hversu mörg þeirra eru gamall arfur og hversu mörg eru af erlendum uppruna? Hvernig er íslenska frábrugðin móðurmáli mínu, Québec-frönsku?”

 

Fróðlegt er að lesa ritgerð Étienne Poisson um litarorð í íslensku.

 


"Óttaðist að svartir væru að taka yfir heiminn."

Orðasambandið að taka yfir er mikið notað. Í mbl.is síðst liðinn sunnudag gat að lesa eftirfarandi: „Við vorum að teikna letur fyrir verkefni sem við vorum að gera og á endanum vorum við komnir með svo mörg letur að við ákváðum að stofna leturútgáfu og auka úrvalið. Það hefur síðan tekið yfir hægt og rólega, þrátt fyrir að hafa bara átt að vera hliðarverkefni í byrjun.“ Á visir.is í síðustu viku stóð þetta: „Dylann Roof, sem sakaður er um að hafa skotið níu manns til bana í Bandaríkjunum, óttaðist að svartir væru að taka yfir heiminn.” Fyrir nokkru var þetta ritað stórum stöfum á nutminn.is: „Rúmlega 200 manns segjast ætla að hringja inn á Útvarp Sögu á föstudaginn og taka þannig yfir símatíma stöðvarinnar.”

Orðasambandið taka yfir er ekki gamalt í íslensku, finnst t.a.m. ekki í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands, og er notað í mismunandi merkingum. Orðasambandið er komið úr ensku: take over : taka við stjórn, taka við (nýju starfi), leggja undir sig (markað), tileikna sér (venjur), fara með á annan stað (fólk eða fénað). Orðasambandið hefur rutt út gömlum og góðum íslenskum orðasamböndum sem eiga betur við og segja skýrar við hvað átt er, s.s. taka við, taka að sér, taka í sínar hendur, ná yfirráðum.

Þegar ofvöxtur hleypur í notkun orða og orðasambanda verður merking þeirra oft óskýr og jafnvel merkingarlítil. Leturteiknarinn hefði t.a.m. getað sagt að leturútgáfan væri nú orðið meginverkefni þeirra enda þótt það hefði í upphafi átt að vera hliðarverkefni þeirra eða aukageta. Ógæfumaðurinn Dylann Roof óttaðist að svartir væru að ná yfirráðum í heiminum og fólkið sem ætlaði að hringja í Útvarp Sögu vildi væntanlega halda símatíma stöðvarinnar fyrir sig þannig að aðrir kæmust ekki að.

Enn og aftur skal minnt á að rangt er að segja: að fara *eitthvert. Rétt er að segja að fara eitthvað. Óákveðna fornafnið eitthvert er hliðstætt, eins og kallað er, þ.e.a.s. stendur með öðru fallorði eins og t.d.: Eitthvert barnanna færði mér þetta. Upprunalegra og réttara er því að segja: fara eitthvað langt út í heim eða: hún fór eitthvað, ég veit ekki hvert. Eflaust verður erfitt að vinna bug á ofnotkun orðtaksins taka yfir svo og að fá alla til þess að segja: Ég ætla að fara eitthvað langt út í heim. Að lokum legg ég til að allir hætti að nota dönsku sögnina kíkja og segi t.a.m.: líta í blöðin, horfa til himins, koma í heimsókn, skoða mynd.


"Fjölgun aldraðra áhyggjuefni"

Í Fréttablaðinu í dag er fyrirsögn á forsíðu sem hljóðar þannig í drottins nafni: Fjölgun aldraðra áhyggjuefni. Í fréttinni er að vísu talað um að fjölgun aldraðra í Garðabæ sé áhyggjuefni, en þessi orð vöktu einkennilegar kenndir hjá mér, öldruðum manninum.

Egill Thorarensen, kaupfélagsstjóri á Selfossi, sagði lengi að það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem yrðu sextug. Svo varð hann sextugur sjálfur hinn 7. janúar 1957 og hélt hann upp á það með glæsibrag, eins og hans var von og vísa. Daginn eftir sagði hann við flokksbróður sinn og vin að það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem yrðu sjötug. Egill Thorarensen lifði það ekki að verða sjötugur en dó í janúar 1961, aðeins sextíu og fjögurra ára gamall. Annars hefði hann sagt sjötugur: „Það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem verða sjötug.”

Hins vegar sagði Oscar Wilde á sínum tíma: ”Nú á dögum getur maður lifað allt af nema dauðann.” Þannig er það enn og dauðinn er í raun hluti af lífinu og ef við viljum ekki drepa alla kalla og kellingar - eða láta gamalt fólk ganga fyrir ætternisstapa, eins og gert var í miðölum, verðum við að búa sæmilega að öldruðu fólki sem skilað hefur löngu dagsverki og gert Íslands að því góða landi sem það er - burtséð frá Alþingi.

 

 


Svartur og ljótur og líkur föður sínum

Hálft fjórða ár hef ég skrifað þætti um íslenskt mál, málfræði, málsögu, mannanöfn, örnefni - og menningarsögu í blað okkar Akureyringa, Vikudag. Til gamans birti ég hér 182. þátt á þessum drottins degi 11. júní 2015 -    en þversumman af 182 er 11.

Í upphafi Egils sögu segir frá því, að Salbjörg Káradóttir frá bænum Berðlu á eynni Bremanger, miðja vegu milli Björgvinjar og Álasunds, og Úlfur, sonur Bjálfa og Hallberu, systur Hallbjarnar hálftrölls, ættaður norðan af  Hálogalandi, hafi átt tvo syni. Hét hinn eldri Þórólfur en hinn yngri Grímur. En er þeir uxu upp voru þeir báðir miklir menn og sterkir, svo sem faðir þeirra. Þórólfur var manna vænstur og gjörvilegastur og líkur móðurfrændum sínum og vinsæll af öllum mönnum. „Grímur var svartur maður og ljótur, líkur föður sínum, bæði yfirlits og að skaplyndi,” eins og segir í sögunnu.

Nafngiftir voru á þessum tíma með öðrum hætti en nú, enda aðstæður og viðhorf ólík. Sum nöfn frá landnámsöld hafa hins vegar haldist alla tíð. Mannsnafnið Úlfur er eitt af mörgum dýranöfnum sem mönnum voru gefin, ef til vill til þess að þeir öðluðust styrk úlfsins. Nafnið hefur tíðkast á Íslandi frá upphafi, þótt lengi væri það sjaldgæft. Árið 1910 hétu aðeins tveir þessu nafni. Nú bera 149 karlmenn nafnið sem fyrsta eiginnafn.

Nafnið Bjálfi hefur alla tíð verið sjaldgæft. Eru raunar engin dæmi um það á Íslandi. Orðið bjálfi merkir „skinnfeldur” eins og orðið héðinn, sem þekkt er sem mannsnafn Íslandi allar götur. Sennilegt er að bæði nöfnin hafi upphaflega verið notuð um þá sem gengu í skinnfeldum - væntanlega bjarnarfeldum.

Kvenmannsnafnið Hallbera merkir „steinbirna” - hugsanlega birna sem býr undir steini. Nafnið kemur fyrir í Landnámu og Sturlungu og hefur tíðkast á Íslandi alla tíð. Í manntalinu 1702 báru 132 konur þetta nafn. Nú bera aðeins 16 konur nafnið sem fyrsta eiginnafn. Hallbjörn er af sama toga og kvenmannsnafnið Hallbera og hefur tíðkast á Íslandi frá upphafi, sjaldgæft í fyrstu, en nú bera 25 nafnið sem fyrsta eiginnafn.

Hallbjörn, ömmubróðir Þórólfs og Gríms, bar viðurnefnið hálftröll. Orðið tröll gat á þessum tíma merkt Finni eða Sami, þ.e.a.s. maður af samísku bergi brotinn. Orðið hálftröll merkir því „hálfur af kyni Sama eða Finna”. Samar, sem á þessum tíma voru nefndir Finnar í norrænum ritum, töluðu - og tala samísku, úralskt mál sem á rætur að rekja til Úralfjalla eða jafnvel enn legra að. Samar voru taldir göldróttir og sagðir búa yfir töfrum, sbr. íslenska orðið trölldómur og norska orðið trolldom sem merkja „galdrar”. Auk þess klæddust Samar bjarnarfeldum, sem vopn bitu ekki á, og var það talið yfirnáttúrulegt. Samar voru síðar nefndir lappar, en norska orðið lapp merkir m.a. „skinndrusla” og notað um þá sem klæddir voru í leppa úr skinni, sbr. leppalúði. Orðið lappi er raunar af sama toga og orðið skrælingi, sem leitt er af orðinu skrá „skinn”, notað um þann sem klæddur er skinnklæðum.

En mannsnafnið Grímur merkir „dökkur” eða „svartur”. Grímur hefur því borið nafn með réttu: „svartur maður og ljótur, líkur föður sínum”. Í Landnámu er getið tvíburnanna Geirmundar og Hámundar, sona Hjörs konungs Hálfssonar, sem báru viðurnefnið heljarskinn. Bendir viðurnefnið til þess að þeir hafi verið dökkir - borið hörundslit Heljar, en móðir þeirra bræðra hét Ljúfvina, dóttir Bjarmakonungs, og var því af samísku bergi brotin. Bræðurnir Geirmundur og Hámundur voru því „hálfir af kyni Sama” - hálftröll, eins og Hallbjörn, ömmubróðir Þórólfs og Gríms, og nóg um það að sinni.


Íslenskir stjórnmálamenn og hugræn atferlismeðferð

Það er sorgleg reynsla fyrir mig, gamlan organista að norðan, að hlusta á EuroVision lögin, sem í mínum eyrum eru öll eins og minna að því leyti á orðræður íslenskra alþingismanna sem allir syngja sama lagið, að vísu í dúr þegar þeir eru í stjórn, en í moll þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, enda sagði gamall sjómaður að austan, að sami rassinn væri undir öllum íslenskum stjórnmálamönnum, þeir væru eins og slitin hljómplata, spiluðu A hliðina í stjórnarandstöðu og B hliðina í stjórn.

En að þessum dæmisögum slepptu, vekur það mér ekki síður undrun heldur ugg og kvíða, hvernig stjórnmál og stjórnmálaumræða er orðin Íslandi þar sem aldrei ætlar að vora. Ekki svo að skilja að úr háum söðli sé að detta, því að aumt var þetta - en aumara er það orðið. Margir hugsandi menn - karlar og konur - hafa spurt sig hvað veldur þessari heimsku og skammsýni, en enginn hefur fundið viðhlítandi svar. Einn talar um fámennið, aðrir um að þjóðin sé orðin svo rík á fáum árum, búi yfir svo miklum auæfum að hún hafi misst sjónar á því sem máli skiptir, og enn aðrir fara aftur á landnámsöld og víkingatímann, eins og aumingja gamli forsetinn gerði fyrir hrunið, og talar um víkingsinseðlið og gáfur fólksins sem ekki vildi una harðræði Harald konungs hárfagra og flutti með sér bókmenntarf sem engin þjóð önnur eigi.

Þetta er allt hugsanlegt - en ólíklegt. Hins vegar er í sálarfræði talað um afneitun þeirra sem gera sér ekki grein fyrir því, hvernig þeim líður, hvað skiptir máli í lífinu og yfirfæra neikvæð einkenni sín og afstöðu yfir á aðra og eiga erfitt með að viðurkenna mistök sín og finnst þeir vera betri en aðrir og hafa enga samúð og tilfinningar fyrir öðru fólki.

Í meðferðarsálarfræði - hugrænni atferlismeðferð - er reynt að fá þessa einstaklinga í afneitun til að verða hluti af heild, samfélagi, og þróa með sér virðingu, skilning, heiðarleika, traust og jafnvel kærleika til annarra. Ef til vill er eingin önnur leið í íslenskum stjórnmálum en senda allt heila liðið á Alþingi í hugræna atferlismeðferð.


Íslenska vorið og stjórnmál á Íslandi

                                                           

Emms_img2005867401_2ngar áhyggjur hef ég af íslenska   vorinu - það kemur fyrr en varir. Hins vegar hef ég áhyggjur af stjórnmálum á Íslandi. Þar ætlar að vora óvanalega seint.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband