9.5.2015 | 10:42
KAUPMANNAHAFNARBÓKIN - Borgin við Sundið
KAUPMANNAHAFNARBÓKIN Borgin við Sundið, sem út kom fyrir hálfum öðrum áratug og er löngu uppseld, kemur út í haust endurskoðuð. Einn kafli bókarinnar er KAUPMANNAHAFNARORÐABÓKIN.
Þar er sagt frá persónum, sem hafa sett svip sinn á borgina, og kennileitum, strætum, torgum og sögufrægum byggingum fyrr og nú. Ein af sögufrægum byggingum sem frá er sagt í bókinni er Bláturn, Blåtårn, sem var hluti af gömlu konungshöllinni á Hallarhólma þar sem áður var borg Absalons biskups og stóð Bláturn þar sem nú er líkneskið af Friðriki VII [1808-1863] framan við Kristjánsborgarhöll. Í turninum var fangelsi sem þeir menn gistu sem brotið höfðu gegn konungi. Turnsins er fyrst getið árið 1494 er Hans konungur I [1455-1513] lét varpa rentuskrifara sínum í Bláturn. Síðan áttu margir kunnir Danir eftir að gista Bláturn allt til þess hann var rifinn 1731.
Tignasti fangi sem gisti Bláturn var Leonore Christine [1621-1698], eftirlætisdóttir Kristjáns konungs IV [1577-1648] sem sat í Bláturni frá því í ágúst 1663 þar til í maí 1685, tæp 22 ár, vegna landráða eiginmanns síns Corfitz Ulfeldt [1606-1664], eins sérkennilegasta manns í sögu Danmerkur, sem gengið hafði í lið með erkifjendum Dana - Svíum. Sat hún í klefa á fjórðu hæð og var hann sex sinnum sjö skref - um 30 m2 að flatarmáli. Þar skrifaði Leonore Christine æviminningar sínar Jammersminde, sem talið er eitt merkasta ritverk á danska tungu á 17du öld. Verkið var þó ekki gefið út í Danmörku fyrr en 1869 og kom út í íslenskri þýðingu Björns Th. Björnssonar árið 1986 undir heitinu Harmaminning.
Vitað er um nokkra Íslendinga sem gistu Bláturn. Jón Ólafsson Indíafari [1593-1679] gisti turninn í tvígang en fékk ekki bústað á við þann sem Leonore Christine hafði. Lýsir hann seinni komu sinni þannig í ævisögu sinni:
Turnvaktarinn Níels með stórri nauðgan og grátandi tárum lét mig ofan síga í Bláturn í mjóum línustreng. Var svo til háttað þar niðri að þar var eitt fjalagólf eður sem einn mikill pallur, en umkring fordjúp ræsi, sem ofan liggja í vatnsgröf þá sem slotið umhverfis liggur. En þessi Bláturn er skaptur sem egg innan svo öllum mönnum þaðan er ómögulegt að komast, en þó þrír menn hafi þaðan sloppið, hvað skeð hafði fyrir djöfulsins meðöl.
Annar Íslendingur gisti Bláturn einn vetur og sat þá uppi í turninum. Var það Guðmundur Andrésson [1615-1654], ættaður frá Bjargi í Miðfirði. Guðmundur hafði verið við nám í Hólaskóla en vikið úr skóla vegna kveðskapar síns. Hann varð þó djákni á Reynistað en misst hempuna vegna barneignarbrots. Samdi hann rit á latínu gegn Stóradómi, Discursus polemicus. Þar hélt hann því fram að fleirkvæni væri hvergi bannað í Biblíunni og væri guðs orð æðra lögum Danakonungs. Harkaleg ákvæði Stóridóms brytu því gegn Biblíunni. Sjálfur sagðist hann engan áhuga hafa á fleirkvæni. Hann hefði nóg með að gagnast einni konu. Henrik Bjælke, höfuðsmaður konungs, lét handtaka Guðmund á Kaldadal 1649 og flutti hann til Kaupmannahafnar. Var Guðmundur lokaður inni í Bláturni en vann sér það til frægðar um veturinn að hrapa niður úr turninum þegar hann var að skyggnast út um vindaugað eftir gangi stjarna og himintungla. Komst hann inn í konungshöllina, sem var áföst turninum, og heilsaði upp á kóngafólkið, sem brá í brún. Var Guðmundi komið aftur fyrir á sínum stað. Um vorið var Guðmundur Andrésson sýknaður af öllum ákærum en var bannað að hverfa aftur til Íslands. Innritaðist hann um haustið í Kaupmannahafnarháskóla og lagði stund á fornfræði. Þýddi hann Völuspá og Hávamál á latínu fyrir kennara sinn Ole Worm [1588-1654] og samdi íslensk-latneska orðabók, Lexicon Islandicum, sem út kom að honum látnum 1683 og aftur árið 1990. Guðmundur lést úr pestinni árið 1654.
Af gömlum lýsingum, málverkum og teikningum er nokkurn veginn vitað hvernig Bláturn leit út sem hluti af gömlu konungshöllinni á Hallarhólmanum og gnæfði yfir inngangi hallarinnar. Um 1600 var turninn endurgerður og sett á hann sveigþak með turnspíru og bogagangi, karnap. Gamla konungshöllin og Bláturn voru rifin 1731 til að rýma fyrir annarri höll, Kristjánsborgarhöll hinni fyrstu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2015 | 20:36
Misskipting launa - auðvald heimsins
Tekjuskipting á Íslandi hefur breyst til aukinnar misskiptingar undanfarin ár. Samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofu Ísland hefur hlutfall launa annars vegar og fjármagnstekna hins vegar breyst verulega. Hlutfall launa árin fyrir 2006 var um 63% en er nú um 60%. Þetta þýðir, að laun eru nú þrjú til fjórum prósentum lægri en þau voru fyrir 10 árum. Með öðrum orðum eru 50 til 70 milljarðar króna minna til skiptanna til þeirra sem byggja framfæri sitt á launatekjum - en verið hefði að óbreyttu hlutfalli.
Fjármagnstekjur, sem orðnar eru stærri hluti tekna í þjóðfélaginu, renna til stöðugt minni hluta þjóðarinnar, auk þess sem misskipting launa hefur aukist. Að auki hafa stjórnvöld stóraukið áhrif þessarar launaþróunar með stefnu sinni í skattamálum.
Breytingar á lögum um skatta undanfarinna ára hafa - allar - verið til hagsbóta hóps, sem - fyrir einhverjar sakir hefur sífellt öðlast stærri hluta þjóðartekna. Nema þessar skattalækkanir tugum milljarða króna. Þá eru veiðigjöld 20 til 30 milljörðum króna lægri en þau hefðu verið að óbreyttum lögum - þessarar ríkisstjórnar - og afnám auðlegðarskatts lækkaði skattgreiðslur forréttandahópsins um 10 til 15 milljarða króna, auk lækkunar tekjuskatts á sjálfstætt starfandi aðila. Öllu þessu til viðbótar hafa skattar á orkusölu til stóriðju verið felldir niður og stjórnvöld hafa horft aðgerðarlaus á að hagnaður af raforkuvinnslu er fluttur úr landi. Þetta er óskiljanlegt venjulegu fólki eins og mér - sveitadreng austan af landi.
Ástæður þessara óskapa eru margar, bæði hagfræðilegar, stjórnmálalegar - og hugmyndafræðilegar, en hugmyndir um lífið, tilveruna og réttlæti - vega án nokkurs vafa þyngst. Í fyrsta lagi má nefna, að íslensk stjórnvöld vinna ekki í þágu almennings, heldur í þágu þeirra sem meira mega sín - hinna ríku og þeirra sem hafa völd. Í öðru lagi hefur hið alþjóðlega auðvald um árabil gert kröfu um 15 til 25% arð af fjármagni sínu, sem ógerningur er að ná - nema því aðeins að skerða hlut almennings - launþega, enda hefur auðvaldið haslað sér völl meðal fátækra þjóða heims sem berjast fyrir lífi sínu og hafa framleitt þar vöru sína og náð á þann hátt auknum arði af fjármagni. Á þetta að nokkru við um álframleiðslu á Íslandi.
Í þriðja lagi eru málsvarar launþegasamtaka á Íslandi veikir og sjálfum sér sundurþykkir. Ráðið gegn þessari sundurþykkju launþegasamtaka er hugsanlega að launþegahópar semji hver á sínum vinnustað, eins og nú hillir undir.
Í fjórða lagi eru stjórnmálaflokkar á Íslandi, sem áður börðust fyrir samvinnu og jafnrétti, annaðhvort gegnir á máli hjá auðvaldinu eða forystulausir, sundraðir og veikir. Í fimmta lagi eru sjálfstæðir, hlutlægir fjölmiðlar, sem gætu haft bolmagn til þess að greina á hlutlægan hátt stöðu mála fáir og fátækir - auk þess sem Fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem lengi hefur verið öflugasta fréttastofnun landsins, í spennutreyju auðvaldsins.
Er þá eina leiðin virkilega bylting öreiganna á Íslandi, hugmynd sem er hundrað ára gömlu, en við Íslendingar erum að vísu hundrað árum á eftir nágrannaþjóðunum í umræðum um lýðræði og réttlæti.
Að kvöldi 1. maí 2015
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2015 | 09:41
Auðlærð er ill enska.
Áhrif erlendra tungumála á íslensku hafa verið mikil frá upphafi, að vísu mismikil eftir tímabilum. Með auknum kristnum áhrifum á 10du öld bast fjöldi nýrra orða í málið. Mörg komu úr fornensku, s.s. bjalla, guðspjall, hringja, kirkja, sál, sálmur - og orðið sunnudagur. Önnur orð bárust úr lágþýsku, s.s. altari, djöfull, kór, krans, paradís, prestur, synd, trú og vers, þótt upphafs orðanna sé að leita í latínu, heimsmáli þess tíma. Beint úr latínu munu hafa komið orð eins og bréf (breve scriptum: stutt skrif), klausa (clausula), persóna (persona) og punktur (punktum). Öll þessi orð hafa unnið sér þegnrétt í málinu.
Á danska tímanum - frá siðaskiptum til 1918 - voru áhrif dönsku mikil, enda svo komið um miðja 19du öld, að umræður í bæjarstjórn Reykjavíkur fóru fram á dönsku og í barnaskóla þeim, sem starfræktur var í Reykjavík 1830 til 1848, var að miklu leyti kennt á dönsku. Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti sá sig því tilneyddan til þess árið 1848 að láta festa upp svohljóðandi auglýsingu: Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi." Hann mælti einnig fyrir um, að næturvörðurinn skyldi hrópa á íslenskri tungu við hvert hús. Því var sagt: Auðlærð er ill danska. Á danska tímanum bárust í málið orð eins og altan, fortó, kamína, kakkalofn og maskína - sem horfin eru úr daglegu máli - og orðasambönd eins og reikna með, til að byrja með, koma inn á, koma til með að gera, vera í farvatninu - að ógleymdri sögninni kíkja, sem er að drekkja íslenskum sögnum um sömu athöfn.
Síðustu áratugi hefur íslenska einkum orðið fyrir áhrifum frá ensku. Þykir fínt að sletta ensku á svipaðan hátt og fólki á 19du öld þótti fínt að sletta dönsku. Nýlegt dæmi um ensk áhrif á íslensku eru sagnasamböndin stíga fram og stíga til hliðar, en þetta eru þýðingarlán úr ensku: to step forward og to step aside, og margir tala um consept þegar við sveitamenn að norðan látum okkur nægja að nota orðið hugmynd.
Á dögunum urðu umræður um nafngiftir á veitingastöðum á Íslandi. Ýmsir málverndarmenn báðu guð sér til hjálpar vegna þess að notuð væru erlend nöfn á veitingastaði. Alllengi hefur tíðkast að nefna hótel og veitingastaði á Íslandi erlendum nöfnum, s.s. Apotek rastaurant, Café Paris, Castello Pizzeria, Center Hotels, Domino's Pizza, Grand Hotel Reykjvík, Hotel Reykjavkí Centrum, Hilton Reykjavík Nordica, Icelandair Hotels, Kentucy Fried Chicken, Nauthóll bistro, Nings, Radison BLU, Saffran og The Capital Inn.
Þótt nokkrum fyrirtækjum í verslun, iðnaði og ferðaþjónustu séu gefin erlend nöfn, er það eitt og sér engin ógn við íslenska tungu. Hættan liggur annars staðar. Þegar fólk veit ekki lengur hvenær það slettir og vill frekar nota erlend orð en íslensk eða þekkir ekki íslensk orð um hluti og hugtök ellegar notar orðatiltæki ranglega, er hættan orðin meiri. Hins vegar talar flest fólk gott mál, skólar vinna gott verk og skáld og rithöfundar efla málvitund fólks, auk þess sem stjórnvöld skulu lögum samkvæmt tryggja að unnt verði að nota íslenska tungu á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. En Auðlærð er ill enska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2015 | 21:19
Gott veður og vont veður
Umræður um vorkomuna á Íslandi eftir harðan vetur endast okkur um sinn. Eðlilegt er að margur maðurinn sé orðinn leiður á veðurfarinu eftir versta vetur í áratug. En öll él birtir upp um síðir og íslenska vorið kemur - vorið sem Snorri Hjartarson lýsir í einu af mörgum hrífandi ljóðum sínum:
Þrátt fyrir nepju
og nýfallin snjó í hlíðum
kvakar lóan dátt
í dapurlegu holtinu.
Enn skal fagna
ungu vori og nýjum söng
í öllum þessum kulda,
fyrirheitinu
hvernig sem það rætist.
Fyrir aldarþriðjungi hitti ég sendiherra Norðmanna á Íslandi í höfuðborg hins bjarta norðurs - Akureyri - í logni, sólskini og 14 stiga hita. Þá sagði sendiherrann: Når det blir fjorten grader på Island, så blir det varmt.
Nokkrum árum síðar hitti ég konu frá sólskinslandinu Slóveníu, tengdamóður Vilhjálms Inga íþróttakennara við Menntaskólann á Akureyri. Hún hafði komið til landsins kuldasumarið 1979 að heimsækja dóttur sína og tengdason og fór eftir tvo daga og sagðist aldrei koma aftur til þessa voðalega lands. Þegar barnabörnin fóru að fæðast kom hún norður í blíðuveðri og sagði: Þegar veður er gott á Íslandi, þá verður það svo gott.
Hvergi hefur okkur Grétu orðið kaldara á ævinni en í fjögurra stiga hita í Kaupmannahöfn í janúar 1979, og vorum við þó klædd í síðar mokkakápur frá Iðunni með gæruskinnshúfur á höfði. Í febrúar 1988 vorum við svo í Helsinki í sömu mokkakápunum frá Iðunni með gæruskinnshúfur á höfði. Þá var þar 40 stiga frost en stilla. Gengum við um miðborgina okkur til ánægju í frostinu og var hlýtt.
Sumarið 1993 dvöldumst við í Kóngsins Kaupmannahöfn og bjuggum á Kagså Kollegiet i Herlev. Fyrstu vikurnar var dumbungsveður, eins og stundum á Sjálandi á sumrin. Danmarks Meteorologiske Institut sagði þá dag eftir dag: Det bliver fortsat køligt, atten, nitten grader.
Jón Árni Jónsson, latínukennari við Menntaskólann á Akureyri, sagði frá því að versta veður sem hann hefði lent í um ævina hafi verið þegar hann var í Pompei: Fjörutíu stiga hiti, glampandi sólskin og stillilogn.
Hvað veður er gott og hvaða veður er vont?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2015 | 12:52
Sumardagurinn fyrsti er ekki fyrsti sumardagur á Íslandi hinu kalda
Fréttastofa RÚV klifar á því dag eftir dag að þótt komið sé sumar sé enn vetrarveður á Íslandi. Mikill misskilningu liggur að baki þessum orðum. Að vísu hefur almanaksárinu frá fornu fari verið skipt upp í tvö misseri, vetur og sumar, og fyrsti dagur sumarmisseris lengi af talinn fyrsti fimmtudagur eftir 8. apríl, en með nýja stíl árið 1700 var fyrsti dagur sumarmisseris talinn fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl.
Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur fyrsti dagur sumarmisseris hins forna misseristals lengi verið talinn 14. apríl. Hins vegar skilgreina frændur okkar fyrsta sumardag þann dag þegar hitinn hefur náð 10°C fimm daga í röð.
Það ætti því engan að undra að enn sé vetrarveður á Íslandi þótt að fornu misseristali sé komið sumar. En sumarið kemur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2015 | 11:56
Listin að deyja
Í gær sótti ég rástefnuna LISTIN AÐ DEYJA í Háskóla Íslands. Dauðinn hefur lengi verið tabú á Íslandi og mörg virðumst við halda við séu ódauðleg - það eru bara aðrir sem deyja.
Ráðstefna var fróðleg - og tímabær. Aðalerindi flutti breskur sálfræðiprófessor, Peter Fenwick, sem kannað hefur viðbrögð fólks sem liggur fyrir dauðanum. Nefndi hann erindið The importance of end of life experience - for living and dying
Tvennt er efst í huga mér eftir ráðstefnuna: að dauðinn er hluti af lífinu og að samtal milli fólks leysir margan vanda og léttir marga þraut.
Að ráðstefnunni stóðu Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Háskóli Íslands, Hollvinasamtök líknarþjónustu, Krabbameinsfélagið, Landspítali, Lífið - samtök um líknarmeðferð, Læknafélag Íslands, Ný dögun - samtök um sorg og sorgarviðburði, og Þjóðkirkjan. Um 400 mann sóttu ráðstefnuna sem vonandi er upphaf að öðrum og meira.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2015 | 11:59
Einelti og áhrif uppeldis
Einelti - sem áður var kallað stríðni - hefur lengi viðgengist í íslenskum skólum og raunar einnig á íslenskum vinnustöðum. Ástæður eru margar og ferlið flókið.
Víða í skólum er unnið markvisst gegn einelti. En einelti sér hins vegar oftast rætur á heimilunum - því viðmóti sem þar ríkir. Þar sem ekki ríkir virðing, tillitssemi og traust er hætta á einelti og hafa ber í huga að áhrif bernskunnar endast margar kynslóðir.
Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, vinnur að doktorsritgerð um einelti í skólum, en sérsvið hennar er tómstundir og félagsmál, frítími, börn - og einelti. Í síðustu viku var viðtal við Vöndu í Ríkisútvarpinu þar sem hún sagði frá verkefni sínu. Telur hún ekki hafi verið nóg gert í skólumi varðandi þetta vandamál. Gera þurfi betur og þá m.a. að ná til barna miklu fyrr og til allra barna og til allra foreldra, ekki aðeins foreldra barna sem lögð eru í einelti og foreldra barna sem leggja önnur börn í einelti. Fróðlegt verður að sjá niðurstöður rannsókna Vöndu Sigurgeirsdóttur á einelti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.4.2015 | 00:07
Beint lýðræði - aukið traust
Skömmu fyrir páska horfði ég á beina útsendingu frá Alþingi. Það var sorgleg sjón og raunalegt á að heyra. Ráðherrann, sem sat fyrir svörum, grúfði sig yfir smátölvu, leit sjaldan upp en kallaði fram í fyrir ræðumönnum sem þuldu yfir honum skammir og kröfðu hann sagna, en fengu ekkert svar og lítið var um málefnalegar umræður.
Clement Attlee, forsætisráðherra Breta, sagði að lýðræði væri stjórnarform sem reist væri á umræðu. Nehru, forsætisráðherra Indlands, sagði að lýðræði væri leið að marki, ekki markmiðið sjálft og Þorbjörn Broddason prófessor lét svo um mælt í umræðuþætti í RÚV 1997, að lýðræði án upplýsingar væri verra en ekkert lýðræði.
Á Íslandi er lýðræðisleg - málefnaleg umræða af skornum skammti. Ráðandi stjórnmálamenn gera sér litla grein fyrir, að lýðræði er leið að marki og að upplýsingar eru grundvallaratriði. Forsætisráðherra leitast við að sundra þjóðinni með aðgerðum sínum og ummælum og fjármálaráðherra svarar aðfinnslum stjórnarandstöðunnar með því að benda á, að núverandi stjórnarflokkar hafi meirihluta á Alþingi - og ráði því málum.
Þjóðfundur var haldinn í Reykjavík í nóvember 2010 um nýja stjórnarskrá. Fundinn sátu nær þúsund manns á öllum aldri og kynjaskipting var nánast jöfn. Fundurinn komst að niðurstöðum, sem vonir stóðu til að nýtast mundu við vinnu að nýrri stjórnarskrá, sem enn hefur ekki orðið - en verða mun eftir næstu alþingiskosningar.
Eitt grundvallaratriði í niðurstöðum fundarins var, að almenningur fengi aukna aðkomu að þjóðmálum í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem rafræn tækni yrði notuð, sem á eftir að knýja fram lýðræðislegar umbætur og stuðla að beinu lýðræði, leysa af hólmi úrelt viðhorf og úrelt vinnubrögð og auka gagnsæi, lýðræði - og traust.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2015 | 00:31
Traust
Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að benda á allt það sem aflaga fer, enda verða margir til þess. Hitt gleymist að benda á það sem er vel gert á þessu voðalega landi - Íslandi.
En hvort heldur við klifum á því sem aflaga fer eða reynum að benda á það sem vel er gert, eigum við að reyna að skapa traust: meðal vina, á vinnustað, innan fjölskyldunnar - og í flokknum okkar, hver sem hann annars kann að vera.
13.3.2015 | 19:05
Staða íslenskrar tungu
Íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Þessi staðhæfing er reist á þeirri staðreynt, að undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni áður.
Bókmenntir af ýmsu tagi, skáldsagnagerð, ljóðagerð og leikritun, kvikmyndagerð auk marksvíslegra útvarps- og sjónvarpsþátta að ekki sé talað um ritun fræðirita af ýmsu tagi svo og önnur orðsins list, hefur aldrei verið öflugri.
Fleiri njóta nú kennslu í íslensku máli og málnotkun á ýmsum stigum en nokkru sinni áður og nýyrðasmíð er öflug. Auglýsingagerð þar sem orðvísi og nýgervingar hafa auðgað tunguna og síðustu áratugi hefur orðið til ný íslensk fyndni og orðaleikir, sem áður voru óþekktir í málinu.
Þótt dagblöð - málgögn stjórnmálaflokka - séu færri en áður, eru gefin út vikublöð, tímarit og sérfræðirit af ýmsu tagi - að ekki sé talað um blessað Netið þar sem þúsundir láta skoðanir sínar í ljós, að vísu mjög sundurleitar skoðanir og á misjöfnu máli, en að mestu á íslensku.
Íslensk tunga hefur því verið sveigð að nýjum þáttum í menningu og listum og nýjum viðfangsefnum sem voru óþekkt fyrir einum mannsaldri.
Flest virðist því benda til þess að íslensk tunga, þetta forna beygingarmál, gegni enn hlutverki sínu sem félagslegt tjáningartæki í fjölþættu samfélagi nútímans. Fólk upp og ofan hefur verið einhuga um að standa vörð um íslenskt mál og almenningur og stjórnvöld hafa verið samtaka um að efla íslenska tungu sem undirstöðu þjóðlegs sjálfstæðis.
En íslensk þjóð og íslensk menning standa á tímamótum. Breyttir þjóðfélagshættir, alþjóðahyggja og nýjar hugmyndir um sjálfstæði, fullveldi og þegnrétt svo og bylting í samskiptatækni hafa skapað nýja heimsmynd þar sem ný tjáningarform og ný tjáningartækni hafa komið fram á sjónarsviðið og hafa áhrif mál og málnotkun, ekki síst fámenn tungumál.
Einhæf áhrif frá engilsaxneskum menningarsvæðum, einkum Bandaríkjunum, hafa auk þess sett mark sitt á lífsviðhorf fólks, hugmyndir og málfar. Þá er komin fram enn eitt nýtt tækniundur sem krefst þess að skipanir séu munnlegar og gæti breytt stöðu íslenskrar tungu.
Þegar fólk vill í framtíðinni kveikja á sjónvarpinu sínu eða setja bílinn sinn í gang ellegar senda smáskilaboð í símanum eða smátölvunni talar það við þessi tæki og tól - og eina málið, sem tækin og tólin skilja, er enska. Málrækt fámennrar tungu á hjara veraldar verður erfiðari og meiri og þá vaknar spurningin: Hver verður staða íslenskrar tungu þegar ný máltækni er orðin alls ráðandi? Vandi er um slíkt að spá - en sennilega verður erfitt að uppfylla fyrstu tvær greinar núgildandi laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls:
- íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi og sameiginlegt mál landsmanna
- stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)