Færsluflokkur: Bloggar

Staða og framtíð íslenskrar tungu

Mikið er rætt um stöðu og framtíð íslenskrar tungu, fornlegustu tungu Evrópu sem hefur varðveitt tvennt sem flest önnur germönsk mál hafa tapað: fallakerfi og gagnsæja merkingu orða og orðstofna. Skoðanir eru hins vegar mjög skiptar um stöðu og framtíð íslenskunnar, sem margir telja er á fallanda fæti.

Á ráðstefnu í Hagaskóla í Reykjavík í síðustu viku um skort á íslensku lesefni fyrir ungt fólk var því haldið fram að íslenskan væri í mikilli hættu vegna þess að nemendur á grunnskólaaldri leita frekar að nýju lesefni á ensku en á íslensku og Hildur Knútsdóttir rithöfundur sagði á ráðstefnunni að ekki væri unnt að lifa af því að skrifa barnabækur á Íslandi.

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og alþingismaður sagði í þingræðu á dögunum, að rannsóknir heima og erlendis hefðu leitt í ljós að „yndislestur”, sem hann kallaði svo, gegndi lykilhlutverki í því að efla lesskilning. „Við þurfum vitundarvakningu, við þurfum aukinn sýnileika og framboð bóka í daglegu lífi, við þurfum að gera barnabókahöfundum kleift að sinna skriftum með því að efla sjóði sem þeir geta leitað í. Stjórnvöld verða að líta á það sem forgangsmál að stórefla bókaútgáfu, ekki síst barnabókaútgáfu, þau þurfa að hætta skattlagningu á bækur og þau þurfa að fylla skólabókasöfnin af nýjum og ilmandi bókum,” sagði Guðmundur Andri.

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur, formaður Rithöfunda-sambands Íslands, lét svo um mælt í viðtali í RÚV, að meinið lægi djúpt, unglingar tali saman á ensku, sem ógni hugsun, og að Íslendingar væru ekki stoltir af tungumáli sínu.

Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku við Háskóla Ísland, ræddi um stöðu íslenskunnar í Kastljósi í síðustu viku.  Taldi hann m.a. að vegna vinnuálags hefðu foreldrar lítinn tíma til að sinna börnum sínum og stytting vinnuvikunnar gæti orðið foreldrum til hjálpar við að tala við börn sín eins og fullorðið fólk og samræðan við matarborðið skipti þar miklu máli.

Þá eru tölvur og tölvuleikir oft nefndir sem ógn við íslenska tungu og valdi því að mörg börn og unglingar vilja helst tala saman á ensku. Þá er ógn talin standa af snjalltækjum þar sem samskiptamálið er enska og ekki nóg að gert til þess að mæta þeirri ógn. 

Skiptar skoðanir eru því um stöðu og framtíð íslenskrar tungu. Enginn vafi leikur á að við þurfum að vera á varðbergi.  Hins vegar ber að hafa í huga,  að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi tjáningartæki en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni.  Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og listgreinar sem byggja á tjáningu málsins, svo sem kvikmyndagerð og útvarps- og sjónvarps-þættir, standa með miklum blóma. Fleiri vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarinn aldarfjórðung en nokkru sinni. Auglýsingar eru nú gerðar af meiri hugkvæmni en áður og gamanmál hafa breytt og lyft íslenskri fyndni.  

Hins vegar verða Íslendingar að vera á varðbergi – ekkert gerist af sjálfu sér. Þrennt skiptir mestu máli um varðveislu tungunnar: skáldin, heimilin og skólarnir, en heimilin og skólarnir eru tvær mikilvægustu stofnanir þjóðarinnar, og tvær mikilvægustu stéttir samfélagsins eru  foreldrar og kennarar. Með hjálp foreldra, skólanna – og skáldanna og á grundvelli sterkar þjóðtungu og áhuga almennings á tungunni mun íslenskan halda velli um ófyrirsjáanlega framtíð.


Sýnisbók íslenskra ljóða 1918 til 2018 - dýrmætustu perlur tungumálsins

Þingsályktunartillaga Alþingis

Í október 2016 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um, hvernig minnast skyldi aldarafmælis fullveldis Íslands.  Kosin var nefnd fulltrú allra þingflokka er undirbúa skyldi hátíðahöld árið 2018.  Fullveldisnefndinni var falið að taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni þeirra og framkvæmd og rit um inntak fullveldisréttar, stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis þjóðarinnar, stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna þannig að fornar bókmenntir Íslendinga væru jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem í stafrænu formi, og hvetja skóla að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum 1918.  Að auki fól Alþingi Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun um uppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.

 

Ljóðaarfur Íslendinga

Í haust auglýsti fullveldisnefndin eftir tillögum að vönduðum verkefnum í tilefni afmælis fullveldisins.  Nokkrir ljóðaunnendur sendu nefndinni sundurliðaða áætlun um útgáfu sýnisbókar íslenskra ljóða 1918 til 2018 sem hefðu birst á öld íslensks fullveldis.  Nefnd kennara og fræðafólks skyldi velja ljóðin.

Gert var áð fyrir að í sýnisbókinni yrðu um þrjú hundruð ljóð með einfaldri myndskreytingu, skýringum og örstuttu æviágripi skáldanna.  Bókin yrði gefin út á vegum Menntamálastofnunar og Ríkisútgáfu námsbóka og afhent nemendum í tíunda bekk grunnskóla hinn 1. desember 2018 um leið og kynning á íslenski ljóðagerð færi fram í öllum skólum landsins.  Síðan yrði bókin notuð sem skólaljóð fyrir grunnskóla og framhaldsskóla og seld ljóðaunnendum – og öðru áhugafólki á almennum markaði.  Í greinargerðinni var tekið fram, að með útgáfu bókarinnar væri ætlunin að styrkja íslenska tungu og vekja athygli á hinum einstaka ljóðaarfi Íslendinga á öld fullveldisins, sem aldrei hefði verið meiri.

Haft var samband við Rithöfundasamband Íslands til þess að kanna hvort unnt væri að slaka á kröfu ljóðskálda og annarra réttindahafa um höfundarlaun vegna birtingar ljóðanna.  Auk þess var haft samband við ýmis fyrirtæki og landssamtök til þess að leita eftir fjárstyrk til útgáfunnar sem brugðust vel við.

 

Svar fullveldisnefndar

Í svari fullveldisnefndar í nóvember s.l. segir: „Við val á verkefnum var litið til auglýstra áherslna þar sem segir m.a.: „Verkefni sem síður er litið til: Útgáfuverkefni, s.s. undirbúningur eða útgáfa bóka, starfslaun, útgáfa geisladiska eða rafræn (stafræn) útgáfa eða gerð sjálfstæðs námsefnis. Verkefni sem fela í sér skráningu upplýsinga eða skráningu á menningarminjum. Slíkt fellur utanafmælisársins. Ekki eru veittir beinir stofn- eða rekstrarstyrkir.” Einnig lítur nefndin til gæða verkefna, vandaðra áætlana og landfræðilegrar dreifingar.  Það tilkynnist hér með að ekki er unnt að styðja við tillöguna Sýnisbók íslenskra ljóða 1918 til 2018.”

Þessum dómi verður hópur áhugafólks um íslenskt mál og ljóðlist að hlíta – sætta sig við dóminn – þótt sumt í ummælum nefndarinnar stangist á og á vegum nefndarinn verði unnið að útgáfuverkefnum, tekið saman rit um aðdraganda sambandslaganna, rit um inntak fullveldisréttar og stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagna.

 

Sýnisbók um íslensk ljóð

Í ljósi þess sem fram kemur hér að ofan – er hvatt til umræðu um, hvort ástæða er til að gefa út sýnisbók íslenskra ljóða 1918 til 2018 á grundvelli þess að íslenskt fullveldi byggist á sjálfstæðu, lifandi tungumáli og skilningi á mikilvægi tungumáls, en dýrmætustu perlur íslenskrar tungu eru ljóð.


Opinber tungumál

Mismunandi er hve mörg opinber tungumál eru í hverju sjálfstæðu ríki heims.  Samkvæmt skrá Sameinuðu þjóðanna eru aðildarríki þeirra nú 193 talsins.  Ísland var um tveggja áratuga skeið fámennasta ríki innan vébanda Sameinuðu þjóðanna.  Nú eru 20 ríki fámennari.  Eins og lesendur þekkja, eru íbúar á Íslandi um 340 þúsund en aðeins eitt opinbert tungumál.  Á landinu eru hins vegar töluð um 100 – eitt hundrað – tungumál og á landinu býr samkvæmt skrá Hagstofu Íslands fólk sem fætt er í um 160 þjóðlöndum, flestir í Póllandi eða 13.811.  3.412 eru fæddir í Danmörku, 2001 í Svíþjóð, 1.132 í Noregi og 213 í Finnlandi. 1.751 eru fæddir í Þýskalandi, 1.489 í Bretlandi, 2.187 í Bandaríkjunum, 399 í Rússlandi, 682 á Spáni, 635 í Frakklandi og 342 á Ítalíu, 77 í Eþíópíu, 84 í Gabon og 90 í Kenía – og þannig mætti lengi telja. 

Þetta er mikil breyting á 50 árum og hefur áhrif á málsamfélagið.  Engar kröfur hafa enn verið gerðar um annað – eða önnur opinber tungumál á þessu fámenna landi, enda sennilega tómt mál um að tala af ýmsum ástæðum.  Hins vegar er heimsmálið enska sífellt notað í auknum mæli í samskiptum fólks á Íslandi, s.s. í verslunum, veitingastöðum og á vinnustöðum.

Í Noregi eru íbúar um 5.2 milljónir og eru opinber tungumál tvö, norska og samíska.  Norska skiptist í tvennt: nýnorsku, sem er runnin frá gamla norræna málinu – eins og íslenska, og bókmál, sem er danska með sænskum framburði, eins og gárungarnir segja.  Í Danmörku eru íbúar nær 5.7 milljónir.  Opinbert tungumál er þar aðeins eitt, danska, enda þótt íbúar í landsins tali um 50 mállýskur og yfir 100 tungumál eins og á Íslandi.  Í Svíþjóð eru íbúar um 10 milljónir.  Frá 2009 er sænska eina staðfesta opinbera tungumálið í landinu.  Hins vegar eru samíska, finnsk-úgríska tungumálið meankieli, finnska, rómani og jiddiska, sem er mál Gyðinga frá Mið og Austur Evrópu,  viðurkennd sem mál minnihlutahópa sem búið hafa í landinu um langt skeið.  Að auki eru í Svíþjóð að sjálfsögðu töluð á annað hundrað mál innflytjenda eins og í flestum öðrum Evrópulöndum.

Til gamans má geta þess að í Tógó, sem er eitt minnsta og fámennasta land í Afríku með um 8 milljónir íbúa, eru töluð um 40 tungumál, en franska er þar opinbert tungumál auk tveggja annarra tungumála, evé í suðri og kabiyé.  Í Kína er íbúafjöldi um 1,4 milljarðar.  Þar eru nær 300 tungumál sem töluð eru víðs vegar um þetta víðfeðma land sem er um 9.6 milljarðar ferkílómetra, 9.596.961 km2.  Flestir tala mandarín, sem er af kínversk-tíbetanska málaflokknum, og er það hið opinbera mál í Kína.

Í Belgíu búa um 6.5 milljónir íbúa.  Þar eru töluð þrjú tungumál þeirra sem fæddir eru í landinu: hollenska sem um 60% tala og oft er kölluð flæmska; franska eða vallónska sem um 40% íbúanna talar, og þýska er töluð af um einu prósent íbúa.  Öll þessi þrjú tungumál eru talin opinber tungumál í Belgíu.

Opinber tungumál ríkja heims eru því með ýmsum hætti, eins og sjá má af þessum dæmum, en tungumál heimsins eru talin nær 7000.   Tungumál heims eru því mörg og misjöfn – ólík eins og mannfólkið.


"Það sem dvelur í þögninni" - áhrifamikil bók

Margar merkar bækur komu út á liðnu hausti: skáldsögur, minningarbækur og fræðirit – að ógleymdum ljóðabókum sem skipta tugum, enda hefur íslensk tunga aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú.  Staðhæfingin er reist á þeirri staðreynd að ekki aðeins á liðnu hausti heldur undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni áður. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð, kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta, stendur með miklum blóma. Þá hafa nýmæli komið fram í ljóðagerð, vísnasöng og rappi, svo og  í auglýsinga­gerð í útvarpi og sjóvarpi, þar sem frumleiki, orðaleikir og fyndni, sem áður var óþekkt í málinu, hafa auðgað tunguna.

 

Leitin að klaustrunum

Of langt yrði upp að telja allar þessar merku bækur sem út komu í haust.  Þó verður að nefna þrjár bækur.  Í fyrsta lagi  bók Steinunnar Kristjánsdóttur fornleifafræðings – Leitin að klaustrunum – sem fjallar um klausturhald á Íslandi í fimm aldir og brugðið ljósi á, hversu mikilsverð klaustrin voru íslensku samfélagi miðalda sem fræðslustofnanir og sjúkrahús – að ekki sé talað um sum klaustrin sem voru ritunarstaðir sagna af ýmsu tagi, þar á meðal Íslendingasagna sem eiga sé enga samsvörun í menningarsögu Evrópu á þessum tíma og stuðluðu að því að íslenskt tunga var sðveittist.

 

Saga fjármálamanns

Í öðru lagi skal nefnd bókin CLAESSEN, saga fjármálamanns, sem Guðmundur Magnússon sagnfræðingur hefur ritað, en þar er lýst stórhuga athafnamanni af miklum ættum sem vildi ryðja nútímanum braut á hinu fátæka Íslandi.  Við sögu Eggerts Claessens kemur Einar Benediktsson skáld og er þar brugðið upp ólíkri mynd þeirri sem við höfum áður þekkt af hinu mikla skáldi og athafnamanni, en örlög þeirra Einars og Eggerts voru afar ólík, enda ólíkir menn á ferðinni. 

 

Það sem dvelur í þögninni

Þriðja bókin frá haustinu, sem hefur sérstöðu fyrir margra hluta sakir, er bók Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur sem hún nefnir Það sem dvelur í þögninni. Ásta Kristrún er brautryðjandi í námsráðgjöf á Íslandi og starfaði tæp tuttugu ár við uppbyggingu fagsins og þjónustunnar við Háskóla Íslands og allt frá bernsku hafa listir verið henni hjartfólgnar, bækur, myndlist og tónlist.  Bókin Það sem dvelur í þögninni fjallar um ævi og örlög íslenskra kvenna á 19du og 20ustu öld.  Í upphafi bókar segir, að hvert sem litið sé í sögunni sé sjaldan getið um afrek kvenna og þær sem komist hafi á spjöld sögunnar hafa flestar komist þangað sakir grimmdar, lævísi eða galdra, en margar mikilhæfar konur dvelji í hinum djúpa þagnarhyl aldanna.  Með bókinni vildi Ásta Kristrún einnig svipta hulunni af  þögninni um þrjár formæður sínar, Kristrúnu Jónsdóttur [1806-1881], Ástu Júlíu Thorgrímsen [1842-1893] og Kristrúnu Tómasdóttur [1878-1959] auk þess sem fjallað er Jakobínu Jónsdóttur [1835-1919], eiginkonu Gríms Thomsens [1820-1896].  Kristrún Jónsdóttir var heitbundinn Baldvin Einarssyni [1801-1833] og beið hans í festum sjö ár, en hann gekk að eiga aðra konu í Kaupmannahöfn.  Sjö árum eftir heitrofið gekk Kristrún að eiga séra Hallgrím Jónsson [1811-1880] mikinn lærdómsmann, en Kristrún syrgði hins vegar Baldvin Einarsson  alla ævi.  Fengur er að frásögn Ástu Kristrúnar af Guðnýju Jónsdóttur skáldkonu frá Klömbrum í Aðaldal, en hún var systir  Kristrúnar og lést langt fyrir aldur fram eftir barnamissi og harðræði í hjónabandi.

 

Bókin Það sem dvelur í þögninni er skrifuð meðan barátta kvenna um allan heim gegn ofbeldi karla og kynferðislegri mismunun var að hefjast, og þótt bókin sé ekki skrifuð í tengslum við þá baráttu veitir hún þeirri miklu baráttu meiri dýpt.  Ásta Kristrún segir að frásagnir bókarinnar um þær merku konur sem skópu viðhorf mín og tengingar við fortíðina séu ritaðar í minningu foreldra hennar, Jónínu Vigdísar Schram [1924-2007] og Ragnars Tómasar Árnasonar [1917-1984].  Næmni höfundar og tilfinning fyrir öðru fólki, aðstæðum þess og umhverfi mótast af einlægni og skáldlegum innblæstri af fólki úr lífi hennar svo að á stundum greinir lesandinn ekki milli skáldskapar og raunveruleika sem gerir bókina enn meira hrífandi.  Þá eiga þjóðfélagsmyndir bókarinnar og lýsingar á lífi fólks erindi við alla, karla og konur á nýrri öld nýrra réttinda og jöfnuðar allra þjóða og allra einstaklinga.


Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1928 til 2018

Á næsta ári „er öld liðin frá því íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918”, eins og segir í þingsályktunartillögu Alþingis 13. október 2016. Haldinn verður hátíðarfundur á Þingvöllum 18. júlí 2018, en þann dag árið 1918 var samningnum um fullveldi Íslands lokið. Einnig verður efnt til hátíðahalda 1. desember 2018 í tilefni þessara tímamóta.

Alþingi kaus nefnd með fulltrúum allra þingflokka er undirbúi hátíðahöldin á næsta ári í samræmi við þingsályktunartillöguna, ráði framkvæmdastjóri og starfslið eftir þörfum og eins og fjárveiting leyfir. Nefndinni var falið að láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna og „stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar, stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafna öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi, og hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918.”

Alþingi fól ríkisstjórn að gera í fjármálaáætlun næstu fimm ára ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns og undirbúa tillögu um fimm ára áætlun uppbyggingu innviða máltækni fyrir íslenska tungu og fela Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar og efna til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulags á Stjórnarráðsreit.

Undirbúningsnefndin auglýsti í haust eftir „hugmyndum að vönduðu verkefni á dagskrá afmælisársins” vegna fullveldisins. Hópur áhugamanna um eflingu og varðveislu íslenskrar tungu sendi nefndinni tillögu um að gefin yrði út Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018, sem hefði að geyma ljóð er birst hafa á öld íslensks fullveldis. Skyldi sýnisbókin afhent nemendum í tíunda bekk grunnskóla 1. desember 2018 um leið og kynning á íslenski ljóðagerð færi fram í hverjum skóla landsins. Sýnisbókin yrði síðan gefin út sem skólaljóð fyrir grunnskóla, er Ríkisútgáfa námsbóka gæfi út. Tekið var fram að til verkefnisins væri stofnað „til að styrkja íslenska tungu og vekja athygli á hinum lifandi ljóðarfi Íslendinga á öld fullveldisins, sem aldrei hefur verið meiri.”

Undirbúningsefndin um aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands svaraði tillögu áhugamanna um eflingu og varðveislu íslenskrar tungu fyrir viku og tilkynnti, að ekki væri unnt að styðja við tillöguna um Sýnisbók íslenskrar ljóðlistar 1918 til 2018, enda hefðu 169 tillögur borist og sótt um rúmlega 200 milljónir króna.

Fróðlegt verður að sjá, hvaða tillögur hljóta náð fyrir augum nefndarinnar „er öld liðin frá því íslenskt ríki, sjálfstætt, frjálst og fullvalda, var á ný stofnað með sambandslögunum 1918”, en grundvöllur íslenskrar menningar og forsenda sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar er tungumálið: ástkæra ylhýra málið, eins og Jónas Hallgrímsson segir í ljóði sínu „Ásta”, ljóði sem ort er til skáldgyðjunnar.

 

  • Ástkæra ylhýra málið

    og allri rödd fegra,

    blíð sem að barni kvað móðir

    á brjósti svanhvítu;

    móðurmálið mitt góða,

    hið mjúka og ríka,

    orð áttu enn eins og forðum

    mér yndið að veita.


Óvinur fólksins - frábær sýning þjóðleikhússins

Þjóðleikhúsið sýnir nú leikrit Henriks Ibsens Óvinur fólksins í leikgerð og þýðingu Grétu Kristínar Ómarsdóttur og Unu Þorleifsdóttur, sem er leikstjóri.  Er leikgerðin allverulega stytt en kemur ekki að sök.  Leikmynd og búninga gerði Eva Signý Berger og tónlist og hljóðmynd Gísli Galdur Þorgeirsson og Kristinn Gauti Einarsson.

Leikritið heitir á norsku En folkefiende og er skrifað árið 1882 og var í fyrri þýðingu á íslensku nefnt Þjóðníðingur.  Bandaríski rithöfundurinn Arthur Miller gerði leikgerð af verkinu á sjötta áratug síðustu aldar og kallaði það An Enemy of the People, sem hlaut mikla athygli, enda var þetta á tímum ofsókna í Bandaríkjunum á hendur róttæku fólki, svo kölluðum MacCarthy tímanum. 

Leikritið Óvinur fólksins er eitt frægasta verk Henriks Ibsens.  Verkið fjallar um átök í smábæ í Noregi.  Þar hafa verið stofnuð heilsuböð sem draga að sér fólk víðs vegar að og eru böðin orðin undirstaða atvinnulífs og velmegunar í bænum.  Hins vegar kemur í ljós að vatnið í böðunum er mengað, eitrað, frá verksmiðju sem rekin hefur verið í bænum þrjá mannsaldra.  Bæjarstjórinn, Katrín Stokkmann, sem leikin er af Sólveigu Arnarsdóttur, vill leyna menguninni og reyna að finna leiðir til þess að bjarga böðunum og bæjarsamfélaginu, en bróðir hennar, læknirinn Tómas Stokkmann, sem Björn Hlynur Hallsson leikur, vill upplýsa almenning um málið.  Skiptist fólk í tvær andstæðar fylkingar sem takast á, en margir skipta um skoðanir og sumir oftar en einu sinni.  Einn er sá sem ekki skiptir um skoðun og það er læknirinn og vísindamaðurinn sem vill berjast fyrir lýðræði og sannleika.

Verkið lýsir á áhrifamikinn hátt hverjir hafa vald yfir sannleikanum og hvernig má skrumskæla lýðræðið.  Lokaorð verksins eru orð Tómasar Stokkmanns: „Ég gerði nýja uppgötvun. Þegar maður berst fyrir sannleikanum, þarf maður að standa einn.  Og sterkasti maður heims er sá sem þorir að standa einn.  Ég er sá maður.  Ég er sterkasti maður heims.”  Á norsku hljóða lokaorð Stokkmanns: „Den sterkeste mann i verden, det er han som står mest alene.”

Hljóðmyndin er afar áhrifamikil og leikmyndin frábær, sýnir hinn lokaða heim iðnaðarsamfélagsins með járnmöstrum og byggingum úr stáli.  Verkið kallast á við samtíma okkar þar sem takast á gróðahyggja og mengun annars vegar og hins vegar krafa um valddreifingu, velsæld og mannvirðingu. 

Þessi sýning Þjóðleikhússins á leikritinu Óvinur fólksins er ein áhrifamesta sýning sem undirritaður hefur séð um langan tíma og leiðir í ljós að óvinir fólksins í samtíma okkar eru margir.


Snjalltæki, skólastarf og íslenskt tunga

Undanfarin ár hefur mikið verið rætt og ritað um samskipti Íslendinga við snjalltæki, einkum tæki og tól á borð við eldavélar, ísskápa og ekki síst bíla framtíðarinnar, sem einvörðungu muni skilja ensku í samskiptum við notendur. Telja sumir þessi „enskumælandi” snjalltæki gangi að íslenskri tungu dauðri. Þótt erfitt sé að spá – einkum um framtíðina – er það spá mín, að aðrir þættir gætu orðið þessu elsta tungumáli Evrópu að falli, enda hefur komið í ljós að unnt er að nýta tækni sem gerir samskipti við snjalltæki á íslensku auðveld. Það sýnir m.a. árangur íslenskra starfsmanna hjá Google eins og getið var um í fréttum á dögunum. 

Á netinu er vefsíða Snjallskólans, en netfang hans er: http://www.snjallskoli.is. Þar er að finna greinar og upplýsingar um ýmislegt sem hefur verið að gerast í samskiptum Íslendinga við snjalltæki undanfarin ár. Ritstjóri vefsíðunnar, Sveinn Tryggvason rekstrarverkfræðingur, segir í kynningu, að tilgangurinn með vefnum sé að safna og miðla upplýsingum til kennara og nemenda og annarra sem láta sig menntun varða og leggja eitthvað af mörkum í umræðunni um skólastarf á Íslandi í von um betri menntun og betri skóla. Eitt af markmiðunum með Snjallskólanum sé að stuðla að því að nám í skólum á Íslandi búi nemendur betur undir framtíðina, stuðla að betri – „snjallari“ – skólum á Íslandi, skólum sem búi nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi og frekara nám. Snjalltæki, s.s. snjallsími og spjaldtölva, hafi rutt sér til rúms á örfáum árum og hafi þegar sett mark sitt á íslenskt samfélag. Sé rétt á málum haldið geti notkun snjalltækja í skólastarfi valdið straumhvörfum á öllum skólastigum og haft áhrif á hvernig kennarar kenna og hvernig nemendur læra, hvað þeir læra og hvenær þeir læra. Snjallskóli muni fjalla um og hvetja til umræðu um þessi mál. Jafnframt sé ástæða til að fjalla um áhrif snjalltækja, samfélagsmiðla og annarrar tækniþróunar síðustu ára á félagsleg tengsl fólks, líðan nemenda og aðra þætti sem koma námi og kennslu við og eru óneitanlega hluti af skólastarfi og samvinnu heimilis og skóla.

Við þetta má bæta, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð hafa aldrei verið öflugri svo og kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta og nú síðast rapp á íslensku. Vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarna áratugi og fleiri njóta kennslu í íslensku máli, málnotkun, bókmenntum og sögu þjóðarinnar bæði á Íslandi og erlendis en nokkru sinni áður. Rannsóknir eru stundaðar á íslensku máli, bókmenntum, sagfræði, fornleifafræði, félagsvísindum, mannfræði og heimspeki í háskólum á Íslandi og í öðrum annarra rannsóknarstofnunum. Nýyrðasmíð er öflugri en nokkru sinni og hafa bæði einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki atvinnulífsins tekið þátt í því starfi auk þess sem Íslensk málnefnd og Íslensk málstöð vinna mikilsvert starf.  

Það er því annað en fall íslenskrar tungu sem þarf að óttast meira á landinu kalda.


Snjalltæki og íslensk tunga

Samskipti Íslendinga við snjalltæki verða íslenskri tungu ekki að falli. Unnt er að nýta tækni sem gerir samskiptin auðveld og einföld. Það sýnir frábært starf íslensku starfsmanna Google sem getið var um í fréttum á dögunum. Það eru aðrir þættir sem gætu orðið þessu elsta tungumáli Evrópu að falli.

Þá ber að hafa í huga, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð hafa aldrei verið öflugri svo og kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta og nú síðast rapp á íslensku.

Vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarna áratugi og fleiri njóta kennslu í íslensku máli, málnotkun, bókmenntum og sögu þjóðarinnar en áður. Rannsóknir eru stundaðar á íslensku máli, málnotkun, bókmenntum, sagfræði, félagsvísindum, mannfræði og heimspeki í skjóli háskóla á Íslandi og annarra rannsóknarstofnana.

Nýyrðasmíð er öflugri en nokkru sinni og hafa bæði einstaklingar, stofnanir - og fyrirtæki atvinnulífsins tekið þátt í því málræktarstarfi auk þess sem Íslensk málnefnd og Íslensk málstöð vinna mikilsvert starf.

Það er því annað en fall íslenskrar tungu sem þarf að óttast meira á landinu kalda.

 


Skólar á nýrri öld

Enn hafa umræður orðið um styttingu náms í framhaldsskólum. Sýnist þar sitt hverjum, eins og eðlilegt er, en málefnaleg skoðanaskipti eru undirstaða framfara í lýðræðislandi. Það sem hins vegar hefur einkennt þessar róttæku breytingar, er að menntamálayfirvöld hafa lítið rætt breytingarnar og lítið samráð haft við skólana – skólastjóra og kennara – að ekki sé talað um nemendur og foreldra.

Skólanám

Eins og lesendur þekkja, eru fjögur skólastig í landinu: leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar. Hér verður einkum rætt um framhaldsskólastigið, þótt flest sem hér er sagt eigi við öll skólastigin fjögur.

Framhaldsskólar eru nú 37 talsins, þar af sjö „viðurkenndir einkaskólar”, eins og það er orðað. Öllum þessum framhaldsskólum er samkvæmt lögum ætlað að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum einum nám við hæfi og búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám.

Nám í framhaldsskólunum er margbreytilegt og skólarnir af þeim sökum afar ólíkir. Skipta má framhaldsskólunum 37 í tvo meginhópa. Annars vegar eru bóknámsskólar, sem bera allir nafnið menntaskóli og hafa að meginhlutverki að búa nemendur undir sérhæft háskólanám. Hins vegar eru fjölbrautaskólar sem bjóða upp á un fjölbreyttara nám, bæði á bóknámsbrautum, listnámsbrautum og verknámsbrautum, s.s. málabraut, húsasmiðabraut, rafvirkjabraut, sjúkraliðabraut, snyrtibraut, tölvubraut og íþróttabraut. 

Ljóst er af þessu að íslenskum framhaldsskólanemendum gefst kostur á að velja ólíkar námsleiðir sem veita undirbúning og réttindi á sviði almenns náms, listnáms, bóknáms og starfsnáms. Þá lýkur náminu með mismunandi námsgráðum, svo sem framhaldsskólaprófi, prófi til starfsréttinda, stúdentsprófi og iðnmeistaraprófi. Lýsingar á námsbrautum framhaldsskólastigi taka mið af þessum fjölbreytileika og þurfa að mæta kröfum annarra skólastiga og atvinnulífsins, auk þess að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi

Kröfur til framhaldsskóla

Miklu skiptir að framhaldsskólar uppfylli þrjár kröfur. Í fyrsta lagi að láta nemendum líða vel, sem er algert grundvallarskilyrði.  Í öðru lagi að koma nemendum til þroska og búa þá undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi. Í þriðja lagi ber skólunum í upphafi nýrrar aldar að nýta tækni og þekkingu við kennslu og nám.  Einkum ber að gera nemendum kleift að nota samskiptatækni, sem stöðugt fleygir fram, til þess að afla sér þekkingar. Með því eru nemendur gerðir ábyrgir fyrir námi sínu, en eru ekki undir smásjá „heyrara” – kennara sem kanna hvort nemandinn hafi lesið heima en kenna minna. 

Fyrir hálfri öld sagði nemandi við Menntaskólann á Akureyri að „heimanám ætti ekki að þekkjast í betri skólum”.  Með því átti hann við að líta bæri á skólanám sem vinnu nemenda sem lyki á eðlilegum vinnutíma en námið hengi ekki yfir þeim allan sólarhringinn, því að nemendur í framhaldsskólum vildu og vilja flestir geta sinnt öðru en náminu einu, s.s. hollu tómstundastarfi, íþróttum og listum.

Ný öld

Með nýrri tækni á nýrri öld breytast skólarnir.  Ekki síst breytist starf kennara og vinna nemenda. Stjórnvöld þurfa nú að gera áætlun um framtíð skólanna, bæði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla –og háskóla. Samræða þarf að hefjast milli þeirra sem eiga hlut að máli: kennara, skólastjóra, nemenda, foreldra, ríkis og sveitarfélaga, þannig að ný áætlun um nýtt skólakerfi á nýrri öld liggi fyrir innan fimm ára. Áætlun með skýr markmið er nauðsyn til þess að tryggja samfellu í menntakerfi landsins og efla bæði bókmenntun og verkmenntun í landinu.

 


Íslensk örnefni

Sögu lands – og þjóðar má lesa úr örnefnum sem mörg lýsa staðháttum, landslagi eða viðhorfi til landsins. Til þess að benda dæmi má nefna örnefnið Mýrar sem lýsir staðháttum, örnefnið Hólar lýsir landslagi og Kaldakinn lýsir viðhorfi fólks að kalt sé í Kaldakinn þar sem kaldinn blæs.

Í mörgum örnefnum eru bundin dýranöfn. Nefna má Álftavatn, Galtafell, Geldingahol, Grísará, Hrafnagil, Kálfafell, Kríunes, Lómagnúpur og Sauðafell. Til eru tvö fjöll sem bera nafnið Hestfjall eða Hestur: Hestur eða Hestfjall í Borgarfirði og Hestfjall í Grímsnesi. Sennilegt er að tindar upp úr fjöllunum, sem minna á hestseyru, gefi fjöllunum nafn.  Örnefnið Fiskilækur kemur víða fyrir: í Melasveit bæði sem bæjarnafn og nafn á læk sem rennur í Hítará, í Norðurárdal, í Blöndudal, lækur sem rennur úr Friðmundarstaðavatni  í Gilsvatn, Fiskilækur í Kaupvangssveit í Eyjafirði, skammt innan við Kaupang, Fiskilækur skammt frá Helluvaði í Mývatnssveit, Fiskilækur í Hróarstungu sem rennur í Gljúfravatn, Fiskilækur í Eiðaþinghá sem rennur úr Eiðavatni í Vífilsstaðaflóa og Fiskilækur í Suðursveit norðan við Breiðabólstaðarlón. Auðvelt er að kynna sér örnefni á landinu, margbreytileika þeirra og legu í hinum mikla ÍSLANDSATLAS sem fyrst kom út 2005. Þá er auðvelt að leita að örnefnum á heimsíðu Landmælinga Íslands, www.lmi.is.

Einn þáttur í rannsóknum á örnefnum eru örnefnasagnir, sagnir sem eiga rætur að rekja til skilnings og túlkunar almenning á örnefnum.  Eitt af mörgum dæmum um örnefnasögn er frásaga í Landnámu af Faxa, suðureyskum manni, sem var með Flóka Vilgerðarsyni á skipi. Hafa menn viljað  tengja örnefnið Faxaflói við Faxa hinn suðureyska.  Í Noregi eru allmörg „faxa” örnefni sem öll eru skýrð á þann hátt að um sé að ræða eitthvað „skummande”, þ.e. hvítfext. Þeir sem búa við Faxaflóa þekkja að hann er oft hvítfyssandi eins í sunnan, suðaustan og suðvestan áttum.

Í Haukdæla þætti í Sturlungu er frásögn um Ketilbjörn hinn gamla er lenti skipi sínu Elliða í ósum þeirra áa sem síðan heita Elliðaár. Helga kona Ketilbjarnar var dóttir Þórðar skeggja landnámsmanns á Skeggjastöðum í Mosfellssveit og höfðu þau þar vetursetu fyrsta veturinn. Um vorið hélt Ketilbjörn í leiðangur austur yfir Mosfellsheiði og reisti skála þar sem síðan heitir Skálabrekka við Þingvallavatn. Þegar þeir voru þaðan skammt farnir, komu þeir að ísilagðri á, hjuggu á vök í ísinn en misstu öxi sína í ána og kölluðu hana af því Öxará.  

Öxarár eru tvær á landinu auk Öxarár við Þingvöll: í Bárðardal, skammt sunnar við Hriflu og rennur áin í Skjálfandafljót; í öðru lagi Öxará við Ódáðavötn í Suðurdal, inn af Skriðdal. Árheiti eru víða dregin af nöfnum húsdýra, s.s. Geitá, Kálfá, Kiðá, Lambá og Nautá.  Er sú skýring talin líkleg, að húsdýr verið rekin að ánum til beitar og árnar verið eins konar vörslugerði um beitarhólf.  Með þetta í huga taldi Þórhallur Vilmundarson prófessor að skýra mætti nafnið Öxará sem hnikun úr orðmynd­inni *Öxaá, sem í framburði varð Öxará og frá þessari framburðarmynd væri örnefnasögnin runnin.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband